Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 691  —  347. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni
um rekstrarkostnað og rekstrartekjur ÁTVR.


     1.      Hvernig skiptist rekstrar- og dreifingarkostnaður ÁTVR af heildsölu tóbaks og smásölu áfengis?
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) er lögum samkvæmt rekin sem ein heild. Í bókhaldi fyrirtækisins er ekki sundurgreint hvernig einstakir kostnaðarliðir deilast á milli áfengis- og tóbakshlutans, eins og kostnaður við meðhöndlun vöru í vöruhúsi, sendingar og dreifingu, rekstur tölvukerfa og launakostnaður svo að eitthvað sé nefnt. Kostnaður vegna vörunotkunar áfengis annars vegar og tóbaks hins vegar er eini kostnaðarliðurinn sem er aðgreindur í rekstrinum og birtur í ársreikningi.

     2.      Hverjar eru heildartekjur ÁTVR af heildsöluálagningu tóbaks annars vegar og áfengis hins vegar?
    Samkvæmt ársreikningi ÁTVR fyrir árið 2013 er framlegð af sölu áfengis samtals 2,6 milljarðar kr. en framlegð af sölu tóbaks er 1,4 milljarðar kr.

     3.      Hver er sendingarkostnaður ÁTVR á ári vegna smásöluverslunar með áfengi?
    Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR var heildarsendingarkostnaður eða dreifingarkostnaður fyrirtækisins á árinu 2013 rúmlega 91 millj. kr. Eins og áður er komið fram liggur ekki fyrir hvernig sendingar- eða dreifingarkostnaði er skipt upp eftir vöruflokkum.

     4.      Hver er annars vegar árlegur markaðskostnaður og hins vegar ferðakostnaður ÁTVR frá árinu 2000 á föstu verðlagi?
    Í eftirfarandi töflu koma fram umbeðnar upplýsingar á föstu meðalverði ársins 2013 samkvæmt útreikningum ÁTVR (fjárhæðir í milljónum króna).

Ár Markaðskostnaður Ferðakostnaður
2001 32,3 10,6
2002 32,8 13,7
2003 30,8 17,1
2004 53,7 16,1
2005 47,7 14,5
2006 54,1 17,4
2007 73,9 16,0
2008 77,3 19,0
2009 45,4 15,9
2010 36,9 10,7
2011 43,6 16,4
2012 32,7 21,0
2013 48,2 19,8

Til upplýsinga – Ársskýrsla ÁTVR:
www.vinbudin.is/Portaldata/1/Resources/solutolur/arsskyrslur/ATVR_arsskyrsla_2013_2200kb.pdf