Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 866  —  500. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2014.



1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var sjónum m.a. beint að töfum á upptöku nýrra ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum. Mikill fjöldi gerða bíður upptöku í EES-samninginn og sú töf kemur í veg fyrir lagalegt samræmi á innri markaðnum. Átak er í gangi til að hraða upptöku gerða í EES-samninginn sem skilað hefur nokkrum árangri. Enn fremur var fjallað um svokallaðan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Innleiðingarhallinn mældist hár í sögulegu samhengi á árinu 2014 en stefnt er að lækkun hans á nýju ári.
    Þá fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með viðræðum um upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn þannig að slíkt eftirlitskerfi samræmdist tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Samkomulag náðist á fundi fjármálaráðherra EES/ EFTA-ríkjanna og ESB í október 2014 sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 25 talsins og taka til 35 ríkja. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við 11 ríki, þar á meðal Indland, Indónesíu, Víetnam og Malasíu. Hlé hefur verið gert á viðræðum við tollabandalag Rússlands, Kasakstan og Hvíta-Rússlands vegna ástandsins í Úkraínu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Malasíu og Singapúr á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld um fríverslunarmál.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna stjórn innri markaðarins, orku- og loftslagsmál. Þá var ítrekað fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB, TTIP (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership) og möguleg áhrif slíks samnings á EES/EFTA-ríkin.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES var þannig skipuð í upphafi árs 2014: Aðalmenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Þór Sigurðsson, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarkey Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Sú breyting varð á Íslandsdeildinni á árinu að Katrín Jakobsdóttir tók við af Árna Þór Sigurðssyni sem aðalmaður 9. september. Katrín tók jafnframt við af Árna Þór sem varaformaður Íslandsdeildar.
Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu tók Guðlaugur Þór Þórðarson að sér starf framsögumanns (rapporteur) skýrslu þingmannanefndar EES um stjórnun innri markaðarins. Meðframsögumaður hans af hálfu Evrópuþingsins var Catherine Stihler og var skýrslan kynnt á fundi í Reykjavík. Jafnframt var Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður skýrslu um rammaáætlun um orku og loftslagsbreytingar fram til ársins 2030 ásamt Evrópuþingmanninum Tibor Szanyi. Var skýrslan kynnt á fundi í Strassborg.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2014.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2014. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar tvisvar sinnum í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Malasíu og Singapúr um fríverslunarmál.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fjórar skýrslur voru
teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli
þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Singapúr og Malasíu 17.–21. febrúar 2014.
    Markmið heimsóknar framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA til Singapúr og Malasíu var að eiga viðræður við þingmenn, ráðuneyti, stofnanir og hagsmunaaðila í löndunum tveimur um fríverslunarmál og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Guðlaugur Þór Þórðarson og Árni Þór Sigurðsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 25 talsins og taka til 35 ríkja. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Í Singapúr var fjallað um reynsluna af fríverslunarsamningi Singapúr og EFTA sem verið hefur í gildi frá 2003. Singapúr er einn stærsti viðskiptaaðili EFTA utan ESB og hafa viðskipti á milli aðilanna tvöfaldast frá því að fríverslunarsamningurinn gekk í gildi. Fundað var með fulltrúum úr fjármála- og viðskiptanefnd singapúrska þingsins undir forustu Liang Eng Hwa og viðskiptaráðherranum Lim Hng Kiang. Í viðræðum kom m.a. fram vilji stjórnvalda í Singapúr til þess að endurskoða fríverslunarsamninginn þannig að hann nái til þjónustuviðskipta og opinberra innkaupa líkt og kveðið er á um í nýjum fríverslunarsamningi Singapúr og ESB. Slík breyting mundi hafa í för með sér að EFTA-ríkjum byðust svipuð viðskiptakjör og ESB í viðskiptum við Singapúr og mundi það jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja í EFTA-ríkjunum gagnvart fyrirtækjum innan ESB. Á móti leggja yfirvöld í Singapúr áherslu á að EFTA sætti sig við að þrengt verði að ákvæði um rétt EFTA-borgara til fjárfestinga í íbúðarhúsnæði í Singapúr sem er í núgildandi fríverslunarsamningi. Ástæða þess er sú að miklar erlendar fjárfestingar í íbúðarhúsnæði hafa að undanförnu keyrt íbúðaverð upp og sökum takmarkaðs landrýmis og möguleika á uppbyggingu telja stjórnvöld sér ekki fært að veita erlendum aðilum jafnan rétt á við singapúrska borgara til slíkra fjárfestinga.
