Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 823  —  477. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2014.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, á árinu 2014 bar hæst ástandið í Úkraínu og þátt Rússlands í því sambandi. Þá voru málefni pólitískra fanga mikið til umræðu, ekki síst í Aserbaídsjan, ásamt loftslagsbreytingum og mansali.
    Ársfundur þingsins fór fram í Bakú og bar líkt og árið 2013 yfirskriftina Helsinki +40, en svo nefnist endurskoðunar- og umbótaferlið sem fer nú fram hjá ÖSE í tilefni 40 ára afmælis stofnunarinnar árið 2015. Í yfirlýsingu fundarins lýsti þingið m.a. yfir miklum áhyggjum af ástandinu í Úkraínu og lagði áherslu á hlutverk ÖSE þegar kæmi að því að leiða aðila málsins saman í uppbyggilegar samræður, hafa eftirlit með og styðja framkvæmd allra meginreglna og skuldbindinga ÖSE á vettvangi, koma í veg fyrir stigmögnun átakanna og efla diplómatískt ferli í átt að friðsamlegri lausn á vandanum. Þá kallaði þingið eftir því að Rússland afturkallaði innlimun Krímskaga og borgarinnar Sevastopol í austurhluta Úkraínu. Þingið ályktaði enn fremur um og fordæmdi framferði Rússa í Úkraínu sem brot á meginreglum Helsinki- sáttmálans, þar á meðal sérstaklega stórfellt brot á fullveldi og friðhelgi landsvæðis úkraínska ríkisins. Þá lýsti þingið yfir ótvíræðum stuðningi við fullveldi, stjórnmálalegt sjálfstæði, samheldni og friðhelgi landsvæðis Úkraínu, eins og það er skilgreint í stjórnarskrá landsins og viðurkennt alþjóðlega. Hernaðarleg íhlutun rússneskra hermanna í Úkraínu er hörmuð, sem og mannréttindabrotin sem íhlutunin heldur áfram að valda. Í ályktuninni er kallað eftir að Rússland hætti íhlutun á svæðinu og fylgi meginreglum Helsinki-sáttmálans í samskiptum sínum við Úkraínu, hætti flugi herþotna yfir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin og niðurrifsstarfsemi meðal rússneskra íbúa Eystrasaltsríkjanna. Úkraína er hvött til að halda áfram viðleitni til að fylgja reglum og venjum ÖSE þegar kemur að uppbyggingu lýðræðisstofnana, lögum og reglu og mannréttindum.
    Á ársfundinum hittust sendinefndir Rússlands og Úkraínu til að ræða ástandið í Úkraínu og þá var stofnaður sérstakur vettvangur sem hefur það markmið að vinna að lausn deilunnar og styðja friðarviðræður. Vettvangurinn fékk heitið Bakú-hópurinn og í honum eru þingmenn sendinefnda Rússland, Úkraínu og fleiri aðildarríkja.
    Þingið ályktaði enn fremur um málefni pólitískra fanga og lýsti yfir stuðningi við nýsamþykkta skilgreiningu Evrópuráðsþingsins á pólitískum fanga, samhliða því að sérstaklega er lýst yfir áhyggjum af pólitískum föngum í Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi. Þá fundaði hópur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) innan ÖSE-þingsins með landsdeild Aserbaídsjan á meðan á vetrarfundinum stóð og með fulltrúum mannréttindasamtaka í Bakú samhliða ársfundi, til að ræða ástand mannréttindamála í landinu.
    Á haustfundi þingsins voru rædd tengslin milli loftslagsbreytinga og öryggismála og þingmenn hvattir til að vekja athygli þjóðþinga sinna á mikilvægi þess að árangri væri náð á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015. Þá væri mikilvægt að skoða áhrif loftslagsbreytinga og umhverfisstórslysa á mannréttindi og þá staðreynd að konur og börn væru sérstaklega varnarlaus í þannig aðstæðum.
