Ferill 498. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 851  —  498. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál fyrir árið 2014.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2014 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi helst verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna elleftu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Whitehorse í Kanada 9.–11. september. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.
    Á ráðstefnunni í Whitehorse voru fjögur meginþemu valin af nefndarmönnum til sérstakrar umræðu og skýrslugerðar. Í fyrsta lagi sjálfbær þróun skipulagsgerðar á norðurslóðum þar sem áhersla var lögð á hvernig þróun á innviðum samfélagsins styddi við samfélög og yki lífsgæði íbúanna. Í öðru lagi var rætt um stjórnskipun og ákvarðanatöku á norðurslóðum og áréttað að málefnið væri ekki eingöngu alþjóðlegt eða þjóðlegt heldur fyrst og fremst mál íbúa svæðisins. Í þriðja lagi fór fram umræða um áskoranir varðandi umhverfismál þar sem áhersla var lögð á mikilvægi þess að vakta loftslagsbreytingar, vernda svæðið fyrir hættu á olíuslysum og styrkja Norðurskautsráðið. Í fjórða lagið var fjallað um bætt efnahagslíf og viðskiptaþróun á norðurslóðum með ábyrga auðlindaþróun og aukna getu að leiðarljósi. Í umræðum og niðurstöðum skýrslu um efnið lögðu nefndarmenn megináherslu á innviði og hvernig þróa mætti þá á sjálfbæran hátt með hliðsjón að efnahagsþróun, matvælaöryggi, orkumálum og kostnaði við að búa á svæðinu. Einnig var áhersla lögð á mannlífsþróun og mikilvægi svæðisbundins samstarfs varðandi vinnuafl á norðurslóðum.
    Í ráðstefnuyfirlýsingu elleftu ráðstefnunnar, sem er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins, er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Einnig var kallað eftir stuðningi við uppbyggingu skipulagsgerðar eins og flugvalla, hafna og þjóðvega sem styðja við þróun ferðaþjónustu og efnahagslíf heimamanna auk annarra umhverfisvænnar og sjálfbærrar starfsemi. Þá var hvatt til þess að skoðaðir yrðu möguleikar á frekari bindandi samningum milli norðurskautsþjóðanna. Fulltrúar Íslandsdeildar lögðu m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt, eflingu Norðurskautsráðsins, umhverfismál og öryggis- og björgunarmál á hafi.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2014 má nefna umhverfismál þar sem horft var sérstaklega til loftslagsbreytinga á svæðinu, stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins og áhersluatriði formennsku Kanada í Norðurskautsráðinu. Þá var einnig rætt um opnun nýrra siglingaleiða, vistfræðilega stjórnun og samstarf og jafnrétti kynjanna á norðurslóðum.

2. Almennt af þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda. Í því sambandi var þingmannanefndin leiðandi í hugmyndavinnu fyrir ritun skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, Arctic Human Development Report (AHDR I), sem kom út undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 og seinna bindi skýrslunnar (AHDR II) sem var gefin út seinni hluta árs 2014. Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt vakið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem snertu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Þá færast mörk gróðurlenda æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka enn á samstarf og skuldbindingar ríkjanna. Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2010 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Samningurinn er sögulegur þar sem um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsins. Jafnframt má segja að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við aukinni fyrirsjáanlegri umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga og aukinnar hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta bera ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þá var á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013 undirritaður samningur milli norðurskautsríkjanna átta um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2014 Jón Gunnarsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Egilsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2014.
    Þingmannanefndin hélt fimm fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunnar í Whitehorse.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa 24. febrúar 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Jón Gunnarsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru áhersluatriði formennsku Kanada í Norðurskautsráðinu og norðurslóðastefna Kanada, opnun nýrra siglingaleiða og andlegt heilbrigði frumbyggja á norðurslóðum. Sara Olsvig, formaður nefndarinnar og fulltrúi Grænlands á danska þinginu, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning ráðherra og forseta Norðurskautsráðsins, Leonu Aglukkaq, á helstu áhersluatriðum formennsku Kanada í ráðinu. Kanada tók við formennsku í Norðurskautsráðinu af Svíþjóð á ráðherrafundi ráðsins í Kiruna 15. maí 2013 og mun gegna formennsku til vors 2015 en þá taka Bandaríkin við formennsku. Megináherslur formennsku Kanada í ráðinu eru á mannlífsþróun á norðurslóðum, ábyrga auðlindastjórnun, siglingaöryggi og sjálfbærni samfélaga á svæðinu. Jafnframt er áhersla á að styrkja Norðurskautsráðið enn frekar. Síðan Kanada tók við formennsku í ráðinu hefur eitt af forgangsverkefnum þess verið að koma á umræðuvettvangi um viðskipti á norðurslóðum og var tekin ákvörðun í janúar 2014 um að stofnsetja viðskiptaráð norðurslóða. Kanada leiðir vinnu við stofnun viðskiptaráðsins ásamt Íslandi, Finnlandi og Rússlandi. Við þann undirbúning hafa íslensk stjórnvöld unnið náið með íslenskum hagsmunasamtökum úr atvinnulífinu, þ.m.t. Norðurslóða-viðskiptaráði Íslands sem stofnað var um mitt ár 2013. Hlutverk viðskiptaráðs norðurslóða er að hlúa að viðskiptaþróun á norðurslóðum og stuðla að auknu samstarfi á svæðinu. Þá greindi Aglukkaq frá ákvörðun Norðurskautsráðsins um að skipa starfshóp um forvarnir gegn olíumengun á norðurslóðum (TFOPP). Meginhlutverk starfshópsins er að vinna framkvæmdaáætlun varðandi forvarnir gegn olíumengun á norðurslóðum sem verður kynnt á ráðherrafundi ráðsins árið 2015.
