Ferill 497. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 850  —  497. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2014.


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2014 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins, þ.e. að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna ebólufaraldurinn en utandagskrárumræða fór fram á haustþingi IPU um málið þar sem fjallað var um hvernig þjóðþing aðildarríkja IPU geti brugðist við útbreiðslu hans. Í umræðum um neyðarályktun um ebólu var lögð áhersla á að aðildarríkin leggi án tafar til nauðsynlegt fjármagn auk mannafla til lækningar og skipulagsstarfa. Þá var kveðið skýrt á um mikilvægi þess að hefja vinnu við lagasetningu sem tryggir árangursrík viðbrögð og viðbúnað við útbreiðslu sjúkdómsins og annarra smitsjúkdóma.
    Enn fremur var í brennidepli umræða um hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna. Þar voru þingmenn sammála um nauðsyn þess að samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (e. Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons (NPT)) sé virtur og tryggi afvopnun í aðildarríkjum til lengri tíma. Þá voru átökin í Sýrlandi og Úkraínu tíðrædd á árinu. Áhersla var m.a. lögð á stuðning við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríkin sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi samningaviðræðna til að varanlegur friður og sátt megi nást.
    Jafnframt fór fram almenn umræða á vorþingi IPU um endurskoðun skuldbindinga varðandi frið og öryggi þar sem fulltrúar Alþingis lögðu m.a. áherslu á jafnrétti kynjanna og nauðsyn þess að konur hefðu aðgang að öllum sviðum samfélagsins, auk frelsi til tjáningar, upplýsinga og friðhelgi einkalífs sem grundvöll lýðræðis. Á haustþingi fór fram almenn umræða um jafnrétti kynjanna og baráttuna gegn ofbeldi gegn konum í heiminum. Þar var m.a. áréttað að jafnrétti kynjanna væri forsenda framfara, friðar og öryggis, þess að uppræta fátækt og stuðla að sjálfbærri þróun.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2014 má nefna ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu og aðstoð við að koma á friði, öryggi og lýðræði í landinu. Þá fordæmdi IPU útbreiðslu hryðjuverka og öfgastefna.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2014 má nefna svæðisbundnar málstofur um næringu barna í Asíu sem haldin var í Laos og um ofbeldi gegn stúlkum í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu sem haldin var í Bangladess. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2014 voru m.a. gefnar út handbækur um ríkisfang og ríkisfangsleysi og innleiðing yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um frumbyggja.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 166 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga tíu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2014 Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Pírata. Varamenn voru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokki Pírata, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu 2014, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.
    Þá var Birgitta Jónsdóttir skipuð á haustþingi IPU í október sem höfundur ályktunar í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi. Yfirskrift ályktunarinnar er Lýðræði á tímum internets: ógnir við friðhelgi og einstaklingsfrelsi. Fyrirhugað er að undirbúningur við vinnu ályktunarinnar hefjist á vormánuðum 2015 og verði til umræðu á haustþingi 2015 og lögð fram til afgreiðslu á vorþingi 2016.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti á árinu 2014. Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Noregur formennsku á árinu. Báðir fundirnir voru haldnir í Ósló í mars og sá síðari í september 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti fundina Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundirnir voru haldnir til undirbúnings þátttöku í 130. þingi IPU í Genf 16.–20. mars og 131. þingi IPU sem haldið var í Genf 12.–16. október 2014. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundunum.
    Fyrri norræni samráðsfundurinn fór fram 11. mars í Ósló og var fyrsta mál á dagskrá kynning Janne Raanes og Siv Mjaaland, sérfræðinga hjá Save the children í Noregi, á réttindum barna á ófriðartímum. Þær lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða sérstaklega aldurshópinn 15–18 ára þegar kæmi að börnum sem fengju hæli sem flóttamenn í vestrænum ríkjum þar sem réttarstaða þeirra breyttist algjörlega þegar þau næðu 18 ára aldri og yrði mjög ótrygg. Þá greindu þær frá því að á síðasta ári hefði verið tekin ákvörðun um að norsk stjórnvöld mundu ekki senda börn til baka til upprunalands síns á forsendum Dublinar-sáttmálans heldur meta hvert tilvik sérstaklega. Að lokum áréttuðu þær nauðsyn þess að öll börn hefðu rétt á menntun sem væri lykillinn að því að aðlagast nýju samfélagi og gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfstraust og sjálfsmat barnanna. Í Noregi eiga börn, sem koma til landsins sem flóttamenn, rétt á grunnskólamenntun en ekki framhaldsskóla og telja þær þörf á að breyta því svo vel megi vera.
