Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 790  —  313. mál.
Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur
um framlög til rannsókna í þágu ferðaþjónustu og iðnaðar.


     1.      Hve há framlög veitti ríkissjóður árlega á árunum 2010–2013 til rannsókna í þágu ferðaþjónustu annars vegar og iðnaðar hins vegar, skipt eftir fjárlagaliðum?
    Í eftirfarandi tveimur töflum eru talin upp framlög til rannsókna- og þróunarverkefna (grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna) eftir fjárlagaliðum sem falla undir ráðherra og þær stofnanir sem undir hann heyra. Á árunum 2010 til 2012 heyrðu þessir fjárlagaliðir undir iðnaðarráðuneyti en á árinu 2013 undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Hér er ótalinn kostnaður við almennan rekstur stofnana, svo sem launakostnaður, kostnaður vegna húsnæðis, skrifstofubúnaðar o.s.frv. þar sem sumar stofnanir, nánast eingöngu, sinna og/eða veita rannsóknum brautargengi en hjá öðrum stofnunum er það hluti af öðrum verkefnum.

Rannsóknir í þágu ferðaþjónustu í millj. kr. (verðlag hvers árs).

Ráðuneyti og stofnanir Fjárlagaliðir* 2010 2011 2012 2013
Atvinnuvega- og nýsköpunar- ráðuneytið:
Annað (Áætlanir um ferðamennsku á hálendinu, sjálfbær ferðamennska á jarðhitasvæðum) 11-401-11099 0 13,5 2,0 0
Byggðaáætlun (heilsuferða- þjónusta, norðurljósaspá o.fl.) 11-401-11000 0 0,0 5,9 0
NORA 11-401-11050 5,3 5,4 10,7 0
Markaðssókn í íslenskri ferða- þjónustu, þróunarsjóður 11-599-14400 0 0 22,0 0
Ýmis ferðamál (Söguþjónusta, ferðaverkefni o.fl.) 11-599-19000 8,2 3,2 0,0 0
Ýmis ferðamál (Þróun ferða- þjónustu, heilsuferðaþjónusta áætlanir í ferðaþjónustu o.fl.) 11-599-19800 0,0 3,3 6,9 0
Ferðamál, ýmis verkefni, tölfræðivinnsla 04-559-19800 0 0 0 6,0
Byggðaáætlun (Söguslóðir, heilsuferðaþjónusta o.fl.) 04-541-11000 0 0 0 18,5
Stofnanir:
Íslandsstofa – Græna hagkerfið 11-299 0 0 10 0
Ferðamálastofa 11-501/04-551 10 10 10 70
Nýsköpunarmiðstöð Íslands 11-205/04-501 17,94 46,67 97,74 57,78
Tækniþróunarsjóður 11-242/04-511 14,7 25,2 20,5 16
Framlög úr ríkissjóði 56,2 107,2 185,7 168,2
* 11-Iðnaðarráðuneytið/04-Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.


Rannsóknir í þágu iðnaðar í millj. kr. (verðlag hvers árs).

Ráðuneyti og stofnanir Fjárlagaliðir* 2010 2011 2012 2013
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið:
Nýsköpun og markaðsmál 11-299-15000 12,5 0 1,5 0
Ýmis framlög til nýsköpunar 11-299-19800 0,4 1,0 35,5 0
Jarðhitaleit 11-399-11200 0 22,0 0 0
Ýmis verkefni í tengslum við orkumál 11-399-19800 7,4 1,8 0 0
Nýsköpun og markaðs-mál fyrir iðju og iðnað 04-528-19800 0 0 0 2,0
Ýmis verkefni í tengslum við orkumál 04-599-19800 0 0 0 15,0
Stofnun:
Nýsköpunarmiðstöð Íslands 11-205/04-501 177,2 241,9 143,7 145,7
Tækniþróunarsjóður 11-242/04-511 743,1 791,9 677,2 1.162,2
Framlög úr ríkissjóði 940,4 1.058,6 857,9 1.325,0
* 11-Iðnaðarráðuneytið/04-Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

     2.      Hvert er áætlað að hafi verið árlegt framlag hvorrar atvinnugreinar fyrir sig til þjóðarframleiðslunnar sömu ár?
    Ferðaþjónustan er ekki flokkuð sem sérstök atvinnugrein í gögnum Hagstofu Íslands. Á árunum 2000–2009 birti Hagstofan sérstaka ferðaþjónustureikninga samkvæmt samningi við þau ráðuneyti sem fóru með ferðamál á því tímabili. Ekki voru gerðir slíkir samningar fyrir árin 2010–2013 þar sem fjárveitingar ráðuneytisins til verkefnisins voru felldar niður. Í apríl á þessu ári var ákveðið að hefja að nýju gerð ferðaþjónustureikninga og samdi ráðuneytið til þriggja ára við Hagstofuna um vinnslu þeirra. Það rof sem varð í vinnslu ferðaþjónustureikninga á þessu tímabili veldur því að ýmsar mikilvægar upplýsingar um ferðaþjónustuna liggja ekki fyrir varðandi framangreint tímabil, 2010–2013. Í skýrslu sem Vilborg Helga Júlíusdóttir hagfræðingur og Sverrir Bollason verkfræðingur unnu fyrir Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hlutur ferðaþjónustunnar hafi verið ríflega 6% af landsframleiðslu á árinu 2011 en um 7,5% á árinu 2013. Á sama tímabili hefur hlutur iðnaðar verið nokkuð stöðugur og nam 18,4% af landsframleiðslu árið 2013. Athygli er vakin á því að tölurnar sýna bein framlög til hvorrar atvinnugreinar en ná ekki til óbeinna áhrifa í tengslum við aðrar atvinnugreinar.

