Ferill 478. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 824  —  478. mál.
SkýrslaÍslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2014.


1. Inngangur.
    Það sem var helst í brennidepli á vettvangi Vestnorræna ráðsins á árinu 2014 voru málefni norðurslóða og undirbúningur fyrir mótun sameiginlegrar vestnorrænnar stefnu um svæðið. Í tengslum við þemaráðstefnu ráðsins í janúar kynnti Egill Þór Níelsson, fræðimaður hjá Heimskautastofnun Kína, nýja skýrslu sem var unnin fyrir ráðið um sameiginlega hagsmuni Íslands, Færeyja og Grænlands á norðurslóðum með sérstaka áherslu á efnahagslega hagsmuni. Á ársfundi ráðsins í september var ákveðið að efni þemaráðstefnu ársins 2015 yrði sameiginleg stefna Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum og jafnframt var ákveðið að stofna sérstaka nefnd um norðurslóðir sem hefði það hlutverk að vinna að undirbúningi sameiginlegrar vestnorrænnar stefnu á norðurslóðum. Samhliða ársfundi ráðsins fundaði Vestnorræna ráðið með utanríkisráðherrum landanna þriggja þar sem ráðherrarnir sammæltust um að þótt löndin hefðu hvert sína eigin stefnu um málefni norðurslóða væri ráð að miða að sameiginlegri stefnu á svæðinu á 2–3 sviðum án þess að vikið yrði frá þegar markaðri stefnu ríkjanna. Þá stóð Vestnorræna ráðið fyrir málstofu á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu í október þar sem fjallað var um vestnorræna samvinnu á norðurslóðum og þingmanna- og lýðræðisvíddina í stefnum um norðurslóðir. Loks sótti ráðið um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu í ágúst 2014.
    Þemaráðstefna ráðsins fór fram á Sandey í Færeyjum í upphafi árs 2014 og var meginviðfangsefnið að athuga hvort og þá hvernig hægt væri að auka viðskipti með landbúnaðarvörur milli landanna þriggja og hvernig aukin viðskipti á því sviði gætu eflt stöðu landanna gagnvart umheiminum. Í lok þemaráðstefnu samþykkti ráðið ályktun sem hvetur ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands til að endurskoða landamærahindranir milli landanna sem koma í veg fyrir fríverslun þeirra í milli. Ráðið hvatti ríkisstjórnirnar þrjár jafnframt til þess að gera með sér fríverslunarsamning svo að löndin þrjú mynduðu eitt efnahagssvæði. Í ráðinu ríkti einhugur um að það væri einstaklega mikilvægt að styrkja samvinnuna á viðskiptasviðinu og að það mundi gagnast öllum löndunum þremur.
    Ársfundur ráðsins var haldinn í Vestmannaeyjum í september. Á fundinum voru samþykktar tvær ályktanir. Sú fyrri fjallar um að meðlimir ráðsins geti sent fyrirspurnir til ráðherra landanna, líkt og þekkist í Norðurlandaráði. Sú síðari fjallar um að draga úr losun brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunin kemur til vegna notkunar svartolíu. Ársfundurinn samþykkti einnig tvær yfirlýsingar. Í þeirri fyrri eru ríkisstjórnir Íslands og Færeyja hvattar til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Í þeirri síðari er réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaður með sérstakri tilvísun í hval- og selveiðar. Ríkisstjórnir landanna eru jafnframt hvattar til að setja af stað upplýsingaherferð til stuðnings málstaðnum.
    Forsætisnefnd ráðsins, sem samanstendur af formönnum landsdeilda Íslands, Grænlands og Færeyja, átti sinn árlega fund með sendinefnd Evrópuþingsins í Þórshöfn í mars. Bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum, málefni norðurslóða, staða mála á evrusvæðinu og sjávarútvegsmál voru til umræðu. Þá tók forsætisnefndin þátt í 66. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi í október þar sem hún fundaði með forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Til umræðu á fundinum var m.a. aukin áhersla Vestnorræna ráðsins á málefni norðurslóða, stjórnun sameiginlegra fiskstofna og heilbrigðismál.

2. Almennt um Vestnorræna ráðið.
    Þjóðþing Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í höfuðstað Grænlands, Nuuk, 24. september 1985. Með því var formfest samstarf landanna þriggja sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á ársfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur í þjóðþingum aðildarlandanna. Við þær breytingar voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.
    Í Vestnorræna ráðinu sitja átján þingmenn, sex frá hverju aðildarríki. Vestnorræna ráðið kemur reglulega saman, tvisvar á ári, til þemaráðstefnu og ársfundar. Ársfundur fer með æðsta ákvörðunarvald ráðsins. Þriggja manna forsætisnefnd, skipuð formanni landsdeildar hvers aðildarríkis, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Auk þess getur ráðið skipað vinnunefndir um tiltekin mál.
