Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 755  —  468. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um útgáfu ópersónugreinanlegra upplýsinga um skattgreiðslur landsmanna.


Flm.: Jón Þór Ólafsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hlutast til um að í það minnsta árlega verði gefin út skrá sem innihaldi sundurliðaðar og ópersónugreinanlegar upplýsingar um skattgreiðslur allra landsmanna.

Greinargerð.

    Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram samhliða breytingartillögu sem lögð hefur verið fram (þskj. 754) við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um fjársýsluskatt, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um búnaðargjald, með síðari breytingum (356. mál). Með breytingartillögunni er lagt til að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af í þeirri mynd sem hún er nú. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að landsmönnum verði tryggður aðgangur að upplýsingum um álagningu og skattgreiðslur landsmanna, þó þannig að þær verði ópersónugreinanlegar.
    Í þessu efni takast á tvö tvö grunngildi, annars vegar réttur landsmanna til upplýsinga er varðar samfélagið og hins vegar réttur hvers og eins landsmanns til friðhelgi einkalífs. Telja verður að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum gildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs, enda eru fjárhagsmálefni einstaklinga meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt.
    Á 132. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt um sama efni og fyrrgreind breytingartillaga (þskj. 23 í 23. máli). Í umræðum um málið lýstu ýmsir áhyggjum af því að ef frumvarpið yrði að lögum hefði fólk ekki nægar upplýsingar til að meta ójöfnuð í samfélaginu, launamun kynjanna o.fl. Þeirri þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram er ætlað að koma til móts við þessi sjónarmið með því að sjá til þess að á sama tíma og friðhelgi einkalífs verði betur tryggð verði aðgengilegar þær upplýsingar sem álagningarskrá hefur veitt, að öðru leyti en því að nöfn einstaklinga verði ekki lengur birt. Þegar ákvæði um opinbera birtingu álagningarskrár var fyrst sett í lög var skattaeftirlit hins opinbera mjög fátæklegt ekki til stofnanir í þjóðfélaginu til að sinna skattaeftirliti og rannsóknum. Lausn löggjafans fólst þá í því að fela hinum almenna borgara að hafa eftirlit með skattskilum samborgara sinna. Nú sinna stofnanir þessu eftirliti og ákvæði tekjuskattslaga um birtingu álagningarskrár er því löngu orðið úrelt. Það er hlutverk þessara stofnanna að annast rannsóknir á skattskilum, mælingu á jöfnuði og ójöfnuði, rannsóknir á svokölluðu vinnukonuútsvari o.s.frv.
    Í 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að ekki megi takmarka friðhelgi einkalífs nema brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Heimild til takmörkunar á þessum stjórnarskrárvarða rétti til friðhelgi einkalífs er því sérlega þröng, þar sem talað er um brýna nauðsyn. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hægt sé að rannsaka skattsvik og undanskot. Nú höfum við til þess rótgrónar stofnanir í samfélaginu. Ef þær geta ekki sinnt eftirliti sínu með fullnægjandi hætti, ber að styrkja þessar stofnanir frekar en að fela almennum borgurum eftirlitið og fórna stjórnarskrárvörðum réttindum borgaranna.
    Flutningsmaður þessarar tillögu er engu síður þeirrar skoðunar að allar upplýsingar um skattamálefni sem birta má eigi að vera aðgengilegar almenningi að teknu tilliti til friðhelgi einkalífs og leggur því til að upplýsingar um skattgreiðslur borgaranna verði öllum aðgengilegar, ópersónugreinanlegar.