    Þá kynnti sænski þingmaðurinn Krister Örnfjäder hvað helst var til umræðu á stjórnarnefndarfundi Tólfplús-hópsins í París 9. febrúar 2014 og fundi undirnefndar um fjármál IPU, þar sem hann gegnir formennsku. Hann sagði fjármál IPU hafa verið eitt aðalumræðuefni fundarins í París og fjárhagsáætlun fyrir árið 2015. Kröfur Kanada um að lækka þurfi ársgjöld IPU og hótun þeirra um að yfirgefa samtökin verði framlag þeirra ekki minnkað verulega voru til umræðu. Velt hafi verið upp ýmsum möguleikum til að koma til móts við Kanada og lagt hafi verið til 20% lækkun á ársgjöldum. Málið verður rætt frekar á fundum framkvæmdastjórnar IPU í Genf í tengslum við haustþingið og reynt að finna ásættanlega lausn. Örnfjäder sagði að skoðaðir hefðu verið ýmsir möguleikar til að minnka kostnað við rekstur sambandsins og yrðu þeir kynntir fyrir framkvæmdastjórn IPU í Genf. Nefndarmenn þökkuðu Örnfjäder fyrir gott starf varðandi fjármál sambandsins og lögðu áherslu á að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við meginforgangsverkefni sem skilgreind eru í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2012–2017.
    Enn fremur ræddi Tólfplús-hópurinn ráðningu framkvæmdastjóra sérstaklega á fundum sínum í Genf og óskaði eftir kynningu frá þeim fulltrúum sem valdir höfðu verið úr hópi umsækjenda. Norrænu fulltrúarnir tóku ákvörðun um að ræða málið óformlega eftir fund Tólfplús-hópsins 16. mars 2014 í Genf og leitast eftir því að komast að samræmdri niðurstöðu. Kosningin var leynileg og fór fram á lokadegi þingsins 20. mars 2014.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Yfirskrift þingsins er Renewing our commitment to peace and democracy. Umræðuefni fastanefndanna eru m.a. hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna, þýðing lýðfræðilegrar þróunar og náttúrulegar takmarkanir á þróun ríkja og samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU, auk sérstakrar umræðu um afvopnun og mannréttindi minnihlutahópa. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna mun funda í tengslum við þingið auk þess sem árlegur kvennafundur var haldinn 16. mars 2014. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun og voru nefndarmenn sammála um að ástandið í Úkraínu yrði líklegt til umræðu og ályktunar.
    Seinni norræni samráðsfundurinn fór fram 8. október í Ósló. Rætt var um lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU og sérstaklega kosningu nýs forseta IPU sem valinn var á haustþinginu í Genf. Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Yfirskrift þingsins var jafnrétti kynjanna og baráttan gegn ofbeldi gegn konum í heiminum og voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að rödd Norðurlandanna fengi hljómgrunn í umræðunni. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. fjárfestingar í ljósi sjálfbærrar þróunar og hlutverk þjóðþinga við að ná jafnvægi milli þjóðaröryggis og frelsis einstaklingsins. Þá var rætt um hugsanlegar tillögur að neyðarályktun og voru nefndarmenn sammála um að ástandið í Úkraínu og ebólufaraldurinn yrði líkleg til umræðu og ályktunar.
    Jafnframt bauð formaður norsku landsdeildar IPU norrænu landsdeildunum til norræns vinnuhádegisverðar mánudaginn 13. október kl. 13.00. Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt, þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborgum viðkomandi formennskuríkis. Danmörk mun taka við formennsku á fundunum árið 2015.

