Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 608  —  411. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Flm.: Willum Þór Þórsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson,
Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Þjónusta og vörusala íþróttafélaga sem stunduð er í því skyni að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi slíkra félaga, þ.m.t. fjáröflun vegna keppnis- og æfingaferða félagsmanna, svo sem sala auglýsinga, útgáfustarfsemi, verslunarrekstur, veitingasala og sala varnings eða þjónustu.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á tímabilinu 1. janúar 2015 til 1. janúar 2016 skal endurgreiða íþrótta- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald við íþróttamannvirki, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu, endurbyggingu eða viðhalds þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga um endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar var lögð frá á 143. löggjafarþingi (487. mál) Hér er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum, sem miðar að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar. Breytingin gerir ráð fyrir að endurgreiða skuli íþrótta- og ungmennafélögum 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhald íþróttamannvirkis, af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með nýbyggingu, endurbyggingu eða viðhaldi þess háttar húsnæðis, sem og af efniskaupum til slíkra framkvæmda. Endurgreiðslan skal gerð á grundvelli framlagðra reikninga, eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Einnig er lagt til að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár til að standa undir kjarnastarfsemi íþróttafélaga, svo sem sala auglýsinga, útgáfustarfsemi, verslunarrekstur, veitingasala og sala varnings eða þjónustu til öflunar fjár til starfseminnar, verði undanþegnar virðisaukaskatti.
    Með kjarnastarfsemi í frumvarpinu er vísað til hefðbundinnar starfsemi íþróttafélaga.

Þjóðfélagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar.
    Vart þarf að fjölyrða um þjóðhagslegt mikilvægi íþróttahreyfingarinnar. Fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnargildi íþrótta og þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi dregur úr líkum á hvers konar frávikshegðun. Ungmenni sem ekki taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi eru líklegri t.d. til að nota vímuefni en þau sem eru virkir þátttakendur í slíku starfi. Þá hafa rannsóknir jafnframt sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Þannig má leiða líkur að því að skipulagt starf íþróttafélaga og sá félagslegi sess sem þau skipa í hverju samfélagi leiði til þjóðfélagslegs heilsuábata, eins og minna álags á heilbrigðiskerfið þar sem rannsóknir hafa sýnt að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma. Þá hefur verið sýnt fram á jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað í formi færri tapaðra vinnustunda, færri veikindadaga og aukinnar framleiðni. Þá má nefna framgöngu afreksfólksins okkar og þá landkynningu sem það færir okkur til framgangs viðskipta og ferðaþjónustu, svo að ekki sé minnst á styrkingu sjálfsmyndar þjóðarinnar og aukið þjóðarstolt á okkar bestu stundum.
    Það er því mikilvægt að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlýtur því að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla.
    Frumvarpið er í fullu samræmi við og styður markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir m.a.: „Ríkisstjórnin leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er. Stuðla ber að því að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem um ræðir íþróttir, listnám, listsköpun eða félagsstarf. Slíkt starf þroskar einstaklinginn og hefur mikið forvarnargildi.“

Íþróttafélög og íþróttastarfsemi.
    Í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra (bls. 4) er skilgreining á íþróttafélagi eftirfarandi: „Með íþrótta- og ungmennafélagi er hér átt við félag sem hefur íþróttir á stefnuskrá sinni og hefur fengið aðgang að íþróttahreyfingunni með aðild að héraðssambandi eða íþróttabandalagi, sbr. 2. kafli laga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).“ Þannig afmarkar ríkisskattstjóri íþróttastarfsemi við iðkun íþróttagreina sem stundaðar eru innan aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þegar kemur að tekjuskatti teljast íþróttafélög undanþegin svo fremi sem þau verji hagnaði sínum einvörðungu til almannaheilla og hafi það einasta að markmiði samkvæmt samþykktum sínum, sbr. 4. gr. tekjuskattslaga. Kveða verður á um hinn ófjárhagslega tilgang í samþykktum viðkomandi félags og girðir það fyrir að til arðgreiðslu til eigenda geti nokkurn tíma komið. Öllum hagnaði þarf þannig að verja til almenningsheilla. Almenn íþróttastarfsemi er þannig talin vera almenningsheillastarfsemi í skilningi tekjuskattslaga. Með íþrótt er að mati ríkisskattstjóra átt við hvers konar líkamlega þjálfun með iðkun íþróttagreinar sem almennt er stunduð innan aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Í íþróttalögum, nr. 64/1998, merkja íþróttir hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti.