    Markmið Vestnorræna ráðsins eru að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, vernda auðlindir og menningararfleið Norður-Atlantshafssvæðisins, stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál og vera þingræðislegur tengiliður milli vestnorrænna samstarfsaðila. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum ráðsins með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna sem samþykkt eru á ársfundi. Vestnorræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfismál, auðlinda- og samgöngumál, björgunar- og öryggismál, málefni norðurslóða, heilbrigðismál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál, svo að fátt eitt sé nefnt. Jafnframt vinnur Vestnorræna ráðið að framgöngu markmiða sinna með virkri þátttöku í norrænu og evrópsku samstarfi og norðurskautssamstarfi.
    Undanfarin ár hefur ráðið lagt aukna áherslu á að formgera slíkt samstarf. Árið 2002 var undirritaður samningur um samstarf Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórna Vestur-Norðurlanda og árið 2006 var undirritaður samstarfssamningur Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs. Síðarnefndi samningurinn veitir Vestnorræna ráðinu og Norðurlandaráði gagnkvæman þátttökurétt á fundum hvors annars og formgerir samstarfið á milli ráðanna frekar. Samningurinn gerir það m.a. mögulegt að ályktanir Vestnorræna ráðsins séu teknar til umfjöllunar í Norðurlandaráði. Árið 2011 héldu Vestnorræna ráðið og Norðurlandaráð sína fyrstu sameiginlegu ráðstefnu sem fjallaði um öryggi á sjó á Norður-Atlantshafi. Önnur ráðstefna var haldin árið 2013 og fjallaði um nýtingu auðlinda hafsins. Stefnt er að áframhaldandi ráðstefnuhaldi um sameiginleg hagsmunamál vestnorrænu landanna og Norðurlandanna í framtíðinni og hafa ráðin sammælst um að næsta ráðstefna verði á árinu 2015 eða 2016 og fjalli um málefni norðurslóða. Árið 2008 varð að samkomulagi milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins að halda reglubundna upplýsinga- og samráðsfundi. Auk þess hefur Vestnorræna ráðið áheyrnaraðild að þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál og sótti um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu á árinu 2014.

3. Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
    Í kjölfar alþingiskosninganna 27. apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin 6. júní og gildir sú kosning fyrir allt kjörtímabilið samkvæmt þingskapalögum. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn voru kosnir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Vígdís Hauksdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Páll Valur Björnsson, þingflokki Bjartrar framtíðar, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Framsóknarflokks, Haraldur Einarsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Óttarr Proppé, þingflokki Bjartrar framtíðar, Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Við þingsetningu 9. september 2014 tók Lilja Rafney Magnúsdóttir sæti Katrínar Jakobsdóttur sem aðalmaður og Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sæti Lilju Rafneyjar sem varamaður. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar. Íslandsdeild hélt einn fund á árinu þar sem þátttaka í ársfundi ráðsins var undirbúin. Vestnorrænu löndin þrjú skiptast á að fara með formennsku í ráðinu. Unnur Brá Konráðsdóttir var formaður ráðsins árið 2014 fram að ársfundi í byrjun september.

4. Fundir Vestnorræna ráðsins 2014.
    Þemaráðstefna ársins var haldin á Sandey í Færeyjum í janúar en ársfundurinn í Vestmannaeyjum í september. Forsætisnefnd ráðsins kom þrisvar sinnum saman á árinu auk þess sem hún átti fundi með forsætisnefnd Norðurlandaráðs í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og fund með Evrópuþinginu í Þórshöfn í mars. Formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Unnur Brá Konráðsdóttir, tók í starfi sínu sem formaður Vestnorræna ráðsins starfsárið 2014 þátt í fundum þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í febrúar og júní og sem varaformaður ráðsins í september. Þá tók hún þátt í ráðstefnu um jafnréttismál í Þórshöfn í Færeyjum í maí, grænlenskum dögum í Reykjavík í apríl og ráðstefnu um jafnrétti á norðurslóðum á Akureyri í október, ásamt því að funda með utanríkismálanefnd færeyska þingsins í Reykjavík í september. Loks tók hún sem formaður Íslandsdeildar þátt í málstofu Vestnorræna ráðsins á ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu í október, þar sem fjallað var um vestnorræna samvinnu á norðurslóðum og þingmanna- og lýðræðisvíddina í stefnum um norðurslóðir.

Þemaráðstefna á Sandey í Færeyjum 20.–24. janúar 2014.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um eflingu viðskipta með landbúnaðarvörur milli Vestur-Norðurlanda var haldin á Hótel Deplinum í bænum Skálavík á Sandey í Færeyjum 20.–24. janúar 2014. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ráðstefnuna Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, Katrín Jakobsdóttir, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson og Oddný G. Harðardóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Hátt á annan tug sérfræðinga frá löndunum þremur á sviði landbúnaðar og viðskipta tóku þátt í ráðstefnunni. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar var að fjalla um möguleikann á að auka viðskipti með landbúnaðarvörur milli landanna þriggja og hvernig aukin viðskipti á því sviði gætu eflt stöðu landanna gagnvart umheiminum. Í því samhengi var m.a. skoðuð þörfin fyrir að þróa frekar samgönguinnviði á svæðinu, og eins var rætt hvaða tækifæri gætu falist í nýstofnuðu Grænlensk-íslensku viðskiptaráði, sem og Færeysk-íslenska viðskiptaráðinu, aðalræðisskrifstofu Íslands á Grænlandi og í Færeyjum og aðalræðisskrifstofu Færeyja á Íslandi.
    Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ráðstefnuna og benti við það tilefni á að löndin þrjú hefðu langa árangursríka reynslu af viðskiptum og samvinnu sín á milli. Á sviði landbúnaðar- og matvælaframleiðslu ættu þau við margar svipaðar áskoranir að etja sem byði upp á frekari samvinnu. Löndin stæðu þannig öll frammi fyrir löngum vegalengdum á milli byggða, litlum heimamörkuðum, dreifðum byggðum og erfiðum aðstæðum til ræktunar lands og ýmissa plantna. Bill Justinussen, formaður landsdeildar Færeyja, bauð síðan ráðstefnugesti velkomna. Hann benti á að þegar litið væri til viðskipta vestnorrænu landanna væri sláandi að þau flyttu mest inn frá löndum langt utan hins vestnorræna svæðis en minna frá hvert öðru. Löndin þrjú hefðu gagn af því að auka viðskipti með matvæli sín á milli og hann vonaði að þemaráðstefnan yrði upphafið að því.
    Þátttakendur á þemaráðstefnunni voru sammála um nauðsyn þess að efla viðskipti með landbúnaðarvörur á milli landanna þriggja, og að það mundi gagnast öllum löndunum þremur. Ráðstefnunni var skipt í þrjá meginhluta. Fyrst var rætt um þau tækifæri og þær áskoranir sem væru til staðar þegar kæmi að samgöngumálum á Vestur-Norðurlöndum og mikilvægi umhverfissjónarmiða í því sambandi. Henrik Skov, prófessor við Háskólann í Árósum, ræddi um skipasamgöngur á norðurslóðum og hvaða afleiðingar þær hefðu fyrir umhverfið. Að hans mati yrði í versta falli 15% aukning á útblæstri svartra kolefna frá skipum til ársins 2050 og allt að 20% aukning á ósonlagi á sumrin. Staðbundnir vöruflutningar á milli Vestur- Norðurlanda hefðu minni háttar áhrif í þessu sambandi. Jens Andersen, forstjóri Royal Arctic Lines, fjallaði um samgöngumál á Grænlandi og möguleika til aukinnar samvinnu landanna þriggja í því sambandi. Helstu áskoranir fyrirtækisins við vöruflutninga á sjó til og frá Grænlandi og innan þess tengdust annars vegar loftslagsbreytingum og hins vegar ástandi innviða. Jóhanna á Bergi, forstjóri Faroe Ships, sagði að ef eftirspurn væri eftir siglingum milli landanna þá stæði ekki á skipafélögunum að svara henni.
    Í öðrum hluta ráðstefnunnar var rætt um landbúnaðarframleiðslu á Vestur-Norðurlöndum. Aqqalooraq Frederiksen, aðalráðunautur landbúnaðarráðuneytis Grænlands, fjallaði um landbúnað á Grænlandi og framtíðarmöguleika þegar kæmi að hugsanlegum útflutningi á grænlenskum landbúnaðarvörum. Í því sambandi mat hann það svo að helstu möguleikar fælust m.a. í aukinni lambakjöts- og grænmetisframleiðslu, skógrækt, berjarækt og ullarframleiðslu. Høgni Hansen, forstjóri Krásar, matvælafyrirtækis í Færeyjum, fjallaði um þróun og reynslu af matvælaframleiðslu í Færeyjum. Hann ræddi um kjötframleiðslu fyrirtækisins og þau vandamál sem skapast hefðu vegna matvælalöggjafar Evrópusambandsins í því sambandi. Þannig þyrfti kjöt frá Færeyjum vottun frá Evrópusambandinu áður en hægt væri að selja það á Íslandi. Því tengt ræddi Halldór Runólfsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Íslands, um sjúkdómavarnir þegar kæmi að inn- og útflutningi á matvöru á Vestur- Norðurlöndum. Hann fór yfir þau lög sem eru í gildi á þessu sviði og helstu áskoranir þegar kæmi að viðskiptum með landbúnaðarvörur milli landanna þriggja. Matvælalöggjöf Evrópusambandsins var þar aftur til umræðu og þær hömlur sem hún skapar fyrir viðskipti milli landanna þriggja. Ólafur R. Dýrmundsson landnýtingarráðunautur ræddi um möguleika á sviði lífræns landbúnaðar. Hann kynnti alþjóðlegar reglur og reglur Evrópusambandsins um lífrænan landbúnað og fór yfir hvað gera þyrfti til að breyta hefðbundnu landi í land hæft fyrir lífrænan landbúnað.
