Ferill 159. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 696  —  159. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara,
nr. 100/2010, með síðari breytingum (upplýsingaskylda og dagsektir).


Frá velferðarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Lísu Margréti Sigurðardóttur frá velferðarráðuneyti, Ástu Sigrúnu Helgadóttur, umboðsmann skuldara, og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Persónuvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og umboðsmanni skuldara.

Efni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara. Efni þess er í megindráttum þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði að stofnunin þurfi því aðeins að afla samþykkis skuldara fyrir öflun upplýsinga að þær varði tiltekinn skuldara. Í öðru lagi er lagt til að umboðsmanni skuldara verði veitt heimild til að leggja dagsektir á aðila sem ekki verða við upplýsingabeiðni stofnunarinnar. Í þriðja lagi er mælt fyrir um kæruheimild til ráðherra.
    Svipað frumvarp var lagt fram á 143. löggjafarþingi (523. mál) en hlaut ekki afgreiðslu.

Upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara.
    Fyrir nefndinni kom fram að upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara hefði almennt gengið vel. Undantekningar hefðu helst varðað upplýsingar sem sneru ekki að einstökum skuldurum heldur að málefnum skuldara almennt. Frumvarpinu væri einkum ætlað að auðvelda almenna upplýsingaöflun af þessu tagi.
    Fyrir nefndinni var hreyft því sjónarmiði að hlutverk umboðsmanns skuldara væri að gæta hagsmuna einstakra skuldara en ekki hagsmuna skuldara almennt. Ekki væri því nauðsynlegt að breyta lögum um umboðsmann skuldara til að gera stofnuninni hægara um vik við að afla upplýsinga um málefni skuldara almennt.
    Hlutverk umboðsmanns skuldara er afmarkað í 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara. Helsta verkefni stofnunarinnar er að veita einstaklingum í skuldavanda ráðgjöf um hvaða úrræði standa þeim til boða og aðstoða þá við að nýta sér þau. Hlutverk hennar takmarkast þó ekki við að greiða fyrir lausn skuldavanda einstakra skuldara. Þannig er til dæmis meðal hlutverka hennar að veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna, sbr. g-lið málsgreinarinnar. Umboðsmanni skuldara kann því að vera nauðsynlegt að afla upplýsinga sem ekki varða einstaka skuldara til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Nefndin fellst á að æskilegt sé að skýra að upplýsingaöflun í slíkum tilvikum sé ekki háð samþykki einstakra skuldara.
    Fyrir nefndinni var einnig hreyft því sjónarmiði að afmarka þyrfti heimild umboðsmanns skuldara til upplýsingaöflunar.
    Í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann skuldara segir að hann geti krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds. Með sama hætti sé fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati stofnunarinnar eru nauðsynlegar til að hún geti sinnt hlutverki sínu. Umboðsmanni skuldara er því einungis heimilt að krefjast upplýsinga sem eru honum nauðsynlegar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Það hlutverk er sem fyrr segir afmarkað í 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara. Heimild umboðsmanns skuldara til upplýsingaöflunar er því þegar afmörkuð í lögum um umboðsmann skuldara.

