Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 586  —  403. mál.



Frumvarp til laga

um örnefni.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er:
     a.      að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum,
     b.      að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju,
     c.      að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð,
     d.      að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
     1.      Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðu­vatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.
     2.      Örnefnagrunnur er miðlægur gagnagrunnur sem inniheldur örnefni og gögn tengd þeim.
     3.      Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit. Staðfang er teg­und örnefnis.

3. gr.
Yfirstjórn.

    Ráðherra fer með yfirstjórn örnefnaverndar í landinu samkvæmt lögum þessum.

4. gr.
Örnefnanefnd.

    Ráðherra skipar fimm manna örnefnanefnd til fjögurra ára í senn. Ráðherra sem fer með skipulagsmál, ráðherra sveitarstjórnarmála, Stofnun Árna Magnússonar og Íslensk málnefnd tilefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama aðalmann lengur en tvö samfelld starfstímabil. Meðal nefndarmanna skal vera sérþekking á íslensku máli, örnefnum og staðfræði.
    Örnefnanefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
     a.      að veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
     b.      að úrskurða um nýtt eða breytt bæjarnafn, götunafn eða annað það nafn sem notað er til skráningar á staðfangi hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
     c.      að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags,
     d.      að veita umsögn um nafn sveitarfélags, sbr. 6 gr.,
     e.      að veita umsögn um nafn á nýju náttúrufyrirbæri innan sveitarfélags,
     f.      að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra.
    Örnefnanefnd er heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.
    Kostn­aður af starfsemi örnefnanefndar greiðist úr ríkissjóði.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar.

5. gr.
Málsmeðferð.

    Við afgreiðslu mála hjá örnefnanefnd ræður meiri hluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jafnt sker atkvæði formanns úr.
    Hafni örnefnanefnd tillögu að nafngift ber henni að senda aðila máls rökstuðning og eftir atvikum tillögu að mögulegri málamiðlun. Aðili máls skal innan átta vikna bregðast við ákvörðun örnefnanefndar en að öðrum kosti úrskurðar nefndin um nýtt nafn. Örnefnanefnd er heimilt að leita álits sérfræðinga utan nefndarinnar ef þurfa þykir.
    Úrlausnir örnefnanefndar samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi og ekki kæranlegar til ráðherra.
    Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

6. gr.
Heiti sveitarfélags.

    Um heiti sveitarfélags fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með síðari breytingum.
    Örnefnanefnd skal skila rökstuddu áliti sínu til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna innan þriggja vikna frá því að erindi berst. Nefndin skal senda afrit af áliti sínu til ráðherra sveitarstjórnarmála.

7. gr.
Nafngiftir nýrra náttúrufyrirbæra.

    Ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar. Utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga liggur frumkvæði að nafngift hjá ráðherra.
    Tillögu að nýju nafni ber að senda ráðherra til staðfestingar.

8. gr.
Ráðgjöf um örnefni.

    Um ráðgjöf um örnefni fer samkvæmt ákvæðum laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, með síðari breytingum.

9. gr.
Örnefnagrunnur.

    Um örnefnagrunn fer samkvæmt ákvæðum laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum.
    Ráðherra sem í hlut á, í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um innihald, skráningu og tilhögun örnefnagrunns.

10. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/ 1953, með síðari breytingum.

11. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006:
                  a.      D-liður 4. tölul. 4. gr. laganna verður svohljóðandi: Örnefni úr örnefnagrunni.
                  b.      Við 4. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Skráning, viðhald og miðlun örnefnagrunns í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Innihald gagnagrunnsins skal vera aðgengilegt og endurnot þess án gjaldtöku og í samræmi við ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012. Landmælingar Íslands skulu gera almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar.
     2.      Lög um stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006: Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.
     3.      Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001:
                  a.      2. og 3. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
                      Hver fasteign tengist minnst einu staðfangi samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Heiti fasteignar ræðst af þeim staðföngum sem eigninni tengjast. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit.
                      Ráðherra skal setja reglugerð um skráningu staðfanga. Í slíkri reglugerð skal m.a. kveðið á um verklagsreglur sveitarfélaga við skráningu á heiti þeirra.
                  b.      1. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
                       Sveitarstjórn skal tilkynna Þjóðskrá Íslands um breytingar á skráningu staðfanga.
                  c.      3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
                     Í fasteignaskrá skal halda ferilskrá yfir breytingar á fasteignum þar sem fyrri heiti, staðföng og auðkenni og tengsl þeirra við gildandi staðföng og auðkenni eru varðveitt.
     4.      Lög um lögheimili, nr. 21/1990: Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: sem er staðfang.
     5.      Jarðalög, nr. 81/2004: 21. gr. laganna fellur brott.
     6.      Skipulagslög, nr. 123/2010:
                  a.      Í stað orðanna „Landskrá fasteigna“ í 47. gr. laganna kemur: fasteignaskrá.
                  b.      2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
                      Sérhver afmörkuð landareign skal hafa vísun í a.m.k. eitt staðfang í samræmi við 12. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
    Frumvarp til laga um örnefni hefur verið lagt fram á Alþingi í tvígang, annars vegar á 141. löggjafarþingi (620. mál) og hins vegar á 143. löggjafarþingi (481. mál) en það hlaut í hvorugt skiptið afgreiðslu. Nú er frumvarpið lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi.
    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Forsögu þess má rekja til fundar örnefnanefndar, sem haldinn var 7. nóvember 2011. Þar var ályktað um nauðsyn þess að endurskoða lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953. Í kjölfarið ákvað örnefnanefnd að funda með fulltrúa Þjóðskrár Íslands til að ræða misræmi í skrásetningu bæjanafna. Á fundi örnefnanefndar og Þjóðskrár Íslands var tekið undir ályktun örnefnanefndar um að nefndin færi þess á leit við mennta- og menningarmálaráðherra að lög um bæjanöfn yrðu endurskoðuð.
    Hinn 8. júní 2012 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp til að vinna að endurskoðun laganna. Starfshópinn skipuðu Þórunn Sigurðardóttir, íslenskufræðingur og formaður örnefnanefndar, Svavar Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands, Tryggvi Már Ingvarsson, sérfræðingur hjá Þjóðskrá Íslands, og Margrét Magnúsdóttir, lögfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þórunn Sigurðardóttir var formaður starfshópsins.
    Starfshópurinn skilaði tillögum að frumvarpi til laga um örnefni 20. desember 2012. Tillögur starfshópsins voru fyrst og fremst fólgnar í nýju fyrirkomulagi sem yrði í samræmi við nútímabúsetuhætti og skipulagsmál í landinu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, eru að stofni til komin til ára sinna jafnvel þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á þeim í gegnum tíðina, einkum árið 1998. Reglugerð nr. 136/1999 um störf örnefnanefndar er frá 22. febrúar 1999. Verksvið örnefnanefndar, eins og það er skilgreint í gildandi lögum, samrýmist ekki nútímaaðstæðum í íslensku samfélagi. Samkvæmt gildandi lögum er verksvið örnefnanefndar eftirfarandi: Örnefnanefnd sér fyrst og fremst um opinbera skráningu bæjanafna utan þéttbýlis og nafna sveitarfélaga og þéttbýliskjarna auk þess sem hún fer yfir tilkynningar um nöfn á nýbýlum og beiðnir um breytingar á nöfnum lögbýla, utan kaupstaða, kauptúna og þorpa, til samþykktar eða synjunar. Framangreindu að til viðbótar sker nefndin úr ágreiningi um ný götunöfn og sambærileg örnefni innan sveitarfélaga.
    Samkvæmt núgildandi lögum er skylt að sækja um breytingu á heitum býla, sem staðsett eru utan kaupstaða og kauptúna eða þorpa, til örnefnanefndar. Þá kemur fram að ef nefndin heimilar breytingu á heiti sendir hún það til hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra til þinglýsingar. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að sýslumaður innheimti lögboðið þinglýsingargjald hjá eiganda býlisins. Framkvæmd þessa er hins vegar ekki í reynd á þann veg sem mælt er fyrir um í lögunum, heldur sendir örnefnanefnd samþykki sitt fyrir nýju eða breyttu heiti til eiganda býlis og er eigandanum bent á að láta þinglýsa skjalinu. Nefndin sendir þinglýsingarstjóra jafnframt afrit skjalsins til upplýsingar. Í framkvæmd hefur þessi lögmælti ferill ekki virkað sem skyldi og iðulega leitt til misræmis á milli þinglýstra gagna og fasteignaskrár hjá Þjóðskrá Íslands. Einnig er óljóst hvort ábyrgð á skrásetningu bæjanafna liggur hjá sveitarfélögum eða örnefnanefnd. Enn fremur er hvorki kveðið á um boðleiðir milli stofnana, sem koma að skráningu býla, í lögum né reglugerð. Ástæða þessara vankanta er fyrst og fremst breytt framkvæmd á skráningu fasteigna frá því að lög um bæjanöfn o.fl., með áorðnum breytingum, tóku gildi, svo sem skráning í tölvukerfi og fastmótaður skráningarferill, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.
    Sem dæmi um galla á núverandi fyrirkomulagi má nefna að sveitarfélög sjá um forskráningu upplýsinga, þar á meðal skráningu á heitum, í fasteignaskrá en þrátt fyrir það berst samþykki örnefnanefndar um breytingar á heitum nánast aldrei til sveitarfélaganna. Þess í stað berst samþykki örnefnanefndar þinglýsingarstjóra án viðkomu hjá öðrum skráningaraðilum. Þetta verklag leiðir ítrekað til misræmis milli þinglýstra gagna og skráninga í fasteignaskrá.     Lögbýlum og öðrum býlum, sem staðsett eru utan kaupstaða, kauptúna og þorpa, hefur fjölgað mikið frá því að núgildandi lög voru sett. Skv. 4. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, getur fólk aðeins átt eitt lögheimili. Lög um bæjanöfn kveða á um að örnefnanefnd skuli fjalla um bæjanöfn lögbýla þar sem fólk á lögheimili. Fjölmörg dæmi eru um að fólk eigi lögheimili utan kaupstaða, kauptúna og þorpa án þess að um lögbýli sé að ræða og færst hefur í vöxt að einstaklingar eigi tvö heimili, þ.e. eitt í þéttbýli og annað í dreifbýli. Þetta hefur skapað misræmi víða í stjórnsýslunni.
