Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 707  —  459. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð
og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
(samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða).


Frá meiri hluta velferðarnefndar (ÞórE, ÁsF, BN, PJP, RR).I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2014 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis þessa. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007,
með síðari breytingum.

2. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við útreikning heimilisuppbótar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum skal á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 gera samanburð á útreikningi heimilisuppbótar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2014 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

III. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
nr. 129/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 15. gr. er óheimilt á tímabilinu frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2014 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með lögum nr. 106/2011, um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum (samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða), sem samþykkt voru í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Landssamtaka lífeyrissjóða um víxlverkun örorkulífeyris almannatrygginga og lífeyris úr lífeyrissjóðum annars vegar og hins vegar hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum frá 3. desember 2010, var tímabundið komið í veg fyrir þá víxlverkun milli örorkubóta frá almannatryggingum og örorkulífeyris úr lífeyrissjóðum sem orðið hafði í samspili þessara tveggja meginstoða í lífeyristryggingum.
    Víxlverkanir þessar lýsa sér þannig að samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð lækka lífeyrisgreiðslur og bætur félagslegrar aðstoðar í mörgum tilfellum vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 15. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að sjóðfélagi í lífeyrissjóði eigi rétt á örorkulífeyri úr viðkomandi sjóði hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Ákvæðið hefur verið útfært nánar í samþykktum lífeyrissjóða þar sem kveðið er á um að heildartekjur örorkulífeyrisþega eftir orkutap verði ekki umfram þær tekjur sem hann hafði fyrir orkutap. Við samanburð á heildartekjum fyrir og eftir orkutap líta lífeyrissjóðir m.a. til greiðslna almannatrygginga sem oft hefur leitt til þess að greiðslur til örorkulífeyrisþega úr lífeyrissjóðum hafa lækkað eða jafnvel fallið niður. Við þá tekjulækkun öðlast hinir sömu einstaklingar aukin réttindi innan almannatryggingakerfisins sem aftur leiðir til enn frekari lækkunar á greiðslum frá lífeyrissjóðunum við næsta samanburð og síðan koll af kolli. Gagnkvæm tekjutenging almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum getur því leitt til tíðra breytinga á örorkulífeyrisgreiðslum og tilsvarandi óöryggis lífeyrisþega sem fyrst og fremst hafa komið örorkulífeyrisþegum illa.
    Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 106/2011 kom m.a. fram að þess væri vænst að fyrir árslok 2013 yrði endurskoðun á sambandi og samspili lífeyrissjóða og almannatrygginga lokið og að sú vinna mundi leiða fram lausn á víxlverkun örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Þeirri vinnu er hins vegar ekki lokið en heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð stendur yfir sem og vinna við framtíðarskipan lífeyrismála.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða í því skyni að stemma stigu við því að víxlverkanir skerðinga fari af stað frá og með síðustu áramótum þegar fyrrnefnd bráðabirgðaákvæði runnu út. Vegna óvissu um hvort fyrir hendi verði nægar fjárheimildir til að mæta þeim auknu útgjöldum sem hlytust af framlengingu lagaákvæðisins lagði starfshópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra til nokkrar leiðir til að sporna við því að víxlverkunin hæfist að nýju. Sú leið sem ákveðið var að fara og hér er lagt til að verði lögfest felur það í sér að gagnvart hverjum og einum örorkulífeyrisþega verði gerður samanburður á þeim fjárhæðum sem hann nyti annars vegar miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutföll ársins 2013, þ.e. samkvæmt þeim sérreglum sem leiðir af framkvæmd lagaákvæðisins, ásamt 3,6% bótahækkunum, og hins vegar fjárhæðum miðað við almennar reglur ársins 2014. Þeim útreikningi sem sé hagstæðari fyrir lífeyrisþegann verði beitt. Samanburður þessi fer fram í endurreikningi bóta sem fram fer í ágúst 2015 vegna greiðslna ársins 2014.
    Reikniregla sú sem notuð var við framkvæmd lagaákvæðisins leiddi til þess að frítekjumörk tekjutryggingar og heimilisuppbótar urðu umtalsvert hærri árið 2013 en frítekjumörk samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð hefðu ella leitt til. Skerðingarhlutföll tekjutryggingar og heimilisuppbótar voru aftur á móti talsvert hærri vegna ársins 2013 en þau lækkuðu frá og með 1. janúar 2014.
    Gert er ráð fyrir að reglur ársins 2013 komi betur út fyrir þá örorkulífeyrisþega sem hafa lífeyrissjóðstekjur á bilinu 27.400 kr. til 261.924 kr. á árinu 2014. Þeir sem eru með lífeyrissjóðstekjur utan þessa tekjubils munu fá greitt samkvæmt almennum reglum ársins 2014. Breytingin mun því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum við afleiðingum þess að 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum er útrunninn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skal við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2014 til og með 31. desember 2014 gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2014 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2013 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt.

Um 2. gr.


    Vísað er til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins en í 2. gr. er kveðið á um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Skal sömu reglu beitt og getið er um í 1. gr. frumvarps þessa.
    

Um 3. gr.


    Lagt er til að sett verði nýtt ákvæði til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða í stað þess sem sett var með lögum nr. 106/2011 og rann út um síðustu áramót. Gert er ráð fyrir að ákvæðið gildi út árið 2014 en það mun hafa þau áhrif að óheimilt verður á árinu 2014 að láta almennar hækkanir sem kunna að verða á örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, leiða til lækkunar á örorkulífeyri sjóðfélaga úr lífeyrissjóði.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.