130. þing IPU í Genf 16.–20. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, Ásmundur Einar Daðason og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna, vernd réttinda barna og þýðing lýðfræðilegrar þróunar og náttúrulegar takmarkanir á þróun ríkja og samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU. Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna fundaði í tengslum við þingið auk þess sem haldinn var árlegur fundur þingkvenna. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu og aðstoð við að koma á friði, öryggi og lýðræði í landinu. Um 1.350 þátttakendur sóttu þingið, þar af 705 þingmenn frá 145 ríkjum og 45 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt er, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 14. og 15. mars 2014 og fundar stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í París 9. febrúar 2014. Rætt var um ráðningu nýs framkvæmdastjóra IPU sem fara átti fram 20. mars á ráðsfundi þingsins. Valið stóð á milli þriggja umsækjanda frá Belgíu, Kamerún og Pakistan og kynntu þeir sig á fundi Tólfplús-hópsins og svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Við setningu 130. þingsins flutti forseti IPU, Abdelwahed Radi, ávarp þar sem hann bauð þátttakendur velkomna og kynnti dagskrá þingsins. Hann ræddi m.a. um átökin í Sýrlandi og Úkraínu og lagði áherslu á mikilvægi orðræðu og samningaviðræðna til að varanlegur friður og sátt megi nást. Hann sagði gagnkvæma virðingu og skilning á ólíkum menningarheimum lykilatriði þegar leysa þurfi erfið deilumál og vísaði í því samhengi til fyrrnefndra átaka.
    Fjórar tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Tillaga Marokkó um ástandið í Mið-Afríkulýðveldinu og aðstoð við að koma á friði, öryggi og lýðræði í landinu var samþykkt af meiri hluta þingsins. Algjör glundroði hefur ríkt í Mið-Afríkulýðveldinu undanfarið ár eða síðan uppreisnarmenn boluðu forsetanum François Bozizé frá völdum. Landið er nú meira og minna stjórnlaust og hafa uppreisnarmenn gengið þar um myrðandi og rænandi. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt.
    Almenn umræða fór fram um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum undir yfirskriftinni endurskoðun skuldbindinga varðandi frið og öryggi. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir tóku þátt í umræðunni fyrir hönd Íslandsdeildar. Ragnheiður lagði í ræðu sinni áherslu á jafnrétti kynjanna og nauðsyn þess að konur hefðu aðgang að öllum sviðum samfélagsins. Þá ræddi hún um mikilvægan þátt kvennahreyfinga í heiminum sem stuðlað hefðu að þróun í átt til aukins jafnréttis. Í því sambandi vísaði hún til arabíska vorsins þar sem kvennahreyfingar gegndu mikilvægu hlutverki sem hreyfiafl á breytingatímum í átt til aukins jafnréttis. Jafnframt lagði Ragnheiður áherslu á mikilvægi menntunar og jákvæð áhrif hennar á friðar- og lýðræðisþróun.