    Tíðar breytingar á mörkum sveitarfélaga eða umdæmum sýslumanna eru annað vandamál sem stafar af skipulagi dreif- og þéttbýlis nú á dögum. Vandinn felst í því að mörg býli, bæði lögbýli og önnur býli í sveitum landsins, eru eftir sameiningar sveitarfélaga innan sveitarfélaga sem samanstanda bæði af dreifðri byggð og byggð í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum. Núgildandi lög kveða á um að býli innan þéttbýlismarka falli utan verksviðs örnefnanefndar og taka ekki til breytinga sem orðið hafa við sameiningu sveitarfélaga sem nú samanstanda af þéttbýli og dreifbýli. Þetta hefur valdið lagalegri óvissu um býli sem eru í slíkum ­sveitarfélögum. Með vísan til framangreinds er talið nauðsynlegt að lögfesta ákvæði sem hafa verið löguð að breyttu um­hverfi fasteignaskráningar til að koma í veg fyrir misræmi og leitast þannig við að tryggja að fasteignaskráin sýni alltaf rétta skráningu fasteigna á hverjum tíma.
    Einnig hafa leitað til örnefnanefndar aðilar sem eiga í landamerkjadeilum, t.d. þegar ágreiningur er um hvar örnefni, sem skilja að landareignir, eru staðsett. Ekki er nægilega skýrt í núgildandi lögum hvort örnefnanefnd beri að skera úr um slík mál. Með þessu frumvarpi er lagt til að örnefnanefnd skuli aðeins veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni. Erfitt getur reynst að skera úr um staðsetningu örnefna og oft eru miklir hagsmunir í húfi fyrir deiluaðila og talið er rétt að þeir leiti til dómstóla þegar svo ber undir.
    Starfshópurinn, sem vann að endurskoðun laga um bæjanöfn, hafði tvö meginmarkmið að leiðarljósi við endurskoðun laganna, þ.e. örnefnavernd og öryggissjónarmið, og var lagt mat á fjóra mismunandi valkosti við skráningu og nafngiftir fasteigna.
    Í fyrsta lagi tók starfshópurinn fyrir núgildandi fyrirkomulag þar sem þinglýst samþykki örnefnanefndar er skilyrði fyrir nýskráningu lögbýla. Helstu gallar þess eru óskýrar boðleiðir milli stofnana og því skapast hætta á að skráning sé með ólíkum hætti í mismunandi stofnunum, t.d. er ekki nauðsynlegt að þinglýst nafnleyfi skili sér frá þinglýsingarstjóra til viðkomandi sveitarfélags. Þar að auki falla flestar nafngiftir fasteigna utan verksviðs örnefnanefndar samkvæmt gildandi lögum og er ekki alltaf ljóst hvort viðkomandi nafngift sé á verksviði örnefnanefndar eða sveitarfélags, til að mynda jarðir innan þéttbýlis.
    Í öðru lagi kom til álita að útfæra núgildandi fyrirkomulag að einhverju marki, m.a. með því að víkka starfssvið örnefnanefndar verulega. Aðgreining dreifbýlis og þéttbýlis þyrfti því að vera skýr og hugtökin staðfang, götunafn og bæjarnafn ítarlega skilgreind. Þannig ætti nefndin að fjalla um nafngiftir allra staðfanga utan þéttbýlis sem bærust frá sveitarfélögum gegnum skráningarkerfi fasteignaskrár. Ákvarðanir nefndarinnar bærust svo sveitarfélögum rafrænt á sama hátt. Þessi leið gæti þó orðið flókin og hætt við að ótæk nöfn festust í sessi áður en örnefnanefnd tæki ákvörðun í viðkomandi máli. Einnig féllu öll ný nöfn í þéttbýli utan verksviðs nefndarinnar.
    Í þriðja lagi var rætt um nýjan skráningarferil sem væri með þeim hætti að bæja- og götunöfn yrðu skráð í deiliskipulag og örnefnanefnd yrði lögbundinn umsagnaraðili. Sveitarfélög hefðu heimild til að stofna götu- og bæjanöfn í fasteignaskrá á grundvelli samþykkts skipulags. Í þessu samhengi yrði að breyta skipulagi til þess að breyta götunöfnum eða staðföngum. Þessi leið var talin fremur óskilvirk og fela í sér verulega aukna starfsemi örnefnanefndar.
    Í fjórða lagi var rætt um þá leið sem þótti skilvirkust og auðveldust í framkvæmd og er lögð til grundvallar í þessu frumvarpi. Hún er fólgin í eftirlitshlutverki örnefnanefndar og ráðgefandi hlutverki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við nafngiftir staðfanga. Þannig verður skýrt meginhlutverk örnefnanefndar og þeirra aðila sem að nafngiftum koma. Í stað þess að örnefnanefnd fjalli um tilkynningar allra nýrra og breyttra nafna á lögbýlum til samþykktar eða synjunar verður hlutverk nefndarinnar að úrskurða um ágreining sem vísað er til nefndarinnar af málsaðilum. Með þessu koma allar sveitarstjórnir beint að þessum málum og bera ábyrgð á nafngiftum og skráningu fasteigna í sínu umdæmi, líkt og hefur tíðkast um götunöfn í þéttbýli. Samkvæmt þessu ber sveitarstjórnum að skrá öll staðföng í miðlægan gagnagrunn á vegum Þjóðskrár Íslands. Af þessu leiðir að skráningarferlið verður opið, gagnsætt og skilvirkt. Enn fremur færast ný nöfn staðfanga í örnefnagrunn sem vistaður er hjá Landmælingum Íslands. Með þessu er stefnt að einföldun skráningarferlisins og komið í veg fyrir misræmi í skráningu milli stofnana. Einnig fellur þá niður skylda til að þinglýsa nýjum og breyttum nöfnum hjá þinglýsingarstjóra viðkomandi umdæmis.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er mælt fyrir um fyrirkomulag sem tekur mið af samfélaginu eins og það er í dag. Megintilgangur þess er að löggjöf um örnefni verði samrýmanleg nútímabúsetuháttum og skipulagsmálum í landinu. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að nafngiftahefðir verði í heiðri hafðar við myndun nýrra örnefna og þau verði í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Í öðru lagi er leitast við að skýra og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna með það að markmiði að nafngiftir endurspegli sem best raunveruleikann hverju sinni og endanleg nafngift komist á sem fyrst í ferlinu. Í þriðja lagi er ákvörðunarvald flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð og skráningu á nafngiftum til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti.
    Helstu nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er áhersla á örnefni sem huglægar menningarerfðir sem verðugt er að varðveita fyrir komandi kynslóðir.
     2.      Mælt er fyrir um markmiðsákvæði.
     3.      Lykilhugtök eru skilgreind.
     4.      Mælt er fyrir um að samræma skuli opinbera skráningu örnefna og fasteigna í stjórnsýslunni.
     5.      Mælt er fyrir um að ráðherra sveitarstjórnarmála skipi einn fulltrúa í örnefnanefnd og að fulltrúi Íslenskrar málnefndar verði fullgildur fulltrúi í nefndinni í stað áheyrnarfulltrúa samkvæmt gildandi lögum. Sú nýbreytni er jafnframt að gerð er krafa um að á meðal nefndarmanna verði sérþekking á íslensku máli.
     6.      Mælt er fyrir um málsmeðferð hjá örnefnanefnd við nafngift sveitarfélags á grundvelli ­sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
     7.      Í frumvarpinu er hugað beinlínis að öryggissjónarmiðum með því að mæla fyrir um skýrar reglur um skráningarferli og staðarvísun.
     8.      Kveðið er á um nýjar almennar málsmeðferðarreglur örnefnanefndar.
     9.      Gerð er tillaga um að festa í lög málsmeðferð nafngifta nýrra náttúrufyrirbæra.
     10.      Mælt er fyrir um að skerpt verði á ráðgefandi hlutverki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðandi söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og nýjar nafngiftir.
     11.      Mælt er fyrir um að Landmælingar Íslands haldi örnefnagrunn þar sem hvert örnefni hefur tilvísun til staðsetningar á korti.
     12.      Lagt er til að innihald örnefnagrunnsins verði aðgengilegt og endurnot hans án gjaldtöku.

