Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 559  —  214. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla,
nr. 92/2008 (rafræn námsgögn o.fl.).


Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson, Elísabetu Pétursdóttur og Ólaf Sigurðsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Láru Stefánsdóttur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga, Döllu Ólafsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Guðríði Arnardóttur og Ólaf H. Sigurjónsson frá Kennarasambandi Íslands, Laufeyju Maríu Jóhannesdóttur frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Þórarin Snorra Sigurgeirsson frá Ungum jafnaðarmönnum, Heiðar Inga Svansson frá Iðnú – Iðnmennt, Egil Örn Jóhannsson frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og Aldísi Yngvadóttur og Ellen Klöru Eyjólfsdóttur frá Námsgagnastofnun. Umsagnir bárust frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Flensborgarskóla, Iðnmennt, Kennarasambandi Íslands, Menntaskólanum á Tröllaskaga, Norðurþingi, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Ungum jafnaðarmönnum.
    Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launað námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna, afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða og gjalda og setningu reglugerðar um starfstíma framhaldsskóla.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á því hvaða fagstéttir hafa rétt til að taka námsorlof skv. 11. gr. laga um framhaldsskóla. Lagt er til að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um launað námsorlof til samræmis við rétt kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda. Meiri hlutinn fagnar þessari breytingu og telur hana leiða til þess að jafnræðis verði gætt meðal starfsstétta.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 45. gr. laga um framhaldsskóla er fjallar um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla. Lagt er til að skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Ráðherra geti veitt skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Nánar verði svo kveðið á um útfærslu, svo sem hámarksupphæðir, greiðslufyrirkomulag og upplýsingaskyldu skólanna í reglugerð. Nefndin ræddi þetta nokkuð og bendir á að breytingin feli í sér að fjölbreytni í útgáfu rafræns námsefnis muni aukast til muna og verð á útgefnu námsefni lækka með hagnýtingu á nýrri tækni. Þetta leiði til þess að nemendum opnast greiðari aðgangur að fjölbreyttu og nútímalegu námsefni á lægra verði, þeim og skólakerfinu til hagsbóta, en skortur hefur verið á ýmsu námsefni fyrir nám sem ekki er kennt víða í framhaldsskólum. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á ákvæðið og var m.a. bent á að breytingin fæli í sér að skólum væri gefin heimild til að taka gjald af nemendum fyrir rafrænt námsefni. Slíkt gengi gegn þeirri grunnhugsun að nemendur eigi ekki að þurfa að greiða beint fyrir nám sitt. Einnig var vísað til ákvæðis 51. gr. laga um framhaldsskóla, en þar segir að í fjárlögum ár hvert skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. En bent var á að frá gildistöku laganna hefði þetta ákvæði aldrei komið til framkvæmda. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi árétta að um er að ræða tilraunaverkefni í takmarkaðan tíma, bundið við tilteknar námsgreinar. Með verkefninu er einnig verið að leita leiða til að lækka kostnað nemenda við að kaupa sér námsgögn en fram kom á fundum nefndarinnar að þetta gæti falið í sér lækkun á bókakostnaði nemenda um allt að 30%. Meiri hlutinn væntir þess að tilraunaverkefnið muni stuðla að því að íslenskir bókaútgefendur, sem gefi út námsbækur, sjái sér fært á að hefja útgáfu rafræns námsefnis fyrir framhaldsskóla á íslensku og komi sér upp nauðsynlegum gagnagrunnum í því skyni. Einnig kom fram á fundum nefndarinnar að unnið er að því að koma á fót undirstofnun mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem mun taka við verkefnum Námsgagnastofnunar en hlutverk hennar mun taka til allra skólastiga. Það er skilningur meiri hlutans að ákvæði 4. gr. frumvarpsins feli í sér heimild til handa framhaldsskólum til að dreifa og annast innheimtu fyrir rafrænt námsefni sem aðrir gefi út sem leiði þá til lækkunar á bókakostnaði framhaldsskólanema.
    Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar lagatæknilegs eðlis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Við 3. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Námseiningar og starfstími.
     2.      Í stað orðsins „gjaldtöku“ í a-lið 4. gr. komi: gjalds.

Alþingi, 18. nóvember 2014.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Elsa Lára Arnardóttir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Vilhjálmur Árnason.