    Þegar rætt var um möguleika á að auka viðskipti Singapúr og Íslands nefndi Lim Hng Kiang viðskiptaráðherra hótelgeirann sérstaklega. Sagði hann ýmis singapúrsk fyrirtæki stór á því sviði og að það gæti farið saman við vaxandi streymi ferðamanna til Íslands.
    Þá var í Singapúr farið ítarlega yfir stöðu fríverslunarmála almennt. Fjallað var um horfur á auknu frjálsræði í alþjóðlegum viðskiptum, m.a. með viðræðum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) en einnig með tvíhliða eða svæðisbundnum fríverslunarsamningum, en fjölgun þeirra hefur hvergi verið eins mikil og í Asíu að undanförnu. Sérstaklega var fjallað um viðræður 12 Kyrrahafsríkja um að koma á sérstöku fríverslunarsvæði þvert yfir Kyrrahafið (e. Trans Pacific Partnership, TPP) en yfir 20 samningalotur hafa farið fram frá því að viðræður hófust í mars 2010. Einnig var rætt um aðgerðir til að auka fríverslun innan Samtaka Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN). Viðskipti milli Asíuríkja hafa verið fremur lítil og er horft til mikilla vaxtarmöguleika þar. Fá ríki eru eins háð alþjóðaviðskiptum og Singapúr en útflutningur landsins nemur árlega þrefaldri landsframleiðslu og er einkum til ríkja sem landið hefur fríverslunarsamninga við. Skýringa á þessu háa hlutfalli útflutnings er m.a. að leita í því að í Singapúr er ein stærsta umskipunarhöfn heims.
    Í Malasíu var fjallað um möguleika á auknum efnahagslegum samskiptum við EFTA en ákveðið var að hefja fríverslunarviðræður EFTA og Malasíu í nóvember 2012. Sendinefnd EFTA átti fundi með hópi þingmanna undir forustu Tan Sri Abu Zahar Ujang, forseta öldungadeildar malasíska þingsins, og Y.B. Dato' Sri Mustapa Mohamed viðskiptaráðherra ásamt Khoo Boo Seng, aðalsamningamanni í fríverslunarviðræðum EFTA og Malasíu. Þá var fundað með viðskiptaráði Malasíu og stofnuninni Transparency International sem berst gegn spillingu. Malasía er með þéttriðið net fríverslunarsamninga við nágrannaríki, m.a. Kína, Japan og Suður-Kóreu. Á grundvelli þessa nets reynir Malasía í auknum mæli að laða til sín svæðishöfuðstöðvar vestrænna fyrirtækja í Asíu. Þá er einfalt að stofna fyrirtæki í landinu en Malasía fær mjög háar einkunnir í alþjóðlegum samanburðarkönnunum á því hversu auðvelt er að stofna og stunda viðskipti þar sem skriffinnska, leyfisveitingar og aðrar hindranir eru bornar saman. Þingmenn EFTA gerðu grein fyrir fríverslunarneti samtakanna og áherslu á Asíu þar sem EFTA á í viðræðum við Indland, Indónesíu, Taíland og Víetnam auk Malasíu. Lögðu þeir áherslu á að þótt EFTA-ríkin væru fámenn væru þau mjög sterk efnahagslega og virk í alþjóðaviðskiptum, og að frelsi í viðskiptum væri afar mikilvægt smáum og meðalstórum ríkjum. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi samstarf á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku sem möguleg tækifæri til að auka efnahagsleg samskipti Íslands og Malasíu. Aðspurður um hvort eitthvað gæti greitt fyrir fríverslunarsamningum EFTA og Malasíu vísaði Y.B. Dato' Sri Mustapa Mohamed viðskiptaráðherra til fríverslunarsamnings Malasíu við Ástralíu. Í samningnum var tekið tillit til stöðu Malasíu sem þróunarríkis á þann hátt að tollar voru felldir niður í Ástralíu strax við gildistöku samningsins en tollar í Malasíu eru afnumdir í skrefum.
    Farið var yfir stöðu viðræðna um TPP líkt og í Singapúr. Stjórnvöld í Malasíu leggja áherslu á þann aukna markaðsaðgang og erlendar fjárfestingar sem slíkur samningur mun hafa í för með sér auk þess sem hann mundi greiða mjög fyrir viðskiptum þvert yfir Kyrrahafið við Bandaríkin og Mexíkó. Ólíkt Singapúr þar sem mikil samstaða virðist ríkja um TPP-viðræðurnar eru þær umdeildar í Malasíu. Stjórnarandstaðan hefur efasemdir um gildi þeirra og byggjast þær á slæmri reynslu tiltekinna greina atvinnulífsins af fríverslunarsamningi við Kína. Til þess að bregðast við þessum efasemdum hefur sérstökum hópi þingmanna á malasíska þinginu verið falið að fylgjast grannt með gangi TPP-viðræðnanna svo og öllum öðrum fríverslunarviðræðum Malasíu, þ.m.t. við EFTA.

42. fundur þingmannanefndar EES í Reykjavík 26. mars 2014.
    Fundur þingmannanefndar EES fór fram í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Evrópuþingmaðurinn Pat the Cope Gallagher og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen stýrðu fundinum. Helstu dagskrármál hans voru framkvæmd EES-samningsins, málefni innri markaðarins, loftslags- og orkumál, umhverfismál sjávar, sameiginlegt evrópskt fjármálaeftirlit og fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Bjarkey Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson auk Stígs Stefánssonar og Þrastar Freys Gylfasonar ritara.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Antonius Valvianos sendiherra fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu og Niels Engelschiøn fyrir hönd EFTA og Gianluca Grippa fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í umfjöllun þeirra komu m.a. fram áhyggjur af töfum sem hafa orðið á innleiðingu EES-gerða í EFTA/EES-ríkjunum. Regluleg samantekt sem mælir innleiðingarhalla allra ríkja EES hefur leitt í ljós að staða EFTA/EES-ríkjanna hefur versnað mjög á undanförnum missirum en Ísland og Noregur hafa mestan innleiðingarhalla. Hvað Ísland varðaði var undirstrikað að á þessum vanda væri tekið í Evrópustefnu stjórnvalda sem kynnt var fyrr í mars og að áætlun hefði verið lögð fram um að vinna á hallanum. Fram kom að 600 gerðir bíða þess að verða teknar upp í EES-samninginn og að áhersla væri lögð á að fækka þeim til muna á árunum 2014–2015. Guðlaugur Þór Þórðarson benti á að munur væri á innleiðingu og framfylgni og því ætti ekki einungis að einblína á hið fyrrnefnda. Ljóst væri að ákveðin ríki Suður-Evrópu innleiddu gerðir innri markaðarins af krafti en fylgdu þeim ekki endilega út í hörgul. Sletnes kannaðist við umræðuna um að ESA væri kaþólskari en páfinn í því að knýja á um að reglum innri markaðarins væri framfylgt en sagði að samanburður á eftirliti framkvæmdastjórnar ESB í ESB-ríkjunum annars vegar og ESA í EES/EFTA-ríkjunum hins vegar benti ekki til að svo væri. Þá fjallaði Guðlaugur Þór um þróunarsjóð EFTA sem ætlað er að stuðla að jöfnuði og styðja félagslega þróun innan nýrra aðildarríkja ESB. Lagði Guðlaugur Þór áherslu á að framlög í þróunarsjóðinn hefðu upphaflega verið veitt af fúsum og frjálsum vilja við gerð EES-samningsins og að ekki væri um skylduframlög að ræða sem framlengja skyldi með sjálfvirkum hætti. Árni Páll Árnason ræddi gjaldeyrishöft á Íslandi sem brjóta í bága við EES-samninginn. Sagði hann Ísland eiga tvo kosti í gjaldeyrismálum: upptöku evru með aðild að ESB eða áframhaldandi notkun krónunnar sem þyrfti þá sérstakra stuðningsaðgerða við samkvæmt greiningu Seðlabanka Íslands sem tæplega stæðust ákvæði EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Velti Árni Páll því upp hvort íslensk stjórnvöld hefðu átt viðræður við ESA um hvers konar takmarkanir varðandi fjármagnsflæði gætu staðist EES-samninginn til lengri tíma.