    Sérlegur fulltrúi þingsins gagnvart baráttunni gegn mansali, bandaríski þingmaðurinn Christopher Smith, vakti athygli þingmanna á að fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2015 gerði ráð fyrir miklum niðurskurði til málaflokksins. ÖSE hefði skuldbundið sig til að leiða baráttuna gegn mansali og því væri þessi þróun ekki úthugsuð og óviturleg. Hann hvatti þingmenn til að þrýsta á ríkisstjórnir sínar að sjá til þess að framlög ÖSE til málaflokksins yrðu ekki lækkuð.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
    ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Þá hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnananna þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og þingið sérnefndir til að taka aðkallandi mál til skoðunar og vera ráðgefandi um þau. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers fyrir meinta hryðjuverkamenn í Guantanamo á Kúbu og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi. Nú síðast var stofnaður sérstakur vettvangur vegna ástandsins í Úkraínu á ársfundinum í júlí 2014 í Bakú, sem fékk heitið Bakú-hópurinn (e. Baku group). Hópnum er ætlað að vinna að lausn deilu Rússlands og Úkraínu og styðja friðarviðræður á milli deiluaðila.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingsköpum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru kosnir Elsa Lára Arnardóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Pétur H. Blöndal, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Bjartrar framtíðar. Varamenn voru Frosti Sigurjónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Björt Ólafsdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2014 var eftirfarandi:

1. Nefnd um stjórnmál og öryggismál Elsa Lára Arnardóttir
2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál Pétur H. Blöndal
3. Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál Guðmundur Steingrímsson

    Íslandsdeild ÖSE-þingsins hélt einn fund á árinu þar sem farið var yfir undirbúning fyrir ársfund ÖSE-þingsins sem haldinn var í Bakú í Aserbaídsjan. Elsa Lára Arnardóttir, formaður Íslandsdeildar, sótti samráðsfund Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins í Vilnius í janúar 2014. Hvað varðar trúnaðarstörf fyrir ÖSE-þingið gegndi Pétur H. Blöndal sem fyrr starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE. Hann gaf stjórnarnefnd þingsins skýrslu um störf sín á vetrarfundi þess í Vín og haustfundinum í Genf. Á vetrarfundinum greindi hann frá fundum sínum með ríkisendurskoðun Þýskalands, sem tók við endurskoðun reikninga ÖSE árið 2013, og boði aðstoðarforstjóra hennar til að gefa stjórnarnefnd ÖSE-þingsins skýrslu um hlutverk stofnunarinnar þegar kæmi að endurskoðun reikninga ÖSE. Á haustfundinum gagnrýndi Pétur fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2015, þar á meðal aukin framlög til skrifstofu ÖSE í Vín á kostnað framlaga til vettvangsskrifstofa. Sjá nánar hér á eftir.

5. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur að sumri og haustfundur í október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 13.–14. febrúar 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Pétur H. Blöndal, varaformaður, og Guðmundur Steingrímsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara. Fundinn sóttu yfir 270 þingmenn frá fleiri en 58 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE, auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefndanna. Meginefni fundarins var eftirlit þjóðþinga með her- og öryggissveitum á ÖSE-svæðinu, pólitískir fangar, vatnsstjórn á ÖSE-svæðinu og þær áskoranir sem blasa við vegna aukins útlendingahaturs, öfgastefnu og róttækni á svæðinu. Þá var ástandið í Úkraínu rætt ítarlega. Loks fundaði hópur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) innan ÖSE-þingsins með landsdeild Aserbaídsjan, þar sem ástand mannréttindamála þar var rætt, í aðdraganda ársfundar ÖSE-þingsins þar í landi í júlí 2014.
    Fyrri sameiginlegan fund málefnanefndanna þriggja ávörpuðu forseti ÖSE-þingsins, Ranko Krivokapic, Barbara Prammer, forseti austurríska þingsins, og Abdul Raouf Ibrahimi, forseti neðri deildar afganska þingsins. Ibrahimi skýrði frá því að afganska þingið vonaðist til að geta lært af þjóðþingum aðildarríkja ÖSE þegar kæmi að hlutum, eins og lagasetningu og þróun lýðræðisstofnana. ÖSE-þingið gæti gegnt þýðingarmiklu hlutverki í því samhengi.
    Fund nefndar um stjórn- og öryggismál ávörpuðu m.a. Pia Kauma, þingkona frá Finnlandi og framsögumaður nefndarinnar, og Dominic Schroeder, formaður öryggisnefndar ÖSE- þingsins og formaður landsdeildar Bretlands. Í erindi sínu kynnti Kauma hugmyndir sínar að skýrslu og ályktun nefndarinnar fyrir komandi ársfund í Bakú. Hún lagði m.a. áherslu á að stofnunin brygðist við landfræðipólitískum breytingum og nýjum ógnum, eins og hryðjuverkum og tölvuógnum, og legði áherslu á hlutverk kvenna þegar kæmi að sáttaumleitunum, sbr. ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325. Þá brýndi hún mikilvægi þess að ÖSE brygðist við átökum innan ríkja, til dæmis í Sýrlandi og Úkraínu. Í erindi sínu kynnti Schroeder starf öryggisnefndar ÖSE á komandi ári, þar sem áhersla verður lögð á löggæslu á ÖSE-svæðinu, og baráttuna gegn hryðjuverkum og öfgahyggju. Kynferðislegt ofbeldi gegn konum verður einnig í brennidepli, sem og öryggi á landamærum ÖSE-svæðisins og baráttan gegn eiturlyfjum. Í kjölfarið fór fram sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Þingræðisleg stjórn á her- og öryggissveitum: tryggt gagnsæi heima fyrir og á alþjóðavísu“. Erindi héldu m.a. Adam Kobieracki, forstöðumaður átakaforvarnamiðstöðvar ÖSE (e. OSCE Conflict Prevention Centre), og Prasenjit Chaudhuri, ofursti í svissneska hernum. Kobieracki kynnti siðareglur ÖSE og ræddi þá áskorun að tryggja að þeim yrði framfylgt. Chaudhuri fór yfir þau lög og þær reglur sem svissneski herinn þarf að fylgja í sínu starfi og hvernig eftirliti er hagað og gagnsæi tryggt.