    Loks var rætt um viðskiptamöguleika milli landanna þriggja. Egill Þór Níelsson, fræðimaður við Heimskautastofnun Kína, fjallaði um þá þýðingu sem aukið viðskiptasamstarf Vestur-Norðurlanda gæti haft í viðskiptum þeirra við umheiminn. Hann ræddi um þörfina fyrir að auka vægi Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum, til að mynda með sameiginlegri stefnu gagnvart svæðinu. Marita Rasmussen, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnurekenda í Færeyjum og stjórnarmeðlimur í Færeysk-íslenska viðskiptaráðinu, fjallaði um hvernig hægt væri að efla viðskipti milli Vestur-Norðurlanda og hvaða hlutverk löndin sjálf sem og svæðisbundin viðskiptaráð og aðalræðisskrifstofur hefðu í því sambandi. Hún fjallaði um viðskipti milli Íslands og Færeyja með sjávarútvegsafurðir og gott samstarf landanna tveggja á öðrum sviðum í gegnum árin sem hefðu auðveldað Færeyingum að komast inn á íslenskan markað. Vaxandi viðskipti væru á milli Færeyja og Íslands en minni við Grænland.
    Í lok þemaráðstefnu samþykkti Vestnorræna ráðið ályktun sem hvetur ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands til að endurskoða landamærahindranir milli landanna sem koma í veg fyrir fríverslun þeirra í milli. Ráðið hvatti ríkisstjórnirnar þrjár jafnframt til þess að gera með sér fríverslunarsamning svo að löndin þrjú mynduðu eitt efnahagssvæði. Þess vegna væri æskilegt að framtíðarviðræður um endurnýjun alþjóðlegra viðskiptasamninga miðuðust við að innleiða fríverslun í vestnorrænu ríkjunum. Í ráðinu ríkti einhugur um að það væri einstaklega mikilvægt að styrkja samvinnuna á viðskiptasviðinu og að það mundi gagnast öllum löndunum þremur. Ráðið telur mikilsvert í þeim efnum að löndin geri með sér sáttmála um frjálst flæði vöru, þjónustu og fjármagns og að hindranir á fríverslun milli landanna verði endurskoðaðar.
    Samhliða þemaráðstefnu fór fram fundur í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þar sem dagskrá ráðstefnunnar var samþykkt og fjallað um ársfundinn í Vestmannaeyjum í september 2014. Í tengslum við ráðstefnuna kynnti Egill Þór Níelsson jafnframt nýja skýrslu sem var unnin fyrir Vestnorræna ráðið um sameiginlega hagsmuni Íslands, Færeyja og Grænlands á norðurslóðum, með sérstaka áherslu á efnahagslega hagsmuni. Möguleikinn á fríverslunarsvæði Vestur-Norðurlanda var m.a. ræddur, sem og að kynna starfsemi ráðsins á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu haustið 2014. Í kjölfarið fór fram fundur þingmannanefndar um Hoyvíkursamninginn, fríverslunarsamning Íslands og Færeyja, en í nefndinni sitja landsdeildir Íslands og Færeyja og landsdeild Grænlands hefur áheyrnaraðild. Skýrsla utanríkisráðuneyta landanna tveggja um stöðu samningsins var kynnt. Í umræðum sem fylgdu í kjölfarið kom fram að helstu áskoranir Hoyvíkursamningsins væru mismunandi löggjöf landanna tveggja sem setti hömlur á viðskipti. Þar væri fyrst og fremst um löggjöf Evrópusambandsins að ræða sem Ísland þyrfti að fylgja vegna EES-samningsins en samræmdist ekki alltaf lögum og reglum í Færeyjum. Þetta ætti einna helst við um viðskipti með landbúnaðarvörur, og sjúkdómavarnir í því sambandi, en einnig væru hömlur á þjónustuviðskiptum vegna meiri menntunarkrafna á Íslandi. Loks var rætt um möguleikann á að Grænland yrði hluti af Hoyvíkursamningnum. Ákveðið var að kanna kosti þess og galla frekar og taka málið upp að nýju á fundi nefndarinnar samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins í september 2014. Í lok fundar var Unnur Brá Konráðsdóttir kjörin formaður þingmannanefndarinnar. Landsdeildir Vestnorræna ráðsins funduðu einnig með heilbrigðisráðherrum landanna þriggja á meðan á þemaráðstefnu stóð þar sem þingmenn komu á framfæri ályktunum ársfundar ráðsins um frekara samstarf landanna á sviði heilbrigðismála.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu í Þórshöfn, Færeyjum, 28. mars 2014.
    Árlegur fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins með þingnefnd Evrópuþingsins fór fram í Þórshöfn í Færeyjum 28. mars 2014. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður og forseti Vestnorræna ráðsins, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum, málefni norðurslóða, staða mála á evrusvæðinu og sjávarútvegsmál, þar á meðal samningurinn sem Færeyjar, Noregur og Evrópusambandið hafa gert um makrílveiðar. Í því sambandi lagði Unnur Brá Konráðsdóttir mikla áherslu á að vestnorrænu ríkin ynnu saman, þannig yrði staða þeirra sterkari en ella. Formaður landsdeildar Grænlands og þingforseti Grænlandsþings, Lars Emil Johansen, gagnrýndi harðlega bann Evrópusambandsins við innflutningi á selaafurðum sem hefði haft mjög alvarleg áhrif á lífsviðurværi fólks á afskekktum stöðum á Grænlandi. Þingnefnd Evrópuþingsins lýsti yfir áhuga á að skoða nánar áhrif bannsins á Grænlandi og var sammála því að mikilvægt væri að vinna gegn neikvæðum áhrifum þess. Í umræðum um málefni norðurslóða ræddi Unnur Brá þá stefnu Vestnorræna ráðsins að styrkja samvinnu landanna þriggja á norðurslóðum. Hún kynnti m.a. tilmæli ráðsins þess efnis til utanríkisráðherra landanna og nýlega útkomna skýrslu um samstarfsmöguleika landanna þriggja á norðurslóðum. Þar bar einna hæst vilji ráðsins til að stofna vestnorrænt efnahagssvæði. Í tengslum við fundinn skoðuðu þingnefndirnar bæði laxeldisverksmiðju í Runavík og fiskiðjuver í Klakksvík.

