Ferill 466. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 725  —  466. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu
samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)





1. HLUTI
Innanríkisráðuneyti.
I. KAFLI
Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
1. gr.

     a.      Í stað orðanna „fatlaðan mann“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: fatlaðan einstakling.
     b.      Í stað orðsins „fatlaðra“ tvívegis í 2. mgr. 4. gr. og j-lið 1. mgr. 28. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.
     c.      Í stað orðanna „fatlaðra manna, sem eru fullra“ og „fatlaða“ í 1. mgr. 49. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks, sem er fullra; og: fatlað fólk.

II. KAFLI
Breyting á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað orðsins „fötluðum“ í f-lið 3. mgr. 61. gr. laganna kemur: fötluðu fólki.

III. KAFLI
Breyting á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, með síðari breytingum.
3. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

IV. KAFLI
Breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.
4. gr.

    Í stað orðsins „fávita“ í 222. gr. laganna kemur: einstaklingi með þroskahömlun.

V. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
5. gr.

     a.      Í stað orðanna „málefna fatlaðra“ í 2. tölul. c-liðar 8. gr. a og tvívegis í 1. mgr. og 2. mgr. 13. gr. a laganna kemur: málefna fatlaðs fólks.
     b.      Í stað orðsins „fatlaða“ í e-lið 9. gr. og hvarvetna í 13. gr. a laganna kemur: fatlað fólk.
     c.      Í stað orðanna „málefnum fatlaðra“ í 3. mgr. 13. gr. a laganna kemur: málefnum fatlaðs fólks.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála,
nr. 119/2012, með síðari breytingum.

6. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í c-lið 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum.
7. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 2. mgr. 58. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

VIII. KAFLI
Breyting á lögræðislögum, nr. 71/1997, með síðari breytingum.
8. gr.

     Í stað orðsins „fatlaðra“ í 2. mgr. 58. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

2. HLUTI
Velferðarráðuneyti.
IX. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991,
með síðari breytingum.

9. gr.

     a.      Í stað orðsins „fatlaða“ í 7. tölul. 2. gr., 3. mgr. 44. gr., fyrirsögn XI. kafla og 54. gr. laganna kemur: fatlað fólk.
     b.      Í stað orðsins „fötluðum“ tvívegis í 42. gr. laganna kemur: fötluðu fólki.
     c.      Í stað orðanna „fatlaða og leitast við að tryggja þeim“ í 43. gr. laganna kemur: fatlað fólk og leitast við að tryggja því.
     d.      Í stað orðanna „Fatlaðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og skal þeim“ í 1. mgr. 44. gr. laganna kemur: Fatlað fólk á rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og skal því.
     e.      Í stað orðsins „fatlaðra“ í 2. og 3. mgr. 44. gr. og tvívegis í 54. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

X. KAFLI
Breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993,
með síðari breytingum.

10. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 2. mgr. 52. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, með síðari breytingum.
11. gr.

    Í stað orðanna „hafa fatlaðir sem búa saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlaða“ í 5. mgr. 7. gr. laganna kemur: hefur fatlað fólk sem býr saman á sérstökum sambýlum fyrir fatlað fólk.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 5. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003,
með síðari breytingum.

13. gr.

     a.      Í stað orðsins „fatlaðra“ í 1. mgr. 3. gr., hvarvetna í 1. og 3. mgr. 4. gr. og hvarvetna í 1. og 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.
     b.      Í stað orðsins „fatlaða“ í 3. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: fatlað fólk.
     c.      Í stað orðanna „hinn fatlaða“ í 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna kemur: hinn fatlaða einstakling.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.
14. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 2. mgr. 26. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta
og daufblinda einstaklinga, nr. 160/2008, með síðari breytingum.

15. gr.

     a.      Í stað orðanna „daufblinda einstaklinga“ í 1. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 4. gr., „daufblinda“ í 4. mgr. 1. gr. og fyrirsögn 5. gr. og „daufblindra“ í a-lið 7. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
     b.      Í stað orðsins „daufblindir“ í 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
     c.      Í stað orðanna „Daufblindrafélags Íslands“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: Fjólu – félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
     d.      3. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: Einstaklingur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu: Einstaklingur telst með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu ef saman fer sjón- og heyrnarskerðing sem takmarkar athafnasemi hans og hamlar þátttöku í samfélaginu í slíkum mæli að hann þarfnast sértækrar þjónustu, laga þarf umhverfi að þörfum viðkomandi eða nýta sérstakan tæknibúnað til að mæta þörfum hans. Samþætting sjón- og heyrnarskerðingar er sérstök fötlun, en ekki samsetning tveggja fatlana.
     e.      Í stað orðsins „daufblindum“ tvívegis í 5. gr. laganna kemur: einstaklingum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
     f.      Í stað orðsins „fatlaðra“ tvívegis í 7. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.
     g.      Heiti laganna verður: Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

XVI. KAFLI
Breyting á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011,
með síðari breytingum.

16. gr.