    Fund nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál ávörpuðu m.a. Roger Williams, breskur þingmaður og framsögumaður nefndarinnar, og dr. Halil Yurdakul Yigitguden, sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Williams lagði áherslu á mikilvægi málaflokksins á vettvangi ÖSE í ljósi vaxandi vandamála í tengslum við efnahagskreppuna, mengun, matvælaöryggi, vatnsöryggi og loftslagsbreytingar. Þetta væru vandamál sem ríki gætu einungis leyst í samvinnu. Dr. Yigitguden hélt erindi um samvinnu aðildarríkja ÖSE þegar kæmi að vatnsstjórn. Hann hóf erindi sitt á að brýna fyrir fundarmönnum mikilvægi málaflokksins, víða væri að finna áskoranir þegar kæmi að vatnsstjórn á ÖSE-svæðinu. Samvinna væri mikil um málið, en betur mætti ef duga skyldi. Vandamál tengd vatnsstjórn væru samfélags- og efnahagsleg, sem og tengd öryggi. Loftslagsbreytingar ykju hættuna í þessu samhengi, og áhrifin væru ekki bara staðbundin heldur einnig alþjóðleg, m.a. á framboð matvæla og vatnsöryggi.
    Fund nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál ávörpuðu m.a. Andrei Sannikov, leiðtogi pólitísku hreyfingarinnar „European Belarus“ og fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Hvíta- Rússlandi, og Yevgeniy Zhovtis frá Alþjóðaskrifstofu um mannréttindi og réttarríkið (e. International Bureau for Human Rights and Rule of Law) í Kasakstan. Þá flutti Rashid Hajili, frá Stofnun um réttindi fjölmiðla (e. Media Rights Institute) í Aserbaídsjan erindi, en hann starfar einnig sem lögfræðilegur ráðgjafi Anar Mammadli, formanns Kosningaeftirlits- og lýðræðisstofnunar Aserbaídsjan (e. Azerbaijani Election Monitoring and Democracy Studies Centre), sem situr nú í fangelsi. Í erindi sínu harmaði Sannikov áframhaldandi varðhald pólitískra fanga, pyntingar, ósanngjörn réttarhöld og skort á grunnréttindum í Hvíta-Rússlandi og hvatti þingmenn til að beina athygli sinni að lýðræðislegum stöðlum á öllu ÖSE- svæðinu. Zhovtis ræddi mál pólitísku fanganna Vladimir Kozlov, Roza Tuletaeva og Vadim Kuramshin í Kasakstan. Loks ræddi Hajili mál umbjóðanda síns, Anar Mammadlis, sem hann sagði hafa verið handtekinn fyrir opinská ummæli sín um lagabrot ríkisvaldsins í síðustu forsetakosningum í landinu árið 2013.
    Síðari sameiginlegan fund nefndanna þriggja ávörpuðu Lamberto Zannier, sendiherra og framkvæmdastjóri ÖSE, og dr. Hedy Fry, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins á sviði jafnréttismála. Þá var ástandið í Úkraínu rætt ítarlega. Í erindi sínu ræddi dr. Fry um jafnréttisstefnu ÖSE. Hún skýrði frá því að á árinu 2014 væru tíu ár síðan ÖSE hefði markað sér stefnu í málaflokknum. Staða jafnréttismála hefði skánað en erfitt væri að mæla árangur þar sem stefnunni hefðu ekki fylgt mælikvarðar á árangur. Í því sambandi lagði hún til að ÖSE-þingið mótaði og setti á fót sértæka árangursgreiningu (e. gender based analysis) á sviði jafnréttismála á ÖSE-svæðinu á ársfundinum í Bakú. Hún ræddi sérstaklega um lágt hlutfall þingkvenna í aðildarríkjum ÖSE, meira þyrfti að gera í þeim efnum því árangur stæði á sér. Í umræðum um ástandið í Úkraínu höfðu þingmenn margvíslegar skoðanir. Sumir vöruðu við að utanaðkomandi afskipti ógnuðu lýðræðisskipulagi Úkraínu og gætu kynt undir nýju köldu stríði á ÖSE-svæðinu. Þá töldu sumir þingmenn rétt að halda þeim möguleika opnum að refsa Úkraínu efnahagslega, en aðrir töluðu gegn slíkum aðgerðum.
