Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 541  —  314. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn
frá Brynhildi Pétursdóttur um plastúrgang.


     1.      Hvað má gera ráð fyrir að árlega falli til mikill plastúrgangur hér á landi?
    Umhverfisstofnun heldur utan um upplýsingar um magn plastúrgangs og samkvæmt nýjustu tölum, sem eru fyrir árið 2012, féllu til 6.426 tonn af plastúrgangi sem flokkaður var frá öðrum úrgangi. Fóru 4.903 tonn til endurvinnslu og 1.458 tonn til annarrar endurnýtingar. Í þessum tölum eru umbúðir sem bera úrvinnslugjald og skilagjald. Veiðarfæri og plastúrgangur sem eru hluti af blönduðum heimilisúrgangi, blönduðum rekstrarúrgangi eða blönduðum byggingar- og niðurrifsúrgangi eru ekki talin með.
    Úrvinnslusjóður sér um eftirlit með meðhöndlun veiðarfæraúrgangs úr plasti. Framkvæmd innsöfnunar og úrvinnslu veiðarfæraúrgangsins er á hendi Landssambands íslenskra útvegsmanna samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð. Um 1.100 tonn af veiðarfæraúrgangi úr plasti fellur til á ári.
    Endurvinnslan hf. hefur umsjón með skilagjaldsskyldum drykkjarvöruumbúðum. Umhverfisstofnun heldur utan um upplýsingar um magn plastúrgangs að öðru leyti.
    Árið 2013 var lagt úrvinnslugjald á 12.665 tonn af plastumbúðum og heyrúlluplasti. Árið 2012 var úrvinnslugjald lagt á 10.028 tonn af plasti. Gera má ráð fyrir að um 12.000 tonn af úrvinnslugjaldsskyldum plastumbúðum falli til á ári.

     2.      Hversu mikið af þeim úrgangi skilar sér árlega til endurvinnslu og endurnýtingar?
    Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fyrir árið 2012 fóru 4.903 tonn af plastúrgangi til endurvinnslu og 1.458 tonn til annarrar endurnýtingar. Innifaldar í þessum tölum eru umbúðir sem bera úrvinnslugjald og skilagjald, veiðarfæri eru ekki talin með.
    Samkvæmt upplýsingum frá Úrvinnslusjóði skila sér um 30% til endurvinnslu eða um 4.000 tonn af þeim plastumbúðum sem bera úrvinnslugjald. Úrvinnslusjóði ber að ná markmiðum stjórnvalda um endurvinnslu 22,5% plastumbúða frá árinu 2011. Endurvinnslan hf. tekur árlega á móti um það bil 1.800 tonnum af drykkjarumbúðum og eru það um 90% af heildardrykkjarumbúðum, um 2.000–2.050 tonn. Heimilisplastpokar og pappír sem kemur inn á stöðvar sem Endurvinnslan hf. á er sent til endurvinnslu og eru það um 65 tonn af plasti.
    Veiðarfæraúrgangur er barst til endurvinnslu árið 2013 nam um 960 tonnum.

     3.      Hvaða aðgerðir eru í gangi til að tryggja að allt plast skili sér til endurvinnslustöðva?
    Almennar reglur laga um meðhöndlun úrgangs gilda um plastúrgang rétt eins og annan úrgang, sbr. 9., 10. og 11. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Aðgerðirnar til að tryggja að plast skili sér til endurvinnslu og endurnýtingar eru annars vegar að leggja úrvinnslugjald á plastumbúðir og hins vegar skilakerfi fyrir einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur.
    Við innflutning og framleiðslu á úrvinnslugjaldsskyldum umbúðum er tekið úrvinnslugjald sem standa skal undir söfnun, flutningi og endurvinnslu plastumbúðaúrgangs. Úrvinnslusjóður er með samninga við verktaka og sveitarfélög um söfnun og endurvinnslu á plastumbúðum, þ.m.t. heyrúlluplasti. Úrvinnslusjóður greiðir jafnframt flutningsgjald til að jafna aðstöðu við söfnun og endurvinnslu um allt land.
    Sett hefur verið upp skilakerfi fyrir einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur sem Endurvinnslan hf. rekur. Slík kerfi hafa gefið góð skil, á bilinu 88–90% á Íslandi.

     4.      Hvað er gert við þann plastúrgang sem skilar sér til endurvinnslu og endurnýtingar og er annars vegar endurvinnanlegur og hins vegar ekki?
    Umbúðaplastið er aðallega flutt flokkað til erlendra endurvinnsluaðila og endurunnið. Útflutningur á blönduðum plastumbúðum frá heimilum til flokkunar og endurvinnslu er að aukast. Sá hluti þessara umbúða sem ekki er endurvinnanlegur og óhreinindi sem berast með eru flokkuð frá og nýtt til orkuvinnslu. Markmiðið er að a.m.k. 80–90% nýtist til endurvinnslu. Úrvinnslusjóður hefur verið í samstarfi við Noreg og Svíþjóð um endurvinnslu plastumbúða frá heimilum og eru þær flokkaðar Svíþjóð.
    Hluti af heyrúlluplasti og veiðarfæraúrgangi sem safnaðist var til skamms tíma endurunninn hjá PM Endurvinnslu, sem er nú í rekstrarstöðvun. Fyrirtækið Durinn ehf. að Læk í Ölfusi vinnur ýmsar vörur úr stærri plastumbúðum.
    Hjá Endurvinnslunni hf. fer allt endurnýtanlegt plast (PET og HDPE) í endurvinnslu, sem er um 99,9% af efninu. Endurvinnslan fer fram í Evrópu.

     5.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að lágmarka þann plastúrgang sem ekki er endurvinnanlegur og ef svo er, með hvaða hætti?
    Mikilvægt er að gera ráðstafanir til að draga úr magni úrgangs og að til verði óendurvinnanlegur úrgangur. Vert er að skoða þetta m.a. í tengslum við stefnu um úrgangsforvarnir. Ráðherra skal samkvæmt ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs gefa út almenna stefnu um úrgangsforvarnir til tólf ára í senn sem gildir fyrir landið allt. Í stefnunni skulu m.a. koma fram markmið um úrgangsforvarnir, lýsing á þeim ráðstöfunum sem þegar eru fyrir hendi til að minnka úrgang og mat á gagnsemi tiltekinna ráðstafana. Þá má einnig skoða hvatningu til að endurnýtanlegt plast, eins og t.d. PET, sé frekar notað en óendurnýtanlegt.

     6.      Fer fram endurvinnsla á plastúrgangi hér á landi og hver er líkleg þróun í því máli?
    Endurvinnsla fer fram í litlum mæli hjá Durni ehf. að Læk í Ölfusi. Þar til nýlega var unnið við endurvinnslu á plasti hjá PM-Endurvinnslu. PM-Endurvinnsla vann úr hluta af innsöfnuðu heyrúlluplasti og veiðarfæraúrgangi úr plasti. Starfsemin komst í þrot á þessu ári og er úrgangurinn nú fluttur út til ráðstöfunaraðila sem endurvinna plastið.
    Samkvæmt upplýsingum frá Endurvinnslunni hf. er magn PET-plasts það lítið hér á landi að það borgar sig ekki að endurvinna það á Íslandi.