Ferill 453. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 695  —  453. mál.




Beiðni um skýrslu



frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi.



Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Brynjari Níelssyni,


Haraldi Benediktssyni, Unni Brá Konráðsdóttur, Ásmundi Einari Daðasyni,
Ásmundi Friðrikssyni, Valgerði Gunnarsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur,
Karli Garðarssyni og Vilhjálmi Árnasyni.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á hagrænum áhrifum kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin áhrif eigi síðar en í mars 2015.

Greinargerð.

    Farið er fram á að iðnaðar- og viðskiptaráðherra láti gera heildræna úttekt á hagrænum áhrifum kvikmyndagerðar á Íslandi með sérstakri áherslu á svæðisbundin hagræn áhrif og flytji Alþingi skýrslu um niðurstöður úttektarinnar.
    Mikið hefur verið rætt um framlög og aðkomu ríkisins að kvikmyndagerð. Upplýsingar um tekjur og hagræn áhrif af kvikmyndaframleiðslu í löndum sem við berum okkur saman við benda til þess að fjárfestingar í kvikmyndagerð komi með jákvæða hvata inn í samfélagið og hafi mikil hagræn áhrif í héraði. Flutningsmenn telja nauðsynlegt innlegg í þá umræðu sem hér hefur farið fram um framlög til kvikmyndagerðar að ráðist verði í slíka úttekt á hagrænum áhrifum.
    Kvikmyndagerð er mikilvægur þáttur í menningu Íslendinga, er umtalsverður hluti af hinum skapandi atvinnugreinum og tengist við fjölmörg svið efnahagslífsins. Hagræn umsvif menningar eru mikil hér á landi. Framlag menningar til landsframleiðslu er hlutfallslega hátt og áætlað er að um fjórðungur af vinnuafli landsmanna sé í skapandi atvinnugreinum af einhverju tagi. Íslenski kvikmyndageirinn hefur á að skipa velmenntuðu og reynslumiklu fólki sem unnið hefur að fjölda verkefna, innlendra sem erlendra. Það hefur því byggst upp góður þekkingargrunnur á þessu sviði auk þess sem landið hefur upp á að bjóða stórbrotna náttúru.
    Sóknarfæri í kvikmyndageiranum ættu því að vera mikil ef rétt er haldið á málum og nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að ígrunda vel hvernig best er að styðja við þennan geira. Nauðsynlegt tæki í slíkri ákvarðanatöku er vel unnin úttekt á stöðunni. Nokkur rit hafa verið unnin um svipuð efni og má þar til að mynda nefna bækur dr. Ágústs Einarssonar, prófessors við Háskólann, um hagræn áhrif kvikmyndagerðar: Hagræn áhrif kvikmyndalistar, útg. 2011, og Economic Impact of the Motion Picture Industry: the Icelandic Model, útg. 2014.
    Hér er kallað eftir skýrslu þar sem skoðuð verði sérstaklega þau hagrænu áhrif, bein og afleidd, sem kvikmyndagerð hefur á þau svæði og héruð þar sem upptökur fara fram. Flest bendir til þess að slíkt hafi veruleg jákvæð áhrif í héraði. Sem dæmi má nefna verkefni eins og kvikmyndina Flags of our Fathers sem tekin var upp hér árið 2005. Þar voru 22 tökudagar, 240 manns voru í íslenska starfsliðinu sem skilaði um 10.000 vinnudögum. 50–550 aukaleikarar voru að störfum hvern dag. 10.800 hótelnætur voru keyptar hér á landi í tengslum við gerð myndarinnar og skilaði framleiðslan um 0,3% af útflutningstekjum landsins árið 2005.