    Á fundi stjórnarnefndarinnar gáfu Thierry Mariani, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í málefnum Mið-Asíu, og Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, skýrslur um störf sín. Í erindi sínu um stöðu mála í Mið-Asíu sagði Mariani að hröð þróun væri í ríkjum á svæðinu og því væri erfitt fyrir þau að ná þeim markmiðum sem ÖSE hefði sett þeim. Helstu áskoranir væru á sviði öryggis-, félags- og umhverfismála. Hvað öryggismál varðaði ræddi hann sérstaklega um vandamál tengd mansali, eiturlyfjasmygli og öfgahyggju. Loks skýrði Mariani frá því að Mongólía hefði óskað formlega eftir því að ÖSE setti á fót vettvangsskrifstofu í landinu, en það er nýjasta aðildarríki stofnunarinnar. Pétur H. Blöndal skýrði stjórnarnefndinni frá fundum sínum með ríkisendurskoðun Þýskalands í janúar 2014, sem tók við endurskoðun reikninga ÖSE árið 2013. Fundirnir hefðu verið einkar áhugaverðir og m.a. hefði komið í ljós að stofnunin hygðist ekki einungis skoða reikninga ÖSE og notkun fjármagns, heldur einnig þá ferla sem væru ráðandi í því sambandi. Þá hefði Christian Ahrendt, aðstoðarforstjóri ríkisendurskoðunarinnar, boðist til að gefa stjórnarnefnd ÖSE-þingsins skýrslu um hlutverk stofnunarinnar þegar kæmi að endurskoðun reikninga ÖSE. Það væri undir stjórnarnefnd komið hvort því tilboði yrði tekið.

Ársfundur ÖSE þingsins í Bakú 28. júní – 2. júlí 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir formaður, Pétur H. Blöndal varaformaður og Guðmundur Steingrímsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá yfir 50 ríkjum en yfirskrift fundarins var líkt og árið 2013 „Helsinki +40“, en svo nefnist ferli sem snýr að stefnumótun fyrir verkefni ÖSE til ársins 2015. Meginviðfangsefni fundarins var ástandið í Úkraínu og þáttur Rússlands í því sambandi. Í ályktun fundarins lýsti þingið m.a. yfir miklum áhyggjum af ástandinu í landinu og lagði áherslu á hlutverk ÖSE þegar kæmi að því að leiða aðila málsins saman í uppbyggilegar samræður, hafa eftirlit með og styðja framkvæmd allra meginreglna og skuldbindinga ÖSE á vettvangi, koma í veg fyrir stigmögnun átakanna og efla diplómatískt ferli í átt að friðsamlegri lausn á vandanum. Þá kallaði þingið eftir því að Rússland afturkallaði innlimum Krímskaga og borgarinnar Sevastopol í austurhluta Úkraínu. Á fundinum hittust sendinefndir Rússlands og Úkraínu til að ræða ástandið í Úkraínu og þá var stofnaður sérstakur vettvangur sem hefur það markmið að vinna að lausn deilunnar og styðja friðarviðræður. Vettvangurinn fékk heitið Bakú-hópurinn og samanstendur af þingmönnum sendinefnda Rússland, Úkraínu og fleiri aðildarríkja. Hópurinn var stofnaður að frumkvæði formanns rússnesku sendinefndarinnar.
    Í upphafsávarpi sagði Ranko Krivokapic, forseti ÖSE-þingsins, að ÖSE væri á ákveðnum krossgötum sem kallaði á vitund um að öryggi og samstarf væru óaðskiljanlegir þættir. Stærsta forgangsmál stofnunarinnar væri að koma aftur á friði í Úkraínu og hann hvatti þingmenn til að sýna gagnkvæman skilning í þeim efnum. Í ávarpi sínu sagði forseti neðri deildar rússneska þingsins, Sergey Naryshkin, að átökin í Úkraínu væru ákveðið próf fyrir ÖSE. Varaforseti úkraínska þingsins, Ruslan Koshulynskyi, ítrekaði svo mikilvægi eftirlitssveitar ÖSE í landinu.
    Pétur H. Blöndal tók til máls í frjálsri umræðu í þinginu og ræddi tilgang ÖSE-þingsins. Miklu fjármagni væri varið í starfið og í að borga ferðir og uppihald þeirra mörg hundruð þingmanna sem sæktu fundi stofnunarinnar um allan heim. Þá væri mjög hæft fólk kosið í leiðtogastöður innan þingsins. Á meðan væri markmið stofnunarinnar óljóst. Í raun tæki enginn við þeim ályktunum sem ræddar væru í þaula og samþykktar af þinginu og kæmi þeim í framkvæmd. Á þessu þyrfti að taka. Pétur sagði að eins og hann hefði áður bent á í starfi sínu sem fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE væri til að mynda eðlilegt að ÖSE- þingið samþykkti fjárlög ÖSE og hefði eftirlit með starfsemi þess. Í þeim efnum væri örlítil vonarglæta, því á fundum með ríkisendurskoðun Þýskalands, sem tók við endurskoðun reikninga ÖSE á síðasta ári, hefði varaforseti ríkisendurskoðunarinnar boðist til að gefa ÖSE- þinginu skýrslu um hlutverk stofnunarinnar þegar kæmi að endurskoðun reikninga ÖSE. Því miður hefði ekkert verið ákveðið þess efnis enn þá. Á ársfundinum í Istanbúl 2013 hefði verið samþykkt ályktun um að þingið ætti að ráða endurskoðanda reikninga ÖSE og greiða endurskoðun reikninganna. Ekkert hefði hins vegar hreyfst í þá átt síðan. Þingmenn hefðu meira vald en þeir héldu í þessum efnum, sérstaklega í ljósi þess að framlög til ÖSE væru samþykkt í þjóðþingum aðildarríkjanna. Þannig gætu þingmenn sett beina pressu á ÖSE um að gera breytingar til batnaðar.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins „Helsinki +40“. Elsa Lára Arnardóttir tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Í ályktun sinni lagði nefndin m.a. áherslu á þörfina á að taka til greina nýjar ógnir, eins og nethernað og hryðjuverk, við uppfærslu og þróun á Vínarskjalinu frá 1999 sem snýr að samstarfi ÖSE-ríkja á sviði varnarmála. Nefndin hvatti þingmenn einnig til að styðja þátttöku kvenna í stjórnmálum með því að auka vitund almennings um mikilvægi jafnréttis kynjanna og með því að stofna pólitísk net sem styddu við forystu kvenna innan ÖSE.