    Skýrsla um innri markaðinn var lögð fram á fundinum og voru Evrópuþingmaðurinn Catherine Stihler og Guðlaugur Þór Þórðarson framsögumenn fyrir hönd ESB og EFTA. Stihler lagði áherslu á að virkni innri markaðarins væri aðeins tryggð með samræmdu lagaumhverfi og því væri það afar mikilvægt að EES-gerðir væru innleiddar hratt og vel í öllum aðildarríkjum. Guðlaugur Þór sagði virkan innri markað og frjáls viðskipti öllum til hagsbóta en varaði við því að reglugerðafargan á markaðnum gæti haft íþyngjandi áhrif, sérstaklega fyrir smá og meðalstór fyrirtæki. Reglugerðartillögur framkvæmdastjórnar ESB, sem væru settar fram í góðri trú, gætu því miður haft þveröfug áhrif og dregið úr samkeppnishæfni innri markaðarins í alþjóðlegu samhengi. Það væri alvarlegt mál nú þegar markaðir heimsins yrðu æ samþættari með fríverslunarsamningum. Þá lagði Guðlaugur Þór áherslu á að þótt mikilvægt væri að innleiðing EES-gerða væri hröð væri einnig mikilvægt að stofnanir í EES/ EFTA-ríkjunum hefðu tíma og svigrúm til að fylgjast með, greina og hafa áhrif á gerðirnar.
    Í umfjöllun um umhverfismál sjávar gerði Pat the Cope Gallagher stuttlega grein fyrir sjávarútvegsgeiranum innan ESB í víðum skilningi, þ.e. málum sem snúa að auðlindanýtingu, flutningum, þjónustu í landi, fiskeldi o.s.frv. Í máli hans kom fram að um þrjár milljónir starfa teljast innan geirans sem stendur frammi fyrir ýmsum vanda, m.a. varðandi árstíðarbundnar sveiflur, umhverfismál, niðurgreiðslur og ófullnægjandi rekstrarafkomu. Vilhjálmur Bjarnason fór yfir sjávarútvegsgeirann á Íslandi og mikilvægi hans í hagkerfinu. Auk þess að fjalla um hefðbundnar fiskveiðar ræddi Vilhjálmur möguleika í fiskeldi, þar sem búist er við miklum vexti á næstu tveimur áratugum, og þann hátæknigeira sem þróast hefur í sjávarútvegsklasanum hérlendis. Þar er bæði um að ræða líftæknifyrirtæki sem nýta hráefni hafsins við framleiðslu sína og iðnfyrirtæki eins og Marel sem er leiðandi á alþjóðamarkaði í þróun hátæknibúnaðar fyrir matvælaiðnaðinn.
    Þá var fjallað um sameiginlegt fjármálaeftirlit ESB og flutti framsögu Dóra Sif Tynes, yfirmaður lagaskrifstofu EFTA. Sameiginlegt fjármálaeftirlit er viðbragð við fjármálakreppunni og er ætlað að tryggja samræmdar reglur í rekstri fjármálafyrirtækja á innri markaðnum og samræmd viðbrögð við bankakreppum. Fjármálaeftirlitið mun hafa umboð til að rannsaka ófullnægjandi framfylgni regluverks um starfsemi fjármálafyrirtækja af hálfu stjórnvalda í einstökum aðildarríkjum, taka ákvarðanir gagnvart eftirlitsstofnunum eða einstökum fjármálafyrirtækjum þegar neyðarástand skapast, miðla málum í deilum eftirlitsstofnana í málum sem tengjast fjármálastarfsemi þvert á landamæri og vera Evrópuþingi, ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB til ráðgjafar.
