Ferill 417. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 625  —  417. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Fiskistofu og ýmsum öðrum lögum (gjaldskrárheimild).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992, með síðari breytingum.
1. gr.

    II. kafli laganna, sem hefur fyrirsögnina Gjaldtökuheimildir, orðast svo:

    a. (5. gr.)

Gjaldskrá Fiskistofu.

    Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Fiskistofu, gjaldskrá fyrir þjónustu og eftirlit sem Fiskistofu er falið að sinna samkvæmt lögum þessum, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um vinnslu afla um borð í skipum, lögum um lax- og silungsveiði, lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, og upplýsingalögum. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Heimilt er að innheimta gjöld fyrir eftirfarandi eftirlit og þjónustu:
     1.      úthlutun aflamarks á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða,
     2.      úthlutun aflamarks á grundvelli 10. gr. laga um stjórn fiskveiða,
     3.      móttöku tilkynninga vegna flutnings aflamarks og krókaaflamarks og erinda vegna staðfestingar á flutningi aflahlutdeilda og krókaaflahlutdeilda,
     4.      gerð þjónustusamninga vegna rafrænna tilkynninga um flutning aflamarks,
     5.      sendingu símskeyta og annarra tilkynninga um umframafla,
     6.      útgáfu vigtunarleyfa og úttektir á vigtunaraðstöðu,
     7.      úttektir á fiskmörkuðum erlendis og kostnað vegna eftirlitsmanna á slíkum mörkuðum,
     8.      kostnað vegna ferða eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipi erlendis,
     9.      úttektir á vinnsluskipum,
     10.      veru eftirlitsmanna um borð í skipum,
     11.      útgáfu veiði- og vinnsluvottorða,
     12.      afladagbækur,
     13.      útgáfu CITES-vottorða og -leyfa,
     14.      útgáfu leyfa til framkvæmda við ár og vötn,
     15.      sérvinnslu upplýsinga og aðgang að gagnasöfnum.
    Fyrir eftirlit og þjónustu samkvæmt þessari grein skal greitt gjald sem er ekki hærra en raunkostnaður til að standa straum af kostnaðarþáttum við veitingu þjónustu og eftirlits. Þannig skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, ferðakostnað, kostnað vegna þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar og tækja, stjórnunar og stoðþjónustu.

    b. (6. gr.)

Gjald fyrir veiðileyfi.

    Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, skal greiða 22.000 kr.
    Við útgáfu leyfis til strandveiða skal, auk greiðslu fyrir leyfi skv. 1. mgr., greiða 50.000 kr. í strandveiðigjald. Fiskistofa innheimtir gjaldið. Tekjum af strandveiðigjaldi skal ráðstafa til þeirra hafna þar sem afla, sem fenginn er við strandveiðar, hefur verið landað. Eftir lok veiðitímabils skal Fiskistofa á grundvelli aflaupplýsingakerfis Fiskistofu greiða hverri höfn í hlutfalli við hlut viðkomandi hafnar í heildarafla sem fenginn er við strandveiðar á því tímabili, reiknað í þorskígildum.

    c. (7. gr.)

Kostnaður vegna veru veiðieftirlitsmanna um borð í skipum.

    Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð í skipum sem stunda veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.
    Auk kostnaðar skv. 1. mgr. skulu útgerðir skipa, sem hafa leyfi Fiskistofu til að vinna afla um borð, greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr., vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð. Sama gildir sé veiðieftirlitsmaður Fiskistofu um borð í fiskiskipi á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum.
    Hafi stjórnvöld, á grundvelli milliríkjasamnings eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni, sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands, skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður skulu útgerðir skipa, er stunda veiðar úr þeim stofni, auk kostnaðar skv. 1. mgr., greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr., fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa, sem stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald fyrir hvern dag sem skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldi skv. 1. málsl. og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum sem veiðarnar stunda án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum.

    d. (8. gr.)

Innheimta gjalda.