4. Samráð.
    Starfshópur um endurskoðun laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, hafði samráð við fulltrúa þeirra aðila sem helst koma að skráningu staðfanga og nafngiftum býla, þéttbýlissvæða og gatna. Þeir aðilar eru Þjóðskrá Íslands, örnefnanefnd, nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Skipulagsstofnun Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, um­hverfis- og auðlindaráðuneyti og Landmælingar Íslands.
    Starfshópurinn átti fund með örnefnanefnd í október 2012 auk þess sem nefndin fundaði tvisvar sinnum um drög starfshópsins að tillögum um skráningarferli staðfanga og kom athugasemdum sínum á framfæri við starfshópinn. Örnefnanefnd lagði m.a. áherslu á að hlutverk nefndarinnar fælist ekki aðeins í eftirliti með nafngjöfum býla heldur einnig í ráðgjöf. Nefndin lýsti yfir áhyggjum þess efnis að ráðgjafarhlutverkið félli niður við breytingar á skráningarferli. Starfshópurinn tók tillit til þessarar ábendingar og leggur til aukið hlutverk sérfræðinga Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á sviði nafnfræði í þessu samhengi. Einnig lýsti nefndin yfir áhyggjum sínum af því að óheppileg nöfn næðu að festast í sessi ef sérfræðingar kæmu of seint að nafnamálum og gæði nafnastarfsins minnkuðu. Starfshópurinn telur að skýrar verklagsreglur handa sveitarfélögum og áhersla á ráðgefandi hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ættu að koma í veg fyrir þennan vanda. Nefndin tók enn fremur undir sjónarmið starfshópsins um að útvíkka þyrfti verksvið örnefnanefndar þannig að það næði einnig til annarra staðfanga en nafna lögbýla. Varðandi áhyggjur nefndarinnar af breytingum á fornum bæjanöfnum telur starfshópurinn að girt sé fyrir þær með ákvæði laganna um að örnefnanefnd geti tekið upp mál að eigin frumkvæði.
    Starfshópurinn átti fundi með ýmsum hagsmunaaðilum þar sem farið var yfir frumvarpsdrög. Hópurinn hitti m.a. Málfríði Kristiansen frá Skipulagsstofnun ríkisins, Guðjón Bragason og Magnús Karel Hannesson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Steinunni Elvu Gunnarsdóttur frá Landmælingum Íslands. Starfshópurinn fór einnig í vettvangsheimsókn til Landmælinga Íslands á Akranesi og átti þar fund með Magnúsi Guðmundssyni forstjóra, Gunnari H. Kristinssyni og Rannveigu L. Benediktsdóttur. Fékk starfshópurinn kynningu á starfsemi Landmælinga Íslands á þeim fundi. Gunnar H. Kristinsson kom einnig á fund starfshópsins í desember 2012 þar sem farið var yfir frumvarpsdrög. Hann kom með nokkrar ábendingar sem tekið var tillit til, m.a. um málsmeðferð þegar gefa þarf nýju náttúrufyrirbæri nafn. Að lokum var leitað álits hjá sérfræðingi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Hallgrími J. Ámundasyni, við lokagerð þess frumvarps sem starfshópurinn skilaði af sér.
    Frumvarpsdrögin voru kynnt í opnu samráðsferli á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis í janúar 2013. Hagsmunaaðilar og almenningur fengu þá níu daga til að gera athugasemdir við þau og bárust sjö umsagnir. Í samráðsferlinu voru frumvarpsdrögin sérstaklega kynnt fyrir innanríkisráðuneyti, um­hverfis- og auðlindaráðuneyti, Þjóðskrá Íslands, Landmælingum Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Í flestum tilvikum var tekið tillit til athugasemda umsagnaraðila sem voru alla jafna tillögur að orðalagsbreytingum. Jafnframt má geta þess að Samband íslenskra sveitarfélaga gaf umsögn þess efnis að ábyrgð sveitarstjórna sé aukin nokkuð frá því sem gildir í núgildandi lögum um bæjanöfn. Sambandið er sammála þessari breytingu en leggur áherslu á að sveitarstjórnum beri að fá hlutdeild í skráningargjaldi sem Þjóðskrá leggur á allar nýjar fasteignir. Í því sambandi er nefnt að skráning fasteigna sé að stærstum hluta unnin af starfsmönnum sveitarfélaga og þau eigi því tilkall til þeirra þjónustutekna sem innheimtar eru fyrir þá skráningu. Þá bentu Landmælingar Íslands á að mögulegur kostn­aður við að viðhalda örnefnagrunni færi að nokkru leyti eftir því hvað kveðið yrði á um í reglugerð skv. 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins en stofnunin hefði ekki sérstaka fjárveitingu í það verkefni.
    Mennta- og menningarmálaráðuneyti átti fund með fulltrúa um­hverfis- og auðlindaráðuneytis í janúar 2014 þar sem farið var yfir ný frumvarpsdrög. Í kjölfar þess fundar voru gerðar nokkrar breytingar á 9. gr. frumvarpsins. Þær fela m.a. í sér að lagt er til að Landmælingar Íslands geri almenningi kleift með auðveldum hætti að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar sem yrði þá aðskilinn frá þeim grunni sem kveðið er á um í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Á sumarmánuðum 2014 hófst vinnsla við frumvarp að lögum um örnefni á ný. Til grundvallar voru lögð þau lagafrumvörp sem lögð voru fram á 141. og 143. löggjafarþingi. Frumvarp þetta er að mestu leyti sambærilegt þeim en á því hafa þó verið gerðar lítils háttar breytingar, m.a. á orðalagi um sérþekkingu nefndarmanna og hlutverki örnefnanefndar.