Fundur forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins í Kaupmannahöfn 29. mars 2014.
    Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundaði í grænlenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn 29. mars 2014. Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sótti fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru ársfundur ráðsins í Vestmannaeyjum í september 2014, ráðning nýs framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins og þátttaka ráðsins í Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu 31. október til 2. nóvember.
    Forsætisnefndin undirbjó ársfund ráðsins í Vestmannaeyjum 2.–4. september 2014. Ákveðið var að bjóða utanríkisráðherrum landanna þriggja að funda með ráðinu á meðan á ársfundi stæði. Rætt var um þátttöku Vestnorræna ráðsins í Arctic Circle ráðstefnunni og ákveðið að ráðið tæki bæði þátt í pallborðsumræðum og yrði með hliðarviðburð til að kynna ráðið fyrir þátttakendum ráðstefnunnar.
    Forsætisnefnd tók þá afstöðu til ráðningar nýs framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, en fyrir lá að framkvæmdastjóri ráðsins til 8 ára, Þórður Þórarinsson, lyki störfum á árinu. Umsækjendur um starfið voru alls 41 talsins. Skrifstofa Alþingis hélt utan um umsóknarferlið en forsætisnefnd tók ákvörðun um ráðninguna á fundinum.

Ársfundur í Vestmannaeyjum 2.–4. september 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sóttu ársfundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður, Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, Páll Valur Björnsson, Páll Jóhann Pálsson, Katrín Jakobsdóttir og Oddný G. Harðardóttir, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru málefni norðurslóða, þar á meðal sjávarútvegsmál, leit og björgun, fríverslun og ferðaþjónusta.
    Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Vestnorræna ráðsins, setti ársfundinn og fór yfir starf forsætisnefndar síðasta árið, þar á meðal þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Sjávarútvegsmál og samskipti við Evrópusambandið og Norðurlandaráð voru þar ofarlega á blaði, ásamt umsókn Vestnorræna ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Að loknu ávarpi formanns gerði framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins grein fyrir starfsemi liðins árs og ársreikningi ársins 2013. Fundur samþykkti ársreikninginn.
    Því næst gerðu formenn landsdeilda grein fyrir starfinu á liðnu ári. Unnur Brá, formaður Íslandsdeildar, greindi frá velheppnuðum Grænlenskum dögum í Reykjavík vorið 2014, þar á meðal frá þátttöku sinni í málstofu tengdri dögunum þar sem hún rakti sögu Vestnorræna ráðsins, þróun þess, helstu málefni og starfið í dag með sérstakri áherslu á samvinnu um málefni norðurslóða og möguleikann á stofnun vestnorræns fríverslunarsvæðis. Hún greindi einnig frá þátttöku sinni í ráðstefnu um jafnréttismál í Færeyjum í maí 2014 þar sem hún fjallaði um jafnréttisbaráttuna á Íslandi sl. 40 ár. Bill Justinussen, formaður landsdeildar Færeyja, ræddi m.a. um herferð samtakanna Sea Shepherd gegn hvalveiðum Færeyinga og lagði þunga áherslu á menningarlegt mikilvægi veiðanna fyrir Færeyinga. Lars Emil Johansen, þingforseti Grænlands og formaður landsdeildar Grænlands, sagði m.a. frá opnun ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk sem hann sagði mikilvæg tímamót. Þá sagði hann frá tillögu um stofnun ungmennaráðs Vestnorræna ráðsins.
    Svein Roald Hansen, þingmaður norska Stórþingsins, ræddi um sameiginlegar áskoranir Noregs og vestnorrænu landanna með sérstaka áherslu á sjávarútvegsmál og málefni norðurslóða. Sænska þingkonan Åsa Thorstensson ávarpaði fundinn fyrir hönd forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Hún sagði samvinnu á norðurslóðum afar mikilvæga, ekki síst þegar kæmi að verndun náttúrunnar. Sverri Hansen, framkvæmdastjóri sjóðsins VestNordenFonden, rakti sögu sjóðsins og helstu verkefni hans. Lars Thostrup, framkvæmdastjóri Norræna Atlantssamstarfsins (NORA), kynnti sögu og þróun samstarfsins, sem fellur undir samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar um byggðastefnu. Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Norðurlanda, kynnti helstu verkefni norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal nýja norðurslóðaáætlun sem er í vinnslu fyrir árin 2015–2017.
