Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 658  —  327. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um opnun sendibréfa.


     1.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, opnað sendibréf til og frás Íslandi án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins sakamáls? Í hversu mörgum af þeim tilfellum var beðið um dómsúrskurð fyrir opnun sendibréfsins? Svar óskast sundurliðað eftir embætti/stofnun sem opnaði sendibréfin, eftir því hvort þau voru á leið til eða frá erlendu ríki, hvert erlenda ríkið var, ástæðu opnunar og ári.
    Spurt er um það hversu oft íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, hafa opnað sendibréf á tilteknu tímabili. Rétt er að taka fram í upphafi svarsins að á verksviði ráðuneytisins er það einungis embætti tollstjóra sem kemur til álita varðandi þau atriði sem um er spurt.
    Tolleftirlit með innflutningi vöru byggist alla jafna ekki á rannsókn tiltekins sakamáls og ekki er gerð krafa í lögum um dómsúrskurð til að framkvæma tolleftirlit.
    Lítil tölfræði liggur fyrir um opnun þunnra bréfasendinga hjá tollstjóra auk þess sem ekki liggur fyrir afmörkuð lagaleg skilgreining á hugtakinu sendibréf. Þó liggur fyrir að á tímabilinu frá 1. júlí 2014 og fram til 20. nóvember 2014 opnuðu tollyfirvöld 3.722 bréfasendingar sem voru 0,1 g til 2 kg að þyngd. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandspósti komu á sama tíma 1.150.000 bréfasendingar til landsins.
    Þrátt fyrir heimildir tollstjóra, sbr. svar við 6 tölul. fyrirspurnarinnar, til að beita handahófskenndu eftirliti þá er sú verklagsregla viðhöfð hjá embættinu, í ljósi friðhelgisákvæða og meðalhófs, að þunnar bréfasendingar eru aldrei opnaðar nema einhver grunur liggi fyrir um að sending innihaldi eitthvað ólögmætt, t.d. ef fíkniefnahundur merkir við umslag.

     2.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa íslensk stjórnvöld, eða einhver í þeirra umboði, opnað sendibréf sem eru póstlögð innan lands og stíluð á innlent heimilisfang án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins sakamáls?
    Sendibréf sem póstlögð eru innanlands og stíluð á innlent heimilisfang eru ekki háð eftirliti tollstjóra og aldrei opnuð af embættinu.

     3.      Hversu oft á árunum 2005–2013 hafa sendibréf verið gerð upptæk án þess að það hafi verið hluti af rannsókn tiltekins máls? Í hversu mörgum tilfellum var beðið um úrskurð dómara? Svar óskast sundurliðað eftir embætti/stofnun er gerði bréfin upptæk, dómstól og ári.
    Tollstjóri gerir þunnar bréfasendingar aldrei upptækar. Ef sending inniheldur fíkniefni er umslag ásamt öllu innihaldi sent til lögreglu.

     4.      Þegar sendingar eru opnaðar af hálfu íslenskra stjórnvalda, eða í þeirra umboði, er skráð hver sér opnun sendingar og hvaða niðurstöðu opnun leiðir í ljós?
    Ef póstsending hefur verið opnuð er hún ávallt merkt með límmiða frá tollstjóra. Eigandi hennar er þannig upplýstur um að hún hafi verið opnuð vegna tolleftirlits. Númer þess tollvarðar sem opnaði sendinguna kemur fram á límmiðanum. Finnist eitthvað ólögmætt í sendingu er gerð haldlagningarskýrsla. Í framhaldinu er máli annað hvort lokið með sekt eða málið sent til frekari rannsóknar af hálfu lögreglu.

     5.      Hvaða eftirlit er með beitingu þeirra lagaheimilda sem heimila opnun sendinga? Hefur Persónuvernd veitt umsögn um það verklag sem er viðhaft við opnun sendinganna sem um ræðir?
    Embætti tollstjóra er lægra sett stjórnvald sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. tollalaga, nr. 88/2005, ber ráðherra að hafa eftirlit með því að tollstjóri ræki skyldur sínar samkvæmt lögum og hefur hann rétt til þess að krefja tollstjóra skýringa á öllu því er varðar framkvæmd tollalaga.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort Persónuvernd hefur veitt umsögn um það verklag sem viðhaft er við opnun sendibréfa.

     6.      Hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að tolleftirlitið, eða aðrir sem sjá um opnun bréfasendinga, megi opna sendibréf? Er þess gætt að skráður sendandi eða viðtakandi sendibréfs eigi möguleika á að vera viðstaddur opnun þess? Ef svo er, hvernig er það gert? Ef svo er ekki, af hverju er það ekki gert?
    Samkvæmt 1. mgr. 156. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er tollgæslu heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Þá er heimilt að krefjast þess að vörurnar séu fluttar í húsakynni tollstjóra eða á annan tiltekinn stað þar sem tolleftirlit fer fram og þeim framvísað þar til skoðunar.
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar fer opnun þunnra sendibréfa aldrei fram af hálfu tollstjóra nema rökstuddur grunur liggi fyrir um að sending innihaldi ólögmætan varning.
    Viðtakendur eru ekki boðaðir til að vera viðstaddir opnun sendinga. Engin lagaskylda er til þess að kalla viðtakanda sendingar til þegar opnaðar eru sendingar af hálfu tollstjóra og telja verður að slík skylda fæli almennt í sér verulegt óhagræði fyrir almenning.

     7.      Hvaða aðilar hafa leyfi á grundvelli íslenskra réttarheimilda til þess að opna bréfasendingar sem fara um íslenska lögsögu og hverjar eru þær réttarheimildir sem þeir aðilar eru bundnir af?
    Sem svar við þessum tölulið vísar ráðuneytið til svars dómsmálaráðherra við fyrirspurn á þingskjali 173 í 118. máli yfirstandandi þings.

     8.      Telur ráðherra að það verklag sem viðhaft er við opnun bréfasendinga uppfylli kröfur 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs?
    Já.