Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 789  —  74. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingum (lausn úr landbúnaðarnotum og sala ríkisjarða).


Frá atvinnuveganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Brynhildi Pálmarsdóttur og Rebekku Hilmarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Eirík Blöndal og Elías Blöndal Guðjónsson frá Bændasamtökum Íslands, Óskar Pál Óskarsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Birki Snæ Fannarsson og Svein Runólfsson frá Landgræðslu ríkisins og Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Landgræðslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum eigenda sjávarjarða og Skipulagsstofnun. Einnig barst nefndinni skýrsla nefndar um landnotkun, athugun á notkun og varðveislu ræktanlegs lands.
    Samkvæmt 6. gr. jarðalaga getur ráðherra veitt leyfi fyrir því að land sé tekið úr landbúnaðarnotum. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að það verði að hluta til óháð leyfi ráðherra hvort land verði tekið úr landbúnaðarnotun. Verði frumvarpið að lögum tekur sveitarfélag ákvörðun um breytta landnotkun á grundvelli skipulagslaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tveimur undantekningum frá þessu, annars vegar ef landbúnaðarsvæði er 5 hektarar eða stærra og hins vegar ef landsvæði, sem er minna en 5 hektarar, er talið gott ræktunarland, hentar vel til landbúnaðar eða telst mikilvægt vegna matvælaframleiðslu.
    Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á VII. kafla laganna sem varða ríkisjarðir. Lögð er til breyting á 36. gr. laganna í því skyni að þrengja kauprétt ábúanda þannig að kaupréttur takmarkist við ábúendur sem sannarlega stunda búrekstur. Í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna eru sett skilyrði um að ábúandi hafi haft ábúð á jörðinni í a.m.k. sjö ár og að hann leggi fram yfirlýsingu sveitarstjórnar um að hann hafi setið jörðina vel o.fl. Lagt er til að við bætist skilyrði þess efnis að ábúandi nýti sjálfur land jarðarinnar til ræktunar og beitar og hafi rekið þar búvöruframleiðslu síðastliðin sjö ár sem að umfangi nemi a.m.k. 1/ 3 af meðalbúi í viðkomandi búgrein. Jafnframt er lagt til að ef landbúnaði er hætt á ábýlisjörð hafi ábúandi tvö ár til að óska eftir kaupum á jörðinni áður en kaupréttur hans fellur niður.
    Í 1. mgr. 38. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu til að auglýsa sölu ríkisjarða en frá því eru undanþágur í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Lagt er til í 6. gr. frumvarpsins að undanþágurnar falli brott. Í frumvarpinu er lagt til að 2. mgr. 36. gr. laganna falli brott en þar er kveðið á um að þau skilyrði sem ábúandi þarf að uppfylla til að geta keypt jörð eigi hvorki við þegar um ræðir ríkisjarðir sem ekki eru nýttar til landbúnaðarstarfsemi né jarðir sem 39. gr. gildir um en 39. gr. á við um ríkisjarðir sem ekki skal selja. Við umfjöllun um málið kom fram athugasemd þess efnis að þó svo að þörfin yrði lítil fyrir 2. mgr. 36. laganna, verði frumvarpið að lögum, væri ekki útilokað að greinin hefði þýðingu. Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að 2. mgr. 36. gr. verði áfram í lögunum.
    Nefndin leggur til viðbót við frumvarpið. Lagt er til að ef um er að ræða land sem Landgræðsla ríkisins (og áður Sandgræðsla ríkisins) hefur tekið eignarnámi eða land sem hefur verið afsalað til viðkomandi stofnunar þá eigi eigandi þeirrar jarðar sem landið áður fylgdi rétt til að kaupa það þegar það er nægilega vel gróið að mati landgræðslustjóra, sbr. 12. gr. laga um landgræðslu.
    Í 7. gr. landgræðslulaga er kveðið á um að Landgræðsla ríkisins skuli afla sér fullkomins umráðaréttar yfir því landi sem hún tekur til heftingar á jarð- og sandfoki eða endurgræðslu. Þetta skal gert með samningi eða eignarnámi, fáist umráðaréttur ekki á annan hátt. Sambærilegt ákvæði var í eldri lögum. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að þess væru einnig dæmi að eigendur jarða hefðu afsalað landi til Landgræðslunnar í framangreindum tilgangi en án endurgjalds. Jafnframt kom fram að dæmi væru um að eigendur jarða sem eru í þeirri aðstöðu sem hér hefur verið lýst hafi sóst eftir því að kaupa land sem áður tilheyrði jörðum þeirra. Kaupin hefðu hins vegar ekki gengið eftir, ýmist vegna vafa um heimildir til kaupa eða ágreinings um verð. Í breytingartillögu nefndarinnar felst kaupréttur eiganda þeirrar jarðar sem landið tilheyrði áður þegar landið er svo vel gróið að dómi landgræðslustjóra að ekki sé talin nauðsyn frekari aðgerða af hendi stofnunarinnar. Nefndin leggur til að söluverðið byggist á samkomulagi þar sem m.a. er höfð hliðsjón af því gjaldi sem kom fyrir landið þegar Landgræðsla/Sandgræðsla tók við því og hins vegar hver kostnaður viðkomandi stofnunar vegna uppgræðslunnar hefur verið. Ljóst er að torvelt getur verið að afla upplýsinga um hið síðarnefnda. Því er gert ráð fyrir því að ef ágreiningur verður um kaupverð skuli framkvæmd úttekt á landinu samkvæmt ábúðarlögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um ríkisjarðir sem eru ekki nýttar til landbúnaðarstarfsemi og ekki heldur jarðir sem 39. gr. gildir um.
     2.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  Á eftir 36. gr. laganna kemur ný grein, 36. gr. a, svohljóðandi:
                  Hafi Landgræðsla ríkisins (áður Sandgræðsla ríkisins) tekið land eignarnámi til uppgræðslu á grundvelli 7. gr. laga nr. 17/1965, um landgræðslu, eða eldri laga, nr. 18/1941 eða nr. 45/1923, eða landi verið afsalað til stofnunarinnar í sama tilgangi hefur eigandi þeirrar jarðar sem landið áður fylgdi rétt til að kaupa það þegar landið er nægilega vel gróið að mati landgræðslustjóra, sbr. 12. gr. laga um landgræðslu. Kaupréttur er bundinn því skilyrði að landið sé tekið til landbúnaðarnota og verði ekki leyst úr landbúnaðarnotum næstu tíu ár.
     3.      Við 5. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Söluverð lands skv. 36. gr. a skal byggjast á samkomulagi þar sem m.a. skal höfð hliðsjón af því gjaldi sem kom fyrir landið við afsal eða eignarnám og hverju Landgræðsla ríkisins (Sandgræðsla ríkisins) hefur kostað til við uppgræðslu þess. Rísi ágreiningur um söluverð skv. 1. málsl. skal framkvæmd úttekt á landinu samkvæmt ábúðarlögum, nr. 80/2004.

    Haraldur Benediktsson og Þórunn Egilsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Kristján L. Möller skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 10. desember 2014.

Jón Gunnarsson,
form.
Páll Jóhann Pálsson,
frsm.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Björt Ólafsdóttir. Kristján L. Möller,
með fyrirvara.
Þorsteinn Sæmundsson.