    Þá var lögð fram á fundinum sérstök skýrsla um orku- og loftslagsmál fram til ársins 2030. Framsögumenn hennar voru Evrópuþingmaðurinn Catherine Stihler, í fjarveru Paul Rübig, og norski þingmaðurinn Irene Johansen. Í skýrslunni er fjallað um tillögur framkvæmdastjórnar ESB um loftslags- og orkustefnu fyrir árin 2020–2030 sem kynntar voru í janúar sl. Þar er m.a. gert ráð fyrir að árið 2030 verði losun gróðurhúsalofttegunda 40% minni en árið 1990 og að hlutur endurnýjanlegrar orku í orkubúskap Evrópu nái 27%. Í tilefni af skýrslunni skipulagði Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES málstofu í samvinnu við Landsvirkjun og Reykjavík Geothermal. Ragna Árnadóttir og Björgvin Sigurðsson kynntu starfsemi Landsvirkjunar auk þess að fara yfir orkulandslag á Íslandi og möguleika á tengingu við orkunet Evrópu með sæstreng til Skotlands. Grímur Björnsson kynnti Reykjavík Geothermal og fór yfir möguleika á aukinni nýtingu jarðvarma á alþjóðavísu.
    Christina Stihler gerði stuttlega grein fyrir viðræðum ESB og Bandaríkjanna um fríverslunarsamning sem hófust í júlí sl. Viðræður munu snúa að markaðsaðgangi hvað varðar lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup.

Fundir þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Vestmannaeyjum 22.–24. júní 2014.
    Í Vestmannaeyjum fór fram hefðbundinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og einnig eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir stöðu EES-samningsins. Annars vegar var farið yfir þann mikla fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA- ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Fram kom að 581 gerð sem þegar eru í gildi á innri markaði ESB bíða upptöku í EES-samninginn. Ein af ástæðum þessa fjölda er sú að gerðir eru tengdar og ef vandi er við upptöku svokallaðrar „móðurgerðar“ í EES-samninginn verða tugir tengdra gerða einnig að bíða þar til lausn er fundin. Farið var yfir nýjar verklagsreglur á vettvangi EFTA sem tóku gildi í maí 2014 og beinast að því að tryggja hraðari upptöku gerða í EES- samninginn. Reglurnar kveða m.a. á um að sérfræðingar EFTA hefji vinnu við að meta ESB-gerðir fyrr en áður tíðkaðist og jafnframt er kveðið á um hraðameðferð fyrir einfaldar gerðir. Árni Páll Árnason sagði einn helsta veikleika EES-samningsins þann að hann væri í eðli sínu embættismannasamningur og að besta leiðin til að hafa áhrif á ESB-gerðir í mótun sem kynnu að valda vanda fyrir EFTA/EES-ríkin væri að þing EFTA/EES-ríkjanna gerðu þingflokkum kleift að beita sér í samskiptum við systurflokka þegar gerðir væru til meðferðar í Evrópuþinginu.
    Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi reglur ESB um innstæðutryggingar sem breytt var í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 og bíða upptöku í EES-samninginn. Sagði hann að með reglunum væri lágmark innstæðutrygginga hækkað úr 20.000 evrum í 100.000 evrur og kveðið væri á um ríkisábyrgð. Guðlaugur Þór sagði óhugsandi að innleiða slíkar reglur á Íslandi enda væri áhætta hér mun meiri en annars staðar vegna fárra banka. Ef einn af þremur ráðandi bönkum á íslenskum fjármálamarkaði lenti í erfiðleikum gæti það haft í för með sér að gríðarlegur kostnaður félli á skattgreiðendur.
    Þá var farið yfir vinnu við EES-gerðir í þjóðþingum EES/EFTA-ríkjanna og gerði Guðlaugur Þór Þórðarson grein fyrir reglum um þinglega meðferð EES-mála á Alþingi og framkvæmd þeirra frá haustinu 2010. Fram kom að EES-mál koma allt að þrisvar til kasta þingsins. Fyrsta stigið er þegar ESB-gerð, sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn og fyrirséð er að kalli á lagabreytingar hérlendis, er til meðferðar í vinnuhópi EFTA. Þá skal utanríkisráðuneyti hafa samráð við utanríkismálanefnd. Annað stigið er samráð ráðuneytis við utanríkismálanefnd fyrir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem ákvarðanir eru teknar af Íslands hálfu um upptöku gerða í EES-samninginn. Þriðja stigið er staðfesting Alþingis á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, annars vegar með samþykkt þingsályktunar til afléttingar stjórnskipulegs fyrirvara og hins vegar samþykkt lagafrumvarps með innleiðingu á þeim reglum sem viðkomandi gerð kvað á um. Katrín Jakobsdóttir sagði nauðsynlegt að þjóðþingin væru upplýst snemma í ferlinu þegar gerðir væru í undirbúningi.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB, TTIP-viðræðurnar, sem hófust í júlí í fyrra. Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Tollar eru tiltölulega lágir milli Bandaríkjanna og ESB en gagnkvæm viðurkenning staðla eða sameiginlegir staðlar er taldir mundu örva mjög viðskiptin yfir Atlantsála. Leiði viðræðurnar til niðurstöðu er óvíst hvort önnur ríki geti orðið aðili að samningnum með tíð og tíma. Lögð var áhersla á að EFTA-ríkin fylgdust grannt með gangi viðræðnanna og að reynt yrði að tryggja að TTIP mundi ekki skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja innan EFTA gagnvart fyrirtækjum í ESB þegar kemur að aðgangi að Bandaríkjamarkaði.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var að venju annars vegar fjallað um fríverslunarmál og hins vegar um EES. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fór yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA sem nú hefur 25 gilda fríverslunarsamninga sem taka til 35 ríkja. Mikilvægustu viðræðurnar sem nú standa yfir eru við Indland og tollabandalag Rússlands, Hvíta- Rússlands og Kasakstan en síðarnefndu viðræðurnar liggja niðri vegna ástands mála í Úkraínu. Eftir góðan gang í viðræðum við Indland er þess beðið að hefja þær að nýju eftir hlé við kosningar og stjórnarskipti þar í landi. Hlé er á viðræðum við Indónesíu en búist er við því að þær hefjist að nýju fyrri hluta árs 2015. Þá standa viðræður yfir við Víetnam og Malasíu. Í tengslum við fríverslunarviðræður var fjallað um TTIP og Katrín Jakobsdóttir sagði að við hugsanlega framtíðaraðild EFTA-ríkjanna að slíkum samningi yrði að gæta sérstaklega að því að standa vörð um ríkisrekna almannaþjónustu eins og mennta- og heilbrigðiskerfi auk ljósvakamiðla og að samkeppnisákvæði þrengi ekki að þeim rekstri.
    Í umræðu um málefni EES á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var m.a. fjallað um þátttöku EFTA-ríkja í mennta- og vísindaáætlunum ESB, nýtt vinnulag EFTA til að takast á við innleiðingarhalla EES-gerða og framlög til þróunarsjóðs EFTA. Loks var fjallað um stöðu samskipta Sviss og ESB eftir að Svisslendingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í febrúar 2014 að setja hámark á þann fjölda innflytjenda sem fær að koma til landsins, þar á meðal borgara ESB-ríkja. Samþykkt tillögunnar brýtur gegn samningi Sviss og ESB um frjálsa för fólks, fjármagns og varnings og var þvert gegn stefnu ríkisstjórnar landsins.

Fundir þingmannanefndar EFTA í Genf og Brussel 17.–19. nóvember 2014.
    Í Genf fór fram fundur þingmannanefndar EFTA og fundur þingmanna og ráðherraráðs EFTA. Í Brussel átti þingmannanefndin fundi með utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna og fleiri aðilum. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Katrín Jakobsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA í Genf var fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Í framsöguræðu sinni lagði Johann N. Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss og formaður ráðherraráðs EFTA, áherslu á að mest gróska væri í fríverslunarsamningagerð í Asíu þar sem nú stæðu yfir marghliða viðræður ríkjahópa um stofnun stórra fríverslunarsvæða. EFTA væri virkt á svæðinu og ætti m.a. í tvíhliða viðræðum um fríverslun við Malasíu, Víetnam, Indónesíu og Indland. Viðræður við tvö síðastnefndu ríkin hafa þó legið niðri um sinn vegna kosninga fyrr á árinu en vonast er til að hægt verði að taka upp þráðinn áður en langt um líði. Þá væri þess vænst að fríverslunarviðræður hefjist við Filippseyjar á árinu 2015. Hvað önnur svæði varðar hefur viðræðum verið frestað við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan og verða ekki hafnar að nýju fyrr en friðvænlegar horfir í Úkraínu. Þá eru hafnar viðræður við Tyrkland um að uppfæra fríverslunarsamning við EFTA frá árinu 1991. Loks er stefnt að því að taka upp viðræður um uppfærslu fríverslunarsamnings EFTA og Kanada frá árinu 2008 í kjölfar fríverslunarsamnings ESB og Kanada sem lokið var í október 2014. Samningur ESB og Kanada er mun víðtækari en samningurinn við EFTA-ríkin svo að EFTA leggur áherslu á skjóta uppfærslu til að tryggja samkeppnisstöðu sína gagnvart ESB í viðskiptum við Kanada. Í umræðunni sem fylgdi framsögu Schneider-Ammann kom m.a. fram varðandi Afríku sunnan Sahara, sem er mesta hagvaxtarsvæði heims, að EFTA setti Nígeríu þar í forgang og mun kanna möguleika á fríverslunarviðræðum við landið. Þá hefði EFTA lýst sig tilbúið til að ganga til samninga við Georgíu, en í því felast ákveðin pólitísk skilaboð með tilliti til ástandsins í Úkraínu og Georgíu.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var nánar fjallað um uppfærslu fríverslunarsamnings EFTA og Tyrklands. Samningurinn frá árinu 1991 hefur verið uppfærður nokkrum sinnum á afmörkuðum sviðum sem taka til vöruskipta og hugverkaréttar. EFTA hefur lengi viljað breikka samninginn en Tyrkland hefur beint sjónum sínum að viðskiptasambandi sínu við ESB. Tyrkland telur að nú sé rétti tíminn til uppfærslu samningsins við EFTA þannig að hann taki til þjónustuviðskipta, samkeppnismála, hugverkaréttinda og tæknilegra viðskiptahindrana. Viðræður um uppfærslu fríverslunarsamningsins hófust í september 2014.
    Þingmannanefnd EFTA fór venju samkvæmt yfir pólitíska þróun í EFTA-ríkjunum. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði grein fyrir leiðréttingu á verðtryggðum fasteignaveðlánum og greindi einnig frá stýrihóp um framkvæmd EES-samningsins sem komið hefur verið á fót undir forustu forsætisráðuneytis með þátttöku fulltrúa ráðuneyta og skrifstofu Alþingis. Markmið stýrihópsins er að greina flöskuhálsa í ferli EES-mála frá upphafi þeirra á vettvangi Evrópusambandsins til loka við innleiðingu í landsrétt. Hópnum er ætlað að skila tillögum til úrbóta varðandi einstaka þætti ferlisins.
    Þingmannanefnd EFTA fundaði með ýmsum aðilum um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og ESB, TTIP-viðræðurnar. Verði samningur ESB og Bandaríkjanna að veruleika mun hann taka til þriðjungs alþjóðlegra viðskipta og auka viðskiptaflæði innan hins nýja fríverslunarsvæðis. EFTA hefur fylgst náið með viðræðunum en ekki liggur fyrir hvort samningurinn verður opinn fleiri aðilum, eins og EFTA-ríkjunum, eftir að hann liggur fyrir. Michael Punke, varaviðskiptafulltrúi Bandaríkjanna og fastafulltrúi landsins gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), sagði að ef samkomulag næðist mundi það hafa áhrif langt út fyrir samningssvæðið og gæti orðið fyrirmynd að starfi innan WTO. Viðræðurnar hófust fyrir 18 mánuðum og yfirlýsing forseta Bandaríkjanna og leiðtoga ESB frá G20 leiðtogafundinum í Brisbane 16. nóvember 2014 undirstrikar pólitískan vilja til að halda áfram af fullum krafti. Tollar eru lítið atriði í viðræðunum enda eru þeir þegar lágir yfir Atlantshafið en þeim mun mikilvægara er að ná samkomulagi um gagnkvæma viðurkenningu regluverks og staðla og afnám hvers kyns tæknilegra viðskiptahindrana sem tryggir gagnkvæman markaðsaðgang. Í umræðunni sem fylgdi var m.a. fjallað um áhrif innanríkisstjórnmála í Bandaríkjunum á viðræðurnar eftir að repúblikanar náðu meiri hluta í báðum deildum Bandaríkjaþings í kosningunum í nóvember síðastliðnum. Punke lagði áherslu á að Obama Bandaríkjaforseti hefði tiltekið alþjóðaviðskipti sem eitt af þeim málum sem hann teldi að samstaða gæti náðst um milli stjórnar sinnar og þingsins. Þá var rætt um áhrif mögulegra gerðardóma til að skera úr deilumálum ríkja og fjárfesta (e. Investor-state dispute settlement, ISDS) en slíkir gerðardómar hafa verið mjög umdeildir. Punke sagði Bandaríkjamenn hafa mikla reynslu af því að hafa ákvæði um slíka gerðardóma í viðskiptasamningum sínum við erlend ríki. Þó að Bandaríkin treystu á réttarríkið og dómstóla óháða ríkisvaldinu í Bretlandi og ýmsum fleiri ríkjum ESB þá gilti það ekki um öll aðildarríki sambandsins og því væri gerð krafa um slíka gerðardóma.