    Pétur H. Blöndal tók þátt í störfum 2. nefndar, um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál, en þar var m.a. rætt og ályktað um loftslagsmál, landbúnaðarmál og matvælaöryggi. Í ályktuninni eru þau aðildarríki sem ekki hafa fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hvött til að gera það. Aðildarríki eru einnig hvött til að tryggja lagalega viðurkenningu á eignarrétti kvenna og halda áfram að stuðla að því að konur hafi möguleiki á að verða fjárhagslega sjálfstæðar. Loks er vakin athygli á varnarleysi fjallahéraða þegar kemur að loftslagsbreytingum og náttúruhamförum.
    Guðmundur Steingrímsson tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræðis- og mannréttindamál. Þar var m.a. rætt og ályktað um allt frá hatursglæpum gegn innflytjendum, gyðingaandúð og pólitískum föngum til ástandsins í Úkraínu. Í ályktuninni er lýst yfir stuðningi við nýsamþykkta skilgreiningu Evrópuráðsþingsins á pólitískum fanga, samhliða því að sérstaklega er lýst yfir áhyggjum af pólitískum föngum í Aserbaídsjan, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Rússlandi. Þá eru stjórnvöld í Túrkmenistan beðin um að veita upplýsingar um manneskjur sem hafa horfið í fangelsum landsins, þar á meðal fyrrum utanríkisráðherra landsins, Boris Shikmuradov. Loks kallaði nefndin eftir að stjórnvöld í Úkraínu rannsökuðu að fullu öll dauðsföll sem hefðu átt sér stað í landinu í átökunum mánuðina á undan, sérstaklega í Ódessu.
    Ályktanir nefndanna voru síðan samþykktar á fundum ÖSE-þingsins. Til viðbótar þeim voru samþykktar 14 aukaályktanir, sem ásamt ályktunum nefndanna mynda yfirlýsingu ársfundarins. Á meðal aukaályktana var ályktun um brot Rússlands á meginreglum Helsinki- sáttmálans sem var lögð fram af bandaríska þingmanninum Benjamin Cardin og var sú mest rædda á þinginu. Í henni er Rússland fordæmt fyrir brot á meginreglum Helsinki-sáttmálans þegar kemur að Úkraínu, þar á meðal sérstaklega stórfelld brot á fullveldi og friðhelgi landsvæðis úkraínska ríkisins. Þá er lýst yfir ótvíræðum stuðningi við fullveldi, stjórnmálalegt sjálfstæði, samheldni og friðhelgi landsvæðis Úkraínu, eins og það er skilgreint í stjórnarskrá landsins og viðurkennt alþjóðlega. Þjóðaratkvæðagreiðslan á Krímskaga 16. mars 2014 er sögð ólögmæt og ólögleg og niðurstaða hennar hafi því ekkert gildi. Kallað er eftir að aðildarríki ÖSE neiti að viðurkenna innlimun Krímskaga í Rússland. Hernaðarleg íhlutun rússneskra hermanna í Úkraínu er hörmuð, sem og mannréttindabrotin sem íhlutunin heldur áfram að valda. Í ályktuninni er kallað eftir að Rússland hætti íhlutun á svæðinu og fylgi meginreglum Helsinki-sáttmálans í samskiptum sínum við Úkraínu, hætti flugi herþotna yfir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin og niðurrifsstarfsemi meðal rússneskra íbúa Eystrasaltsríkjanna. Þá er loks lýst yfir stuðningi við aðgerðir og frumkvæði ÖSE til að bregðast við ástandinu og kallað eftir að aðildarríki veiti stofnuninni bæði fjárhagslegan og pólitískan stuðning í þeim efnum, sem og leyfi ÖSE að vinna óhindrað í Úkraínu, þar á meðal á Krímskaga. Úkraína er hvött til að halda áfram viðleitni til að fylgja reglum og venjum ÖSE þegar kemur að uppbyggingu lýðræðisstofnana, lögum og reglu og mannréttindum. Í umræðum um ályktunina sögðu Rússar að þeir hefðu ekki skapað ástandið í Úkraínu, það hefði komið til vegna ólöglegs valdaráns. Þeir bentu einnig á réttinn til sjálfsákvörðunar þegar kæmi að Krímskaga en sá réttur væri viðurkenndur í Helsinki-sáttmálanum. Hann hefði þótt mjög mikilvægur þegar komið hefði að málefnum Kosovo en þegar hann ætti við um aðra staði væri hann virtur að vettugi. Rússland hefði ekki ráðist inn í Úkraínu og engar sannanir væru fyrir því að rússneskir hermenn væru í Úkraínu.
