Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 690  —  221. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um aðgerðir í loftslagsmálum.


     1.      Telur ráðherra að lækkun losunargjalds samræmist lykilaðgerð A í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum (innleiðingu viðskiptakerfis með losunarheimildir)?
    Losunargjald fylgir verði á losunarheimildum á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt lögum og er gjaldið reiknað út frá því á hverju ári. Eðli málsins samkvæmt getur það hækkað eða lækkað á milli ára.

     2.      Telur ráðherra það samræmast lykilaðgerð B í aðgerðaáætluninni (kolefnisgjaldi) að með lögum um gjaldskrárlækkanir o.fl. í vor lækkaði kolefnisgjald um 1%?
    Aðgerðin, eins og henni er lýst í áætluninni, fjallar um álagningu kolefnisgjalds, sem er áfram við lýði, en tilgreinir ekki sérstaklega upphæð þess. Í nýlegri úttekt OECD var nefnt að kolefnisgjald á Íslandi nái m.a. til fiskiskipa sem sé ekki alltaf raunin í öðrum ríkjum.

     3.      Telur ráðherra það samræmast lykilaðgerð E í aðgerðaáætluninni (eflingu göngu, hjólreiða og almenningssamgangna) að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 verður framlag til almenningssamgangna lækkað?
    Á síðustu árum hefur ríkið varið töluverðu fé til eflingar almenningssamgangna, göngu og hjólreiða, með sýnilegum árangri. Á það sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið þar sem sveitarfélögin samþykktu að fresta öllum stærri framkvæmdum í stað framlags til þessara mála. Á höfuðborgarsvæðinu og víðar hefur á undanförnum árum orðið sýnileg og merkjanleg aukning í hjólreiðum sem má líklega þakka að hluta fjölgun stíga og akreina fyrir reiðhjól, en án efa líka vitundarvakningu um heilsufar og umhverfismál. Sama á við um göngu. Fjölgun farþega með almenningssamgöngum á sér líka eflaust margþættar skýringar, framlög ríkisins til almenningssamgangna vega þar ábyggilega nokkuð þar sem að með fjárframlagi ríkisins var hægt að bæta þjónustu við notendur. Einnig koma aðrir þættir til, svo sem samningar ríkisins við landshlutasamtök sveitarfélaga um rekstur almenningssamgangna milli þéttbýliskjarna á landsbyggðinni þar sem þjónustan var færð nær notendum og þörfum þeirra sem hefur skilað sér í fjölgun farþega og meiri ánægju með þjónustuna. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er vissulega gert ráð fyrir lækkun á framlagi til þessara liða. Fjárlaganefnd hefur lagt fram breytingartillögu við 2. umræðu um frumvarpið um hækkuð framlög til almenningssamgangna.
    Það er nauðsynlegt, bæði vegna loftslagssjónarmiða og annarra, að það séu valkostir í boði í samgöngum. Þetta verkefni er margþætt og á ábyrgð nokkurra ráðuneyta auk sveitarfélaga. Það er rétt að skoða þessi mál sérstaklega í ljósi þess að Ísland þarf innan skamms að setja fram markmið til lengri tíma á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, til 2030, en núverandi aðgerðaáætlun nær til 2020. Þetta mál þarf að ræða milli ráðuneyta umhverfismála, samgöngumála og fjármála. Í öllum aðgerðum tengdum loftslagsmálum er rétt að fyrir liggi góð greining á líklegum árangri og kostnaði þannig að hægt sé að ná hámarksárangri á eins hagkvæman hátt og kostur er. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hyggst láta gera nýja slíka greiningu á kostum Íslands, bæði á sviði samgangna og annarra þátta, innan skamms.

     4.      Telur ráðherra það samræmast lykilaðgerð J í aðgerðaáætluninni (efldum rannsóknum og nýsköpun í loftslagsmálum) að í tekjuöflunarfrumvarpi í tengslum við fjárlög fyrir árið 2015 er lagt til að tekjur af uppboðnum losunarheimildum skuli renna óskiptar í ríkissjóð í stað þess að helmingur þeirra renni til loftslagssjóðs?

    Það er stefna fjármála- og efnahagsráðuneytisins að almennt skuli tekjur af þessu tagi renna í gegnum ríkissjóð. Í 3. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um viðskiptakerfi um losunarheimildir (ETS) segir að aðildarríki skuli ákvarða í hvað tekjur af uppboðum verði nýttar en a.m.k. 50% af tekjunum skuli renna til aðgerða sem taldar eru upp í níu liðum í ákvæðinu. Þessi ákvæði gilda um að a.m.k. hluta þeirra heimilda sem verða boðnar upp af íslenskum stjórnvöldum og þarf að horfa til þeirra þegar tekjur koma inn af uppboðum. Á þessari stundu er óvíst hvenær tekjur koma inn og hve miklar þær gætu orðið, en beðið er eftir svörum frá Evrópusambandinu um fyrirkomulag útboða Íslands, Noregs og Liechtenstein innan ETS. Í 29. grein laga nr. 70/2012, um loftslagsmál, eru tiltekin nokkur verkefnasvið sem sjóðurinn geti styrkt og er loftslagsvæn tækniþróun og nýsköpun eitt þeirra. Ekkert segir hins vegar um hversu mikill hluti af tekjum sjóðsins eigi að fara í rannsóknir og nýsköpun. Það liggur sem sagt fyrir að íslenskum stjórnvöldum er skylt að ráðstafa hluta tekna af uppboðnum losunarheimildum til verkefna á sviði loftslagsmála og verður það gert þótt fyrirkomulag ráðstöfunarinnar breytist. Ekki lá fyrir nein áætlun um upphæðir eða hlut af tekjum sem ættu að renna til rannsókna og nýsköpunar í loftslagsmálum innan loftslagssjóðs og ekki liggur heldur fyrir nein áætlun um upphæðir eða að hluti af þessum tekjum gætu farið til þessara þátta úr ríkissjóði. Því er ekki hægt að meta hvernig breytt fyrirkomulag samrýmist lykilaðgerðinni sem vísað er til, en hins vegar skal áréttað að ekki er ætlunin að tekjurnar renni ekki að neinu leyti til loftslagsmála.