Virðisaukaskattur íþróttafélaga af reglubundinni starfsemi.
    Íþróttastarfsemi er undanþegin virðisaukaskatti skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Þetta þýðir að íþróttafélög innheimta engan útskatt af sölu sem lýtur að íþróttastarfsemi og fá á hinn bóginn ekki dreginn frá innskatt vegna kaupa á aðföngum til starfseminnar. Öll sala íþróttafélaga á aðstöðu til æfinga og iðkunar íþrótta, þ.m.t. félagsgjöld og æfingagjöld, fellur undir undanþáguákvæðið. Þrátt fyrir að íþróttafélög séu undanþegin virðisaukaskatti vegna íþróttastarfsemi sinnar þá eru þau virðisaukaskattsskyld ef þau selja vörur eða virðisaukaskattsskylda þjónustu í atvinnuskyni eða í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi teljast t.d. auglýsingasala, þ.m.t. svokallaðir „samstarfssamningar“, útgáfustarfsemi, rekstur verslunar, veitingasala og svo fjáraflanir ýmiss konar. Þá er til staðar virðisaukaskattsskylda af eigin þjónustu, svo sem rekstur þvottahúss o.s.frv. Með frumvarpi þessu er lagt til að öll sölustarfsemi íþróttafélaga verði undanþegin virðisaukaskatti.

Markmið.
    Grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi hefur lengi verið þátttaka sjálfboðaliða og starfsemi íþróttahreyfingarinnar byggist enn að verulegu leyti á sjálfboðaliðastarfi. Fjöldi fólks leggur íþróttahreyfingunni lið án þess að þiggja endurgjald fyrir sín störf. Stjórnir, nefndir og ráð aðstoða við framkvæmd íþróttamóta og kappleikja og standa að ýmiss konar starfi og fjáröflun. Einn jákvæðasti þátturinn í þessu starfi er aukin aðkoma foreldra og stuðningur þeirra við íþróttaiðkun barna sinna.
    Eins og málum er háttað getur ábyrgð stjórnarmanna og annarra sjálfboðaliða á framtals- og skýrsluskilum, skattskilum og opinberum gjöldum verið mikil og jafnvel meiri en flestir sjálfboðaliðar gera sér grein fyrir. Opinberir aðilar geta beitt þungum viðurlögum við vanskilum á opinberum gjöldum og geta vanskil jafnvel varðað fangelsisvist. Líklegt má telja að þeim aðilum sem taka að sér sjálfboðaliðastörf í íþróttahreyfingunni gæti fækkað verulega væri þeim þessi ábyrgð að fullu ljós og þeir að fullu upplýstir um þau viðurlög sem beita má. Það er því mikilvægt að löggjafinn bregðist við og skapi um leið hvetjandi umhverfi fyrir allt sjálfboðaliðastarf og stuðli að sem mestri þátttöku foreldra í því barna- og uppeldisstarfi sem íþróttahreyfingin veitir börnum þeirra.
    Iðkendum fer sífellt fjölgandi bæði í þeim hópi sem heyrir undir skilgreiningu afreksíþrótta og í þeim hópi, sem út frá lýðheilsusjónarmiðum er ekki síður mikilvægur, sem tilheyrir almenningsíþróttum. Þessu til stuðnings má nefna að iðkendum sem hlutfalli af fjölda á þjóðskrá hefur fjölgað úr 19,7% árið 1994 í 27,2% árið 2011. Áberandi fjölgun er í hópum barna og unglinga og svo eldri borgara. Þörfin fyrir fleiri mannvirki til að sinna þessum vaxandi fjölda eykst því sífellt. Það er áberandi ákall hjá mörgum íþróttafélögum í dag að bregðast þurfi við þessum aukna fjölda og bæta þurfi við aðstöðu til að tryggja að allir geti notið sem bestrar aðstöðu og aðbúnaðar við íþróttaiðkun sína.