Ferill 433. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 664  —  433. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
nr. 129/1997, með síðari breytingum (fjárfestingarheimildir).


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Í stað ártalsins „2014“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða VII í lögunum kemur: 2015.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hér er lagt til að heimild til að lífeyrissjóður eigi allt að 20% af hlutafé í samlagshlutafélagi verði framlengd um eitt ár, til ársloka 2015. Heimildin kom inn í lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með 13. gr. laga nr. 171/2008, og var framlengd tvívegis, með lögum nr. 130/2009 og lögum nr. 128/2013. Lífeyrissjóðir hafa í talsverðum mæli fjárfest í samlagshlutafélögum undanfarin ár enda hentar það félagsform sjóðunum að mörgu leyti vel. Samlagshlutafélögin sjálf hafa síðan fjárfest í ýmsum eignum og þannig verið umgjörð um fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Samlagshlutafélagaformið hentar að ýmsu leyti síður fyrir félög með mjög marga eigendur en hlutafélagaformið.
    Færa má rök fyrir því að hið almenna 15% þak á eign í einstöku félagi sem veitt er undanþága frá með þessu ákvæði ætti ef til vill ekki að eiga við um fjárfestingar lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum. Auðveldara er fyrir lífeyrissjóði að standa að samlagshlutafélagi ef hlutdeild hvers og eins má vera allt að 20% en ef hún má eingöngu vera 15% vegna þess að færri sjóðir þurfa að koma að hverju félagi. Hér er þó ekki lagt til að almennu reglunni verði breytt en að undanþáguákvæðið verði hins vegar framlengt í ljósi þess að unnið er að endurskoðun lagaákvæða um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða í nefnd sem fjármála- og efnahagsráðherra setti á fót og áætlar að skila tillögum í lok þessa árs.