    Þá kynnti Tim Meisner, forstöðumaður siglingamála hjá landhelgisgæslu Kanada, fyrirhugað framtíðarhlutverk norðvestursiglingaleiðarinnar á norðurslóðum. Um er að ræða tvær siglingaleiðir við núverandi aðstæður, þ.e. norðvestursiglingaleiðina sem liggur milli Kanada og Grænlands og þaðan í gegnum norðurhluta Kanada og norðaustursiglingaleiðina meðfram ströndum Rússlands. Enn sem komið er hafa siglingar aukist meira um norðaustursiglingaleiðina og sigldu árið 2013 um 71 skip leiðina miðað við fjögur skip árið 2010. Siglingar um norðvesturleiðina hafa verið takmarkaðri og í september 2013 sigldi fyrsta flutningaskipið þá leið. Til að undirbúa auknar siglingar á norðurslóðum er Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) að vinna drög að lögbundnum öryggisstöðlum fyrir hafsvæðið á norðurslóðum og er vonast til þess að samkomulag náist um staðlana seinni hluta árs 2014 og innleiðing eigi sér stað árið 2016.
    Jafnframt hélt Valerie Gideon, aðstoðarráðherra svæðisbundinna aðgerða og heilbrigðismála frumbyggja í Kanada, erindi um andlegt heilsufar íbúa á norðurslóðum og aukna sjálfsmorðstíðni á svæðinu. Hún lagði í máli sínu áherslu á nauðsyn þess að tryggja frumbyggjum aðstæður til að viðhalda samfélögum sínum á sjálfbæran hátt og aðlagast þeim breytingum sem eiga sér stað á svæðinu. Sú staðreynd að sjálfsmorðstíðni meðal frumbyggja á norðurskautssvæðinu, sér í lagi ungra karlmanna, hafi aukist til muna gefi vísbendingu um að samfélögin hafi ekki náð að aðlagast þeim hröðu breytingum sem hafi átt sér stað undanfarin ár. Gideon sagði nauðsynlegt að horfa í auknum mæli til menningar og hefða þessara samfélaga og gera íbúum þess kleift að viðhalda grunnlífsviðurværi og hefðum sem eru rótgrónar og hluti af sjálfmynd þeirra. Nýjustu rannsóknir á andlegri heilsu frumbyggja í Kanada sýni svo ekki verði um villst að þessir þættir hafi gríðarleg áhrif á andlega líðan íbúanna og farsæld. Enn fremur hélt Alexander Shestakov, deildarstjóri norðurskautsmála hjá World Wide Fund for Nature (WWF), erindi um verkefni samtakanna varðandi norðurslóðir. Hann sagði WWF leggja mikla áherslu á verkefni tengd norðurslóðum og hafi gert það í auknum mæli síðastliðin 20 ár. Ljóst sé að þær breytingar sem eigi sér stað á norðurslóðum varði allt mannkyn og nauðsynlegt sé að bregðast við þeim af ábyrgð og yfirvegun með sjálfbærni að leiðarljósi.
         Því næst ræddu nefndarmenn viðskiptaþróun á norðurslóðum en efnið var valið sem eitt af meginþemum ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin var í Whitehorse í Kanada 9.–11. september 2014. Ken Coates frá Háskóla norðurslóða hélt fyrirlestur um niðurstöður skýslu um efnið sem unnin hefur verið á vegum háskólans. Hann lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að innleiða tækninýjungar á norðurskautssvæðinu og sagði svæðið hafa dregist aftur úr varðandi þau mál og sé það miður og afar mikilvægt að snúa þróuninni við.