5. Mat á áhrifum.
    Örnefni eru hluti af menningararfi íslensku þjóðarinnar og hafa mörg hver varðveist frá upphafi búsetu í landinu. Í frumvarpinu er kveðið á um mikilvægar breytingar sem miða fyrst og fremst að því að stuðla að verndun þessara minja og að þeim verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Unnið hefur verið markvisst í hundrað ár við að safna örnefnum og rannsaka þau hér á landi. Örnefni hafa jafnlengi verið talin meðal styrkustu stoða menningararfsins og íslenskrar þjóðarvitundar. Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) telur viðhald menningarerfða af þessu tagi vera mikilvæga driffjöður menningarlegrar fjölbreytni. Jafnframt er hætta á að alþjóðavæðing og ýmis félagsleg umbrot í nútímanum verði til þess að menningarerfðir glatist. Verði þetta frumvarp að lögum mun það stuðla að því að hefðbundin örnefni verði varðveitt eftir því sem framast er unnt og að ný örnefni verði ekki innleidd þar sem arfbundin eða hefðbundin nöfn eru til staðar. Jafnframt er stuðlað að því að nafngiftahefðir séu í heiðri hafðar við myndun nýrra örnefna og þau séu í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Þá liggja tiltekin öryggissjónarmið að baki frumvarpinu. Stefnt er að því að skýra og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna svo að nafngiftir endurspegli sem best raunveruleikann hverju sinni þannig að endanleg nafngift komist á sem fyrst í ferlinu. Þá er ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti.
    Ákveðin hætta er á að alþjóðavæðing á sviði upplýsingatækni verði til þess að menningarerfðir glatist. Dæmi um þetta er miðlun og framsetning landfræðilegra upplýsinga um Ísland á vefkortum fyrirtækja og samtaka (t.d. Samsýnar ehf., Google maps og OpenStreetMap) þar sem íslensk örnefni liggja ekki endilega til grundvallar. Opinn og aðgengilegur örnefnagrunnur stuðlar að samræmi upplýsinga og þar með auknu öryggi notenda sem byggja staðarvitund sína í auknum mæli á verkfærum líkt og snjallsímum eða fistölvum með innbyggðri staðsetningartækni (t.d. GPS).
    Með frumvarpinu er ætlunin að stuðla að þekkingu almennings á örnefnum og almennri notkun þeirra. Með það að markmiði er ráðgert að innihald örnefnagrunnsins verði aðgengilegt og endurnot hans án gjaldtöku. Meginmarkmið þess er að þjóðhagslegt verðmæti gagnanna megi verða meira séu þau opin en ef þau eru háð gjaldtöku eða öðrum aðgangshindrunum. Samkvæmt þessu munu íslensk örnefni birtast víðar og á fleiri miðlum en nú og notkun þeirra þannig aukast enn frekar.
    Með vísan til framangreinds er talið almenningur hafi talsverðan ávinning af því að frumvarp þetta verði að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða, sem eru hluti af menningarerfðum íslensku þjóðarinnar, og að þeim verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Viðhald menningarerfða af þessu tagi er af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) talið vera mikilvæg driffjöður menningarlegrar fjölbreytni. Varðveisla örnefna helst líka í hendur við varðveislu náttúruarfleifðar. Þá er einnig stefnt að því með frumvarpinu að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju til að stuðla að því og ritháttur þeirra sé í samræmi við íslenska stafsetningu og að þau séu auðrituð hverjum manni.
    Jafnframt er markmiðið að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð á viðkomandi svæði og að auðvelt sé að nota þau í almennum samræðum og þjónustu. Einnig er leitast við að koma í veg fyrir að sama nafn komi fyrir innan hverfis, þ.e. hrepps eða sambærilegrar einingar í dreifbýli, eða bæja- eða þéttbýlissvæðis. Sama er að segja um svo lík nöfn að hætta geti verið á ruglingi. Dæmi um keimlík götunöfn sem geta valdið ruglingi eru annars vegar Brattakinn og Bjartakinn og hins vegar Lyng­háls og Lyngás. Enn fremur er markmið frumvarpsins að skýra og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefnis, þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt. Af þessu leiðir að auðvelt verður að nota örnefni til staðarvísunar, svo sem í öryggisskyni.