    Aðrar aukaályktanir sneru m.a. að svæðisbundnu samstarfi í Suðaustur-Evrópu, baráttunni gegn hryðjuverkum, samstarfi ÖSE við Afganistan, þróun getu til sáttamiðlunar, vernd menningarlegra eigna á ÖSE-svæðinu, mansali barna og stöðu flóttamanna á ÖSE-svæðinu.
    Samhliða ársfundi fundaði hópur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) innan ÖSE- þingsins með fulltrúum mannréttindasamtaka í Aserbaídsjan, þar sem ástand mannréttindamála þar í landi var rætt, m.a. starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka og fræðastofnana.
    Eftir fundinn var yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkja, með von um að hún efli frekar áframhaldandi umræður um Helsinki +40 ferlið og hafi áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkja.
    Í lok ársfundar var Finninn Ilkka Kanerva kjörinn forseti ÖSE-þingsins til eins árs og tók við embætti af Svartfellingnum Ranko Krivokapic.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Genf 3.–5. október 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir formaður, Pétur H. Blöndal varaformaður og Guðmundur Steingrímsson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Til viðbótar við hefðbundinn fund stjórnarnefndar ÖSE-þingsins fór fram ráðstefna um nýjar öryggisáskoranir og hlutverk þjóðþinga við að takast á við þær, og fundur vettvangs Miðjarðarhafsríkja (e. Mediterranean Forum).
    Í setningarávarpi sínu ræddi Ilkka Kanerva, forseti þingsins, um ábyrgð þingmanna þegar kæmi að því að takast á við nýjar öryggisógnir, allt frá hryðjuverkum til kjarnorkuöryggis, fólksflutningum til loftlagsbreytinga og mansali til sanngjarnra kosninga.
    Haustfundinum var skipt í þrjá hluta eftir málefnaáherslum nefnda þingsins. Í fyrsta hluta, sem tilheyrði vídd stjórnmála- og öryggismála, var sérstök áhersla á ástandið í Úkraínu. Fyrirlesarar voru Simon Lunn sem situr í alþjóðlegri ráðgjafanefnd stofnunarinnar Geneva Centre for the Democratic Control of Armed Forces (DCAF), ásamt Astrid Thors, fulltrúa ÖSE í málefnum minnihlutahópa. Að mati Lunn væri eina leiðin til að leysa deiluna í Úkraínu að halda öllum viðræðum og samstarfi gangandi, þar á meðal á vettvangi NATO-Rússlandsráðsins. Styrkja ætti og blása nýju lífi í allt samstarf sem fyrir væri, grunn þess og skipulag, þar á meðal samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu. Öll ríki ættu þá að setja stuðning við Úkraínu ofarlega á dagskrá sína. Thors fjallaði um stöðu minnihlutahópa í Úkraínu, þar einna helst á Krímskaga þar sem hún sagði ástandið fara versnandi, sér í lagi hjá krímverskum töturum og úkraínskum ríkisborgurum. Sífellt væri brotið á mannréttindum þessara hópa og úkraínskir borgarar m.a. neyddir til að afsala sér ríkisborgararétti sínum.
    Í kjölfar erinda tóku við umræður milli þingmanna þar sem forseti neðri deildar rússneska þingsins og formaður landsdeildar Rússlands hjá ÖSE-þinginu, Sergey Naryshkin, tók fyrstur til máls. Hann ræddi um ábyrgð úkraínskra stjórnvalda í tengslum við flugvél Malaysian Airlines, MH17, sem var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu í júlí 2014. Hann talaði einnig um ábyrgð úkraínskra stjórnvalda þegar kæmi að fjöldagröf sem fannst í Donetsk, sem rússnesk stjórnvöld hefðu kallað eftir ítarlegri rannsókn á. Þá kenndi Naryshkin vesturveldunum um að aflýsa hefði þurft áætluðum fyrsta fundi sérstaks vettvangs um málefni Úkraínu sem átti að fara fram í Genf á meðan haustfundurinn stóð en vesturveldin hefðu ekki sent fulltrúa sína á. Loks talaði hann um refsiaðgerðir vesturveldanna gagnvart Rússlandi sem hann sagði ólöglegar. Nýjustu refsiaðgerðirnar hefðu verið samþykktar á sama tíma og samið var um vopnahlé milli úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna sem sannaði að markmið vesturveldanna væri að gera stórveldið Rússland óstöðugt. Engu landi væri meira í mun en Rússlandi að stöðugleiki kæmist á í Úkraínu og samband Rússa og úkraínskra bræðra þeirra blómstraði.
