Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 721  —  401. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni
um athugun rekstrarfélags Stjórnarráðsins á trúnaðarbroti í innanríkisráðuneytinu.


     1.      Var það niðurstaða athugunar rekstrarfélags Stjórnarráðsins, sem vísað var til í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu 12. janúar sl., að trúnaðargögn vegna máls hælisleitandans Tonys Omos hafi einungis farið til þeirra aðila sem samkvæmt lögum áttu rétt á þeim?
    Í kjölfar umfjöllunar um málefni hælisleitandans framkvæmdi rekstrarfélagið leit í miðlægri atburðaskrá (log-skrá) tölvupóstskerfis Stjórnarráðsins. Í skránni eru upplýsingar um sendanda tölvupósts, móttakendur, efnislínu og tímasetningu sendingar. Leitin sem vísað er til í fréttatilkynningu innanríkisráðuneytis 12. janúar 2014 náði til tölvupóstssamskipta þeirra sem hafa skilgreint netfang hjá innanríkisráðuneyti og var afmörkuð við efnislínu tölvupósta. Niðurstöður leitarinnar voru að tölvupóstssamskipti þar sem leitarstrengurinn „Tony Omos“ kom fyrir í efnislínu fóru einungis á milli aðila sem áttu rétt á þeim lögum samkvæmt.

     2.      Var rekstrarfélaginu veittur aðgangur að öllum gögnum frá innanríkisráðuneytinu sem óskað var eftir vegna athugunarinnar?
    Rekstrarfélag Stjórnarráðsins annast rekstur tölvukerfis innanríkisráðuneytis, þar á meðal hýsingu gagna. Leitin sem vísað er til var afmörkuð við atburðaskrá tölvupóstskerfis, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.

     3.      Var rekstrarfélaginu veittur aðgangur að tölvupósthólfi yfirstjórnenda innanríkisráðuneytisins?
     4.      Skoðaði rekstrarfélagið hið svokallaða opna drif ráðuneytisins þar sem trúnaðargögnin reyndust einnig vistuð og ef svo er, fannst minnisblaðið?

    Umrædd leit var afmörkuð við atburðaskrá tölvupóstskerfis, sbr. svar við 1. tölul. Í skránni eru upplýsingar um allar tölvupóstssendingar kerfisins.

     5.      Var niðurstaða rekstrarfélagsins algerlega í samræmi við það sem innanríkisráðuneytið lýsti í tilkynningu á vef sínum 12. janúar sl.?
    Niðurstöður leitarinnar voru að tölvupóstssamskipti þar sem leitarstrengurinn „Tony Omos“ kom fyrir í efnislínu fóru einungis fram á milli aðila sem áttu rétt á þeim lögum samkvæmt.