    Í framhaldinu var fjallað um undirbúning næstu ráðstefnu nefndarinnar og greindu fulltrúar Kanada í nefndinni frá helstu praktísku atriðum og fóru yfir uppfærð drög að dagskrá og ráðstefnuyfirlýsingu. Þá ræddu nefndarmenn meginumræðuefni dagskrárinnar sem eru m.a. sjálfbær þróun og ábyrg notkun auðlinda, almennir umhverfismælikvarðar, viðskiptaþróun og góðir stjórnhættir á norðurslóðum. Þá var tekin ákvörðun um skýrsluhöfunda fyrir meginþemu og óskað eftir tillögum frá nefndarmönnum varðandi áhersluatriði ráðstefnuyfirlýsingarinnar. Enn fremur fór fram kosning varaformanns nefndarinnar og buðu tveir kanadískir þingmenn sig fram til embættisins, þeir Ryan Leef og Dennis Bevington, og var sá síðarnefndi kosinn í embættið.
    Næsta mál á dagskrá fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Jón Gunnarsson sagði nefndarmönnum frá vinnu við skýrslu um þróun mannlífs og lífskjara á norðurslóðum (AHDR II) sem gefin var út í sumar en Ísland ásamt Kanada og Danmörku hafa leitt þá vinnu undanfarin missiri. Sambærileg skýrsla (AHDR I) kom út í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu árið 2004 og mun ný skýrsla gefa vísbendingar um þróun og áhrif mannvistar á svæðinu á síðustu árum. Þá leiðir Ísland vinnu og undirbúning að ráðstefnu um jafnréttismál á norðurslóðum sem fram fer á Akureyri í október 2014. Einnig lagði Jón áherslu á mikilvægi þess að frumbyggjar á norðurslóðum hefðu möguleika á því að búa sér til sjálfbær samfélög. Hann gagnrýndi jafnframt þær þjóðir sem beita viðskiptaþvingunum og berjast þannig gegn hagsmunum þessara samfélaga. Þá tók Jón undir orð forseta Norðurskautsráðsins, Aglukkaq, um að frumbyggjar norðurslóða vilji ekki byggja sér samfélög sem lifa á „vestrænu velferðarkerfi“ heldur á þeim hefðum og auðlindum sem þeir hafa byggt afkomu sína á í gegnum tíðina.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Kaupmannahöfn 10. júní 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Jón Gunnarsson, formaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru áhersluatriði norðurslóðastefnu Danmerkur, öryggi almennings á norðurslóðum og undirbúningur fyrir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin var 9.–11. september 2014 í Whitehorse í Kanada. Sara Olsvig, formaður nefndarinnar og fulltrúi Grænlands á danska þinginu, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning utanríkisráðherra Danmerkur, Martin Lidegaard, á norðurslóðastefnu Danmerkur. Hann lagði áherslu á mikilvægi norðurslóða bæði fyrir Danmörku og á alþjóðavísu. Þá ræddi hann um stjórnmálalegar, efnahagslegar og félagslegar áskoranir vegna loftslagsbreytinga, opnun nýrra siglingaleiða og aukið aðgengi að náttúruauðlindum sem áhrifavalda varðandi þróun svæðisins. Markmið stefnunnar væri sjálfbær þróun í öruggu umhverfi. Jafnframt lagði Lidegaard áherslu á mikilvægi stofnsetningar viðskiptaráðs norðurslóða og lögboðinna viðmiðunarreglna Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar IMO (International Maritime Organization) varðandi siglingar í hafís. Hlutverk viðskiptaráðs norðurslóða yrði að hlúa að viðskiptaþróun á norðurslóðum og stuðla að auknu samstarfi á svæðinu. Ráðherrann sagði Norðurskautsráðið mikilvægasta samstarfsvettvanginn fyrir norðurskautsmál og að Danmörk styddi jákvæða þróun ráðsins og nefndi í því sambandi tvo bindandi samninga sem fullgiltir voru af aðildarríkjunum. Þá sagði hann dönsk stjórnvöld vera hlynnt því að ráðið væri opið fyrir nýjum áheyrnaraðilum eins og Evrópusambandinu.