Um 2. gr.

    Greinin er nýmæli. Í henni er að finna skilgreiningar á hugtökum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir ákvæði frumvarpsins.
    Hugtakið örnefni er skilgreint í 1. tölul. en örnefni eru hluti af íslenskum menningarerfðum. Ákvæðið á sér samsvörun í 2. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/ 2006.
    Hugtakið örnefnagrunnur er skilgreint í 2. tölul. Nánar er fjallað um örnefnagrunninn í skýringum við 9. gr. frumvarpsins.
    Hugtakið staðfang (e. access address) er nýmæli og felur í sér þær upplýsingar sem til þarf svo að fanga megi staðsetningu fyrirbæra, svo sem mannvirkja, landeigna eða áfangastaða. Staðfang hefur að geyma bæði lýsandi og rúmfræðilegar upplýsingar. Lýsandi upplýsingar eru til að mynda póstnúmer, götuheiti og húsnúmer en rúmfræðilegar upplýsingar geyma hnit staðfangs í samræmdu landshnitakerfi. Tilurð staðfanga er formlegri en örnefna og gegna þau svipuðum tilgangi. Nauðsynlegt þykir að sömu reglur gildi um hvort tveggja. Staðföng eru til þess fallin að auðvelda öflun upplýsinga, svo sem um staðsetningu fólks, landareigna, mannvirkja og svæða með því að tengja saman upplýsingar af ólíkum toga í landupplýsingakerfi. Þau nýtast þannig öllum almenningi með beinum hætti og einnig í samskiptum við hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki, t.d. neyðarþjónustu, rannsóknaraðila, veitufyrirtæki og skráningaraðila. Með ákvæðinu væri því komin formleg skilgreining á hugtakinu staðfangi sem og tengsl þess við örnefni. Jafnframt verði hlutverk sveitarfélaga og aðkoma örnefnanefndar við skráningu staðfanga mun skýrara en í núverandi framkvæmd.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Með greininni er kveðið á um skipun og hlutverk örnefnanefndar.
    Í 1. mgr. er tekið fram að ráðherra skipi nefndina til fjögurra ára í senn. Lagt er til að nefndin verði þannig skipuð að ráðherra sem fer með skipulagsmál, ráðherra sveitarstjórnarmála, Stofnun Árna Magnússonar og Íslensk málnefnd tilnefni einn fulltrúa hver. Þá er lagt til að ráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar sem verði formaður nefndarinnar en varaformaður verði skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn verði skipaðir með sama hætti. Einnig er lagt til að tímatakmörk verði á setu aðalmanna í nefndinni og er það í samræmi við það sem almennt gildir nú um stjórnir og nefndir á verksviði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Sú nýbreytni er jafnframt lögð til að á meðal nefndarmanna skuli vera sérþekking á íslensku máli, örnefnum og staðfræði. Ákvæðið um að nefndarmenn skuli hafa sérþekkingu á tilteknum sviðum felur í sér að a.m.k. einn fulltrúi hvers sviðs sé í nefndinni. Þó er ekki útilokað að einn og sami maðurinn hafi sérþekkingu á tveimur eða fleiri sviðum. Þá er nýmæli að fulltrúi Íslenskrar málnefndar verði fullgildur fulltrúi í nefndinni í stað þess að vera áheyrnarfulltrúa samkvæmt gildandi lögum.
    Örnefnanefnd skal m.a. stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða og stuðla að því að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju og að þau séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð á svæðinu. Í 2. mgr. er nánar kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Ákvæðið hefur að geyma almenna stefnuyfirlýsingu um starfsemi nefndarinnar.
    Í a-lið er lagt er til að nefndin veiti rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar. Til örnefnanefndar hafa t.d. leitað aðilar sem eiga í landamerkjadeilum sem felast í því að deiluaðilar eru ekki sammála um hvar örnefni sem hafa skilið að landareignir eru staðsett. Ekki er ljóst samkvæmt gildandi lögum hvort örnefnanefnd beri að skera úr um slík atriði. Hér er lagt til að nefndin skuli aðeins veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni því erfitt getur reynst að skera úr um framangreint og oft eru miklir hagsmunir í húfi fyrir deiluaðila.
    Með b-lið er mælt fyrir um að nefndin úrskurði um nýtt eða breytt bæjarnafn, götunafn eða annað nafn sem notað er til skráningar á staðfangi hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar. Fallið er frá ákvæði núgildandi laga um að gefa skuli býlum heiti og auðkenna hús í þéttbýli með götuheiti og númeri. Hvað snertir þá skyldu vísast til skipulagslaga, nr. 123/2010. Þess í stað kveður frumvarp þetta ein­göngu á um hvenær slík heiti og auðkenni fá umfjöllun fyrir nefndinni.
    Með c- og d- lið er kveðið á um að örnefnanefnd skuli veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags og veita umsögn um nafn sveitarfélags. Skv. e-lið skal örnefnanefnd veita umsagnir um nafn á nýju náttúrufyrirbæri innan sveitarfélags. Með f-lið er mælt fyrir um að örnefnanefnd skuli einnig sinna öðrum verkefnum sem henni eru falin.
    Í 3. mgr. er lagt til að nefndinni verði heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði. Á sviði stjórnsýsluréttar er það ekki vafalaust hvaða heimildir stjórnvald hefur til frumkvæðis af þessum toga sé ekki beinlínis kveðið á um það og þykir því ástæða til þess að taka af allan vafa í því sambandi. Rétt er að geta þess að við vinnslu frumvarpsins komu fram athugasemdir frá örnefnanefnd til starfshópsins um mikilvægi þess að verklagsreglur fyrir sveitarfélög varðandi nafngiftir séu skýrar og að sveitarfélögum verði gert að fara eftir þeim. Í því sambandi lagði nefndin til að settur yrði eins konar „öryggisventill“ á ferlið þannig að nefndin hefði heimild til þess að taka mál upp á vettvangi nefndarinnar þó að tímafrestur til viðbragða væri liðinn, t.d ef nefndinni yfirsæjust gallar á nafni eða ef einhver annar aðili gerði athugasemdir við nafn. Það kom jafnframt fram í athugasemdum nefndarinnar að ekki væri alltaf öruggt að viðkomandi sveitastjórnir, á hverjum tíma, færu eftir verklagsreglum eða lögum um örnefnavernd. Örnefnanefnd þarf þá að hafa tækifæri til þess að gera athugasemdir við ferlið og fara fram á endurskoðun á nafni í slíkum tilvikum.
    Í 4. mgr. er lagt til að kostn­aður af starfsemi örnefnanefndar skuli greiðast úr ríkissjóði.
    Að lokum er í 5. mgr. lagt til að ráðherra hafi heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, m.a. nánari ákvæði um starfsemi örnefnanefndar og undirbúningsferli ákvarðana hennar.

Um 5. gr.    

    Í greininni er kveðið á um almennar málsmeðferðarreglur sem örnefnanefnd er ætlað að starfa eftir. Í þeim tilvikum þegar örnefnanefnd hafnar tillögu að nafngift ber nefndinni að senda aðila máls rökstuðning og eftir atvikum tillögu að mögulegri málamiðlun. Aðili máls skal innan átta vikna bregðast við ákvörðun örnefnanefndar en að öðrum kosti úrskurðar nefndin um nýtt nafn. Örnefnanefnd er heimilt að leita álits sérfræðinga utan nefndarinnar ef þurfa þykir.
    Lagt er til að ákvarðanir örnefnanefndar samkvæmt frumvarpinu, sbr. 4. gr., verði endanlegar á stjórnsýslustigi og ekki kæranlegar til ráðherra, en það er nýmæli. Málsmeðferð fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

Um 6. gr.

    Um heiti sveitarfélags fer eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Í 5. gr. þeirra laga er að finna ákvæði sem kveður á um að sveitarstjórn ákveði heiti sveitarfélags að fenginni umsögn örnefnanefndar og skal heitið samrýmast íslenskri málfræði og málsvenju. Þá segir í því ákvæði að sé könnun gerð meðal íbúa á viðhorfi til breytingar á nafni sveitarfélags eða á nafni nýs sveitarfélags skuli leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem um ræðir. Aukinheldur kveður ákvæðið á um að ekki megi breyta heiti sveitarfélags né gefa nýju ­sveitarfélagi heiti nema með staðfestingu ráðuneytisins. Þegar nýtt heiti sveitarfélags hefur verið ákveðið skal samþykkt um stjórn sveitarfélagsins breytt til samræmis og tekur nýtt heiti gildi við gildistöku hennar.
    Með 2. mgr. þessarar greinar frumvarpsins er kveðið á um að örnefnanefnd skuli skila rökstuddu áliti til hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sveitarstjórna innan þriggja vikna frá því að erindi berst nefndinni. Þá skal nefndin senda afrit af áliti sínu til ráðherra sveitarstjórnarmála.

