Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 712  —  367. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Við 3. umræðu leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Færðir verði 13 milljarðar kr. á fjármunahreyfingar í sjóðstreymi vegna endurgreiðslu á stofnfé Seðlabanka Íslands. Minni hlutinn telur að fara þurfi betur yfir framsetningu þessarar aðgerðar í fjáraukalögum og síðan í ríkisreikningi.
    Millifærðar verði 357,8 millj. kr. af liðnum Ófyrirséð útgjöld á sjö ríkisstofnanir vegna eldsumbrotanna við norðanverðan Vatnajökul og nemur heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þeirra því um 686,8 millj. kr. á árinu. Við afgreiðslu lokafjárlaga verður farið yfir kostnað viðkomandi aðila og lagt mat á hvort hluti framlagsins verði felldur niður reynist hann hærri en raunútgjöld.
    Millifærðar verði 50 millj. kr. af liðnum Ófyrirséð útgjöld yfir á liðinn Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi vegna þátttöku Íslands í aðgerðum Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu til að bregðast við versnandi öryggishorfum í Úkraínu fyrr á þessu ári.
    Þá er lagt til að framlag til Búnaðarsjóðs verði hækkað um 100 millj. kr. til samræmis við hækkun ríkistekna af búnaðargjaldi í tekjuáætlun við 2. umræðu.
    Fjárheimild umboðsmanns skuldara verði lækkuð um 43,6 millj. kr. Í frumvarpinu hafði áður verið gerð tillaga um 72 millj. kr. lækkun heimildarinnar og er heimildin því nú áætluð 740 millj. kr. sem er sama fjárhæð og markaðar tekjur stofnunarinnar.
    Fjárheimild að upphæð 650 millj. kr. af liðnum Öldrunarstofnanir, almennt hefur verið skipt á hjúkrunarheimili og endurhæfingarstofnanir eins og sýnt er í sérstöku yfirliti með breytingartillögu meiri hlutans. Um er að ræða jafnlaunaátak sem einkum er ætlað að gera hjúkrunarheimilum, endurhæfingarstofnunum og sambærilegum aðilum kleift að gera hliðstæðar kjarabreytingar í tengslum við kjarasamninga á þessu ári og áttu sér stað hjá stéttarfélögum ríkisrekinna heilbrigðisstofnana í tengslum við stofnanasamninga á síðasta ári. Fjárhæðin var áður færð á safnlið öldrunarstofnana til hagræðis í frumvarpinu.
    Minni hlutinn telur að í ljósi eldsumbrotanna í Holuhrauni þurfi að stofna hamfarasjóð. Hann sjái um þá þætti sem aðrir sjóðir tryggja ekki eins og ofanflóðasjóður, Bjargráðasjóður og Viðlagatrygging Íslands. Má sem dæmi nefna afleiðingar flóða af völdum eldgosa.

Alþingi, 8. desember 2014.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Brynhildur Pétursdóttir.