    Birgitta lagði í ræðu sinni áherslu á frelsi til tjáningar, upplýsinga og friðhelgi sem grundvöll lýðræðis. Þá ræddi hún um nauðsyn sameiginlegrar framtíðarsýnar mannkyns til verndar umhverfi okkar og ábyrgð borgara í lýðræðisþróun. Það væri hlutverk þingmanna að skapa lagagrundvöll fyrir auknu beinu lýðræði sem stuðlað gæti að endurnýjuðu trausti. Að lokum beindi Birgitta orðum sínum til Rússa og bað þá vinsamlegast að ræða við Úkraínu og Kínverja að hefja orðræðu við Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var umræðuefnið hlutverk þjóðþinga við að stuðla að heimi án kjarnorkuvopna. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá vinnu nefndarinnar og drög að ályktun. Í ályktuninni er m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að þingmenn tryggi að samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (e. Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons (NPT)) sé virtur og tryggi afvopnun í aðildarríkjum til lengri tíma. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar og lagði fram tillögu að umræðuefni fyrir næsta ár undir yfirskriftinni friðhelgi á 21. öldinni og lýðræði framtíðar. Birgitta kynnti tillöguna á fundi framkvæmdastjórnar nefndarinnar og verður tekin ákvörðun um val á umræðuefni á næstu vikum. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á að ef friðhelgi njóti ekki við sé lýðræði ekki virkt. Hún vísaði jafnframt til ályktunar á grundvelli máls hennar sem samþykkt var á ráðsfundi IPU í nóvember 2011. Mál Birgittu hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU sem hefur m.a. fjallað um það út frá tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að vernda friðhelgi einkalífs en eins og málum er háttað í dag eru notendur samskiptavefja á internetinu ekki lagalega varðir.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var ályktun samþykkt um þýðingu lýðfræðilegrar þróunar og náttúrulegar takmarkanir á þróun ríkja. Umræðuefni næsta árs verður um hvernig stuðla megi að nýju kerfi varðandi stjórnun vatns í heiminum.
    Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var samþykkt ályktun um hlutverk þjóðþinga við vernd réttinda barna. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar og lagði fram tillögu að umræðuefni fyrir næsta ár, þá sömu og fyrir 1. nefnd. Tillagan hlaut góðar undirtektir og var valin ein af þremur áhugaverðustu umræðuefnunum en laut í lægra haldi fyrir tillögu frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum um alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja, íhlutunarleysi um innanlandsmál og mannréttindi. Þess má geta að mikill áhugi var á tillögu Birgittu hjá Tólfplús-hópnum og var tekin ákvörðun um að halda tveggja klukkustunda pallborðsumræður um efnið í tengslum við haustþing IPU í Genf í október 2014. Þá fundaði nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna í tengslum við þingið og fjallaði m.a. um samstarfið milli Sameinuðu þjóðanna, þjóðþinga og IPU.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 166. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og yfirlit yfir skipulagða fundi og framkvæmdir seinni hluta árs 2014 og 2015. Kosinn var nýr framkvæmdastjóri IPU í stað Anders Johnsson sem gegnt hefur embættinu síðan 1993. Kosið var á milli þriggja umsækjenda og hlaut Martin Chungong frá Kamerún yfirburða kosningu og var ráðinn til fjögurra ára (frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2018) til starfsins með möguleika á framlengingu.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 214 þingfulltrúar á 130. þingi IPU voru konur (30,4%), sem er lakari árangur en náðist á síðasta þingi (31%).

131. þing IPU í Genf 7.–9. október 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru jafnrétti kynjanna og baráttan gegn ofbeldi gegn konum í heiminum, fjárfestingar í ljósi sjálfbærrar þróunar og hlutverk þjóðþinga við að ná jafnvægi milli þjóðaröryggis og frelsis einstaklingsins. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um ebólufaraldurinn og hvernig þjóðþing aðildarríkja IPU geti brugðist við útbreiðslu hans. Um 1.410 þátttakendur sóttu þingið, þar af 707 þingmenn frá 147 ríkjum og 47 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Formaður hópsins, Robert del Picchia frá Frakklandi, stýrði fundunum í síðasta sinn og tók belgíski þingmaðurinn, François-Xavier de Donnea við sem formaður hópsins á síðasta fundardegi. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 10. og 11. október 2014 og fundar stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í París í september sl. Rætt var um kosningu nýs formanns IPU sem fara átti fram á lokadegi þingsins, 16. október 2014. Valið stóð á milli fjögurra umsækjanda frá Ástralíu, Bangladess, Malaví og Indónesíu og kynntu þeir sig á fundi Tólfplús-hópsins og svöruðu spurningum nefndarmanna.
