Ferill 395. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 544  —  395. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum
(afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana).

Flm.: Helgi Hrafn Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 95. gr. laganna:
     a.      Orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      2. málsl. fellur brott.

2. gr.

    Orðin „eða fangelsi allt að 3 mánuðum“ í 125. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 233. gr. a laganna falla brott.

4. gr.

    Í stað orðanna „fangelsi allt að tveimur árum“ í 233. gr. b laganna kemur: sektum.

5. gr.

    Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 234. gr. laganna falla brott.

6. gr.

    Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 235. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 236. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „fangelsi allt að 2 árum“ í 1. mgr. kemur: sektum.
     b.      Orðin „eða fangelsi allt að 2 árum“ í 2. mgr. falla brott.

8. gr.

    Orðin „eða fangelsi allt að 1 ári“ í 240. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki rætt. Er það nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Flutningsmenn frumvarpsins telja slíkar heimildir ekki standast nýrri viðhorf til mannréttinda, sérstaklega með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því með skýrum hætti yfir að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga. Í nóvember 2013 lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) miklum áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi, vegna frumvarps til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot), sem var samþykkt 29. janúar 2014 (109. mál á 143. löggjafarþingi). Í fréttatilkynningu frá stofnuninni kemur fram að fangelsisdómur sé of hörð refsing fyrir ákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi og séu veikt orðuð með miklu svigrúmi til lagatúlkunar. 1 Er því með þessu frumvarpi lagt til að heimild til að dæma fangelsisrefsingu verði felld brott úr þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður.
    Vert er að vekja athygli á því að þau réttindi sem geta skarast við tjáningarfrelsið, til að mynda æra manna, njóta einnig verndar að einkarétti og geta menn sem telja að sér vegið höfðað einkamál og krafist bóta eftir atvikum. Það er ekki ætlun flutningsmanna að hrófla við þeim réttindum, enda með frumvarpinu einungis lagt til að ekki verði lengur unnt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir tjáningu skoðana.
    Flutningsmenn telja of langt gengið á tjáningarfrelsið í XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Frumvarpið sem hér er lagt fram breytir því ekki í grundvallaratriðum og gengur ekki nægilega langt til að koma tjáningarfrelsisverndinni í ásættanlegt horf hér á landi. Hins vegar telja flutningsmenn raunhæft að ná samstöðu um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda eru þær skref í rétta átt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að ekki verði lengur heimilt skv. 1. mgr. 95. gr. laganna að dæma fangelsisrefsingu fyrir að smána erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs. Lagt er til að brot þessi varði sektum. Þá er lagt til að 2. málsl. 1. gr. 95. gr. falli brott, en ákvæðið kveður á um að ef brot er stórfellt megi dæma fangelsi allt að 6 árum.

Um 2. gr.

    Lagt er til að fangelsisrefsing sem heimilt er að dæma skv. 125. gr. laganna fyrir að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, verði felld brott og brot þetta geti einungis varðað sektum.

Um 3. gr.

    Lögð er til breyting á 233. gr. a laganna sem fjallar um hatursáróður og refsingu fyrir að ráðast opinberlega á mann eða hóp manna með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Lagt er til að í stað fangelsisrefsingar skuli einungis dæma sektir fyrir brot gegn ákvæðinu.

Um 4. gr.

    Lagt er til að aflagðar verði fangelsisrefsingar í 233. gr. b laganna fyrir stórfelldar ærumeiðingar með því að móðga eða smána maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda. Í stað fangelsisrefsingar er lagt til að dæma megi sektir fyrir stórfelldar ærumeiðingar af þessum toga.

Um 5. gr.

    Lagt er til að fangelsisrefsing fyrir ærumeiðingar með móðgun í orðum eða athöfnum skv. 234. gr. laganna verði lögð af en áfram megi dæma sektir.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting á 235. gr. laganna að ekki skuli lengur dæma fangelsisrefsingu fyrir aðdróttanir sem vega að virðingu manna heldur geti slíkt einungis varðað sektum.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting á 236. gr. laganna að fangelsisrefsingar verði afnumdar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir sem hafðar eru í frammi eða bornar út gegn betri vitund. Háttsemin varði þó áfram sektum. Sömu breytingar eru lagðar til á 2. mgr. 236. gr. sem fjalla um opinbera birtingu ærumeiðandi aðdróttana.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til sú breyting á 240. gr. laganna að ekki verði lengur dæmd fangelsisrefsing fyrir að beina ærumeiðingum að dánum manni.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Neðanmálsgrein: 1
1     www.osce.org/fom/107789