    Næstur tók til máls Minik Rosing, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, og kynnti nefndarmönnum skýrslu um hagsbætur fyrir Grænland. Hann sagði skýrsluna draga fram raunsæja mynd af auðlindum eins og steinefnum og jarðefnum á Grænlandi. Líklegt sé að þessar auðlindir geti aflað viðbótartekna fyrir grænlenskt samfélag þó að lifandi auðlindir muni enn um sinn vera mikilvægastar fyrir efnahag landsins. Jafnframt benti hann á að erlendir fjárfestar og starfsmenn væru nauðsynlegir í þessari þróun. Nú þegar væru fyrirtæki frá Kanada, Bandaríkjunum og Evrópu og eitt kínverskt starfandi í landinu. Í skýrslunni eru talin tíu megináhersluatriði fyrir Grænland og m.a. bent á að grunnlagaumhverfið sé gott en þó nokkuð vanti upp á innviðina. Þá muni bráðnun íss bæta aðgengi bæði að landinu sjálfu og auðlindum þess. Samkvæmt stefnu stjórnvalda á Grænlandi varðandi steinefnaauðlindir er áætlað að þrjár til fimm námur verði opnaðar fyrir árið 2018 en í skýrslu Rosing er áætlað að ein ný náma verði opnuð fyrir árið 2018. Ein meginniðurstaða skýrslunnar er sú að jafnvel þótt þróunin verði hröð varðandi námurekstur á komandi árum muni Grænland aðeins að hluta til verða óháðara styrkjum frá Danmörku.
    Þá ræddi dr. Njord Wegge við stofnun Fridtjof Nansen í Noregi um samstarf á norðurslóðum um stjórnun lifandi auðlinda. Hann ræddi um samkomulag um fiskveiðar sem náðist 24. febrúar 2014 í Nuuk milli strandríkjanna fimm (Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands, Noregs og Danmerkur (Grænland)). Strandríkin fimm hafa hingað til verið treg til að fjalla um samstarf varðandi fiskveiðar á norðurslóðum á vettvangi Norðurskautsráðsins en hafa haldið nokkra fundi um málið með sérfræðingum sínum, þann fyrsta í Ósló 2010. Bandaríkin hafa verið virkust í þessu samstarfi og notið stuðnings Danmerkur og Kanada. Á fundinum í Nuuk var samþykkt að ekki yrðu stundaðar fiskveiðar á svæðinu fyrr en nægilegar tölfræðiupplýsingar lægju fyrir.
    Jafnframt kynnti Kristian Søby Kristensen frá Kaupmannahafnarháskóla nefndarmönnum samstarf varðandi öryggi almennings á norðurslóðum. Hann sagði að aukin starfsemi á norðurslóðum kallaði á frekara skipulag öryggismála og ábyrgð stjórnmálamanna væri þar mikil. Úrlausnarefnin við að auka öryggi almennings á svæðinu fælust m.a. í kostnaði, náttúruöflum og óljósum mörkum varðandi það hvort ábyrgðin sé viðkomandi þjóðar eða alþjóðleg.
    Í framhaldinu var fjallað um undirbúning næstu ráðstefnu nefndarinnar sem fyrirhuguð var í Whitehorse 9.–11. september 2014. Fulltrúar Kanada í nefndinni kynntu uppfærð drög að dagskrá og ráðstefnuyfirlýsingu. Þá kynntu skýrsluhöfundar drög að skýrslum nefndarinnar sem ræddar voru á ráðstefnunni. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að leggja áherslu á forvarnir, bæði varðandi ráðstefnuyfirlýsinguna og skýrslu nefndarinnar um viðskiptaþróun og getu á norðurslóðum. Dennis Bevington kynnti drög að skýrslu um viðskiptaþróun á norðurslóðum þar sem m.a. er lögð áhersla á innviði og hvernig þróa megi þá á sjálfbæran hátt með hliðsjón af efnahagsþróun, matvælaöryggi, orkumálum og kostnaði við að búa á svæðinu. Þá var rætt um mikilvægi svæðisbundins samstarfs varðandi vinnuafl á norðurslóðum.
    Næsta mál á dagskrá fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sara Olsvig, formaður nefndarinnar, greindi frá því að hún hefði verið kosin formaður stjórnmálaflokksins Inuit Ataqatigiit (IA) á Grænlandi og hefði tekið ákvörðun um að setja þá trúnaðarstöðu í forgang og stíga til hliðar sem þingmaður á danska þinginu. Olsvig sagði því af sér sem formaður þingmannanefndarinnar eftir fund nefndarinnar sem haldinn var 10. september 2014. Þá greindi Olsvig frá bréfaskiptum sínum sem formanns þingmannanefndarinnar við formann Norðurskautsráðsins þar sem beiðni um að taka til máls á fundi æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins (SAO) var hafnað í Yellowknife, Kanada, í mars 2014. Var það í fyrsta sinn sem SCPAR fékk ekki tækifæri til að ávarpa SAO-fund Norðurskautsráðsins. Fyrirhugað var að Olsvig mundi sækja þrjá fundi fyrir hönd nefndarinnar sumarið 2014 og fengu nefndarmenn sendar nánari upplýsingar um niðurstöður þeirra á haustmánuðum 2014.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar í Whitehorse 9.–11. september 2014.
