Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 619  —  346. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn
frá Birni Val Gíslasyni um kvótasetningu á makríl.


     1.      Hefur ráðherra í hyggju að kvótasetja veiðiheimildir í makríl á skip (fastan kvóta)?
    Um fiskveiðar utan lögsögu Íslands gilda lög nr. 151/1996, en þar er mælt fyrir um valdheimild til hlutdeildarsetningar á svonefndum deilistofnum, eins og makríl, sbr. 5. gr. laganna. Í tilefni af fyrirspurninni verður að vekja athygli á því að veiðiheimildum í makríl var úthlutað á einstök skip árið 2010 og hefur veiðum á stofninum síðan þá verið stjórnað með reglugerðum sem settar hafa verið til eins árs í senn. Í áliti setts umboðsmanns Alþingis 30. júní sl. í málum nr. 7021/2012 og 7400/2013 var fjallað á gagnrýninn hátt um setningu reglugerða um stjórn makrílveiða árin 2010 og 2011 og talið að jafna yrði þeirri veiðistjórnunaraðgerð sem fólst í setningu þessara reglugerða til þess að tekin hafi verið „ákvörðun um að takmarka heildarafla í stofninn“ skv. 2. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, en við það beri ráðherra að mæla fyrir um setningu aflahlutdeilda í stofninn (niður á einstök skip).
    Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru um stjórn makrílveiða hefur verið til athugunar í ráðuneytinu að lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um hlutdeildarsetningu makrílstofnsins, sem þó mundi byggja á meginreglum laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

     2.      Hefur ráðherra leitað ráðgjafar aðila utan Stjórnarráðsins við úthlutun og útfærslu á kvótasetningunni og ef svo er, hvaða aðilar eru það og hvaða gögn hafa verið lögð fram af þeirra hálfu?
    Ráðherra hefur aflað álits Ragnars Árnasonar prófessors, dags. 1. nóvember 2014: „Gjaldtaka af makrílútvegi. Mat á áhrifum ólíkra leiða við gjaldtöku við setningu aflahlutdeilda í makríl. Álitsgerð unnin fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Gerð af prófessor Ragnari Árnasyni. DRÖG“. Þá lét Friðrik Már Baldursson prófessor í té stutt minnisblað, dags. 21. janúar 2014: „Nokkrar athugasemdir um úthlutun makrílkvóta“. Þá skal upplýst að ráðuneytið hefur átt í viðræðum við Lagastofnun Háskóla Íslands um ráðgjöf við undirbúning frumvarpsins.

     3.      Hverjar telur ráðherra helstu afleiðingar kvótasetningar á makríl?
    Fiskveiðum við Ísland er stýrt með aflamarksskipulagi. Skipting aflaheimilda á einstök skip á árunum 2010 og 2011 hefur gefið góða raun og verið, ásamt öðru, forsenda þess að aukinn hluti aflans hefur farið til manneldisvinnslu, eins og fram kemur í eftirfarandi töflu sem ráðuneytið hefur tekið saman á grundvelli gagna frá Hagstofu Íslands:

Hlutfall makrílafla íslenskra skipa sem ráðstafað var
til manneldis samkvæmt útflutningsskýrslum.

2007 2008 2009 2010 2011 2012
Afli (t) 36.500 112.353 116.147 120.848 153.352 145.888
Manneldishluti (t)* 73 5.980 17.790 78.191 146.827 138.843
% 0,2 5,3 15,3 64,7 95,7 95,2
* Hér er um áætlun að ræða á grundvelli upplýsinga um útflutningsverðmæti og að teknu tilliti til áætlaðra nýtingarhlutfalla og aðferða við vinnslu makríls.

    Ætla má að með hlutdeildarsetningu makrílstofnsins, líkt og annarra stofna, náist fram hagræðing við veiðarnar, tækifæri til að stýra veiðum á besta tíma og sú verðmætaaukning og þjóðhagslegur ávinningur sem almennt er viðurkenndur að náist fram með stýringu veiða með framseljanlegum aflahlutdeildum.

     4.      Hvaða gögn liggja fyrir af hálfu ráðuneytisins til grundvallar kvótasetningu á makríl?
    Fyrirliggjandi eru upplýsingar frá Fiskistofu um afla og ráðstöfun hans auk framangreindra álita tveggja hagfræðinga. Þá liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis, dags. 10. júní 2014. Engin sérstök gögn áður ótalin liggja fyrir, en Fiskistofa ræður yfir upplýsingum um aflamagn einstakra skipa í makríl á næstliðnum árum og Hagstofan hefur upplýsingar um afla og verðmæti.