Ferill 53. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 651  —  53. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat
á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum (viðaukar,
tilkynningarskyldar framkvæmdir, flutningur stjórnsýslu).

Frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Minni hlutinn er samþykkur meginatriðum málsins en gerir athugasemd við einn þátt þess sem er þess eðlis að rétt þykir að gera grein fyrir henni í sérstöku áliti og leggja til breytingu á frumvarpinu.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög taki ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda sem falla í C-flokk 1. viðauka nema þær framkvæmdir sem þarfnast leyfi Mannvirkjastofnunar. Í fyrri drögum frumvarpsins var verkefnið hjá Skipulagsstofnun en stofnunin tekur samkvæmt gildandi lögum allar matsskylduákvarðanir og er auk þess með frumvarpinu falið að taka aðrar matsskylduákvarðanir en þær sem sveitarfélögin taka. Minni hlutinn bendir á að sveitarfélögin eru misvel í stakk búin til að sinna þessu hlutverki. Ekki er vafi um það að stærstu sveitarfélögin, eins og Reykjavík, geta vel sinnt þessu hlutverki á faglegan hátt en það kann að vera mun erfiðara fyrir minni sveitarfélög þar sem stjórnsýsla þeirra er fámennari og sérhæfing minni. Vakna þá upp spurningar um jafnræði og með hversu samræmdum hætti sveitarfélögin munu sinna þessu hlutverki. Einnig getur hæglega komið upp sú staða að sveitarfélögin séu framkvæmdaraðilar og taki því matsskylduákvarðanir varðandi eigin framkvæmdir. Eru sveitarfélögin þá komin með á eina hendi ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdaleyfi og skipulagsvald. Þá er rétt að benda á að þær framkvæmdir sem taldar eru upp í C-flokki 1. viðauka eru ekki allar minni háttar og vel kann að vera að einhverjar þeirra verði taldar fela í sér umtalsverð umhverfisáhrif og því mikilvægt að vanda vinnu við töku matsskylduákvarðana. Hjá Skipulagsstofnun hefur orðið til mikil sérþekking á málaflokknum sem rétt er að nýta áfram. Þá hefur minni hlutinn einnig efasemdir um að fyrirkomulagið sé til einföldunar þar sem Skipulagsstofnun þarf að hafa eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaganna og að verkefninu verði sinnt á samræmdan hátt. Má vel vera að þetta kalli á aukna vinnu og aukinn kostnað bæði hjá sveitarfélögunum og Skipulagsstofnun en það á eftir að koma í ljós. Þá bendir minni hlutinn einnig á að tilgangur frumvarpsins er að bregðast við athugasemdum ESA sem bárust árið 2010. Þær athugasemdir lutu ekki að stjórnsýslu matsskylduákvarðana og því ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi í ljósi athugasemdanna líkt og lagt er til í frumvarpinu. Í ljósi alls framangreinds telur minni hlutinn ekki rétt að sinni að fela sveitarfélögunum að taka matsskylduákvarðanir vegna framkvæmda í C-flokki 1. viðauka og leggur til breytingu þess efnis að hlutverkið verði enn sem komið er hjá Skipulagsstofnun.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


     1.      B- og c-liðir 2. gr. falli brott.
     2.      Við 4. gr.
                  a.      1. efnismgr. b-liðar orðist svo:
                     Framkvæmdaraðili skal tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B og C í 1. viðauka við lög þessi. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um hvaða gögn skuli lögð fram með tilkynningu um framkvæmd og þá málsmeðferð sem viðhöfð skal við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda.
                  b.      3. efnismgr. b-liðar orðist svo:
                     Vegna framkvæmdar í flokki C í 1. viðauka laga þessara skal Skipulagsstofnun innan tveggja vikna frá því að fullnægjandi gögn um framkvæmdina berast taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögum þessum. Við ákvörðun um matsskyldu skal Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga þessara. Skipulagsstofnun er heimilt að leita álits annarra aðila, svo sem annarra leyfisveitenda, eftir eðli máls hverju sinni. Leiti Skipulagsstofnun álits lengist frestur hennar til að taka ákvörðun um matsskyldu um eina viku. Skal Skipulagsstofnun gera grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi.
                  c.      4. efnismgr. b-liðar falli brott.
     3.      8. gr. falli brott.
     4.      B- og c-liðir 10. gr. falli brott.

Alþingi, 2. desember 2014.

Róbert Marshall,
frsm.
Katrín Júlíusdóttir. Helgi Hrafn Gunnarsson.
Svandís Svavarsdóttir.