    Í umræðum um mögulega áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráði var rætt um áherslur ráðsins ef umsóknin yrði samþykkt. Katrín Jakobsdóttir lagði ríka áherslu á umhverfismál í því sambandi. Vigdís Hauksdóttir lagði til að áhersla yrði lögð á vatn sem auðlind og hvernig hægt væri að nýta vatn betur. Lars Emil tók undir með Vigdísi og sagði mikla sóun á vatni á Grænlandi. Í umræðum um tillögur Egils Þórs Níelssonar um aukið samstarf landanna þriggja á norðurslóðum var lögð áhersla á mikilvægi þess að öll löndin högnuðust á auknu samstarfi. Einnig var einhugur um að vinna frekar með niðurstöður skýrslunnar og finna út úr því á hvaða sviðum löndin þrjú vilja vinna saman. Páll Jóhann Pálsson lagði til aukið samstarf um verndun sel- og hvalveiða. Þegar kæmi að sjávarútvegnum væri best að byrja á því að reyna að liðka fyrir samstarfi á sviði iðnaðar í löndunum þremur. Í umræðum um aukið viðskiptasamstarf var rætt um Hoyvíkursamninginn, fríverslunarsamning milli Íslands og Færeyja. Í því sambandi var bent á hversu miklu sterkara sambandið milli Íslands og Færeyja væri í samanburði við samband landanna tveggja við Grænland. Það þyrfti að þrýsta á ríkisstjórnir landanna að bæta úr því. Sammælst var um að besta leiðin til að auka viðskipti milli landanna væri að fá fyrirtæki á ýmsum sviðum í löndunum þremur til að ræða hvort hægt væri að auka samstarf og viðskipti á viðkomandi sviði. Samstarf í ferðamálum á milli vestnorrænu landanna (NATA) væri dæmi um gott vestnorrænt samstarf.
    Í umræðum um leit og björgun var vakin athygli á þörfinni fyrir staðbundna þjónustu sem gæti brugðist við neyðarástandi við strendur landanna, sérstaklega Grænlands, á skemmri tíma en nú. Í umræðum um menningarmál benti Katrín Jakobsdóttir á að tungumál Norðurlandanna hefðu í gegnum tíðina verið sameiginlegur grunnur menningarlegra tengsla þeirra. Það væri að breytast, ungt fólk á Íslandi talaði ekki Norðurlandamál og móðurmál Finna og Grænlendinga væru auðvitað ekki norræn mál. Þetta væri eitthvað sem Vestnorræna ráðið ætti að huga að. Í umræðum um brottflutning fólks, ekki síst kvenna, frá Vestnorrænu löndunum benti Vigdís Hauksdóttir á að á Íslandi væri ríkisstjórnin að lækka skatta fólks sem byggi í afskekktum byggðum. Það væri hugsanlega eitthvað sem ráðið gæti litið til.
    Samþykkt var að næsta þemaráðstefna ráðsins yrði í Aasiaat á Grænlandi í janúar 2015 og að þemaefnið yrði sameiginleg stefna Vestur-Norðurlanda á norðurslóðum. Jafnframt var ákveðið að stofna sérstaka nefnd um norðurslóðir sem hefði það hlutverk að vinna að undirbúningi sameiginlegrar stefnu um svæðið. Ársfundurinn samþykkti tvær ályktanir sem voru sendar áfram til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar og samþykktar. Sú fyrri fjallar um að meðlimir ráðsins geti sent spurningar til ráðherra landanna líkt og þekkist í Norðurlandaráði. Sú síðari fjallar um að draga úr losun brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunin kemur til vegna notkunar svartolíu. Fundurinn samþykkti einnig tvær yfirlýsingar. Í þeirri fyrri eru ríkisstjórnir Íslands og Færeyja hvattar til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Í síðari yfirlýsingunni er réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaður með sérstakri tilvísun í hval- og selveiðar. Ríkisstjórnir landanna eru jafnframt hvattar til að setja af stað upplýsingaherferð til stuðnings málstaðnum.
    Að lyktum var samþykkt að Ríkisendurskoðun skyldi áfram vera endurskoðandi reikninga Vestnorræna ráðsins. Bill Justinussen var kjörinn formaður ráðsins fram að næsta ársfundi. Bill sagði í ræðu sinni á fundinum að í formennskutíð sinni hygðist hann leggja höfuðáherslu á aukið samstarf vestnorrænu landanna á norðurslóðum. Fundur ráðsins með utanríkisráðherrum landanna þriggja í Reykjavík daginn fyrir upphaf ársfundar (sjá nánar á eftir) hefði staðfest þörfina fyrir að kortleggja sameiginlega hagsmuni landanna á norðurslóðum. Sú vinna ráðsins yrði ríkisstjórnum landanna mikilvægt innlegg í áframhaldandi vinnu og samræður þeirra. Samhliða ársfundi fór fram fundur í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þar sem samþykkt var tillaga að dagskrá fundar og fjallað um framkomnar tillögur.
    Að ársfundi loknum var fundur í þingmannanefnd um Hoyvíkursamninginn. Rætt var lítillega um stöðu samningsins og fyrirhugaða endurskoðun Færeyja á honum. Sammælst var um að fundir nefndarinnar yrðu framvegis samhliða þemaráðstefnum ráðsins í janúar ár hvert.
