Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 692  —  367. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar eftir 2. umræðu og fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra á sinn fund.
    Meiri hlutinn hefur leitast við að gera sem allra fæstar breytingartillögur fyrir 3. umræðu þar sem allar veigamiklar breytingar eiga nú þegar að vera komnar fram. Engu að síður er nauðsynlegt að leggja til nokkrar millifærslur og leiðréttingar á gjaldahlið.
    Einnig er gerð breytingartillaga við sjóðstreymi ríkissjóðs sem láðist að gera við 2. umræðu. Nú er lagt til að við liðinn Fjármunahreyfingar bætist nýr liður, svohljóðandi: „Endurgreitt stofnfé frá Seðlabanka Íslands 13.000 millj. kr.“ Með þessu er lokið við að gera grein fyrir fjárhagslegum samskiptum ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands sem felast bæði í frumvarpinu og breytingu sem gerð var við 2. umræðu. Um er að ræða 13 milljarða kr. innstreymi fjármunahreyfinga vegna áformaðrar endurgreiðslu á stofnfé frá Seðlabanka Íslands í tengslum við 26 milljarða kr. niðurfærslu á skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út til að styrkja eiginfjárstöðu bankans eftir fall bankakerfisins.
    Á gjaldahlið má skipta tillögum í fimm flokka og heildaráhrif þeirra eru 56,4 millj. kr. hækkun gjalda.
    Í fyrsta lagi er um að ræða millifærslur að fjárhæð 357,8 millj. kr. af lið fjármála- og efnahagsráðuneytis 09-989 Ófyrirséð útgjöld yfir til sjö ríkisstofnana sem allar skýrast af sama tilefni, þ.e. eldsumbrotum norðan Vatnajökuls. Millifærslurnar koma til viðbótar 329 millj. kr. sem samþykktar voru við 2. umræðu. Þá eru heildargjöld vegna eldsumbrotanna komin í 686,8 millj. kr. á yfirstandandi ári. Millifærslurnar við 2. umræðu byggðust á mati á umframkostnaði stofnananna til loka september. Nú er lagt til að millifærðar verði fjárheimildir sem nema áætluðum umframkostnaði fyrir mánuðina október–desember sem nemur 357,8 millj. kr. Tillagan er sett fram með þeim fyrirvara að fjárþörfin verður endurmetin í árslok þegar raunkostnaður liggur fyrir og ef veittar fjárheimildir reynast umfram raunkostnað verður mismunurinn felldur niður í lokafjárlögum. Skipting þeirra 357,8 millj. kr. sem lagðar eru til nú er eftirfarandi:
     *      02-201 Háskóli Íslands (Jarðvísindastofnun): 75,2 millj. kr.
     *      06-303 Ríkislögreglustjóri (almannavarnadeild): 135,8 millj. kr.
     *      06-395 Landhelgisgæsla Íslands: 49,1 millj. kr.
     *      08-301 Landlæknir: 13,6 millj. kr.
     *      14-211 Umhverfisstofnun: 10,8 millj. kr.
     *      14-212 Vatnajökulsþjóðgarður: 7,4 millj. kr.
     *      14-412 Veðurstofa Íslands: 65,9 millj. kr.
    Í öðru lagi er lögð til önnur millifærsla, að fjárhæð 50 millj. kr., af liðnum 09-989 Ófyrirséð útgjöld vegna þátttöku Íslands í aðgerðum Atlandshafsbandalagsins (NATO) og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) til að bregðast við versnandi öryggishorfum í Úkraínu fyrr á þessu ári. Lagt er til að millifærslan skiptist á tvo liði. Annars vegar 24 millj. kr. framlag á viðfangið 03-391-1.41 Íslensk friðargæsla vegna þátttöku í samstöðuaðgerðum NATO vegna ástandsins þar sem Ísland hefur lagt til borgaralegan sérfræðing. Hins vegar 26 millj. kr. framlag á viðfangið 03-391-1.30 Mannúðarmál og neyðaraðstoð, þ.e. rekstrarframlag til eftirlitsverkefna ÖSE í Úkraínu og viðbótarstarfsmaður í eftirlitsteymi stofnunarinnar. Tillagan felur í sér 40.000 evra rekstrarframlag, jafngildi um 6 millj. kr., og um 20 millj. kr. kostnað vegna nýs eftirlitsmanns og framlengingar á starfi núverandi eftirlitsmanns út árið 2014.
    Í þriðja lagi eru tvær breytingar sem tengjast ríkistekjum og mörkun þeirra á gjaldahlið fjárlaga. Annars vegar er 100 millj. kr. hækkun á liðnum 04-818 Búnaðarsjóður sem er framlag til sjóðsins til samræmis við sömu hækkun ríkistekna af búnaðargjaldi í tekjuáætlun við 2. umræðu. Hins vegar er 43,6 millj. kr. lækkun á fjárheimild á liðnum 08-334 Umboðsmaður skuldara. Í fjárlögum ársins var gjaldaheimild embættisins ákveðin 115,6 millj. kr. umfram markaðar tekjur af eftirlitsgjaldi sem eiga að standa undir öllum útgjöldum þess. Gerð var tillaga um 72 millj. kr. lækkun heimildarinnar í frumvarpinu og nú er lögð til 43,6 millj. kr. lækkun til viðbótar til þess að fjárheimild ársins verði jöfn mörkuðum tekjum eða samtals 740 millj. kr. Útgjöld sem kunna að verða umfram tekjur ársins verða þá fjármögnuð með yfirfærðri afgangsheimild fyrri ára.
    Í fjórða lagi er lögð til lagfæring á liðnum 08-841 Vinnumálastofnun þar sem gerð er tillaga um 20 millj. kr. hækkun bæði gjalda og sértekna hjá stofnuninni. Við 2. umræðu var samþykkt tillaga um 20 millj. kr. framlag á lið Atvinnuleysistryggingasjóðs til umsýslukostnaðar Vinnumálastofnunar vegna verkefna fyrir sjóðinn. Þá láðist að gera jafnframt ráð fyrir hærri tekjum og gjöldum Vinnumálastofnunar. Bætt er úr því með þessari tillögu sem hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
    Í fimmta lagi er lagt til að fjárheimild á liðnum 08-401 Öldrunarstofnanir, almennt, sem samtals nemur 650 millj. kr. í frumvarpinu, skiptist á hjúkrunarheimili og endurhæfingarstofnanir samkvæmt sérstöku yfirliti með breytingartillögu meiri hlutans og breytingarnar komi þá fram á viðkomandi fjárlagaliðum í lögunum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 8. desember 2014.

Vigdís Hauksdóttir,
form., frsm.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ásmundur Einar Daðason.
Haraldur Benediktsson. Höskuldur Þórhallsson. Valgerður Gunnarsdóttir.