Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 717  —  405. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, með síðari breytingum (gildistími o.fl.).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Á. Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Hallgrím Jónasson og Sigurð Björnsson frá Rannsóknamiðstöð Íslands, Pétur Reimarsson frá Samtökum atvinnulífsins og Davíð Lúðvíksson frá Samtökum iðnaðarins.
    Að meginstefnu felur frumvarpið í sér tillögu um framlengingu gildistíma laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Skv. 2. mgr. 17. gr. laganna munu þau falla úr gildi 31. desember nk. en stuðningur sem hefur verið samþykktur fyrir það tímamark heldur þó gildi sínu. Þá felur frumvarpið í sér tillögur um samræmingu ákvæða laganna að ákvæðum nýlegrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu. Þar að auki felur frumvarpið í sér tillögur sem ætlað er að auka skilvirkni í málsmeðferð ríkisskattstjóra og Rannís auk þess sem lögð er til lagfæring á orðalagi vegna mistaka sem urðu við lagasetningu árið 2011.
    Í 1. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að fyrirtæki sem eiga í fjárhagsvanda falli utan gildissviðs laganna. Á fundi nefndarinnar kom það sjónarmið fram að óljóst væri hvað orðalagið „fyrirtæki í fjárhagsvanda“ fæli í sér og því lægi ekki fyrir hver áhrif samþykktar greinarinnar yrðu. Var m.a. bent á að nýsköpunarfyrirtæki væru oft lítil og veikburða á upphafsárum sínum og í vissum skilningi væru mörg þeirra þegar í fjárhagsvanda þar sem þau væru rekin með tapi og eiginfjárstaða þeirra ekki burðug fyrst um sinn. Þrátt fyrir það gætu þau verið lífvænleg.
    Nefndin bendir á að ráðherra er ætlað að kveða nánar á um gildissvið laganna í reglugerð skv. 6. gr. frumvarpsins. Skilningur nefndarinnar er að gildissviðsafmörkunin eigi rætur að rekja til ákvæða reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 um almenna hópundanþágu. Að mati nefndarinnar þarf ráðherra að gæta þess sérstaklega við setningu reglugerðarinnar að afmörkun „fyrirtækis í fjárhagsvanda“ verði ekki það rúm að dregið verði úr líkum þess að lífvænleg félög njóti stuðnings. Í því tilliti þarf ráðherra að horfa til sérstakrar stöðu nýsköpunarfyrirtækja.
    Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á einu þeirra skilyrða sem verða að vera uppfyllt til að Rannís veiti verkefni staðfestingu samkvæmt lögunum. Skilyrðið kemur fram í 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna og er þess efnis að sýnt hafi verið fram á það með gögnum að varið verði a.m.k. 1 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili. Breytingin sem lögð er til felur í sér að í stað þess að lágmarksfjárhæð skilyrðisins verði 1 millj. kr. verði hún 5 millj. kr.
    Fyrir nefndinni kom fram að kostnaður við meðhöndlun umsókna hefði ekki verið til vandræða. Framkvæmdin hefði gengið vel og almenn ánægja með núverandi fyrirkomulag. Fram komu áhyggjur af áformaðri hækkun lágmarksins úr 1 millj. kr. í 5 millj. kr. Að mati nefndarinnar er ekki síður mikilvægt að styðja við smá þróunarverkefni en stór og því leggur nefndin til að 4. gr. frumvarpsins falli brott og lágmarksfjárhæð 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna verði áfram hin sama, 1 millj. kr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    4. gr. falli brott.

Alþingi, 11. desember 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Pétur H. Blöndal. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Árni Páll Árnason. Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon. Vilhjálmur Bjarnason.