    Í stað orðanna „hagsmunasamtök fatlaðra“ í c- og f-lið 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

3. HLUTI
Fjármála- og efnahagsráðuneyti.
XVII. KAFLI

Breyting á lögum um vörugjald á ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993,
með síðari breytingum.

17. gr.

    Í stað orðanna „fatlaðra“ og „fötluðum“ í m-lið 1. tölul. 4. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks; og: fötluðu fólki.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007, með síðari breytingum.
18. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

XIX. KAFLI
Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986,
með síðari breytingum.

19. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 9. mgr. 6. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

4. HLUTI
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
XX. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998,
með síðari breytingum.

20. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 14. tölul. 4. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

XXI. KAFLI
Breyting á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum.
21. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 3. tölul. 2. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

XXII. KAFLI
Breyting á lögum um mannvirki, nr. 160/2010, með síðari breytingum.
22. gr.

    Í stað orðsins „fatlaða“ í 3. tölul. 3. gr. laganna kemur: fatlað fólk.

5. HLUTI
Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
XXIII. KAFLI
Breyting á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011,
með síðari breytingum.

23. gr.

     a.      Í stað orðsins „daufblinda“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: samþætting sjón- og heyrnarskerðingar.
     b.      Í stað orðsins „daufblinda“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

XXIV. KAFLI
Breyting á bókasafnalögum, nr. 150/2012.
24. gr.

     a.      Í stað orðanna „fatlaðra sem njóta“ í 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks sem nýtur.
     b.      Í stað orðanna „daufblinda einstaklinga“ í 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.
25. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, með síðari breytingum.
26. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 1. mgr. 34. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, með síðari breytingum.
27. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 4. mgr. 24. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

XXVIII. KAFLI
Breyting á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra,
nr. 129/1990, með síðari breytingum.

28. gr.

    Í stað orðsins „fatlaðra“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: fatlaðs fólks.

6. HLUTI
Forsætisráðuneyti.
XXIX. KAFLI
Breyting á upplýsingalögum, nr. 140/2012, með síðari breytingum.
29. gr.

    Í stað orðsins „fötluðum“ í 4. mgr. 13. gr. laganna kemur: fötluðu fólki.

30. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um aðstoð til fatlaðra, nr. 25/1962, með síðari breytingum. Jafnframt fellur brott 3. gr. tilskipunar frá 23. mars 1827 um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hinn 30. mars 2007 (Convention on the Rights of Persons with Disabilities, CRPD). Markmið samningsins er að efla, tryggja og verja mannréttindi og grundvallarfrelsi fatlaðs fólks til jafns við aðra.
    Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var á Alþingi 11. júní 2012 (þskj. 1496, 440. mál 140. löggjafarþings) er tilgreindur fjöldi verkefna sem hrinda skyldi í framkvæmd fyrir lok árs 2014. Þar á meðal var fullgilding á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar hefur innanríkisráðuneytið leitt vinnu samstarfsnefndar ráðuneyta við undirbúning á fullgildingu samningsins.
    Ráðuneytin hafa farið yfir löggjöf hvert á sínu sviði og kannað hvaða lagabreytingar þarf að gera vegna ákvæða samningsins. Athugunin leiddi í ljós að gera þyrfti orðalagsbreytingar á fjölda lagaákvæða til að samræma þau hugtakanotkun samningsins, auk fjölþættra efnislegra breytinga á ákvæðum laga. Frumvarp þetta er afurð af framangreindri vinnu og miðar að því að færa hugtök laga til samræmis við ákvæði samningsins. Það er hluti af þeim lagabreytingum sem unnið er að til undirbúnings á fullgildingu hans. Áætlað er að fleiri frumvörp verði lögð fram í þessu skyni á yfirstandandi þingi.
    Í tengslum við undirbúning á fullgildingu samningsins hefur þýðing hans á íslensku verið endurskoðuð undir stjórn Ágústu Þorbergsdóttur, verkefnisstjóra á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar. Ítarlegt samráð var haft við hagsmunasamtök, stofnanir og ráðuneyti til að tryggja samræmi í hugtakanotkun við aðra alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að. Lokaútgáfa þýðingarinnar var birt á vef innanríkisráðuneytisins í nóvember 2013. Þar kemur fram að við þá útgáfu verði stuðst í fullgildingarferlinu og verði hún birt í Stjórnartíðindum að fullgildingu lokinni.
    Þrátt fyrir endurskoðaða hugtakanotkun í löggjöf sem greint er frá að framan er ekki lagt til að hróflað verði við hugtakanotkun vegna Félagsmálasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 3/1976.
    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu með aðstoð fyrrgreindrar samstarfsnefndar allra ráðuneyta. Þá var haft víðtækt samráð við Öryrkjabandalag Íslands, Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp auk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga við undirbúning þess. Þá var einnig leitað álits sérfræðings í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.
    Drög að frumvarpinu voru birt til kynningar og almennrar umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins og var tekið mið af þeim umsögnum sem bárust.
    Frumvarpinu er skipt upp í sex meginhluta. Í fyrsta hluta eru breytingar á löggjöf sem heyrir undir innanríkisráðuneytið, í öðrum hluta breytingar sem varða velferðarráðuneytið og í þriðja hluta eru breytingar sem varða fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í fjórða hluta eru breytingar á löggjöf sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fimmti hluti snertir löggjöf sem er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í sjötta hluta frumvarpsins eru breytingar sem snerta málefnasvið forsætisráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarps þessa.