    Ellefta þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin í Whitehorse í Kanada 9.–11. september 2014. Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefnd um norðurskautsmál ráðstefnu um málefni norðurslóða. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu sem og að fylgjast með störfum Norðurskautsráðsins. Ráðstefnuna sóttu fyrir hönd Alþingis Jón Gunnarsson, formaður Íslandsdeildar, Valgerður Bjarnadóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Ráðstefnan hófst með því að gestir voru ávarpaðir og boðnir velkomnir af Darrell Pasloski, fylkisstjóra Yukon, Söru Olsvig, formanni þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR), og Ryan Leef, þingmanni frá Yukon og varaformanni SCPAR. Í opnunarræðu sinni ræddi Sara Olsvig m.a. um mikilvægi samstarfs norðurskautsríkjanna þar sem sjónum er beint að íbúum svæðisins með áherslu á menntun og velferðarmál. Hún sagði að ójöfnuður væri ríkjandi á svæðinu þegar horft væri til mennta- og félagsmála og það væri sameiginleg ábyrgð norðurskautsríkjanna að bregðast við honum hið snarasta. Þá sagði hún að stöðugt þyrfti að endurmeta hvernig hugtakið þróun væri skilgreint og ekki síst sjálfbær þróun. Það væri grundvallaratriði að íbúar norðurslóða gætu lifað og hagnast af lifandi auðlindum sínum og hefðu rétt til útflutnings á þeim með sjálfbærni að leiðarljósi.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um sjálfbæra þróun skipulagsgerðar á norðurslóðum og stýrði bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski umræðunni ásamt finnska þingmanninum Johönnu Ojala-Niemelä. Mitch Bloom frá þróunarskrifstofu efnahagsmála í Norður-Kanada hélt erindi um efnið. Þá hélt Rick Meyer frá samtökum námureksturs í Kanada erindi og greindi m.a. frá því hvernig þróun á innviðum samfélagsins styddi við samfélög og yki lífsgæði íbúanna. Jafnframt drægi bætt samfélagsgerð úr þörf fyrir niðurgreiðslur og styrki og hjálpaði samfélögum að öðlast sjálfstæði og vera sjálfum sér nóg. Kanadíski þingmaðurinn Dennis Bevington var skýrsluhöfundur um málið og kynnti skýrslu þingmannanefndarinnar og helstu niðurstöður hennar fyrir fundargestum. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að skilgreina hvað fælist í sjálfbærri skipulagsgerð sem henti á norðurslóðum. Enn fremur áréttaði hann nauðsyn þess að þróun líðandi stundar tryggði þarfir nútímans án þess að stofna möguleikum komandi kynslóða í hættu. Það væri skylda okkar að huga að komandi kynslóðum og tryggja þyrfti að öll þau skref sem stigin væru á svæðinu væru tekin af ábyrgð og nærgætni gagnvart umhverfinu.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um stjórnskipun og ákvarðanatöku á norðurslóðum. Dalee Sambo Dorough frá Háskólanum í Anchorage í Alaska og Susan Harper frá utanríkisráðuneyti Kanada héldu fyrirlestra um efnið. Þá hélt norski þingmaðurinn Eirik Sivertsen, skýrsluhöfundur nefndarinnar, erindi og svaraði spurningum ráðstefnugesta. Sivertsen sagði meginskilaboð skýrslunnar vera þau að stjórnskipun og ákvarðanataka á norðurslóðum sé ekki eingöngu alþjóðlegt eða þjóðlegt málefni heldur fyrst og fremst mál íbúa svæðisins. Hann lagði þó áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og ræddi í því sambandi um góðan árangur Norðurskautsráðsins. Í máli hans kom fram að sameiginlegt markmið allra ríkja norðurslóða væri að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu og að Norðurskautsráðið hefði gegnt lykilhlutverki við að sýna fram á að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri sú réttarheimild sem stuðst væri við á svæðinu. Þá sagði hann nauðsynlegt að raddir íbúa norðurskautsins væru virtar í auknum mæli þegar horft væri til ákvarðanatöku. Einnig sagði Sivertsen að athygli umheimsins hefði beinst í auknum mæli að norðurslóðum á undanförnum árum þar sem alþjóðasamfélagið sæi aukin tækifæri. Það væri þó klárlega hlutverk stjórnvalda á norðurslóðum að tryggja framtíð svæðisins og að það verði áfram heimili íbúa þess eins og verið hefði um aldir alda.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um bætt efnahagslíf á norðurslóðum með ábyrga auðlindaþróun og aukna getu að leiðarljósi. Justin Ferbey frá Carcross/Tagish Management Corporation, fyrirtæki sem sérhæfir sig í viðskiptatækifærum á Carcross-svæðinu í Norður-Kanada, og Tom Paddon frá námufyrirtækinu Baffinland Mines í Kanada héldu erindi um efnið. Enn fremur kynnti bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski, höfundur skýrslu nefndarinnar um efnið, helstu niðurstöður. Hún lagði áherslu á að réttindi íbúa norðurslóða væru virt og varin og þeir tækju sjálfir ákvarðanir um þróun samfélaga sinna að meðtöldum náttúruauðlindum, iðnaði, siglingarleiðum og annarri starfsemi. Hún minnti jafnframt á mikilvægi þess að varðveita merka menningararfleifð norðurslóða og viðkvæma náttúru. Þannig sköpuðust tækifæri til að stuðla að raunverulegum breytingum á norðurslóðum.
