Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 614  —  9. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um þátttöku
íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

Frá minni hluta atvinnuveganefndar.


    Minni hlutinn telur framlagningu frumvarpsins ótímabæra. Við umfjöllun um málið hefur komið fram að ráðherra fái heimild til að stofna opinbert hlutafélag til að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi þegar og ef ástæða verður talin til að taka slíka ákvörðun. Einnig hefur komið fram að ekki sé gert ráð fyrir því að félagið verði stofnað við setningu laganna heldur e.t.v. eftir nokkur ár.
    Ljóst er að einhver tími mun því líða þar til félagið verður stofnað en hversu langur sá tími verður ræðst m.a. af þróun mála á norska hluta Drekasvæðisins. Því er ljóst að íslensk stjórnvöld hafa nægan tíma til stefnu til að undirbúa stofnun félagsins. Að sama skapi mun ekki koma til greiðslu stofnfjár upp á 20 millj. kr. fyrr en ákvörðun ríkisstjórnar liggur fyrir um að stofna hlutafélagið á grundvelli laganna.
    Minni hlutinn telur brýnt að mörkuð verði stefna fyrir Ísland þar sem byggt verði á bestu fáanlegum upplýsingum um loftslagsbreytingar og þátt jarðefnaeldsneytis í þeim breytingum. Þau málefni sem hér um ræðir eru miklum breytingum háð og má sem dæmi nefna að í fréttum í þessari viku kom fram að heimsmarkaðsverð á olíu hefði ekki verið lægra í fjögur og hálft ár og héldi áfram að falla. Jafnframt er afar brýnt að rannsaka áhrif olíuvinnslu á lífríki norðurslóða, einkum ef mengunarslys mundu eiga sér stað.

Alþingi, 27. nóvember 2014.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,