    Fiskistofa annast innheimtu gjalda samkvæmt þessum kafla. Gjöldin skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn skal út eftir að viðkomandi þjónusta eða eftirlit fer fram. Gjalddagi er við úgáfu reiknings og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Innheimta má gjöld samkvæmt þessari grein með fjárnámi án undangengis dóms eða sáttar. Allar tekjur samkvæmt þessum kafla skulu renna óskiptar til Fiskistofu að frátöldum tekjum af strandveiðigjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu gjöld fyrir veiðileyfi skv. 6. gr. greidd áður en leyfi er gefið út.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 6. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir úthlutun aflamarks samkvæmt þessari málsgrein skal útgerð skips greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrir úthlutun aflamarks til einstakra skipa samkvæmt þessari grein skal útgerð skips greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 6. mgr. 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sá sem leitar staðfestingar Fiskistofu á að flutningur aflaheimildar sé innan heimilaðra marka skal greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Sá sem tilkynnir um flutning aflamarks skal greiða Fiskistofu gjald með hverri tilkynningu samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
     b.      5. málsl. 3. mgr. orðast svo: Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og skal greiða gjald til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

6. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að innheimta gjald fyrir afladagbækur samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996,
með síðari breytingum.

7. gr.

    3. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Um fjárhæð gjalda vegna kostnaðar samkvæmt þessari grein vísast til gjaldskrár Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

8. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsækjandi um leyfi til vigtunar samkvæmt þessari málsgrein skal greiða gjald fyrir útgáfu leyfis og úttekt á vigtunaraðstöðu samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „sambærilegar veiðar“ í 1. málsl. kemur: eða að ekki sé farið að lögum og reglum um veiðarfæri.
     b.      Í stað orðanna „sjö daga eða sjö veiðiferðir“ í 2. og 4. málsl. kemur: einn dag eða eina veiðiferð.
     c.      Á eftir 3. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Um fjárhæð kostnaðar útgerðar vegna eftirlits samkvæmt þessari grein vísast til gjaldskrár Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
     d.      Í stað orðanna „áttunda degi eða áttundu“ í 4. málsl. kemur: öðrum degi eða annarri.

10. gr.

    8. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Útgerð viðkomandi skips skal bera kostnað af símskeytum og öðrum tilkynningum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og er vísað til gjaldskrár Fiskistofu varðandi fjárhæðir, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

11. gr.

    Við 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um fjárhæð kostnaðar útgerðar vegna eftirlits samkvæmt þessari grein vísast til gjaldskrár Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um vinnslu afla um borð í skipum, nr. 54/1992,
með síðari breytingum.

12. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Framangreint álit Fiskistofu byggist á úttekt Fiskistofu og skal greitt fyrir slíka úttekt samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

V. KAFLI
Breyting á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum.
13. gr.

    Við 4. mgr. 33. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir útgáfu leyfis skv. 1. málsl. 1. mgr. greiðist gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.