    Fjórði hluti ráðstefnunnar beindi sjónum sínum að áskorunum varðandi umhverfismál og stýrði Jón Gunnarsson, formaður Íslandsdeildar, umræðunni ásamt kanadíska þingmanninum Daniel Lang. Þá héldu Gail Fondahl frá British Columbia háskólanum og Annika E. Nilsson frá umhverfisstofnun Svíþjóðar erindi um efnið. Auk þess kynnti rússneski öldungardeildarþingmaðurinn Vladimir A. Torlopov, höfundur skýrslu þingmannanefndarinnar, helstu áhersluatriði hennar fyrir ráðstefnugestum. Hann áréttaði m.a. mikilvægi þess að vakta loftslagsbreytingar, vernda svæðið fyrir hættu á olíuslysum og styrkja Norðurskautsráðið. Nauðsynlegt væri að horfa gagnrýnum augum á áhrif aukinna siglinga og auðlindanýtingar á svæðinu á umhverfið.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem að hluta til er beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Enn fremur var kallað eftir stuðningi við uppbyggingu skipulagsgerðar eins og flugvalla, hafna og þjóðvega sem styðja við þróun ferðaþjónustu og efnahagslíf heimamanna auk annarra umhverfisvænnar og sjálfbærrar starfsemi. Þá var hvatt til þess að skoðaðir yrðu möguleikar á frekari bindandi samningum milli norðurskautsþjóðanna. Við undirbúning yfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á þremur fundum og fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem lagðar voru fram. Jón Gunnarsson var fulltrúi Íslandsdeildar í nefndinni og lagði m.a. áherslu á að í yfirlýsingunni væri málsgrein um að standa þyrfti vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og að tryggja þyrfti lífsviðurværi þeirra með því að stækka markaði fyrir hefðbundnar vörur og framleiðslu. Voru nefndarmenn sammála þeirri áherslu. Þá voru þátttakendur boðnir velkomnir til næstu ráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður í Rússlandi árið 2016.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar, 9. september sl., var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar, 10. september 2014, var Eirik Sivertsen, fulltrúi norska þingsins, kjörinn formaður nefndarinnar og tók við embættinu af Söru Olsvig, fulltrúa danska þingsins, sem hefur gegnt því frá síðustu ráðstefnu nefndarinnar sem haldin var á Akureyri í september 2012. Þá var kanadíski þingmaðurinn Dennis Bevington endurkjörinn varaformaður. Auk þess var Björn-Willy Robstad, starfsmaður norska Stórþingsins, endurráðinn framkvæmdastjóri.
    Það var samhljóma álit nefndarmanna að ráðstefnan í Whitehorse hefði heppnast vel og mikilvægt væri að samþykktri ráðstefnuyfirlýsingu yrði komið á framfæri við Norðurskautsráðið, stjórnvöld og hlutaðeigandi aðila í aðildarríkjum nefndarinnar. Árangur ráðstefnunnar fælist í því sem þátttakendur hennar tækju með sér heim og kæmu í framkvæmd.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Helsinki 20. nóvember 2014.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Jón Gunnarsson, formaður, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur starfandi ritara. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðastefna Finnlands, menningarsamstarf á norðurslóðum, notkun lífrænna orkugjafa í Finnlandi, nýstofnað Efnahagsráð norðurslóða og möguleg stofnun upplýsingamiðstöðvar Evrópusambandsins um norðurslóðir.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning utanríkisráðherra Finnlands, Erkki Tuomioja, á norðurslóðastefnu Finnlands, en stefnan var fyrst kynnt í ágúst 2013. Í henni er lögð áhersla á stöðu íbúa Finnlands, menntamál, efnahagsmál, innviði, umhverfismál, stöðugleika og alþjóðasamstarf á norðurslóðum. Sérstakri athygli er beint að þekkingu Finna á málefnum tengdum samgöngum í lofti og á sjó við erfið veðurskilyrði (snow-how) og hvernig Finnland getur lagt sitt af mörkum í norðurslóðasamstarfi og -þróun. Tuomioja lagði áherslu á loftslagsbreytingar í erindi sínu og áhrif þeirra á norðurslóðir sem hann taldi að ætti að vera í forgrunni á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar árið 2015 í París. Hann sagði Evrópusambandið hafa ýmislegt til málanna að leggja í norðurslóðasamstarfi og að sambandið fengi að öllum líkindum stöðu áheyrnarríkis á fundi ráðherranefndar Norðurskautsráðsins í apríl á næsta ári. Rússland hefði þó látið í ljós efasemdir í því sambandi.