Hlutfall ferðaþjónustu og iðnaðar af landsframleiðslu 2010–2013.

Hlutfall af landsframleiðslu 2010 2011 2012 2013
Ferðaþjónusta* - 6,6% 7,0% 7,5%
Iðnaður** 18,6% 19,1% 18,2% 18,4%
* Heimild: Vilborg Helga Júlíusdóttir og Sverrir Bollason (apríl 2014). Ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu. Staða, horfur og fjárfestingarþörf.
** Heimild: Hagstofa Íslands og útreikningar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Iðnaður er skilgreindur samkvæmt ISAT2008, bálkar b, c og f.

     3.      Til hvaða helstu rannsókna í þágu ferðaþjónustu hefur ríkissjóður veitt framlög árlega sl. fjögur ár?
    Framlög á árunum 2010–2013 fóru m.a. til markaðsrannsókna, kortlagningar á stöðu ýmissa þátta í starfsemi ferðaþjónustunnar, hugbúnaðarlausna, þolmarkarannsókna og kannana á fjölda ferðamanna og ferðavenjum þeirra. Það sem af er þessu ári hefur ráðuneytið m.a. gert þriggja ára samning við Hagstofu Íslands um vinnslu ferðaþjónustureikninga. Þá var gerður samningur við Rannsóknasetur verslunarinnar til að vinna rannsókn um neyslu ferðamanna hér á landi og við Háskólann á Bifröst um skattsvik í ferðaþjónustu.

     4.      Hvað telur ráðherra eðlilegt að framlög ríkissjóðs til rannsókna vegna fyrrgreindra atvinnugreina séu há sem hlutfall af framlagi atvinnugreinanna til þjóðarframleiðslunnar eða telur ráðherra réttara að miða við eitthvað annað í þessu sambandi og ef svo er, þá hvað?
    Eðlilegra er að framlög ríkissjóðs til rannsókna í atvinnulífinu taki mið af þörfinni í stað þess að binda þau við tiltekið hlutfall af landsframleiðslu.

     5.      Hvað hafa verið veitt hlutfallslega há framlög til rannsókna í þágu ferðaþjónustu og iðnaðar sl. tvö ár í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi?
    Ráðuneytið leitaði upplýsinga á heimasíðum hagstofa landanna og á vef Eurostat (Hagstofu Evrópusambandsins). Þar er hvergi að finna tölur um framlög til rannsókna í ferðaþjónustu. Í eftirfarandi töflu má sjá opinber framlög landanna til rannsókna og þróunar í þágu iðnaðar og tækni, annars vegar sem hlutfall af landsframleiðslu og hins vegar sem hlutfall af heildarframlögum til rannsókna og þróunar.

Rannsóknir í þágu iðnaðar og tækni í Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.*

2012 2013
Hlutfall af landsframleiðslu Hlutfall af heildarframlögum Hlutfall af landsframleiðslu Hlutfall af heildarframlögum
Bretland 0,02% 4,2% 0,02% 4,2%
Danmörk 0,03% 2,7% 0,03% 3,0%
Noregur 0,06% 7,0% 0,06% 7,6%
Svíþjóð 0,01% 1,6% 0,01% 1,5%
* Heimild: Eurostat.

     6.      Hvað telur ráðherra einkum að rannsaka þurfi í þágu ferðaþjónustu og iðnaðar á næstu árum fyrir framlög úr ríkissjóði?
    Í september 2013 var birt skýrsla sem KPMG tók saman að beiðni Ferðamálastofu undir heitinu Þörfin fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu. Skýrslan var unnin í samræmi við aðgerðaáætlun sem sett var fram í þingsályktun um ferðamálaáætlun 2011–2020 þess efnis að þarfagreining um rannsóknir fyrir ferðaþjónustu verði endurskoðuð með aðkomu hagsmunaaðila. Við greiningu á þörf fyrir rannsóknir hefur einkum verið höfð hliðsjón af framangreindri greiningu. Rannsóknir á þolmörkum ferðaþjónustunnar hvað varðar ferðamenn, umhverfi og heimafólk hafa mikið vægi. Enn fremur stendur til að skilgreina rannsókn á þolmörkum innviða, þ.e. atvinnugreinarinnar sjálfrar og þeirrar þjónustu sem til staðar þarf að vera til að tryggja framgang hennar. Þá mun áfram verða lögð áhersla á ýmsar kannanir, m.a. um ferðahegðun og upplifun ferðamanna.
    Til að stuðla að nauðsynlegri þróun í iðnaði verður áfram lögð áhersla á aukin framlög til samkeppnissjóða (Tækniþróunarsjóð) í samræmi við aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs. Í áætluninni er lögð áhersla á aukna verðmætasköpun og bætta nýtingu, t.d. úr áli og kísli, sjávarútveginn, orkugeirann o.fl. Aukin framlög til Tækniþróunarsjóðs munu styðja við þá áætlun.