    Samhliða ársfundi fundaði Vestnorræna ráðið með utanríkisráðherrum landanna þriggja. Helstu umræðuefni voru samstarf Vestnorrænu landanna um norðurslóðir, sjávarútvegsmál, viðskipti, leit og björgun og samgöngur og innviðir. Í umræðum um sameiginlega stefnu um málefni norðurslóða sammæltust ráðherrarnir um að þótt löndin hefðu hvert sína eigin stefnu um málaflokkinn væri ráð að miða að sameiginlegri stefnu á 2–3 sviðum án þess að kvika frá markaðri stefnu ríkjanna.

Fundir Vestnorræna ráðsins á 66. Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi 27.–30. október 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Vigdís Hauksdóttir, varaformaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Auk fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins og þátttöku í Norðurlandaráðsþingi átti forsætisnefnd fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
    Meðal helstu mála á dagskrá fundar forsætisnefndar Vestnorræna ráðsins voru undirbúningur fyrir þemaráðstefnu ársins 2015, vestnorræni dagurinn, þátttaka ráðsins í þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, árleg heimsókn formanns ráðsins í vestnorræn ráðuneyti, ný nefnd ráðsins um sameiginlega vestnorræna stefnu á norðurslóðum og 30 ára afmæli ráðsins árið 2015. Formaður grænlensku landsdeildarinnar gat ekki sótt fundinn vegna þingkosninga á Grænlandi 28. nóvember 2014.
    Í samræmi við ákvörðun ársfundar ráðsins í kjölfar tillögu grænlensku landsdeildarinnar ákvað forsætisnefnd að þemaráðstefna ársins 2015 yrði haldin 31. janúar til 1. febrúar í Aasiaat á Grænlandi. Jafnframt lagði hún til að næsti ársfundur ráðsins yrði haldinn í Færeyjum á tímabilinu 31. ágúst til 5. september 2015. Fjallað var um fyrirkomulagið varðandi vestnorræna daga sem hafa nú verið haldnir í öllum löndunum þremur. Rætt var um að þróa hugmyndina frekar og jafnvel að breyta fyrirkomulaginu. Það komu upp þær hugmyndir að vera t.d. með kynningar í skólum eða vestnorræna kvikmyndadaga. Markmiðið yrði sem fyrr að vekja athygli almennings á vestnorrænni menningu. Einnig var rætt um að vinna að því að þær bækur sem hafa verið tilnefndar til barnabókaverðlauna ráðsins verði þýddar yfir á hin vestnorrænu tungumálin. Þátttaka Vestnorræna ráðsins í Þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Whitehorse í Kanada 19.–21. september 2014 var einnig til umræðu, en Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Íslandsdeildar, tók þátt í fundinum fyrir hönd ráðsins. Ákveðið var að Bill Justinussen, formaður ráðsins, mundi reyna að funda með ráðherrum á Grænlandi og Íslandi vorið 2015. Rætt var um nýja nefnd ráðsins sem á að hafa það hlutverk að vinna að undirbúningi sameiginlegrar vestnorrænnar stefnu á norðurslóðum. Nefndin verður skipuð formönnum landsdeildanna til viðbótar við einn þingmann frá hverri deild. Hlutverk hennar verður að vinna drög að tillögum um aukið samstarf á norðurslóðum. Skýrslan sem Egill Þór Níelsson fræðimaður vann fyrir ráðið og niðurstöður þemaráðstefnu ráðsins í janúar 2014 eiga að vera útgangspunktar vinnunnar. Ákveðið var að fyrsti fundur nefndarinnar yrði beint í kjölfarið af fundi forsætisnefndar ráðsins í Kaupmannahöfn í mars 2015. Loks var rætt um 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins árið 2015 en á síðasta ársfundi ráðsins var ákveðið að halda skyldi upp á áfangann með útgáfu bókar um starf ráðsins sl. 30 ár. Eins var lagt upp með að skoða möguleikann á því að ríkissjónvarpsstöðvar landanna þriggja sendu út valdar upptökur frá hinum löndunum tveimur. Framkvæmdastjóri ráðsins, Inga Dóra Markussen, sagði sjónvarpsstöðvarnar áhugasamar um verkefnið og tilbúnar að framkvæma það. Undirbúningur fyrir útgáfu bókar um ráðið væri hafinn og m.a. væri hugmyndin að umfjöllun yrði um allar ályktanir ráðsins frá upphafi og hvernig efni þeirra hefði verið framkvæmt af löndunum þremur.