Um 7. gr.

    Greinin er nýmæli. Ef nýtt náttúrufyrirbæri þarfnast nafns ber viðkomandi sveitarstjórn að hafa frumkvæði að nafngift, að fenginni umsögn örnefnanefndar. Ný náttúrufyrirbæri verða öðru hverju til í landinu eða á landgrunni, m.a. vegna eldvirkni. Af þeim sökum er mikilvægt að ákvæði sé í lögum um hvernig standa skuli að nafngiftum slíkra fyrirbæra gerist þess þörf. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög beri ábyrgð á nafngiftum slíkra fyrirbæra innan sinna marka. Að öðrum kosti liggur frumkvæðið hjá ráðherra, þ.e. ef náttúrufyrirbærið er utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga. Drekasvæðið er dæmi um slíkt tilvik og Surtsey á þeim tíma sem hún varð til þó að hún falli í dag innan bæjarmarka Vestmannaeyja. Þá er lagt til að tillögu að nýju nafni beri að senda ráðherra til staðfestingar.

Um 8. gr.

    Verði þetta frumvarp að lögum fer um ráðgjöf um örnefni samkvæmt ákvæðum laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 103/2006, ásamt síðari breytingum.
    Með 2. tölul. 11. gr. þessa frumvarps þessu er lögð til breyting á lögum um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sú breyting er fólgin í því að við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr stafliður sem kveður á um að stofnunin ræki hlutverk sitt m.a. með því að vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.

Um 9. gr.

    Verði frumvarp þetta að lögum fer um örnefnagrunn eftir 4. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð með þeim breytingum sem frumvarp þetta mælir fyrir um, sbr. 11. gr.
    Með 2. mgr. er lagt til að ráðherra sem í hlut á, í samræmi við löggjöf og reglur um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, verði heimilt að kveða nánar á um innihald, skráningu og tilhögun örnefnagrunns með reglugerð. Fyrirmynd þessarar útfærslu er sótt til 2. mgr. 9. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun til að starfa hér á landi, nr. 26/2010.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Við undirbúning frumvarpsins var talið nauðsynlegt, m.a. til þess að markmið þess náist fyllilega, að gerðar yrðu breytingar á tilteknum lögum. Þær breytingar má telja eðlilegar í ljósi þess að samræma þarf stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.
     Um 1. tölul. (lög nr. 103/2006).
    Hætta er á að alþjóðavæðing á sviði upplýsingatækni í nútímanum verði til þess að menningarerfðir glatist. Dæmi um þetta er miðlun og framsetning landfræðilegra upplýsinga um Ísland á vefkortum fyrirtækja og samtaka (t.d. Samsýnar ehf., Google maps og OpenStreetMap) þar sem íslensk örnefni liggja ekki endilega til grundvallar. Í greininni er mælt fyrir um að Landmælingar Íslands skrái örnefni í örnefnagrunn í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Gert er ráð fyrir að innihald örnefnagrunnsins verði aðgengilegt og að endurnot þess verði án gjaldtöku og í samræmi við 30. og 31. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Meginmarkmið þessa ákvæðis er að þjóðhagslegt verðmæti gagnanna megi verða meira séu þau opin en séu þau háð gjaldtöku eða öðrum aðgangshindrunum. Með því að tryggja að innihald gagnagrunnsins verði aðgengilegt og án gjaldtöku er ýmsum markmiðum náð. Íslensk örnefni munu birtast víðar og á fleiri miðlum en nú og auka þannig enn frekar notkun. Enn fremur mun það stuðla að samræmi upplýsinga og þar með meira öryggi notenda sem byggja staðarvitund sína í auknum mæli á verkfærum líkt og snjallsímum eða fistölvum með innbyggðri staðsetningartækni (t.d. GPS).
    Í greininni er kveðið á um að Landmælingar Íslands geri almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar. Mikilvægt er að tryggja þátttöku almennings við skráningu örnefna þannig að staðkunnugu fólki sé gert kleift með auðveldum hætti að staðsetja örnefni út frá örnefnalýsingum á réttan stað og jafnframt að ekkert sé því til fyrirstöðu að getið sé um fleiri en eitt örnefni í slíkum gagnagrunni þó svo að eitt örnefni liggi til grundvallar í opinberum örnefnagrunni. Þetta stuðlar að bættri varðveislu á menningararfi Íslendinga.
     Um 2. tölul. (lög nr. 40/2006).
    Í ljósi þess hlutverks sem Stofnun Árna Magnússonar er ætlað samkvæmt þessu frumvarpi þótti eðlilegt að breyta lögum um stofnunina á þann hátt að tilgreina að stofnunin rækir m.a. hlutverk sitt með því að vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.
     Um 3. tölul. (lög nr. 6/2001).
    Breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, snúa fyrst og fremst að því að skilgreina staðfang sem sjálfstætt skráningarandlag í stað þess að vera eigind fasteignaskráningar. Þó svo að heiti fasteigna hafi áður fyrr verið helsta auðkenni þeirra eru þau sífellt minna notuð til auðkenningar innan stjórnsýslunnar. Í stað þeirra eru notuð einkvæm fasteignanúmer á landsvísu. Fasteign getur því haft mörg staðföng, þ.e. mismunandi aðkomuleiðir sem allar hafa skilgreint nafn, til að mynda ef um stóra eign er að ræða, svo sem fjölbýlishús, iðjuver, verslunarmiðstöð, spítala eða sumarhúsabyggð stéttarfélags. Með því að skilgreina staðfang á þennan veg, þ.e. sem sjálfstætt skráningarandlag, opnar það fyrir fjölbreyttari notkun staðfanga, ekki aðeins í fasteignaskráningu, heldur jafnframt í stjórnsýslunni allri, t.d. þjóðskrá, fyrirtækjaskrá sem og almannavörnum og neyðarþjónustu. Enn fremur kemur framangreint í veg fyrir margendurtekna söfnun sömu upplýsinga og misræmi því tengt. Ákvæðið tryggir þar af leiðandi að a.m.k. eitt staðfang sé skráð fyrir hverja fasteign sem birtingarmynd fasteignarheitis. Í þessu sambandi ber að nefna að þinglýsing fasteignaheita var hætt árið 2010 og er þetta því rökrétt skref í fram­haldi af því, þ.e. að fasteignaheiti séu ekki lengur andlag þinglýsingarinnar.
    Þá er mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um skráningu staðfanga. Í slíkri reglugerð er lagt til að kveðið verði m.a. á um skýrar verklagsreglur sveitarfélaga við skráningu þeirra. Samkvæmt þessu munu sveitarstjórnir koma beint að þessum málum og bera ábyrgð á nafngiftum og skráningu staðfanga í sínu umdæmi eins og hefur tíðkast um skráningu fasteignheita fram til þessa. Staðföng eru samkvæmt núverandi framkvæmd skráð í miðlægan gagnagrunn á vegum Þjóðskrár Íslands. Með því fyrirkomulagi sem hér er mælt fyrir um færast ný nöfn staðfanga jafnframt í örnefnagrunn sem vistaður er hjá Landmælingum Íslands. Þetta leiðir til þess að skráningarferlið verður einfaldara og komið verður í veg fyrir misræmi í skráningu milli stofnana.
     Um 4. tölul. (lög nr. 21/1990).
    Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, er til þess gerð að knýja á um að skráning einstaklinga til heimilis sé á staðfang. Þetta auðveldar skráningu einstaklinga, t.d. í íbúðir, og tryggir samræmi innan stjórnsýslunnar.
     Um 5. tölul. (lög nr. 81/2004).
    Breyting á jarðalögum, nr. 81/2004, gerir ráð fyrir að 21. gr. laganna falli brott þar sem ekki þarf lengur að leita leyfis örnefnanefndar fyrir nýjum nafngiftum.
     Um 6. tölul. (lög nr. 123/2010).
    Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010, gerir ráð fyrir að í stað „landskrár fasteigna“ í 47. gr. laganna komi hugtakið „fasteignaskrá“. Jafnframt er mælt fyrir um að gerð verði breyting á 2. mgr. 48. gr. laganna, þ.e. að allar afmarkaðar landareignir skuli hafa vísun í a.m.k. eitt staðfang í samræmi við 12. gr. laga um skráningu og mat fasteigna.