VI. KAFLI
Brottfall laga um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, með síðari breytingum.
14. gr.

    Lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, falla úr gildi.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2015.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði gjaldskrárheimild í lög um Fiskistofu sem heimilar Fiskistofu að innheimta gjöld vegna veittrar þjónustu og eftirlits á grundvelli gjaldskrár. Sum þeirra gjalda, sem upp eru talin í gjaldskrárákvæði frumvarpsins, eiga sér fyrirmynd í núgildandi lögum en önnur eru ný.Þykir rétt að gjaldtökuheimildir Fiskistofu nái yfir öll tilvik vegna lögbundins eftirlits og þjónustu þar sem því verður komið við.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Með frumvarpinu er lagt til að öll gjaldtökuákvæði Fiskistofu, sem er að finna víða í löggjöf, verði færð á einn stað undir ein lög. Þannig er löggjöf, sem lýtur að gjaldtökunni, gerð gegnsærri og yfirsýn bætt.
    Þá er talin bót að gjaldskrárheimild í lögum um Fiskistofu í stað fastra fjárhæða gjalda í lögum. Með gjaldskrá má bregðast með skjótari hætti við breytingum á raunkostnaði enda skal fjárhæð gjalda ávallt endurspegla raunkostnað stofnunarinnar fyrir veitta þjónustu og eftirlit.
    Á undanförnum árum hefur eftirlit og þjónusta Fiskistofu aukist umtalsvert vegna fjölgunar verkefna sem stofnuninni hafa verið falin með lögum án þess að heimild hafi fylgt til innheimtu gjalda vegna þeirra. Þykir rétt að samræma þau tilvik sem Fiskistofu er heimilt að innheimta gjöld vegna lögbundins eftirlits og þjónustu þannig að þau nái yfir öll slík tilvik. Sömuleiðis þykir eðlilegt að eftirlitsþegar og þiggjendur þjónustu, þ.e. atvinnugreinin sjálf, standi straum af kostnaði fremur en að það falli á hinn almenna skattborgara.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið er tvíþætt, annars vegar er lagt til að komið verði á gjaldskrárheimild í lögum um Fiskistofu, nr. 36/1993, og hins vegar eru lagðar til breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem nauðsynlegar eru vegna tilkomu gjaldskrárheimildarinnar.
    Meginefni frumvarpsins er að finna í 1. gr. þess en þar er ákvæði sem kveður á um heimild Fiskistofu til gjaldtöku á grundvelli gjaldskrár sem staðfest verður af ráðherra. Með þessu ákvæði er tryggt að í lögum sé með skýrum hætti kveðið á um heimild Fiskistofu til innheimtu gjalda. Gjaldtaka samkvæmt 3.–5. og 7.–8. tölul. er óbreytt frá núgildandi lögum. Nýja gjaldtökuliði er að finna í 1., 2., 6., 9. og 11.–15. tölul., en hér er helst um að ræða gjöld vegna úttekta, útgáfu leyfa og vottorða og gjöld vegna sérvinnslu upplýsinga og aðgangs að gagnasöfnum. Í 10. tölul. er kveðið á um gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum en þessi gjaldtaka er ekki nýmæli. Hins vegar gert ráð fyrir breytingu á þeirri gjaldtöku á þann hátt að útgerð greiði allan kostnað fyrir veru eftirlitsmanns um borð samkvæmt lögum um stjórn Fiskveiða, nr. 116/2006, frá og með öðrum degi í stað þess áttunda eða áttundu veiðiferð, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Við samningu 1. gr. frumvarpsins var sérstaklega hugað að sjónarmiði um afmörkun á þeim kostnaðarliðum sem felldir eru undir gjaldtökuheimildir. Í ákvæðinu eru því þeir kostnaðarliðir, sem gjaldi er ætlað að standa undir, skýrt tilgreindir. Í 3. mgr. 1. gr. eru þessir kostnaðarliðir tilgreindir en þeir eru laun og launatengd gjöld starfsfólks sem sinnir störfum vegna þjónustu eða eftirlits og annar kostnaður vegna starfsfólks, þ.e. kostnaðar vegna ferða, þjálfunar, endurmenntunar, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskiptabúnaðar, tækja, stjórnunar og stoðþjónustu. Þá er einnig tilgreindur kostnaður vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu. Við samningu greinarinnar var jafnframt höfð að leiðarljósi sú meginregla að ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda megi ekki byggjast á skattalegum sjónarmiðum um almenna tekjuöflun.
    Þá er einnig að finna í c-lið 1. gr. og 2.–13. gr. frumvarpsins ákvæði þar sem lagt er til að vísað sé til gjaldskrár Fiskistofu varðandi fjárhæðir gjalda í stað þess að þær séu tilgreindar í einstökum lagaákvæðum eins og gert er í núgildandi lögum.
    Eins og að framan greinir er löggjöf er lítur að gjaldtöku Fiskistofu gerð gegnsærri með bættri yfirsýn yfir gjaldtökuákvæði sem nú er að finna víða í löggjöf og þau færð á einn stað undir löggjöf um Fiskistofu. Í þessu ljósi er lagt til í 14. gr. frumvarpsins að lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, séu felld úr gildi og flest ákvæði þeirra færð undir löggjöf um Fiskistofu.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki var talið tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið var unnið í náinni samvinnu við Fiskistofu enda varðar efni þess þá stofnun sérstaklega. Frumvarpið var kynnt fyrir helstu hagsmunaaðilum. Faglegt samráð fór fram við forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið við samningu frumvarpsins.

