Ferill 99. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 588  —  99. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu
varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994, með síðari breytingum
(innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).


Frá atvinnuveganefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Erlu Sigríði Gestsdóttur og Ingva Má Pálsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ingibjörgu Halldórsdóttur frá Mannvirkjastofnun og Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust umsagnir frá Neytendastofu og Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994. Með gildandi lögum var innleidd tilskipun 92/75/EB en með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði tilskipun sem felur í sér breytingar á þeirri tilskipun, þ.e. tilskipun 2010/30/ESB.
    Markmið síðarnefndu tilskipunarinnar varðar skynsamlega og hagkvæma nýtingu orku með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem nýta orku. Í tilskipuninni er kveðið á um að skylt verði að láta neytendum í té upplýsingar um orkunotkun og orkunýtni vöru.
    Gildissvið nýju tilskipunarinnar er víðtækara en hinnar fyrri og því er lögð til breyting á gildissviði og heiti laganna þannig að orðið ,,vara sem tengist orkunotkun“ komið í stað orðsins ,,tæki“ eða ,,heimilistæki“. Verði frumvarpið að lögum munu þau því einnig gilda um t.d. glugga, einangrunarefni og krana en hingað til hafa aðallega rafföng heyrt undir þau, t.d. sjónvörp, þvottavélar og þurrkarar. Einnig er lagt til að nýjar greinar bætist við lögin sem fjalla um markaðseftirlit og réttarúrræði Mannvirkjastofnunar sem tekur við eftirlitshlutverkinu af Neytendastofu.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
          Lögð er til lagfæring á 2. gr. laganna í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins sem lúta að því að hugtakið ,,vara sem tengist orkunotkun“ komi í stað orðsins ,,tæki“. Því er lagt til að í stað orðsins ,,tæki“ í 2. mgr. 2. gr. laganna komi ,,vara“.
          Jafnframt er lögð til orðalagsbreyting á 7. gr. laganna í því skyni að þar verði vísað til Mannvirkjastofnunar sem tekur við eftirlitshlutverki samkvæmt frumvarpinu.
          Einnig er lögð til breyting á fjárhæð dagsekta sem er í samræmi við breytingartillögu nefndarinnar í 98. máli um breytingu á lögum um visthönnun vöru. Nefndin leggur til að hámarksfjárhæð dagsekta verði 200.000 kr. á dag í stað 500.000 kr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Á eftir a-lið 2. gr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðsins ,,tækja“ í 2. mgr. kemur: vara.
     2.      Við 8. gr. bætist nýr liður, a-liður, svohljóðandi: Í stað orðsins ,,eftirlitsaðilum“ í 1. málsl. 7. gr. laganna kemur: Mannvirkjastofnun; og í stað orðsins ,,þeim“ í 2. málsl. kemur: stofnuninni.
     3.      Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í 2. mgr. c-liðar 9. gr. komi: 200.000 kr.

    Haraldur Benediktsson og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. nóvember 2014.Jón Gunnarsson,


form.


Þorsteinn Sæmundsson,


frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.Ásmundur Friðriksson.


Björt Ólafsdóttir.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.Páll Jóhann Pálsson.