    Gerðar hafa verið úttektir erlendis á hagrænum áhrifum í héraði í tengslum við framleiðslu geysivinsælla kvikmynda og sjónvarpsþátta. Má sem slíkt dæmi nefna kvikmyndirnar um Wallander lögreglumann. Þær voru teknar á Skáni, sýnileiki svæðisins hefur aukist gríðarlega í kjölfarið og auglýsingagildið sem birting svæðisins í myndunum hefur er metið á milljónir evra. Reynsla af sambærilegum svæðum sýnir að gera má ráð fyrir að aukning verði á ferðamannastraumi sem nemur 4–10% árlega fyrstu þrjú árin eftir staður birtist í mynd sem nýtur alheimshylli. Ef um sérstaklega vinsæla staði er að ræða, eins og Ystad, heimabæ Wallanders, má gera ráð fyrir aukningu um sem nemur 30–40% árlega. Því hefur verið fleygt að hver evra sem fjárfest er skili viðkomandi héraði allt að 43 evrum (economic gain) í hagnað af umhverfinu, ferðamennsku og þjónustu í tengslum við það. Nefnda má fleiri erlend dæmi um aukningu í ferðamennsku, til að mynda skilaði Braveheart, kvikmynd Mel Gibsons, 52% fjölgun gesta við minnismerki William Wallace „The National Wallace Monument“ í Stirling. 17 árum eftir að myndin Fields of Dreams með Kevin Costner kom út, komu 60–65 þúsund gestir til Dyersville í Iowa til að skoða hafnaboltavöllinn sem var notaður við gerð myndarinnar. Eftir að myndin Close Encounters of the Third Kind var sýnd varð 78% aukning gesta við minnismerkið „Devils Tower Monument“ í Utah. Nú, áratugum seinna, muna 20% gesta enn eftir minnismerkinu úr myndinni. Loks má nefna að yfirvöld í Santa Barbara sögðu frá því að eftir að myndin Sideways fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna birtust góðar/fríar fréttir í tengslum við myndina með Santa Barbara í öndvegi að verðmæti 3,9 millj. dollara ef greitt hefði verið fyrir þær í beinu markaðsstarfi.
    Ljóst er að hér eru miklir hagsmunir í húfi. Mikilvægt er að kortleggja hvaða áhrif stór verkefni sem þessi hafa á svæði þar sem upptökur fara fram. Einnig þarf að skoða hvernig hægt er að stuðla að aukningu á verkefnum af þessu tagi sem tekin eru úti á landi með tilheyrandi umfangi í stað þess að áherslan sé á Reykjavíkursvæðið. Nýlegt dæmi um slíkt er kvikmyndin The Secret Life of Walter Mitty. Loks þarf að skoða hvernig við nýtum landkynningu af þessu tagi í þágu ferðaþjónustunnar.
    Benda má á að samkvæmt rannsóknum sem ná til ársins 2010 var árleg velta kvikmyndaiðnaðar á Íslandi um 12,5 milljarðar kr. eða um 0,7% af landsframleiðslu, með 750 ársverk, sem eru um 0,5% af vinnuafli landsins. Það ár var velta eingöngu í framleiðsluhluta greinarinnar rétt rúmlega 5 milljarðar kr. en veltan hefur aukist hratt síðan þá og nam um 13,5 milljörðum kr. árið 2012 og 12,1 milljarði kr. árið 2013. Á fyrri hluta ársins 2014 var velta í framleiðsluhlutanum orðin um 9 milljarðar kr. eða sambærileg og allt árið 2011.
    Tekjur ríkisins af umsvifunum 2010 voru um 1,92 milljarðar kr. Tekjur ríkisins vegna erlendra ferðamanna sem ákveða Íslandsferð vegna kvikmynda er að lágmarki 2,5 milljarðar kr. Þess má geta að í nýlegri skýrslu Ferðamálastofu nefndu 13,2% aðspurðra ferðamanna að kvikmyndir með íslensku landslagi og/eða íslenskar kvikmyndir væru ástæða hugmyndar þeirra um að koma til Íslands.
    Samtals voru skatttekjur ríkisins vegna kvikmynda um 4,42 milljarðar kr. árið 2010, en framlög í Kvikmyndasjóð og í endurgreiðslu á kostnaði það ár um 830 millj. kr. þannig að ávinningur ríkisins vegna kvikmynda var um 3,6 milljarðar kr. það ár.
    Það má því leiða að því líkur að aukin umsvif í kvikmyndaiðnaði séu líkleg til að hafa jákvæð áhrif, sérstaklega í ljósi stóraukinna umsvifa í framleiðslu kvikmyndaðs efnis síðustu þrjú ár. Lögð er áhersla á að í skýrslu ráðherra verði farið yfir stöðuna og allir afleiddir þættir og hagræn áhrif í héraði tekin inn í myndina.