VI. Mat á áhrifum.
    Ljóst er að samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir atvinnugreinina. Eins og að framan greinir er það hins vegar talið eðlilegra að eftirlitsþegar og þiggjendur þjónustu, þ.e. atvinnugreinin sjálf, standi straum af kostnaði fremur en að það falli á hinn almenna skattborgara með hækkun á framlögum til hennar í fjárlögum. Með því að tryggja fjármuni til reksturs þjónustu og eftirlits með útgerðum og fiskvinnslu verður hægt að standa betur vörð um nytjastofna sjávar sem eru sameiginleg auðlind þjóðarinnar. Kostnaður mun þó dreifast á útgerðir og fiskvinnslur í réttu hlutfalli við umsvif þeirra, notkun á þjónustu og þörf á eftirliti. Breytingarnar munu jafnframt hafa áhrif á þá aðila sem óska eftir aðgangi að sérunnum gögnum frá Fiskstofu.
    Frumvarpið mun ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Kostnaðarauki Fiskistofu vegna frumvarpsins er talinn vera óverulegur. Stofnunin hefur þegar yfir að ráða starfsfólki og aðstöðu til þess að innheimta gjöld og framkvæma greiningar á kostnaði. Fjölgun gjaldaliða hefur hverfandi áhrif á rekstrarkostnað stofnunarinnar.
    Telja verður að ávinningur af samþykkt þessa frumvarps verði mun meiri en hugsanleg neikvæð áhrif þess. Þegar litið er til þeirra hagsmuna sem verið er að vernda með því að tryggja frekar starfhæfni Fiskistofu, er ljóst að þeir vinna upp þau neikvæðu áhrif sem aukin gjaldtaka hefur á atvinnugreinina í ljósi heildarveltu greinarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Um a-lið (5. gr.).
    Í 1. mgr. er kveðið á um staðfestingu ráðherra, að fengnum tillögum Fiskistofu, á gjaldskrá Fiskistofu fyrir þjónustu og eftirlit sem Fiskistofu er falið að annast samkvæmt ýmsum lögum sem eru upptalin í 1. mgr. Hér er um nýmæli að ræða þar sem ekki hefur áður verið í lögum heimild til handa Fiskistofu til innheimtu gjalda samkvæmt gjaldskrá. Þá segir að birta skuli gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.
    Í 2. mgr. er lögfest heimild Fiskistofu til innheimtu þjónustu- og eftirlitsgjalda í 15 liðum. Sum þeirra gjalda, sem upp eru talin í 2. mgr., eiga sér fyrirmynd í núgildandi lögum. Í 1. tölul. er heimilað að taka gjald fyrir úthlutun á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Um er að ræða aflamark sem fæst í skiptum á tilboðsmarkaði. Í 2. tölul. er heimild til að taka gjald vegna úthlutunar aflamarks vegna skel- og rækjubóta og byggðakvóta á grundvelli 10. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Í 3. tölul. er heimild til að innheimta gjald fyrir móttöku tilkynninga vegna flutnings aflamarks og erinda vegna staðfestinga á flutningi aflahlutdeilda, en nánar er kveðið á um þessi atriði í 12. og 15. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Í 4. tölul. er heimild til að innheimta gjald fyrir gerð þjónustusamninga við útgerðir vegna rafrænna tilkynninga um flutning aflamarks, en kveðið er á um gerð slíkra samninga í 15. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Í 5. tölul. er heimilt að taka gjald fyrir sendingar símskeyta og annarra tilkynninga um umframafla og er nánar kveðið á um það í 14. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í 6. tölul. er heimild til að taka gjald fyrir útgáfu vigtunarleyfa og úttekt á vigtunaraðstöðu, en nánar er kveðið á um slík leyfi í 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í 7. tölul. er kveðið á um gjaldtöku fyrir úttektir og eftirlit með fiskmörkuðum erlendis, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í 8. tölul. er fjallað um kostnað vegna eftirlits með löndunum erlendis, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í 9. tölul. er heimild til að innheimta gjald vegna úttekta á vinnsluskipum, sbr. 5. gr. laga um vinnslu afla um borð í skipum, nr. 54/1992. Í 10 tölul. er kveðið á um heimild til að innheimta gjald vegna veru eftirlitsmanna í skipum. Í 11. tölul. er kveðið á um heimild til að innheimta gjöld fyrir útgáfu veiði- og vinnsluvottorða, en þau eru í dag gefin út á grundvelli samkomulags við Evrópusambandið, frá 29. nóvember 2009, um útgáfu vottorða í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1005/2008, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 994/2013 um skýrsluskil vegna viðskipta með sjávarafla. Í 12. tölul. er að finna heimild til gjaldtöku fyrir afladagbækur en sérstaklega er kveðið á um þær í 17. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Lagt er til að gjaldtaka fyrir afladagbækur einskorðist við afladagbækur á pappírsformi, en rafrænni afladagbók hefur verið dreift til notenda og hún verið uppfærð án endurgjalds og gerir frumvarpið ráð fyrir að sú framkvæmd verði óbreytt a.m.k. á næstu árum. Í 13. tölul. er kveðið á um gjaldtöku vegna útgáfu CITES-vottorða og -leyfa samkvæmt lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000. Í 14. tölul. er kveðið á um heimild til gjaldtöku fyrir útgáfu leyfa til framkvæmda við ár og vötn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Að lokum er í 15. tölul. kveðið á um heimild til gjaldtöku vegna sérvinnslu upplýsinga og aðgang að gagnasöfnum. Fiskistofa safnar miklu magni af upplýsingum um fiskveiðar og ráðstöfun afla. Það færist sífellt í vöxt að óskað sé eftir aðgangi að sérunnum gögnum frá stofnuninni. Með þessu ákvæði er gert mögulegt að koma til móts við þá eftirspurn með því að tryggja endurgjald sem stendur straum af kostnaði við slíka gagnavinnslu.
    Gjaldtaka skv. 1., 2., 6. og 11.–15. tölul. er nýmæli, en gjöld samkvæmt öðrum töluliðum hafa verið innheimt um árabil.
    3. mgr. er í samræmi við meginreglur um gjaldtökuheimildir hér á landi og byggist á því að gjöld miðist við raunkostnað fyrir veitta þjónustu og eftirlit. Þannig kemur fram í 1. málsl. 3. mgr. að fyrir eftirlit og þjónustu samkvæmt greininni skuli greitt gjald sem sé ekki hærra en raunkostnaður til að standa straum af kostnaðarþáttum við veitingu þjónustu og eftirlits. Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur alloft verið bent á óskýrleika gjaldtökuheimilda, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir. Ákvæði 2. málsl. 3. mgr. tilgreinir því þann kostnað sem ætlað er að standa undir með gjöldum skv. 2. mgr. Með því eru skýrlega afmarkaðir þeir kostnaðarliðir sem staðið geta til útreiknings þeirra gjaldaliða sem heimilt er að innheimta skv. 2. mgr.
    Um b-lið (6. gr.).
    Samhljóða ákvæði er að finna í 1. gr. laga um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, með síðari breytingum, og vísast til greinargerðar þeirra laga til frekari skýringar ákvæðisins. Lagt er til að ákvæðið verði fært undir löggjöf um Fiskistofu, nr. 36/1992.
    Um c-lið (7. gr.).
    Nánast samhljóða ákvæði er að finna í 4. gr. laga um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, með síðari breytingum, og vísast til greinargerðar þeirra laga til frekari skýringar ákvæðisins. Munurinn á ákvæðunum er sá að í stað þess að tilgreindar séu einstaka fjárhæðir í ákvæðinu er vísað til gjaldskrár Fiskistofu varðandi greiðslu gjalda. Þá er ekki kveðið á um það í ákvæðinu með hvaða hætti skuli greiða gjald til Fiskistofu, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000. Hvað varðar innheimtu gjalda vísast til d-liðar. Lagt er til að ákvæðið verði fært undir löggjöf um Fiskistofu, nr. 36/1992 með framangreindum breytingum.
     Um d-lið (8. gr.).
    Í ákvæðinu er kveðið á um að Fiskistofa skuli annast innheimtu skv. II. kafla laga um Fiskistofu, nr. 36/1992. Gjöld skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn er út eftir að viðkomandi þjónusta eða eftirlit fer fram. Þá er gjalddagi reiknings við úgáfu hans og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttarvextir á greiðsluna frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Þá segir í 4. málsl. að innheimta megi gjöld samkvæmt ákvæðinu með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Í lokamálslið greinarinnar segir að allar tekjur skv. II. kafla laga um Fiskistofu skuli renna óskiptar til Fiskistofu að frátöldum tekjum af strandveiðigjaldi, sbr. 2. mgr. 6. gr.
    Lagt er til að tekið verði fram að gjöld fyrir veiðileyfi greiðist fyrir fram. Öll önnur gjöld verða innheimt eftir á með reikningi. Þetta er í samræmi þá framkvæmd sem nú er og hefur hún gefist vel.