    Við setningu 131. þings IPU á 125 ára afmælisári samtakanna flutti forseti IPU, Abdelwahed Radi, ávarp þar sem hann sagðist sérstaklega ánægður með yfirskrift þingsins þar sem jafnrétti kynjanna og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi væri í forgrunni. Hann sagði jafnrétti kynjanna vera forsendu framfara, friðar og öryggis, upprætingar fátæktar og sjálfbærrar þróunar. Valdaójafnvægi kynjanna stuðli að ofbeldi gegn konum hvar sem er í heiminum og gegn því þurfi að berjast og fordæma harðlega.
    Níu tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Tillaga Belgíu og Zambíu um hlutverk þjóðþinga við að bregðast tafarlaust og kröftuglega við ebólufaraldrinum og vinna að lagasetningu sem tryggir árangursrík viðbrögð og viðbúnað við útbreiðslu ebólu varð fyrir valinu. Í ályktun þingsins voru aðildarríkin hvött til að leggja til nauðsynlegt fjármagn auk mannafla til lækningar og skipulagsstarfa. Þá voru ríki Afríku hvött til að auka meðvitund almennings varðandi sjúkdóminn, þróa heilbrigðis- og siðareglur og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn frekari útbreiðslu. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var samþykkt.
    Almenn umræða fór fram um stjórnmálalegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum undir yfirskriftinni jafnrétti kynjanna og baráttan gegn ofbeldi gegn konum í heiminum. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðunni fyrir hönd Íslandsdeildar. Birgitta sagðist stolt af landi sínu þegar kæmi að jafnréttismálum og að Ísland væri meðal fremstu ríkja á heimsvísu í þeim málum, þó enn sé margt sem betur megi fara. Þá sagði Birgitta heiminn sífellt verða stjórnlausari og flóknari. Því séu sterk og heilbrigð samfélög sem byggja á gildum lýðræðis besta mótefnið gegn alræðisstefnu og spillingu. Hún sagði mikilvægt að gera sér grein fyrir að sams konar innleiðing lýðræðis henti ekki alls staðar og nauðsynlegt sé að horfa með gagnrýnum augum á viðtekin stjórnmálakerfi þar sem ýmsar stofnanir séu úreltar. IPU þurfi að fjalla sérstaklega um hugmyndafræði lýðræðis og komast að sameiginlegri niðurstöðu sem raunhæft sé að innleiða í aðildarríkjunum. Þá lagði Birgitta áherslu á mikilvægi þess að samtökin leggi minni áherslu á að velja menn og málefni eftir landfræðihópum og meiri á að uppfylla grunngildi IPU sem heild. Að lokum hvatti Birgitta til þess að IPU samþykkti ríki án ríkisfangs sem áheyrnaraðila að samtökunum og nefndi í því sambandi Kúrdistan, Sómalíland og útlagastjórnina í Tíbet.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var haldin sérstök umræða um framkvæmd ályktunar IPU frá árinu 2008 um hlutverk þjóðþinga við að ná jafnvægi milli þjóðaröryggis, öryggis einstaklingsins og frelsis einstaklingsins án þess að ógna lýðræði. Birgitta Jónsdóttir sat í panel um efnið og opnaði umræðurnar sem sérfræðingur um tjáningar- og einstaklingsfrelsi, auk þess sem hún svaraði spurningum nefndarmanna. Birgitta lagði áherslu á að eins og málum væri háttað í dag væru notendur samskiptavefja á internetinu ekki lagalega varðir og breyting þyrfti að verða þar á. Hún sagði nauðsynlegt að stuðlað yrði að bættu lagaumhverfi fyrir notendur internetsins. Eins og staðan væri í dag gæti hver sem er lent í þeim aðstæðum að tengjast „glæp“. Hún hafi upplifað það á eigin skinni þegar hún var meðframleiðandi að myndbandi sem sýndi morð á óbreyttum borgurum í Íraksstríðinu. Samskiptamiðlar á internetinu eins og Facebook væru sérstaklega varasamir þar sem allar aðgerðir, persónuleg skilaboð og upplýsingar eru skráðar og engin lög eru til um eyðingu þessara gagna. Nauðsynlegt væri fyrir lýðræðisríki að bregðast við þessu ástandi sem allra fyrst. Þá fór fram umræða í nefndinni um vígbúnað á internetinu (e. cyberwar) og tók Birgitta þátt í þeim. Hún gagnrýndi m.a. að áhersla væri lögð á hernað en ekki þjóðaröryggi í umræðum um efnið. Þá áréttaði hún að Edward Snowden, fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, væri uppljóstrari en ekki njósnari eins og formaður nefndarinnar hafði nefnt hann en nauðsynlegt væri að greina skýrt þar á milli.
    Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, fóru fram skoðanaskipti um umræðuefni ályktunar sem fyrirhugað er að afgreiða á vorþingi IPU í Hanoi og ber yfirskriftina Nýjar leiðir að bættu kerfi við stjórnun vatns. Þá var tekin ákvörðun um að skipuleggja sérstakan fund um efnið á vorþingi IPU í Hanoi 2015.
    Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, og lagði fram tillögu að umræðuefni og ályktun fyrir næsta ár undir yfirskriftinni Lýðræði á tímum internetsins og ógnir við friðhelgi og einstaklingsfrelsi. Birgitta kynnti tillöguna á fundi framkvæmdastjórnar nefndarinnar en valið stóð á milli sjö tillagna sem allar voru kynntar á fundinum. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að tillaga Birgittu yrði fyrir valinu sem næsta umræðuefni nefndarinnar og hún skipuð annar tveggja höfunda ályktunar um málið. Fyrirhugað er að undirbúningur við vinnu ályktunarinnar hefjist á vormánuðum 2015 auk þess sem forseti IPU mun tilnefna annan höfund ályktunarinnar innan skamms. Er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir stöðu ályktunarhöfundar fastanefndar IPU. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á að ef friðhelgi nyti ekki við væri lýðræði ekki virkt. Hún vísaði jafnframt til ályktunar á grundvelli máls hennar sem samþykkt var á ráðsfundi IPU í nóvember 2011. Mál Birgittu hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU sem hefur m.a. fjallað um það út frá tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 166. Forseti IPU kynnti yfirlýsingu framkvæmdastjórnar þar sem fordæmd er útbreiðsla hryðjuverka og öfgastefna og lýsir yfir að friður og rósemd séu nauðsynlegar forsendur fyrir stöðugleika og friðsamari framtíð. Að lokum var kosinn nýr formaður IPU í stað Radi sem gegnt hefur embættinu síðan 2011. Kosningin stóð á milli fjögurra fulltrúa og varð þingmaðurinn Saber Chowdhury frá Bangladess fyrir valinu. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Næsta vorþing verður haldið í Hanoi 28. mars – 2. apríl 2015. Þá var samþykkt að vorþing 2016 yrði haldið í Lusaka í Zambíu 19.–23. mars.
    Samhliða haustþingi IPU fór fram ráðstefna ungra þingmanna þar sem Birgitta sat í pallborði og ræddi m.a. um frumkvöðlastarf í sköpun nýrra stjórnmálaflokka. Þá átti Ásmundur Einar fund með landsdeild Mongólíu þar sem rætt var um jarðhita- og landbúnaðarmál ríkjanna.

Sameiginlegur fundur IPU og Sameinuðu þjóðanna í New York 19.–20. nóvember 2014.
    Árlegur sameiginlegur fundur Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) og Sameinuðu þjóðanna fór fram í New York 19.–20. nóvember. Af hálfu Íslandsdeildar IPU sóttu fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, og Ásmundur Einar Daðason, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þar sem 207 þingmenn frá aðildarríkjum IPU, auk fulltrúa Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana auk sérfræðinga og embættismanna, komu saman til að ræða ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með áherslu á nauðsyn þess að mannréttindi og þarfir fólks verði sett á oddinn við framkvæmd og útfærslu þeirra. Endurskoðun þúsaldarmarkmiðanna hefur átt sér stað undanfarin missiri og ný markmið hafa verið sett fram sem taka við af þeim eftir árið 2015.
    Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hélt opnunarerindi fundarins en einnig tóku til máls forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og forseti IPU, Saber Chowdhury. Chowdhury ræddi í opnunarræðu sinni um þá staðreynd að þrátt fyrir að áherslur í umræðum um þróunarmál hefðu þróast frá því að leggja megináherslu á efnahagsvöxt til þess að horfa frekar til mannlegra þátta hefði raunveruleikinn ekki fylgt á eftir. Hann sagði sífellt fleiri þætti mannlegra samskipta vera gerða að einskærri söluvöru í gróðaskyni og fólki væri talin trú um að til að öðlast lífshamingju væru þeir nauðsynlegir. Hann lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að hugarfarsbreyting ætti sér stað bæði í þróunarríkjum og þróuðum ríkjum þar sem hugarfar einkennist í of ríkum mæli af því að mögulegt sé fyrir samfélög að vaxa hratt án þess að hafa áhyggjur af afleiðingum þess fyrir komandi kynslóðir og jörðina. Þá sagði hann þörf á lífrænum vexti samfélaga sem héldist í hendur við bætta mannlega velferð, en í því fælist m.a. réttur fólks til þátttöku í ákvarðanatöku varðandi líf sitt. Í umræðum fundarins var lögð rík áhersla á hvernig tryggja megi framgöngu nýju markmiðanna með ábyrgð stjórnvalda að leiðarljósi og áherslu á mannlega þátt þeirra.
    Lögð var áhersla á umræðu um misrétti og áhrif þróunar á t.d. jafnrétti kynjanna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í umræðum um efnið og spurði fulltrúa Sameinuðu þjóðanna hvernig mögulegt væri að kenna jafnrétti í skólum þar sem það væri ekki bundið í námsskrár fjölmargra ríkja. Líflegar umræður sköpuðust um efnið og var spurningu Ragnheiðar svarað á þann veg að samfélagsleg hugarfarsbreyting væri nauðsynlegur þáttur í þróun ríkja til aukins jafnréttis kynjanna. Fræða þurfi bæði syni og dætur jafnt innan veggja heimilisins sem og í skólum. Ræða þurfi jafnréttismál opinskátt og takast á við málaflokkinn opinberlega. Aðeins þannig verði varanlegum árangri náð í átt til aukins jafnréttis og velsældar.
    IPU og Sameinuðu þjóðirnar létu fara fram yfirgripsmikla ráðaleitun meðal fulltrúa sinna við öflun tillagna sem nýttar hafa verið við gerð nýrra markmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Umræðurnar munu halda áfram árið 2015 og hefst nýr áfangi þeirra í janúar nk. á grundvelli fyrstu draga að markmiðunum. Fyrirhugað er að samþykkja lokaútgáfu markmiðanna seinni hluta árs 2015.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2014.
    Ályktanir 130. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Í átt að kjarnorkulausum heimi: framlag þjóðþinga.
     2.      Í átt að áhættuminni þróun með áherslu á lýðfræðilega tilhneigingu og náttúrulegar takmarkanir.
     3.      Hlutverk þjóðþinga við verndun réttinda barna, sérstaklega barna án forráðamanna sem koma frá stríðshrjáðum svæðum.
     4.      Aðstoð við að viðhalda friði og öryggi og styrkja lýðræði í Mið-Afríkulýðveldinu: framlag IPU.

    Yfirlýsing forseta Alþjóðaþingmannasambandsins á 130. þingi:
    Um vopnuð átök í heiminum.

    Ályktun 131. þings IPU varðaði eftirfarandi efni:
    Hlutverk þjóðþinga við að styðja við tafarlaus viðbrögð alþjóðasamfélagsins við ebólufaraldrinum og setningu laga sem tryggja árangursrík viðbrögð og viðbúnað við ebólu og öðrum smitsjúkdómum.

    Yfirlýsing framkvæmdastjórnar á 131. þingi IPU:
    Um hryðjuverkastarfsemi.

Alþingi, 20. janúar 2015.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
form.
Ásmundur Einar Daðason,
varaform.
Birgitta Jónsdóttir.