Um 1.–29. gr.


    Hugtakanotkun í löggjöf er uppfærð með hliðsjón af hugtakanotkun í nýrri íslenskri þýðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Um 30. gr.


    Með gildistökuákvæði frumvarpsins er lagt til að lög um aðstoð til fatlaðra, nr. 25/1962, verði felld úr gildi. Í umsagnarferli frumvarpsins var athygli vakin á lögunum en efni þeirra er byggt á fyrirkomulagi sem er úrelt samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur ekki lengur einkaleyfi á sölu eldspýtna og því ekki forsendur fyrir því að heimila notkun tiltekins merkis á eldspýtustokka eins og ákvæði laganna gera ráð fyrir. Því er lagt til að lögin verði felld úr gildi.
    Í gildistökuákvæðinu er einnig lagt til að 3. gr. tilskipunar frá 23. mars árið 1827 um vald biskupa til að veita undanþágur frá fermingartilskipunum falli brott. Þar er ákvæði sem vakin var athygli á í umsagnarferli við undirbúning frumvarpsins. Ákvæðið hljóðar svo: „Nú er barn, sem ferma á, krypplingur, svo að það á bágt með að koma í kirkju til fermingar, eða það getur það eigi að hættulausu vegna stöðugra veikinda eða það hefir svo stórkostleg líkamslýti, að koma þess og yfirheyrsla í kirkjunni gæti vakið hneyksli; og skal þá biskupi heimilt að leyfa, að það sé fermt heima í votta viðurvist.“ Eins og öllum má ljóst vera er efni þessa ákvæðis tilskipunarinnar úrelt og ekki í samræmi við samninginn.
    Ráðuneytið óskaði eftir afstöðu þjóðkirkjunnar til gildissviðs tilskipunarinnar. Kirkjuþing 2014 samþykkti tillögu um að 3. gr. hennar félli brott eins og lagt er til í frumvarpi þessu.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til undirbúnings fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

    Tilgangur frumvarpsins er að breyta hugtakanotkun í ýmsum lögum í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem unnið er að fullgildingu á hér á landi. Jafnframt eru felld úr gildi lög nr. 25/1962, um aðstoð til fatlaðra, og 3. gr. tilskipunar um vald til biskupa til að veita undanþágu frá fermingartilskipunum frá 23. mars 1827.
    Breytingar á lögum sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta eingöngu að breytingu á hugtakanotkun þar sem eldra hugtaki er skipt út fyrir nýrra, svo sem að hugtakinu fatlaðir sé skipt út fyrir hugtakið fatlað fólk. Ekki er því um efnislegar breytingar að ræða, hvorki aukningu né skerðingu á réttindum eða þjónustu, og því hafa breytingarnar ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Lög nr. 25/1962, um aðstoð til fatlaðra, snúa að Styrktarsjóði lamaðra og fatlaðra og heimild Áfengis- og tóbaksverslunar (ÁTVR) ríkisins til að setja merki félagsins á eldspýtustokka og greiða félaginu allt að 20 aurum af hverjum stokki er verslunin selur með merki félagsins. Þar sem ÁTVR hætti að selja eldspýtur eftir að einkasala ríkisins var afnumin árið 1986 eru þessi lög úrelt. Þá er jafnframt þörf á að fella úr gildi þriðju grein tilskipunar um vald til biskupa til að veita undanþágu frá fermingartilskipunum frá 23. mars 1827. Sú breyting mun ekki hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.