Um 2. gr.

    Í greininn er kveðið á um gjald fyrir úthlutanir aflamarks á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Þarna er um að ræða aflamark sem fæst í skiptum á tilboðsmarkaði, en með skiptunum er ætlað að tryggja hæfilega tegundarsamsetningu aflamagns til sérstakra ráðstafana, svo sem byggðakvóta, línuívilnunar og strandveiða. Engin breyting verður á fyrirkomulagi skiptimarkaðs við þessa breytingu á ákvæðinu.

Um 3. gr.

    Í greininni er kveðið á um að útgerð skips skuli fyrir úthlutun aflamarks til einstakra skipa greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, með síðari breytingum. Þarna er um að ræða svokallaðan byggðakvóta. Afgreiðsla umsókna um byggðakvóta er umfangsmikil og kostnaðarsöm. Því þykir rétt að þeir sem fá úthlutað aflamarki á grundvelli þessa ákvæðis greiði þann kostnað sem af því hlýst.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu segir að sá sem leiti staðfestingar Fiskistofu á að flutningur aflaheimildar sé innan heimilaðra marka skuli greiða gjald samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum. Fast gjald, 5.000 kr., hefur verið innheimt fyrir þessa þjónustu samkvæmt heimild í 3. gr. laga um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, en lagt er til að gjaldið verði framvegis ákveðið í gjaldskrá.

Um 5. gr.

    Í a-lið greinarinnar segir að sá sem tilkynni um flutning aflamarks skuli greiða Fiskistofu gjald með hverri tilkynningu samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
    Í b-lið greinarinnar segir að Fiskistofu sé heimilt að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og skuli greiða gjald til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
    Gjöld vegna flutnings á aflamarki hafa verið lögákveðin og eru samkvæmt núgildandi 3. mgr. 15. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, 3.200 kr. fyrir einstaka flutninga og 12.000 kr. fyrir þjónustusamninga. Lagt er til að framvegis verði gjöld þessi ákveðin í gjaldskrá.

Um 6. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimild Fiskistofu til að innheimta gjald fyrir afladagbækur samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu, sbr. 5. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum. Fiskistofa afhendir útgerðaraðilum afladagbækur ýmist rafrænt eða á pappírsformi. Engin greiðsla hefur verið tekin fyrir þetta hingað til en lagt er til að gjaldtaka fyrir afladagbækur einskorðist við afladagbækur á pappírsformi. Rafrænni afladagbók hefur verið dreift til notenda og hún verið uppfærð án endurgjalds og gerir frumvarpið ráð fyrir að sú framkvæmd verði óbreytt á næstu árum.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er lagt til að í gjaldskrá verði kveðið á um fjárhæð gjalda vegna eftirlits með fiskmörkuðum og löndunum erlendis. Gjaldtökuheimild er þegar til staðar í ákvæðinu og er eina breytingin að gjöld skulu ákveðin með gjaldskrá en ekki með reglum ráðherra. Eftirlit erlendis er fátítt um þessar mundir þar sem kveðið hefur verið á um það í reglugerð að allur útfluttur afli skuli vigtaður innan lands áður en hann fer úr landi. Ekki er þó útilokað að beita þurfi þessari heimild í framtíðinni.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilað verði að innheimta samkvæmt gjaldskrá kostnað sem til fellur vegna útgáfu leyfa til heimavigtunar og endurvigtunar. Áður en leyfi eru gefin út fer fram úttekt á aðstöðu hjá umsækjanda. Ekki hefur verið innheimt gjald fyrir þessi leyfi eða úttektir sem þeim tengjast.

Um 9. gr.

    Í 13. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, kemur fram að telji Fiskistofa að afli skips sé að stærðarsamsetningu, aflasamsetningu eða gæðum frábrugðinn afla annarra skipa sem stunda sambærilegar veiðar skuli Fiskistofa setja eftirlitsmann um borð í skipið sem fylgist sérstaklega með veiðum þess. Í a-lið 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að gildissvið ákvæðisins verði víkkað þannig að það nái m.a. yfir eftirlit með veiðarfærum grásleppubáta. Nokkuð þrálát umræða hefur verið um að reglur um fjölda grásleppuneta í sjó séu ekki virtar og hefur eftirlit Fiskistofu upplýst og kært nokkur slík mál.
    Í b- og d-lið er lagt til að greiðsluskylda vegna eftirlits hefjist fyrr en verið hefur. Í dag gera lög ráð fyrir að útgerð greiði kostnað af umræddu eftirliti hafi það staðið í sjö daga eða sjö túra en reynslan hefur sýnt að sá tími er það langur að greiðsluskylda lendir ekki á útgerðarmönnum. Eftirlit af þessu tagi krefst mikillar viðveru eftirlitsmanna og kemur niður á möguleikum stofnunarinnar til að sinna öðrum eftirlitsþáttum og er því lagt til að gjaldskylda lendi á útgerð eftir einn dag eða eina veiðiferð í stað sjö. Telja verður eðlilegt að þeir aðilar sem hið sérstaka eftirlit beinist að beri þann kostnað sem af eftirlitinu hlýst.
    Í c-lið er að finna tilvísun til gjaldskrár Fiskistofu.

