Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 813  —  414. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um flutning höfuðstöðva Fiskistofu.

    
    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Telur ráðherra að hann þurfi lagaheimild til að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði norður til Akureyrar og ef svo er, hvar er slíka heimild að finna í lögum?

    Svarið er já. Annars vegar taldi ráðherra og telur ótvírætt að afla hafi þurft heimildar í fjárlögum til að standa undir kostnaði við fyrirhugaðan flutning höfuðstöðva Fiskistofu og boðaði í sumar að leitað yrði slíkra heimilda bæði í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 og einnig fyrir árið 2016. Tillögur þar að lútandi voru kynntar fjárlaganefnd milli 1. og 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið í haust og hafa nú verið samþykktar sem hluti af fjárlögum. Hins vegar er staðan ekki eins ljós varðandi lagaheimild til að flytja stofnunina. Eftir að ráðherra tilkynnti um þau áform og boðaði ákvörðun um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar komu fram efasemdir um að fullnægjandi lagaheimild væri fyrir hendi. Engin ákvæði eru um aðsetur Fiskistofu í lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, og engin ákvæði eru heldur um aðsetur opinberra stofnana í lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands.
    Í eldri lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, eins og þeim var breytt með lögum nr. 121/1999 var almennt ákvæði um að ráðherra kveði á um aðsetur þeirra stofnana sem undir hann heyra. Ákvæðið var lögfest í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands frá 18. desember 1998, í máli nr. 312/1998, þar sem talið var að ákvörðun umhverfisráðherra um að flytja höfuðstöðvar Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness væri ólögmæt, þar sem lagaheimild vantaði fyrir ákvörðuninni. Í forsendum dómsins var m.a. vísað til 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, þar sem fram kemur að aðsetur ráðuneyta skuli vera í Reykjavík, en vöntun á ákvæðum um aðsetur annarra opinberra stofnana leiði til þess að ekki sé hægt að flytja þær frá Reykjavík nema fyrir hendi séu sérstakar lagaheimildir um það efni. Umrætt ákvæði féll hins vegar niður við setningu laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þegar eldri lögin voru numin úr gildi, án þess að fjallað væri nokkuð um það í athugasemdum við frumvarpið.
    Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að höfuðstöðvar Fiskistofu eru í Hafnarfirði en ekki Reykjavík, og því alls ekki ljóst hvort sérstaka lagaheimild þurfi til að flytja þær frá Hafnarfirði til Akureyrar með hliðsjón af framangreindu ákvæði 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar. Engu að síður ákvað ráðherra, eftir að umræddar efasemdir höfðu verið settar fram og til að taka af allan vafa um þetta atriði, að beita sér fyrir ótvíræðri lagaheimild til að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.
    Forsætisráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem lagt er til að tekið verði upp á nýjan leik ákvæðið frá 1999 um forræði ráðherra yfir staðsetningu stofnana, en frumvarpið fjallar einnig um ýmis önnur atriði.
    Í 1. gr. frumvarpsins er svohljóðandi ákvæði: „Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“ Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 144. löggjafarþing 2014–2015, þskj. 666 í 434. máli, er gerð grein fyrir sambærilegu ákvæði eldri laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, eins og því var breytt með lögum nr. 121/1999 en þar segir m.a.:
    „Dómur Hæstaréttar er skýr um það að stofnanir verði ekki staðsettar utan Reykjavíkur nema með heimild í lögum. Með vísan til þess var talið nauðsynlegt að taka af allan vafa um heimildir ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana utan Reykjavíkur, sbr. áðurnefnd lög nr. 121/1999.
    Í núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, er hins vegar ekki mælt fyrir um heimild ráðherra til að kveða á um aðsetur þeirra stofnana sem tilheyra starfsemi framkvæmdarvaldsins. Brottfall þessa ákvæðis er þó ekki útskýrt í athugasemdum við frumvarp til laganna. Hér er því lagt til, með hliðsjón af framangreindu, að aftur verði kveðið á um almenna heimild til handa ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra og er lagt til að ákvæði eldri laga verði tekið upp óbreytt. Er talið rétt og eðlilegt að umrædd lagaheimild verði endurvakin enda hefur verið litið svo á að ákvörðunarvald um þetta sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum sem undir hann heyra. Að óbreyttu má ætla að sérstaka lagaheimild þyrfti í hverju tilviki ef staðsetja ætti stofnun utan sveitarfélagamarka Reykjavíkur.“
    Verði framangreint frumvarp forsætisráðherra að lögum mun það fela í sér ótvíræða heimild fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að taka ákvörðun um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar.