Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 719  —  356. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (samræming og einföldun).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Harald I. Birgisson frá Deloitte ehf., Ástu Kristjánsdóttur frá Ernst & Young ehf. og Ágúst Guðmundsson og Sigurjón Högnason frá KPMG ehf. Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá Deloitte ehf., Ásmundi G. Vilhjálmssyni, Ernst & Young ehf., KPMG ehf., Viðskiptaráði Íslands og Sjálfsbjörg – Landssambandi fatlaðra.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skatta- og tollalögum í þeim tilgangi að samræma, einfalda og skýra löggjöf á sviði skatta- og tollamála.

Milliverðlagningarreglur Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
    Í 1. og 3. tölul. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði brott vísun til þess að taka skuli tillit til milliverðlagningarreglna Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) annars vegar við mat og leiðréttingu á verðlagningu á milli tengdra aðila og hins vegar þegar kemur að varðveislu skjölunarskylds aðila á gögnum. Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við brottfellinguna og það sjónarmið sett fram að ljóst þurfi að vera að íslenskum stjórnvöldum beri að beita framangreindum milliverðlagningarreglum OECD í framangreindum tilvikum.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að milliverðlagningarreglur OECD verði eftir sem áður mikilvæg heimild við beitingu milliverðlagningarreglna á Íslandi rétt eins og í öðrum ríkjum OECD enda séu íslensku reglurnar byggðar á þeim grundvallarreglum sem þar koma fram. Þá er sérstaklega tekið fram að í tillögunum felist engar efnislegar breytingar á íslenskum reglum um milliverðlagningu sem koma fram í 3.–6. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt. Framangreint var áréttað fyrir nefndinni og sérstaklega tekið fram að eftir sem áður yrði tekið mið af milliverðlagningarreglum OECD. Þá var sú skýring gefin að tillaga um brottfellingu vísana til milliverðlagningarreglna OECD grundvallaðist á því að óheppilegt væri að vísa í íslenskum lögum til reglna sem væru á erlendu tungumáli, ekki birtar hér á landi og kaupa þyrfti sérstakan aðgang að í gegnum OECD.
    Að mati nefndarinnar og í ljósi framangreinds á það ekki að valda sérstökum vafa að milliverðlagningarreglur OECD munu eftir sem áður verða notaðar við skýringu ákvæða um mat á leiðréttingu á verðlagningu milli tengdra lögaðila og varðveisluskyldu skjölunarskylds aðila sbr. 3.–6. mgr. 57. gr. laga um tekjuskatt. Með breytingunni er þannig ekki verið að opna fyrir setningu sérstakra íslenskra reglna um milliverðlagningu.

Gildistaka ákvæða laga nr. 142/2013 um skjölunarskyldu.
    Í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 142/2013 er kveðið á um að 8. gr. laganna, sem kveður á um breytingu á 57. gr. laga um tekjuskatt, öðlist gildi við samþykkt laganna og komi til framkvæmda 1. janúar 2014.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að gildistökuákvæðið þætti óljóst þar sem hægt væri að skilja það á þann hátt að ef rekstrartekjur lögaðila fóru yfir 1 milljarðs kr. mark sem kveðið er á um í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 142/2013 á árinu 2013 sé þeim skylt að hefja skjölun á árinu 2014.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 142/2013 segir um gildistökuna að ákvæðið öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda 1. janúar 2014 þannig að áhrifa þess gæti fyrst við álagningu 2015 vegna rekstrarársins 2014. Að mati nefndarinnar er því ljóst að skjölunarskyldan stofnast ekki fyrr en árið 2015 ef 1 milljarðs kr. markinu er náð á árinu 2014.

Skilyrði vegna bifreiða fatlaðs fólks sem undanþegnar eru vörugjaldi.
    Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að allur vafi verði tekinn af um að það sé skilyrði niðurfellingar vörugjalda af bifreiðum sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðu fólki, samkvæmt ákvæði m-liðar 1. tölul 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að þær séu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði.
    Í umsögn sem nefndinni barst var lýst áhyggjum vegna þess að ekki kæmi fram með nægilega skýrum hætti hvort lyfta, rampur, lyftusæti og lyftuarmur fyrir einstaklinga sem aka sjálfir teljist til búnaðar sem er sambærilegur hjólastólalyftu. Skilningur nefndarinnar er að þessi búnaður sé dæmi um búnað sem telst falla undir hugtakið sambærilegur búnaður.

Skattskyldir aðilar samkvæmt lögum um fjársýsluskatt.
    Athygli nefndarinnar var vakin á því að annmarkar væru á skilgreiningu 2. tölul. 2. gr. laga um fjársýsluskatt á skattskyldum aðilum þar sem orðalag skilgreiningarinnar væri ekki í fullu samræmi við markmið löggjafans eins og það er útfært í skýringum frumvarps þess sem varð að framangreindum lögum. Við setningu laganna var gert ráð fyrir því að fjársýsluskattsskylda tæki til aðila sem stunduðu starfsemi sem væri undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 9. og 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Í sérstökum athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir m.a.: „Sú nálgun er notuð í 2. tölul. 2. gr. frumvarpsins að telja með jákvæðum hætti upp þá aðila sem falla undir IV. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Í reynd er um sömu aðila að ræða og felldir hafa verið undir 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt.“
    Orðalag 2. tölul. 2. gr. laga um fjársýsluskatt er ekki í fullu samræmi við framangreindar skýringar. Bein orðskýring gefur til kynna að ákvæðið nái ekki til allra aðila sem hafa verið taldir undanþegnir virðisaukaskatti á grundvelli 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, heldur aðeins til viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Utan skilgreiningarinnar falla þannig aðilar sem inna af hendi vinnu sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana og telst því með sama hætti undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, sem og aðilar sem inna af hendi vinnu fyrir lánastofnanir sem telja má eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starfsemi þessara aðila og telst því á sama hátt undanþegin virðisaukaskatti.
    Að mati nefndarinnar er eðlilegt að lagfæra skilgreiningu skattskyldra aðila í 2. tölul. 2. gr. laga um fjársýsluskatt, víkka skattskylduna út þannig að hún taki einnig til annarra aðila sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni inna af hendi vinnu eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Að öðrum kosti gætu aðilar sem eru undanþegnir virðisaukaskatti samkvæmt framansögðu einnig talist undanþegnir fjársýsluskatti og þar með verið vanskattaðir af þessum hluta starfsemi sinnar auk þess sem slík staða kann að valda mögulegri röskun á samkeppnisstöðu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    13. gr. orðist svo:
    Á eftir orðunum „önnur fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki“ í 2. tölul. 2. gr. laganna kemur: rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris, og aðrir þeir aðilar.

Alþingi, 11. desember 2014.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Pétur H. Blöndal.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Árni Páll Árnason,
með fyrirvara.
Guðmundur Steingrímsson.
Unnur Brá Konráðsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Bjarnason.