Ferill 214. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 574  —  214. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla,
nr. 92/2008 (rafræn námsgögn o.fl.).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Minni hlutinn telur að ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt þá feli það í sér grundvallarbreytingu á lagaumhverfi framhaldsskóla sem sé ekki til bóta. Minni hlutinn gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um launað námsorlof til samræmis við rétt kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda. Minni hlutinn styður að jafnræðis verði gætt á milli starfsstétta en áréttar að fjölga þurfi launuðum námsorlofum í hlutfalli við þann fjölda aðila sem eiga rétt á slíkum orlofum.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á h-lið 1. mgr. 12. gr. laganna að fellt verði brott ákvæði þess efnis að skilyrði fyrir viðurkenningu skóla til kennslu á framhaldsskólastigi skuli lúta að starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá en þess í stað mælt með almennum hætti fyrir um að kennsla skuli fara fram í skólahúsnæði sem uppfylli lög og reglugerðir þar að lútandi. Minni hlutinn bendir á að þessi breyting er í III. kafli laganna sem fjallar um aðra skóla á framhaldsskólastigi, þ.e. skóla sem eru reknir sem sjálfseignarstofnanir, hlutafélög eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Í 12. gr. laganna er fjallað um viðurkenningu slíkra skóla og í greininni er listi yfir þau skilyrði sem slíkur skóli þarf að uppfylla. Minni hlutinn telur sjálfsagt að almenn lög og reglugerðir gildi um skólahúsnæði en telur með engu móti hægt að sjá að fella eigi út h-lið í núverandi skilyrðum. Í umsögn Menntaskólans á Tröllaskaga er bent á að jafnframt þurfi að huga að því hvort og þá hvaða kröfur eigi að gera til skóla sem sinna eingöngu fjarkennslu eða námi sem í boði er á internetinu og minnt á að tryggja þurfi eftirlit með gæðum og aðbúnaði. Minni hlutinn telur óþarft að breyta ákvæði 12. gr. laganna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir og tekur jafnframt undir ábendingar sem fram koma í umsögn Menntaskólans á Tröllaskaga um mikilvægi þess að ákveðin „grundvallaratriði“ séu til staðar í „stafrænu skólaumhverfi“ og þau séu fullnægjandi varðandi „tækjabúnað, hugbúnað, internetsamband og hæfni til fjarvinnu og fjarkennslu“.
    Í 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um starfstíma framhaldsskóla. Það er álit minni hlutans að rétt sé að lögbinda áfram starfstíma framhaldsskóla, þ.e. árlegan dagafjölda, fremur en að setja reglugerðarheimild til handa ráðherra. Minni hlutinn telur eðlilegt og mikilvægt að Alþingi fjalli um þann ramma sem á að gilda um kennslu á vegum ríkisins. Bendir minni hlutinn á að almennt eru engin ákvæði um samráð við stéttarfélög hvað varðar reglugerðarsmíð né um að Alþingi fjalli um slíkar reglugerðir.