Um 10. gr.

    Í greininni er kveðið á um að gjald fyrir símskeyti og aðrar tilkynningar vegna umframaflastöðu skuli ákveðin með gjaldskrá. Gjöld fyrir slík skeyti eru innheimt í dag og er fjárhæð þeirra ákveðin í reglugerð. Því er aðeins um formbreytingu að ræða sem miðar að því að samræma gjaldheimildir.

Um 11. gr.

    Í 16. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, er kveðið á um að heimilt sé að setja eftirlitsmann um borð í fiskiskip í allt að tvo mánuði hafi skipið ítrekað verið svipt veiðileyfi. Eina breytingin sem lögð er til er að gjöld þessi verði ákveðin með gjaldskrá.

Um 12. gr.

    Í 12. gr. er lagt til að innheimt verði gjald sem samsvarar kostnaði við lögbundnar úttektir Fiskistofu á vinnsluskipum samkvæmt lögum um vinnslu afla um borð í skipum, nr. 54/1992. Ekkert gjald hefur verið innheimt fyrir slíkar úttektir samkvæmt núgildandi lögum.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilað verði að innheimta gjald fyrir útgáfu leyfa til framkvæmda við ár og vötn skv. 33. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Algengustu leyfin í þessum flokki eru leyfi til malartekju. Útgáfa slíkra leyfa getur kostað umtalsverða vinnu við gagnaöflun og mat á aðstæðum. Ekkert gjald er innheimt fyrir þessi leyfi í dag.

Um 14. gr.

    Í 14. gr. er lagt til að lög um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, falli úr gildi. Ákvæði sem samsvara ákvæðum laganna er að finna í þessu frumvarpi, að undanskildu ákvæði 5. gr. laganna um kostnað við staðsetningarkerfi. Ákvæði um kostnað við slík kerfi er að finna í lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, og lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og þykir því óþarfi að viðhalda slíku ákvæði í lögum um veiðieftirlitsgjald.

Um 15. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. apríl 2015. Sú tímasetning miðar að því að tryggja að gjaldskrá verði tilbúin þegar eldri gjaldheimildir falla niður og gefur Fiskistofu hæfilegt ráðrúm til þess að aðlaga innheimtukerfi sitt að breytingunum.


Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Fiskistofu og ýmsum öðrum lögum (gjaldskrárheimild).

    Markmið frumvarpsins er í fyrsta lagi að færa öll gjaldtökuákvæði Fiskistofu, sem er að finna víða í löggjöf, undir ein lög. Þannig verði löggjöf sem lýtur að gjaldtöku stofnunarinnar gerð gegnsærri og yfirsýn bætt yfir gjaldtökuákvæðin. Í öðru lagi verði Fiskistofu veitt lagaheimild til að innheimta gjöld vegna veittrar þjónustu og eftirlits stofnunarinnar á grundvelli gjaldskrár að því tilskildu að fjárhæðir gjalda endurspegli raunkostnað. Í þriðja lagi er samkvæmt frumvarpinu fjölgað þeim tilvikum sem Fiskistofu verður heimilt að innheimta þjónustu- og eftirlitsgjöld. Þannig er gætt samræmis milli gjaldtöku annars vegar og þjónustu og eftirlits hins vegar, þ.e. í sumum tilvikum hefur stofnunin heimild til þess að leggja á gjöld vegna lögbundins eftirlits og þjónustu en í sumum tilvikum ekki. Í frumvarpinu er því um að ræða formbreytingar á gjaldtökuheimildum stofnunarinnar, þ.e. að færa núverandi gjaldtöku í gjaldskrá, en einnig að auka þann hlut sem fjármagnaður verði með gjaldtöku.
    Samkvæmt gildandi lögum eru innheimt ýmis gjöld fyrir eftirlit og þjónustu Fiskistofu og hafa tekjur af þessum gjöldum verið markaðar stofnuninni í fjárlögum. Fjárhæð þessarar gjaldtöku hefur verið sérstaklega tilgreind í lögum en með frumvarpinu er lögð til sú breyting að þess í stað skuli gjaldtakan vera samkvæmt gjaldskrá og miðast við að vera ekki hærri en raunkostnaður við að sinna þessum verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu má í eftirfarandi töflu sjá hver tekjuáhrif frumvarpsins eru áætluð en ráðuneytið gerir ráð fyrir að nýir eða breyttir gjaldtökuliðir frumvarpsins muni skila stofnuninni samtals 52,9 m.kr. í auknum tekjum. Gert er ráð fyrir að tekjur af þessum gjöldum muni flokkast sem aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs og verði markaðar til Fiskistofu til að standa undir framkvæmd eftirlits og þjónustu samkvæmt lögunum. Tekjur af gjaldi fyrir aðgang að gögnum og sérvinnslu munu hins vegar flokkast sem sértekjur stofnunarinnar.

