Ferill 324. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 688  —  324. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um opinber störf á landsbyggðinni.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig þróaðist fjöldi opinberra starfa á landsbyggðinni á tímabilinu 1. júlí 2007 – 1. júlí 2014? Svar óskast sundurliðað eftir árum og sveitarfélögum.

    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins sem heldur skrár yfir alla starfsmenn ríkisins, m.a. vegna launabókhalds. Fjársýslan getur einungis veitt upplýsingar um starfsmenn ríkisins eftir staðsetningu miðað við daginn í dag. Á grundvelli gagna Fjársýslunnar er því ekki hægt að bera saman hvernig fjöldi opinberra starfa á vegum ríkisins hefur þróast á ákveðnu tímabili.
    Í apríl 2013 kom út skýrslan Breytingar á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Í skýrslunni er byggt á kjördæmaskipan ársins 1999 og skoðað hvernig fjöldi ríkisstarfsmanna í hverjum landshluta breyttist frá árinu 2007 til 2011. Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði athugasemd við skýrsluna og taldi að upplýsingar sem fram kæmu í henni væru ekki í samræmi við upplýsingar úr bókhaldi ríkisins um ársverk á fyrrgreindu tímabili. Ráðuneytið benti á að mat á breytingum á fjölda ríkisstarfsmanna á tímabilinu 2007–2011 sé vandasamt því miklar breytingar hafi verið gerðar á starfsemi ríkisins. M.a. þurfi að hafa í huga að um 1.500 ársverk hafi færst til vegna flutninga verkefna frá ríki til sveitarfélaga og hlutafélaga. Þá hafi verkefnum verið útvistað og t.d. hafi um hundrað ársverk færst frá Landspítala af þeim sökum.
    Á www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/breyting-a-fjolda-rikisstarfsmanna.pdf máfinna áðurnefnda skýrslu og athugasemdir fjármála- og efnahagsráðuneytisins á slóðinni www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettir/Athugasemdir-vegna-skyrslu-Hagfraedistofnunar.pdf.
    Hjá Byggðastofnun er nú unnið að því að taka saman fjölda stöðugilda eftir svæðum miðað við síðustu áramót. Gert er ráð fyrir að þær upplýsingar verði tilbúnar í lok ársins 2014. Byggðastofnun telur eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðuneytið taki slíkar upplýsingar saman og birti árlega. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun er vandasamt að greina þessar upplýsingar, m.a. vegna þess að staðsetning starfa virðist skráð með mismunandi hætti. Þannig eru t.d. öll störf presta skráð hjá Biskupsstofu í Reykjavík og öll störf hjá Matvælastofnun eru skráð á Selfossi þó svo að stofnunin reki starfsstöðvar víða um land, þ.m.t. í Reykjavík.