Fylgiskjal I.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga
skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Frumvarp þetta er samið á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Því er ætlað að koma í stað laga um bæjanöfn o.fl. nr. 35/1953. Þróun búsetuhátta í landinu og skipulagsmála hefur gert það að verkum að lög nr. 35/1953 þjóna ekki nægjanlega vel hlutverki sínu. Við frumvarpsvinnuna voru tvö sjónarmið höfð að leiðarljósi, örnefnavernd og öryggissjónarmið.
    Í frumvarpinu er ábyrgð sveitarstjórna á nafngiftum og skráningu fasteigna aukin nokkuð frá því sem gildir í lögum um bæjanöfn, nr. 35/1953. Er miðað við að öll staðföng verði skráð í miðlægan gagnagrunn á vegum Þjóðskrár, sem er í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á undanförnum árum með tilkomu Fasteignaskrár. Þessi breyting ætti þó ekki að hafa veruleg áhrif á útgjöld sveitarfélaga því frumvarpið kveður fyrst og fremst á um samræmt verklag og skýrari verkferla.
    Með vísan til þess sem að framan er rakið telur mennta- og menningarmálaráðuneyti að með lögfestingu frumvarpsins megi ætla að það muni ekki auka útgjöld sveitarfélaganna.
    Kostnaðarumsögn þessi var borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við niðurstöðu umsagnarinnar.



Fylgiskjal II.



Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um örnefni.

    Markmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða sem hluta af íslenskum menningararfi. Þeim er ætlað að koma í stað laga um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953. Þau nýmæli eru í frumvarpinu að fjölga skuli fulltrúum í örnefnanefnd úr þremur í fimm og að þeir skuli hafa sérþekkingu á íslensku máli, örnefnum og staðfræði. Ráðherra skipulagsmála, ráðherra sveitarstjórnarmála, Stofnun Árna Magnússonar og Íslensk málnefnd tilnefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar. Nýir nefndarmenn þiggja laun á sama hátt og nefndarmenn þannig að breytt fyrirkomulag mun ekki leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.
    Samkvæmt frumvarpinu verður hlutverk örnefnanefndar eftirleiðis fyrst og fremst að úrskurða um ágreiningsefni sem beint verður til hennar af málsaðilum en ekki að fjalla um tilkynningar á öllum nýjum eða breyttum nöfnum lögbýla til samþykktar eða synjunar. Sveitarstjórnir beri ábyrgð á nafngiftum og skráningu fasteigna í sínu umdæmi á sama hátt og tíðkast hefur um götunöfn í þéttbýli. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög skrái staðföng í gagnagrunn hjá Þjóðskrá Íslands og að ný staðföng verði enn fremur skráð í örefnagrunn sem vistaður verður hjá Landmælingum Íslands en sú stofnun skal viðhalda örnefnaþekju vegna kortagerðar samkvæmt lögum sem um hana gilda. Í þessu sambandi er einnig horft til miðlunar og framsetningar landfræðilegra upplýsinga á vefkortum fyrirtækja og samtaka, svo sem Google kort, eða ýmsum GPS-grunnum (oft gegnum snjallsíma eða fistölvur), þar sem íslensk örnefni liggja ekki endilega til grundvallar. Gert er ráð fyrir að örnefnagrunnurinn verði opinn og án gjaldtöku. Ekki er búið að útfæra örnefnagrunninn en ekki virðist ástæða til að ætla að útgjöld vegna þeirrar stafrænu örnefnaskráningar aukist umtalsvert. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um skýrara hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem ráðgefandi aðila, meðal annars við sveitarfélögin, varðandi söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og nýyrða. Stofnunin tók við starfsemi Örnefnastofnunar Íslands árið 2006 og hefur nafnfræðisvið stofnunarinnar áfram það hlutverk að annast um þessi verkefni. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi við samþykkt þess.
    Verði frumvarpið lögfest virðist ekki ástæða til að ætla að það hafi teljandi áhrif á útgjöld við þau verkefni sem tilheyra þessum málaflokki.