Verkefni samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu Tekjur fyrir
breytingu
Tekjur eftir
breytingu
Tekju-
aukning
Úthlutun aflamarks á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða (tilboðsmarkaður) 0 1.120.000 1.120.000
Úthlutun aflamarks á grundvelli 10. gr. laga um stjórn fiskveiða (byggðakvóti) 0 6.500.000 6.500.000
Tilkynningar um flutning aflamarks 22.400.000 22.400.000 0
Tilkynningar um flutning aflahlutdeilda 950.000 950.000 0
Þjónustusamningar um millifærslur aflamarks 432.000 432.000 0
Símskeyti og skyldar tilkynningar vegna umframafla 2.840.000 2.840.000 0
Vigtunarleyfi og úttektir 0 4.000.000 4.000.000
Úttektir og eftirlit á fiskmörkuðum erlendis 0 0 0
Eftirlit með löndun erlendis 2.500.000 2.500.000 0
Úttektir á vinnsluskipum 0 4.000.000 4.000.000
Eftirlitsmaður um borð 30.740.000 57.200.000 26.460.000
Veiðivottorð 0 3.000.000 3.000.000
Vinnsluvottorð 0 1.400.000 1.400.000
Afladagbækur 0 1.250.000 1.250.000
CITES-vottorð og leyfi 0 750.000 750.000
Leyfi til framkvæmda við ár og vötn 0 1.400.000 1.400.000
Aðgangur að gögnum og sérvinnsla 0 3.000.000 3.000.000
Samtals (kr.) 59.862.000 112.742.000 52.880.000

    Í frumvarpinu eru lagðir til nokkrir nýir gjaldtökuliðir til að standa undir kostnaði við ýmis verkefni Fiskistofu. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir úthlutun á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Um er að ræða aflamark sem fæst í skiptum á tilboðsmarkaði. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að taka gjald vegna úthlutunar aflamarks vegna skel- og rækjubóta og byggðakvóta á grundvelli 10. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu vigtunarleyfa og úttekt á vigtunaraðstöðu, en nánar er kveðið á um slík leyfi í 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að innheimta gjald vegna úttekta á vinnsluskipum, sbr. 5. gr. laga um vinnslu afla um borð í skipum, nr. 54/1992. Í fimmta lagi er lagt til að heimilt verði að innheimta gjöld fyrir útgáfu veiði- og vinnsluvottorða, en þau eru nú gefin út á grundvelli samkomulags við Evrópusambandið. Í sjötta lagi er gert ráð fyrir gjaldtöku fyrir afladagbækur en sérstaklega er kveðið á um þær í 17. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í sjöunda lagi er lögð til gjaldtaka vegna útgáfu CITES-vottorða og leyfa samkvæmt lögum um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000. Í áttunda lagi er lagt til að heimilt verði að innheimta gjald fyrir útgáfu leyfa til framkvæmda við ár og vötn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Í níunda lagi er kveðið á um heimild til gjaldtöku vegna sérvinnslu upplýsinga og aðgang að gagnasöfnum. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir breytingu á núverandi gjaldtöku vegna veru eftirlitsmanna um borð í skipum skv. 13. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, á þann hátt að útgerð greiði allan kostnað fyrir veru eftirlitsmanns um borð frá og með öðrum degi í stað þess áttunda eins og nú er. Samtals er áætlað að þessar gjaldtökubreytingar muni skila stofnuninni sem fyrr segir um 52,9 m.kr. tekjuaukningu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má þannig gera ráð fyrir að núverandi útgjaldaheimild Fiskistofu verði í auknum mæli fjármögnuð með mörkuðum ríkistekjum og sértekjum, eða sem nemur um 52,9 m.kr. Bein framlög úr ríkissjóði munu þá lækka í sama mæli sem leiðir til samsvarandi betri afkomu fyrir ríkissjóð. Útgjaldaheimild Fiskistofu yrði hins vegar óbreytt eftir sem áður.