Heimild til álagningar dagsekta.
    Margvísleg gagnrýni hefur komið fram á fyrirhugaða heimild til álagningar dagsekta. Meðal annars hefur verið lagt til að heimild til álagningar dagsekta taki aðeins til upplýsinga varðandi tiltekna skuldara, að færa þurfi rök fyrir álagningu dagsekta, að hámark fjárhæðar dagsekta verði lækkað og að við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skuli líta til umfangs brots og þýðingar upplýsinga fyrir umboðsmann skuldara.
    Nefndin telur ekki tilefni til að takmarka heimild til álagningar dagsekta við upplýsingar varðandi einstaka skuldara, enda takmarkast hlutverk umboðsmanns skuldara ekki við að greiða fyrir lausn skuldavanda einstakra skuldara, líkt og fyrr er vikið að.
    Í 2. málsl. 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er ráðgert að stjórnsýslulög gildi um ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir, að því marki sem annað er ekki tekið fram. Stjórnsýslulög, nr. 37/1993, byggjast á þeirri meginreglu að stjórnvöldum beri því aðeins að rökstyðja ákvarðanir að fram komi beiðni um það frá aðila máls eftir að ákvörðun hefur verið birt honum. Stjórnvald skal svara slíkri beiðni innan 14 daga frá því að hún barst, sbr. 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Rökstuðningi er meðal annars ætlað að auðvelda aðila máls að meta hvort ákvörðun sé tekin á lögmætum grundvelli og hvort hann eigi að kæra ákvörðunina til æðra stjórnvalds eða bera málið undir dómstóla eða umboðsmann Alþingis ef skilyrði eru til þess. Þeim sem ákvörðun um dagsektir beinist að kann að vera sérstaklega mikilvægt að sem fyrst liggi fyrir rökstuðningur stjórnvalds fyrir ákvörðuninni, enda getur dráttur á meðferð máls kostað hann mikið fé. Með það í huga leggur nefndin til að tilkynningu umboðsmanns skuldara um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir, sbr. 1. málsl. 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, skuli fylgja rökstuðningur fyrir fyrirhugaðri ákvörðun. Með því móti má betur tryggja að sá andmælaréttur sem málsliðurinn mælir fyrir um komi að haldi. Jafnframt er lagt til að ákvörðun um dagsektir fylgi rökstuðningur. Sá rökstuðningur kann eftir atvikum að vera sama efnis og rökstuðningur fyrir fyrirhugaðri ákvörðun. Með samhliða rökstuðningi er þeim sem ákvörðun um dagsektir beinist að auðveldað að meta sem fyrst hvernig rétt sé að bregðast við ákvörðuninni. Efni rökstuðnings fyrir ákvörðun um dagsektir ákvarðast af 22. gr. stjórnsýslulaga enda um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Jafnframt má gera ráð fyrir því að rökstuðningur með tilkynningu um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir taki mið af 22. gr. stjórnsýslulaga, enda yrði rökstuðningur fyrir ákvörðuninni að vera til samræmis við það ákvæði. Nefndin telur ólíklegt að áskilnaður um samhliða rökstuðning auki mjög vinnuálag umboðsmanns skuldara enda má ætla að stofnunin beiti dagsektum aðeins í undantekningartilvikum.
    Í 5. málsl. 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að dagsektir geti numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Þótt dagsektir geti þannig samkvæmt ákvæðinu verið háar telur nefndin rétt að líta til þess að umboðsmanni skuldara verður óheimilt að leggja á hærri dagsektir en nauðsyn ber til hverju sinni, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Nefndin telur því ekki nauðsynlegt að lækka hámark fjárhæðar dagsekta.
    Í lokamálslið 3. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins segir að við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skuli m.a. líta til fjölda starfsmanna þess aðila sem ákvörðun beinist að og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það er ekki tæmandi um þau atriði sem umboðsmanni skuldara ber að líta til við ákvörðun fjárhæðar dagsekta. Ætla má að við ákvörðun hennar taki stofnunin mið af því markmiði dagsektanna að knýja á um að veittar séu upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar.

Kæruheimild.
    Bent hefur verið á að 1. málsl. 1. efnismgr. 2. gr. frumvarpsins fari illa saman við 5. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann skuldara, enda segir í síðarnefnda ákvæðinu að ákvörðunum umboðsmanns skuldara verði ekki skotið til æðra stjórnvalds, nema sérstaklega sé mælt fyrir um það í lögum. Nefndin leggur því til að 5. mgr. 2. gr. laga um umboðsmann skuldara verði felld brott til að tryggja innbyrðis samræmi laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             5. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
     2.      Á eftir 1. málsl. 3. efnismgr. 1. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Tilkynningu umboðsmanns skuldara um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir og ákvörðun um dagsektir skal fylgja rökstuðningur.

    Ragnheiður Ríkharðsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.
    Brynjar Níelsson og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 8. desember 2014.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
form.
Ásmundur Friðriksson,
frsm.
Björt Ólafsdóttir.
Guðbjartur Hannesson. Páll Jóhann Pálsson. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, með fyrirvara.
Steinunn Þóra Árnadóttir.