Ferill 422. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 735  —  422. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, með síðari breytingum (fjölgun nefndarmanna,
afgreiðslu kærumála eldri úrskurðarnefndar).

Frá umhverfis- og samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Nönnu Magnadóttur frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, þess efnis að nefndarmönnum verði fjölgað, heimilt verði að deildaskipta úrskurðarnefndinni og að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála verði endanlega lögð niður og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála falið að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem ólokið er hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Tilefni breytinganna er mikill málafjöldi hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem valdið hefur töfum á afgreiðslu mála. Þá hefur mikill dráttur verið á afgreiðslu mála hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem hefur m.a. verið tilefni aðfinnslna af hálfu umboðsmanns Alþingis. Nauðsynlegt er að bregðast við með fjölgun nefndarmanna og heimild til að deildaskipta úrskurðarnefndinni til aukinnar hagræðingar þar sem þannig má auka sérhæfingu nefndarmanna og flýta afgreiðslu mála.
    Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að bregðast við auknum málafjölda hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og ljúka afgreiðslu eldri mála úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að í lok árs 2013 hafi 60 málum frá árunum 2008–2011 verið ólokið hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Slíkur dráttur á afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum er óviðunandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Katrín Júlíusdóttir og Jón Þór Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. desember 2014.

Höskuldur Þórhallsson,
form., frsm.
Haraldur Einarsson. Birgir Ármannsson.
Elín Hirst. Róbert Marshall. Svandís Svavarsdóttir.
Sigríður Á. Andersen.