    Maija Lummepuro, menningarráðgjafi í utanríkisráðuneyti Finnlands, kynnti menningarsamstarf á Barentssvæðinu og í stefnu Norðlægu víddarinnar (e. Northern Dimension). Menningarmálanefnd Barentsráðsins var stofnuð árið 1991 en markmið starfsins er að styrkja menningarlega sjálfsvitund, fjölmenningarlegar samræður og menningartengsl milli aðildarríkja ráðsins. Áherslur síðustu ára hafa m.a. verið á leikhús, bókasöfn, frumbyggja og tungumál. Samstarf Norðlægu víddarinnar um menningarmál (e. Northern Dimension Partnership on Culture) var stofnað árið 2010 og er markmið þess að stuðla að félags- og efnahagslegri þróun á svæðinu með því að brúa bilið milli opinbers fjármagns og einkafjármagns og styrkja samstarf menningargeirans við viðskiptalífið. Aðspurð sagði Lummepuro engan vinnuhóp samstarfsins einbeita sér sérstaklega að samstarfi á norðurslóðum, en samstarf ætti sér engu að síður stað.
    Þá tók til máls Timo Ritonummi frá vinnumála- og efnahagsráðuneyti Finnlands sem kynnti orkustefnu Finnlands með áherslu á notkun lífrænna orkugjafa. Stór hluti orkunotkunar Finna byggist á viðareldsneyti, eða 25%. Þeir stefna að því að árið 2020 byggist 38% orkunotkunar á sjálfbærum orkugjöfum, þar af verði helmingur frá viðareldsneyti. Í dag er hlutfallið 33%.
    René Söderman frá utanríkisráðuneyti Finnlands hélt erindi um nýstofnað Efnahagsráð norðurslóða (e. Arctic Economic Council). Fyrsti fundur ráðsins var haldinn í byrjun september en ráðið samanstendur af 42 fulltrúum viðskiptalífsins frá aðildarríkjum Norðurskautsráðsins ásamt sex fulltrúum samtaka frumbyggja á svæðinu. Söderman sagði frá þeim markmiðum ráðsins að deila bestu venjum og tæknilegum lausnum ásamt því að vinna að sameiginlegum stöðlum. Ráðið mun vinna náið með Norðurskautsráðinu og stefnir á að verða rödd viðskiptalífsins á norðurslóðum. Stofnaðir hafa verið vinnuhópar um innviði, orkumál, námuvinnslu, ferðaþjónustu, fiskveiðar, mannauð og uppbyggingu afkastagetu. Áhersla verður á hefðbundna og staðbundna þekkingu og lítil fyrirtæki.
    Loks kynnti Paula Kankaanpää, prófessor og forstöðumaður Norðurslóðasetursins í Rovaniemi í Norður-Finnlandi, stöðu mála þegar kemur að mögulegri stofnun upplýsingaseturs Evrópusambandsins á norðurslóðum. Finnland hefur í nokkur ár unnið að því að setrið verði sett upp og vill að það verði staðsett í Rovaniemi. 19 leiðandi rannsóknarstofnanir á sviði norðurslóðamála í Evrópusambands- og EFTA/EES-ríkjum hafa stofnað alþjóðlegt net um verkefnið og unnið ítarlega skýrslu um þróun mála á norðurslóðum. Kankaanpää sagði frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ynni nú að orðsendingu (e. communication) um norðurslóðir sem yrði gerð opinber á næsta ári. Hún vænti þess að ákvörðun um setrið yrði tekin á sama tíma.