    Því næst ávarpaði þingið formaður landsdeildar Úkraínu hjá ÖSE-þinginu, Oleg Zarubinsky, sem sagði áróður forseta neðri deildar rússneska þingsins með ólíkindum. Rússar væru að drepa Úkraínumenn miskunnarlaust, m.a. með skriðdrekum. Rússneskir hermenn væru á úkraínsku landsvæði. Hann spurði þingmenn hvort einhver af þeim atriðum, sem samþykkt hefðu verið í ályktun ársfundarins í Bakú um Rússland, hefði verið uppfyllt. Öll þjóðþing aðildarríkja ÖSE-þingsins væru skyldug til að framfylgja ályktuninni, hvort sem þeim líkaði það betur eða verr. Ekkert hefði breyst á þeim fjórum mánuðum sem hefðu liðið frá ársfundi. Engin ástæða væri til bjartsýni. Í friðaráætlun forseta Úkraínu fælist vopnahlé án tafar sem Úkraínustjórn styddi en Rússar framfylgdu ekki. Það væri enginn friður í Úkraínu. Þá væri þúsund Úkraínumönnum haldið sem pólitískum föngum. Úkraínustjórn væri þakklát fyrir eftirlitsstarf ÖSE-þingsins í landinu en án raunverulegs eftirlits á vegum Úkraínu, Rússlands og ÖSE á landamærunum við Rússland í austurhluta landsins yrði enginn friður. Að lokum sagði Zarubinskyi að einungis þau lönd sem óskuðu ekki eftir stríði við nágranna sína kæmu á friði. Hann vonaði að nágrannar Úkraínu yrðu eins friðelskandi og Úkraína hefði verið í sinni sögu.
    Annar hluti ráðstefnunnar tilheyrði efnahags- og umhverfisvíddinni. Formaður nefndar ÖSE-þingsins um málaflokkinn, Roza Aknazarova frá Kirgistan, lagði ríka áherslu á tengslin milli loftslagsbreytinga og öryggis. Hún hvatti þingmenn til að vekja athygli þjóðþinga sinna á mikilvægi þess að markmiðum væri náð á næstu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015. Í umræðum sagði dr. Hedy Fry frá Kanada að mikilvægt væri að skoða áhrif loftslagsbreytinga og umhverfisstórslysa á mannréttindi og þá staðreynd að konur og börn væru sérstaklega varnarlaus í þannig aðstæðum.
    Loks tilheyrði þriðji hluti ráðstefnunnar vídd mannréttinda og lýðræðis. Peter Maurer, formaður Alþjóðanefndar Rauða krossins, ræddi um mismunandi hlutverk Rauða krossins og stofnunar eins og ÖSE þegar kæmi að mannúðarmálum. Áskorun Rauða krossins væri að vinna að mannúðarmálum á átakasvæðum án þess að blanda sér í átökin. Í því sambandi ræddi hann sérstaklega sambandið milli alþjóðalaga og alþjóðamannúðarlaga og hvernig Rauði krossinn ynni nú að því að greina lagarammann allan betur. Í umræðum lagði hollenski þingmaðurinn Nico Schrijver áherslu á mikilvægi þess að styrkja alþjóðlegt mannúðarstarf og spurði aðra þingmenn að því hvernig ríkisstjórnir á átakasvæðum ættu að sinna mannúðarstarfi þegar þær væru sjálfar oft aðilar að átökunum.
    Á fundi stjórnarnefndar þingsins kynnti Lamberto Zannier, framkvæmdastjóri ÖSE, fjárhagsáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2015. Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi forseta ÖSE- þingsins í fjárreiðum ÖSE, fagnaði fyrirhugaðri hækkun á útgjöldum stofnunarinnar, jafnvel þótt hún væri aðeins 1,4%. Á sama tíma gagnrýndi hann aukin framlög til skrifstofu ÖSE í Vín á kostnað framlaga til vettvangsskrifstofa. Þá væri gert ráð fyrir fækkun starfsfólks innan ÖSE, en starfsfólkið væri drifkraftur stofnunarinnar. Loks væri gert ráð fyrir auknum framlögum um 10% til lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR) sem kæmi spánskt fyrir sjónir á tímum niðurskurðar. Í því samhengi væri rétt að minna á að beiðni ODIHR um 30% hækkun á framlögum fyrir árið 2014 hefði verið ein meginástæða þess að það dróst á langinn að samþykkja fjárreiður ÖSE fyrir það ár. Pétur spurði Zannier um álit hans á tillögu sinni um að ÖSE-þingið samþykkti fjárlög ÖSE og hefði eftirlit með starfsemi þess. Á ársfundinum í Istanbúl 2013 hefði verið samþykkt ályktun um að þingið ætti að ráða endurskoðanda reikninga ÖSE og greiða endurskoðun reikninganna en ekkert hefði hins vegar hreyfst í þá átt síðan. Zannier sagði að þjóðþingin hefðu eftirlit með fjárreiðunum í gegnum sínar ríkisstjórnir. Þingmenn ættu að ræða málið við ríkisstjórnir sínar sem síðan tækju ákvarðanir í samstarfi við ríkisstjórnir hinna aðildarríkjanna innan fastaráðs ÖSE. Pétur spurði Zannier einnig um aukin framlög til ODIHR. Zannier sagðist ekki semja við ODIHR né taka við framlagsbeiðnum frá stofnuninni. Loks spurði Pétur Zannier um þörfina fyrir neyðarsjóð innan ÖSE sem hægt væri að leita í þegar óvænt neyðarástand myndaðist, eins og t.d. í Úkraínu á árinu 2014. Zannier sagði þörfina fyrir þannig sjóð vera til staðar.