    Varaformaður Íslandsdeildar, Vigdís Hauksdóttir, og formaður Vestnorræna ráðsins og landsdeildar Færeyja, Bill Justinussen, fluttu ræður í umræðum um utanríkismál á Norðurlandaráðsþinginu. Vigdís sagði frá niðurstöðum ársfundar ráðsins í Vestmannaeyjum í september 2014. Hún fjallaði um ályktanir fundarins, annars vegar ályktun sem fjallar um að meðlimir ráðsins geti sent fyrirspurnir til ráðherra landanna, líkt og þekkist í Norðurlandaráði, og hins vegar ályktun um að draga úr losun brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunin kemur til vegna notkunar svartolíu. Þá lagði Vigdís áherslu á yfirlýsingar ársfundarins en sú fyrri hvetur ríkisstjórnir Íslands og Færeyja til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Í þeirri síðari er réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaður með sérstakri tilvísun í hval- og selveiðar. Ríkisstjórnir landanna eru jafnframt hvattar til að setja af stað upplýsingaherferð til stuðnings málstaðnum. Í ræðu á þinginu ræddi Justinussen um þróunina á norðurslóðum og starf ráðsins þar að lútandi. Hann sagði frá áformum ráðsins um að kortleggja sameiginlega hagsmuni landanna á norðurslóðum og mynda sameiginlega stefnu Vestur-Norðurlanda á svæðinu, t.d. þegar kæmi að orkumálum, námuvinnslu, ferðaþjónustu, samgöngumálum, innviðum, þjónustu og ekki síst sjávarútvegi og veiðum.
    Sænska þingkonan og varaforseti Norðurlandaráðs, Phia Andersson, stýrði fundi forsætisnefnda Norðurlandaráðs og Vestnorræna ráðsins. Hún byrjaði fundinn á að gera grein fyrir helstu áherslum 66. þings Norðurlandaráðs á mennta- og vinnumarkaðsmál, framtíðarsýn fyrir Norðurlönd og stjórnsýsluhindranir á milli þeirra. Justinussen greindi frá aukinni áherslu Vestnorræna ráðsins á málefni norðurslóða og vinnu ráðsins í því sambandi. Sjúrður Skaale, færeyskur þingmaður á danska þinginu sem situr í umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs, kynnti því næst nefndartillögu ráðsins um stjórnun sameiginlegra fiskstofna. Justinussen sagði málefnið oft til umræðu í Vestnorræna ráðinu, ekki síst þegar kæmi að makrílstofninum. Í því sambandi sagði hann frá áðurnefndri yfirlýsingu ráðsins sem hvetur ríkisstjórnir Íslands og Færeyja til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Því næst greindi Helgi Abrahamsen, færeyskur þingmaður sem situr í velferðarnefnd Norðurlandaráðs, frá þingmannatillögu ráðsins um norræna heilsugæslu án stjórnsýsluhindrana. Vigdís Hauksdóttir greindi í kjölfarið frá ályktunum Vestnorræna ráðsins um aukið samstarf á sviði heilbrigðismála frá árinu 2013, en þar er annars vegar um að ræða ályktun um samstarf þegar kemur að menntun heilbrigðisstarfsfólks og hins vegar skurðaðgerðum. Hún sagði að ályktanirnar hefðu leitt til samstarfssamnings á milli landanna þriggja sem hefði tekið gildi í júlí 2014. Því næst kynnti Jenny Pentler, frá skrifstofu Norðurlandaráðs, ráðstefnu ráðsins um friðarumleitanir á Álandseyjum í janúar 2015 sem Vestnorræna ráðið fékk boð á. Tina Bostrup, frá skrifstofu Norðurlandaráðs, sagði í kjölfarið frá vorfundi ráðsins á Akureyri í apríl 2014 þar sem góð umræða um makrílveiðar hefði átt sér stað og eins um ástandið í Úkraínu. Vigdís greindi þá frá helstu niðurstöðum þemaráðstefnu ráðsins í Færeyjum í janúar 2014 þar sem fjallað var um eflingu viðskipta með landbúnaðarvörur milli Vestur-Norðurlanda. Hún vakti einnig athygli á áðurnefndri hvatningu Vestnorræna ráðsins til ríkisstjórna landanna þriggja um að setja af stað upplýsingaherferð til stuðnings hval- og selveiðum. Loks greindi hún frá 30 ára afmæli ráðsins árið 2015 og hvernig fyrirhugað væri að halda upp á viðburðinn. Justinussen greindi frá niðurstöðum síðasta ársfundar Vestnorræna ráðsins og ræddi jafnframt stuttlega um sameiginlegar ráðstefnur Vestnorræna ráðsins, Norðurlandaráðs, norska Stórþingsins og danska þingsins síðastliðin ár. Hann lagði til að næsta sameiginlega ráðstefna yrði haldin á árinu 2015 eða 2016 og að umræðuefnið sneri að málefnum norðurslóða.

5. Ályktanir Vestnorræna ráðsins sem voru samþykktar á ársfundi í Vestmannaeyjum 2.–4. september 2014.
          Ályktun nr. 1/2014 um að heimila fulltrúum Vestnorræna ráðsins að senda fyrirspurnir til ráðherra aðildarríkjanna í tengslum við vinnu ráðsins eða um málefni sem snerta vestnorræna samvinnu.
          Ályktun nr. 2/2014 um að vinna með Færeyjum og Grænlandi að leiðum til að draga úr útblæstri brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunin kemur til vegna notkunar svartolíu.

Alþingi, 16. janúar 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Vigdís Hauksdóttir,
varaform.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Oddný G. Harðardóttir. Páll Valur Björnsson. Páll Jóhann Pálsson.