    Næsta mál á dagskrá var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Jón Gunnarsson sagði frá ráðstefnunni Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) sem haldin var í Reykjavík í lok október sl. sem og ráðstefnu utanríkisráðuneytisins og Jafnréttisstofu um jafnrétti kynjanna á norðurslóðum og ráðstefnu Rannsóknaseturs um norðurslóðir um stjórnun, samstarf og sjálfbærni á norðurslóðum. Þá fagnaði hann því að það liti út fyrir að Evrópusambandið og Kanada hefðu fundið lausn á deilu sinni um sölu á selaafurðum innan sambandsins og óskaði eftir frekari upplýsingum um þróun þeirra mála. Einn af fulltrúum Kanada og varaformaður SCPAR, Dennis Bevington, sagði frá þátttöku sinni í fundi æðstu embættismanna Norðurskautsráðsins í Kanada í október 2014, þar sem hann kynnti meginniðurstöður fundar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Whitehorse í september sl. Fulltrúi Svíþjóðar sagði frá myndun nýrrar ríkisstjórnar þar í landi eftir kosningarnar í september sl. og áherslu nýrrar stjórnar á loftslagsbreytingar. Fulltrúi Noregs sagði frá nýrri stefnu Noregs gagnvart norðurslóðum. Fulltrúi þingmannaráðs Sama sagði frá áætlaðri opnun skrifstofu ráðsins í Brussel og eins frá umsóknum ráðsins um aðild að Norðurlandaráði og Norðurskautsráðinu. Þá sagði hann frá óróa í tengslum við fyrirhugaða nýtingu stjórnvalda í Svíþjóð á landi sem Samar hafa haft yfirráð yfir, án samráðs við samfélag Sama á svæðinu. Fulltrúi Norðurlandaráðs sagði frá nýafstöðnu þingi ráðsins í Stokkhólmi og nýrri áætlun ráðsins um norðurslóðir fyrir árin 2015–2017. Fulltrúi Vestnorræna ráðsins sagði frá síðasta ársfundi ráðsins þar sem ákveðið hefði verið að vinna að sameiginlegri stefnu vestnorrænu landanna á norðurslóðum. Þá sagði hún frá fyrirhugaðri þemaráðstefnu ráðsins í janúar 2015 þar sem stefnan verður mótuð frekar. Loks sagði hún frá málstofu ráðsins á Hringborði norðurslóða í Reykjavík. Fulltrúi Rússlands sagði frá því að forseti Rússlands hefði nýverið skipað Vyacheslav Shtyrov, forseta rússneska sjálfstjórnarlýðveldisins Saka, sem sérlegan fulltrúa landsins í málefnum norðurslóða.
    Í kjölfar fundar stjórnarnefndar var haldin ráðstefna um öryggismál á norðurslóðum. Jón Gunnarsson hélt erindi um samstarf landhelgisgæslna á svæðinu. Hann sagði frá starfi og ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands og samstarfi hennar við innlenda jafnt sem erlenda aðila, þar á meðal lögreglu og slökkvilið, og erlenda sjóheri og landhelgisgæslur. Jafnvel í verkefnum sem íslenska landhelgisgæslan bæri fulla ábyrgð á væri neyðaraðstoð oft á tíðum veitt af erlendum samstarfsaðilum, líkt og danska sjóhernum á Grænlandi, norsku leitar- og björgunarþjónustunni, og landhelgisgæslu Færeyja, Bretlands og Kanada. Sterkt og skilvirkt samstarf væri því einstaklega mikilvægt í þessu sambandi. Í tilfellum þar sem bátur eða skip týndist væri samstarfið jafnvel enn þá víðtækara, þ.e. á vettvangi samstarfs landhelgisgæslustofnana við Norður-Atlantshaf (e. North Atlantic Coast Guard Forum), samstarfi 18 ríkja við Norður-Atlantshaf og Eystrasaltið. Reynslan sýndi að samstarf um leit og björgun á norðurslóðum væri einstaklega mikilvægt og ætti að styrkja frekar, ekki síst á grunni samnings um leit og björgun á norðurslóðum frá árinu 2011, og á grunni samnings um samstarf um viðbúnað við olíumengun á norðurslóðum frá árinu 2013. Aukið upplýsingaflæði milli landanna væri jákvæð þróun ásamt aukinni þjálfun og menntun á sviði áhættustýringar. Mikilvægast væri hins vegar að leggja áherslu á björgunargetu og viðbrögð við hættuástandi. Það væri tilviljunum háð hvort viðbúnaðarkerfin sem til væru í dag gætu til að mynda ráðið við neyðarástand hjá skemmtiferðaskipi sem væri í nauðum statt á norðurslóðum. Gífurlega erfiðar aðstæður þar sem mikill fjöldi fólks væri í hættu kölluðu á mjög mikla björgunargetu sem væri einfaldlega ekki fyrir hendi í dag. Landfræðileg staðsetning Íslands, geta til leitar og björgunar og sterkir innviðir um allt land gerðu landið að viðeigandi staðsetningu fyrir miðstöð leitar og björgunar á norðurslóðum.

Alþingi, 20. janúar 2015.



Jón Gunnarsson,


form.


Líneik Anna Sævarsdóttir,


varaform.


Valgerður Bjarnadóttir.