    Í 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Minni hlutinn telur mikilvægt að stuðla að aukinni notkun rafrænna námsgagna í kennslu en er ósammála því að nemendur eigi einir að greiða fyrir þá aukningu. Minni hlutinn telur ákvæði 4. gr. frumvarpsins vera of opið og illa skilgreint og að nauðsynlega skilgreiningu á hvað átt er við með „rafrænum námsgögnum“ vanti í frumvarpið, þ.e. hvað falli þar undir. Skilgreina þarf hvort átt sé einungis við bækur eða sameiginlegan gagnagrunn sem veitir aðgang að kennsluefni, svo sem glósubanka, námsefni samið af kennurum eða annað efni. Minni hlutinn tekur undir umsögn Sambands íslenskra framhaldsskólanema hvað þetta varðar. Engar hugmyndir eru lagðar fram um upphæð gjaldtöku eða umfang verkefna né aðrar afmarkanir eða skýringar á þeirri heimild sem ákvæðið felur í sér. Minni hlutinn bendir á að óljóst er hvort nemendur eigi að greiða að fullu þann kostnað sem rafrænt námsefni kostar í þeim „tilraunaverkefnum“ sem samþykkt verða. Erfitt er að sjá að slíkt fyrirkomulag, þ.e. að láta nemendur greiða fyrir rafræn námsgögn í skilgreindum tilraunaverkefnum, flýti fyrir eða auki að marki notkun rafrænna námsgagna. Minni hlutinn bendir á að jafnhliða aukningu á notkun rafrænna námsgagna þurfi að stuðla að vandaðri og fjölbreyttri útgáfu námsgagna almennt, svo sem kennslubóka. Vart getur talist eðlilegt að velta því verkefni alfarið yfir á einstaka skóla og nemendur þeirra. Þá er ástæða til að vekja athygli á því að lög um framhaldskóla, nr. 92/2008, og skólanámskrár kalla á breytt og bætt námsefni. Minni hlutinn telur að nemendur geti ekki og eigi ekki að bera þann kostnað. Útilokað er að ætlast til þess að nemendur greiði t.d. fyrir þróun og uppbyggingu gagnagrunns fyrir rafræn námsgögn. Eðlilegra væri að ríkissjóður fjármagni slíkan gagnagrunn og jafnframt þau tilraunaverkefni sem sett ráðist verður í varðandi rafrænt námsefni.
    Minni hlutinn tekur undir það sem fram kemur í umsögnum Kennarasambands Íslands, BSRB og Sambands íslenskra framhaldsskólanema að rétt sé að horfa til 51. gr. gildandi laga um framhaldsskóla, þar sem segir um námsgögn: „Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjársins og fyrirkomulag þessa stuðnings“. Frá gildistöku laganna hefur þetta ákvæði aldrei komið til framkvæmda en verði frumvarpið að lögum óbreytt verður í fyrsta skipti sett í lög um framhaldsskóla heimild til að innheimta gjöld fyrir námsgögn. Minni hlutinn bendir á að ljóst sé að tilgangur ákvæðisins í 51. gr. sé að draga úr kostnaði vegna skólagöngu ungmenna í framhaldsskóla og vilji löggjafans til að stefna í átt að gjaldfrjálsum framhaldsskóla komi skýrt fram í ákvæðinu. Minni hlutinn áréttar einnig þá kröfu að allir landsmenn eigi jafnan rétt til náms óháð efnahag. Jöfn tækifæri til menntunar eru hornsteinn hvers samfélags þar sem jöfnuður fólks er hafður að leiðarljósi. Framangreind gjaldtökuheimild er að mati minni hlutans ekki til samræmis við grundvallarhugmyndina um jafnan rétt allra til náms óháð efnahag.
    Fram kemur í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins að nemandi í fullu námi greiði 60– 90 þús. kr. á skólaári fyrir námsefni, sem gerir 1,3–1,9 milljarða kr. alls á ári. Lög um framhaldsskóla hafa ávallt miðað við að námsgögn væru ókeypis þó að ekki hafi verið svigrúm til að uppfylla það ákvæði. Það er mat minni hlutans að stíga þurfi fyrstu skref í þá átt og rétt sé að fyrsta skrefið snúi að aukningu á notkun rafrænna námsgagna í kennslu, endurgjaldslaust. Næsta skrefið gæti verið að tryggja ókeypis öll námsögn nemenda allt að 18 ára aldri. Minni hlutinn telur að lokamarkmiðið eigi að vera að framhaldsskólar verði gjaldfrjálsir eins og lög gerðu ráð fyrir í upphafi. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt þá er hér í fyrsta sinn sett heimild til innheimtu gjalda hjá nemendum fyrir námgögn. BSRB vekur athygli á því í sinni umsögn að slík gjaldtaka sé hvergi heimil samkvæmt núgildandi lögum og tekur minni hlutinn undir þann skilning og áréttar að ef opnað verður á slíkt með lagabreytingu sé um að ræða grundvallarbreytingu.

Alþingi, 18. nóvember 2014.Guðbjartur Hannesson.Páll Valur Björnsson.


Helgi Hrafn Gunnarsson.Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.