Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 571  —  400. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983,
með síðari breytingum (eigandastefna ríkisins).


Flm.: Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Brynhildur Pétursdóttir,
Óttarr Proppé, Páll Valur Björnsson, Róbert Marshall.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um eigandastefnu fyrir Landsvirkjun.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Eigandastefna skv. 2. gr. skal lögð fram í fyrsta skipti á haustþingi 2015.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 143. löggjafarþingi (16. mál).
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði í lög ákvæði þess efnis að samin verði eigandastefna ríkisins vegna eignarhalds þess á Landsvirkjun. Landsvirkjun er eitthvert mikilvægasta fyrirtæki íslensks samfélags og er í eigu ríkisins. Stefna Landsvirkjunar, áform fyrirtækisins og ákvarðanir sem þar eru teknar hafa mikil áhrif hér á landi og hafa á stundum verið æði umdeild. Mikilvægt er að um fyrirtækið og framkvæmdir á vegum þess ríki sem mest sátt. Slíkri sátt er einna helst hægt að ná með opinni umræðu. Gerð opinberrar eigandastefnu yrði vettvangur slíkrar umræðu.
    Flutningsmenn eru að mestu ánægðir með þær áherslur sem einkennt hafa stefnu og störf Landsvirkjunar á undanförnum árum. Áhersla hefur verið lögð á upplýsingagjöf til almennings og samræðu við hann. Yfirstjórn fyrirtækisins hefur með opnu og augljósu móti látið fyrirætlanir sínar í ljós og skoðanir sínar hvað varðar áherslur í rekstri og uppbyggingu. Sú áherslubreyting hefur meðal annars orðið að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa í málflutningi sínum lagt áberandi meiri áherslu á að mikilvægt sé að orkuauðlindir skapi meiri beinan arð til eigenda fyrirtækisins heldur en raunin hefur verið. Það er mat flutningsmanna að það væri mjög til bóta að slík áherslubreyting væri jafnframt rædd markvisst á þingi og studd með opinberri eigandastefnu.
    Með skýrri stefnumörkun eigenda eru markmið, hlutverk og ábyrgð skýrð auk þess sem þáttur þeirra í ákvörðunum um mikilvæg málefni og grundvallarstefnumörkun er tryggður. Það má því segja að tilgangur eigandastefnu sé að tryggja lýðræðislega, gagnsæja og faglega stjórnun viðkomandi fyrirtækis í ríkiseigu. Mikilvægt að eigandastefnan sé aðgengileg almenningi og fjölmiðlum.
    Þegar kemur að því að setja saman eigandastefnu vakna margar spurningar og hafa þarf í huga ýmis sjónarmið. Almennt séð er það lykilatriði í hugum margra þegar kemur að virkjanastefnu að fyrir liggi hvaða samfélagslegum ávinningi, svo sem beinum arði, virkjanir skili. Skili þær litlum ávinningi er þeim mun minni ástæða til að ráðast í gerð þeirra. Liggi hins vegar fyrir raunhæf stefna um að ná sem mestum arði og ávinningi af orkusölu til iðnaðar getur það haft mótandi áhrif á viðhorf mjög margra til virkjana. Skýr stefna hvað þetta varðar er því lykilatriði.
    Það getur líka skipt sköpum í hinni mikilvægu erfiðu umræðu um náttúruvernd og virkjanir að skoðað sé hvernig Landsvirkjun geti hámarkað arð af þeirri orkuframleiðslu sem þegar á sér stað. Skýr stefna – sem Landsvirkjun sjálf hefur raunar markað – um að afla meiri tekna af núverandi orkuframleiðslu getur hugsanlega minnkað þörfina á því að ráðist sé í umfangsmiklar og umdeildar virkjanaframkvæmdir víða um land í framtíðinni.
    Allt þetta þarf að ræða. Grundvallarspurningarnar eru þessar: Hvers vegna viljum við virkja? Hvað viljum við fá út úr orkuauðlindum okkar? Hvernig á Landsvirkjun, sem stærsti orkuframleiðandi landsins, að haga stefnu sinni og áherslum?
    Verð á orku til almennings yrði væntanlega líka til umræðu við gerð eigandastefnunnar. Ef stefnan yrði sú að hámarka arðinn af orkusölu, t.d. með sölu á umframorku til útlanda í gegnum sæstreng, er líklegt að eigandi fyrirtækisins mundi vilja árétta þá stefnu, sem leynt og ljóst hefur verið fylgt hingað til, að verð til almennings haldist lágt. Þá gæti einnig komið til álita að taka á vanda svokallaðra kaldra svæða með eigandastefnu, með því að kveða þar á um að einhvers konar fyrirkomulagi skuli komið á þar sem aðstöðumunur væri jafnaður eftir landsvæðum.
    Hvaða stefna er mörkuð varðandi Landsvirkjun hefur þannig úrslitaþýðingu fyrir kjör og lífsgæði fjölda fólks. Ekki einasta skiptir orkuverð þar lykilmáli heldur einnig hvaða væntingar hið opinbera hefur til arðgreiðslna frá fyrirtækinu. Takist að skapa meiri arð af orkusölunni, án þess að hækka verðið til almennings – svo dæmi sé tekið um stefnumörkun sem gæti orðið ofan á – er ljóst að umtalsverðir fjármunir mundu þar með renna árlega í ríkissjóð. Spurningin til grundvallar eigandastefnunni yrði þá þessi: Væri meiri arður eftirsóknarverður? Í hvað væri hægt að nota féð? Er önnur stefna – t.d. sú að selja orkuna á lágu verði til að laða að stóra, staðbundna vinnuveitendur – betri?
    Aðgerðir Landsvirkjunar hvað varðar orkuframleiðslu hafa vitaskuld gríðarmikla þýðingu fyrir umhverfismál. Hvaða stefnu þjóðin setur sér varðandi náttúruvernd og virkjanaframkvæmdir er að mestu viðfangsefni rammaáætlunar um virkjun og vernd. Flutningsmenn leggja þunga áherslu á að fyllsta samræmis sé gætt milli eigandastefnunnar og þeirrar áætlunar og að sjálfbær auðlindanotkun í sem mestri sátt við umhverfi og náttúru sé ætíð höfð að markmiði.
    Þess má að lokum geta að Reykjavíkurborg hefur sett sér eigandastefnu varðandi eignarhlut sinn í Orkuveitu Reykjavíkur. Nærtækt er að líta til reynslunnar af þeirri vinnu þegar gerð verður eigandastefna fyrir Landsvirkjun, enda um sambærileg fyrirtæki að ræða.