Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 566  —  98. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009,
um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum
(innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umræðu í þinginu og fékk á sinn fund Erlu Sigríði Gestsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun.
    Fjallað var um fjárhæð dagsekta upp á allt að 500 þús. kr. sem Mannvirkjastofnun verður heimilt að beita verði frumvarpið að lögum. Umræður voru um það í nefndinni að þessi fjárhæð væri of há. Dagsektir eru þvingunarrúrræði og er beitt ef sá sem sætir eftirliti hlýtir ekki tilmælum eftirlitsaðila. Um þær gilda skýrar verklagsreglur og þær falla niður ef sá sem sætir eftirliti fer að því sem eftirlitsaðili mælir fyrir um. Nefndin telur fjárhæð dagsekta í frumvarpinu of háa og leggur til að hámarkið verði 200 þús. kr.
    Einnig var fjallað um innleiðingu EES-gerða sem varða vörur sem tengjast orkunotkun. Samkvæmt lögum um visthönnun vöru sem notar orku er ráðherra heimilt að setja reglur um hvaða vörur falla innan gildissviðs laganna eftir því sem við bætist af EB-gerðum sem teknar eru upp í EES-samninginn. Nefndin telur mikilvægt að áfram verði vel fylgst með því af hálfu íslenskra stjórnvalda hvort leita þurfi undanþágu eða sérlausna þegar og ef við bætast vörutegundir sem eiga að falla undir skilyrði laganna. Nefnt var sem dæmi einangrunarefni og vörur sem varða vatnsnotkun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í 2. mgr. c-liðar 10. gr. komi: 200.000 kr.

    Ásmundur Friðriksson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. nóvember 2014.Jón Gunnarsson,


form.


Þorsteinn Sæmundsson,


frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.Haraldur Benediktsson.


Björt Ólafsdóttir.


Páll Jóhann Pálsson.Þórunn Egilsdóttir.