    Sérlegur fulltrúi þingsins gagnvart baráttunni gegn mansali, bandaríski þingmaðurinn Christopher Smith, vakti athygli þingmanna á að fjárhagsáætlun ÖSE fyrir árið 2015 gerði ráð fyrir miklum niðurskurði til málaflokksins. ÖSE hefði skuldbundið sig til að leiða baráttuna gegn mansali og því væri þessi þróun vanhugsuð og óviturleg. Hann hvatti þingmenn til að þrýsta á ríkisstjórnir sínar að sjá til þess að framlög ÖSE til málaflokksins yrðu ekki lækkuð.
    Sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins gagnvart jafnréttismálum, dr. Hedy Fry, sagði að þótt framfara gætti þegar kæmi að jafnrétti kynjanna á ÖSE-svæðinu væri ójafnréttið enn þá mikið. Nú þyrfti ÖSE að hætta að ræða aðeins um vonir til endurbóta og fara að gera vel úthugsaðar áætlanir og koma þeim í framkvæmd. Setja þyrfti mælanleg markmið fyrir næstu 10 árin, samhliða stöðugu mati á framförum.

Fundir Péturs H. Blöndal, sérlegs fulltrúa forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, með Ríkisendurskoðun Þýskalands í Bonn 17. janúar 2014.
    Pétur H. Blöndal hefur starfað sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE frá árinu 2006. Í janúar 2014 fundaði hann með Ríkisendurskoðun Þýskalands, sem tók við endurskoðun reikninga ÖSE árið 2013. Á fundunum kom m.a. í ljós að stofnunin hygðist ekki einungis skoða reikninga ÖSE og notkun fjármagns, heldur einnig þá ferla sem eru ráðandi í því sambandi. Þá bauðst Christian Ahrendt, aðstoðarforstjóri ríkisendurskoðunarinnar, til að gefa stjórnarnefnd ÖSE-þingsins skýrslu um hlutverk stofnunarinnar þegar kæmi að endurskoðun reikninga ÖSE. Pétur kom því boði áleiðis til forseta og framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, og kynnti svo stjórnarnefnd þingsins boðið á vetrarfundinum í Vín í febrúar. Í framhaldinu fundaði Andreas Nothelle, sendiherra og fulltrúi ÖSE-þingsins í Vín, með Ahrendt sem var í kjölfarið boðið til haustfundar þingsins í Genf í október. Ahrendt sá sér ekki fært að taka þátt í haustfundinum en hyggst gefa skýrslu um niðurstöður og meginatriði endurskoðunar reikninga ÖSE á vetrarfundi þingsins í Vín í febrúar 2015.

Alþingi, 16. janúar 2015.

Elsa Lára Arnardóttir,
form.
Pétur H. Blöndal,
varaformaður.
Guðmundur Steingrímsson.


Fylgiskjal.

Ályktanir og skýrslur ÖSE-þingsins árið 2014.


    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2014:
          Ályktun um skýr, óhefluð og óleiðrétt brot Rússlands á megingildum Helsinki- sáttmálans.
          Ályktun um að þróa getu til málamiðlana á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um svæðisbundið samstarf í Suðaustur-Evrópu.
          Ályktun um baráttuna gegn hryðjuverkum.
          Ályktun um frekari skuldbundingar ÖSE gagnvart Afganistan.
          Ályktun um að vernda og styrkja félagsleg og efnahagsleg réttindi á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um ÖSE á 40 ára afmælinu – svæði trausts og friðsamlegrar sambúðar allra.
          Ályktun um matvælaöryggi, takmarkaðar vatnsauðlindir og stöðugleika á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um yfirgripsmiklar umbætur á innflytjendamálum.
          Ályktun um ástand flóttamanna á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um vernd menningarverðmæta á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um að koma í veg fyrir og ákæra fyrir mansal barna til kynlífsþrælkunar.
          Ályktun um að berjast gegn pyntingum.
          Ályktun um lýðræðislega stjórn á opinberri og einkarekinni öryggisstarfsemi.