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna í Brussel greindu ráðherrarnir frá niðurstöðum fundar EES-ráðsins sem fram fór fyrr um daginn og svöruðu fyrirspurnum þingmanna. Þar var lögð áhersla á að fylgja hratt eftir samkomulagi um upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn. Samkomulagið náðist á fundi fjármálaráðherra EES/EFTA-ríkjanna og ESB í október 2014 og byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Felur það í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Þá var fjallað um áhrif mögulegs TTIP-samnings á EES. Ef markaðsaðgangur bandarískra fyrirtækja á innri markað ESB breytist hefur það óhjákvæmilega áhrif á EES/EFTA-ríkin og markaði þeirra sem aðila að innri markaðnum. EES/EFTA-ríkin fylgjast grannt með gangi mála og hafa náð samkomulagi við ESB um reglulegt samráði meðan á TTIP-viðræðunum stendur. Utanríkisráðherra Liechtenstein, Aurelia Flick, lýsti þeirri persónulegu skoðun sinni að mikilvægasta verkefni EFTA fælist í því að finna rétta leið og tímasetningu til þess að verða aðilar að væntanlegum TTIP-samningi ef af honum verður. Þá var rætt um áhrif mögulegra gerðardóma til að skera úr deilumálum ríkja og fjárfesta sem getið er að framan og nauðsyn þess að fá skýrt fram hvernig slíkar stofnanir verða útfærðar í TTIP.
    Auk fyrrnefndra funda átti þingmannanefnd EFTA fundi um eftirtalin málefni í fundalotunni í Genf og Brussel: Stefnu nýrrar framkvæmdastjórnar ESB; stöðu Dohasamningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Balísamkomulagið frá desember sl.; markmið ESB á sviði orku- og loftslagsmála fram til 2030; og innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna í EES-samstarfinu.

43. fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 17. desember 2014.
    Fundur þingmannanefndar EES fór fram í Evrópuþinginu í Strassborg. Evrópuþingmaðurinn Jørn Dohrmann og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen stýrðu fundinum. Helstu dagskrármál hans voru þróun og framkvæmd EES-samningsins og stefna ESB í orku- og loftslagsmálum fram til ársins 2030. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Jafnframt var lögð fram skýrsla þingmannanefndarinnar um skýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar um framkvæmd EES-samningsins árið 2013. Til máls tóku Jacobo Martino fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu og Kurt Jäger fyrir hönd EFTA og Gianluca Grippa fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES- nefndinni, og Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Í umfjöllun þeirra komu m.a. fram áhyggjur af töfum á innleiðingu EES-gerða í EFTA/ EES-ríkjunum og lúta þær að tvennu, annars vegar töfum á upptöku gerða í EES-samninginn og hins vegar töfum á innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum eftir að þær hafa verið teknar upp í samninginn. Forgangsmál er að fækka gerðum sem bíða upptöku í EES-samninginn og minnka jafnframt svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Átak er í gangi til að hraða upptöku gerða í EES-samninginn sem skilað hefur nokkrum árangri og vonir eru bundnar við að nýtt og endurskoðað verklag skrifstofu EFTA sem tekið var upp í október 2014 verði til frekari bóta.
    Þá var lögð áhersla á að fylgja eftir samkomulagi um upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn sem náðist á fundi fjármálaráðherra EES/ EFTA-ríkjanna og ESB í október 2014 og byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Felur það í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af ESA og að hægt verði að bera þær undir EFTA- dómstólinn. Vonast er til þess að hægt verði að leggja fram nauðsynleg lagafrumvörp á þjóðþingum EES/EFTA-ríkjanna vorið 2015.
    Fjallað var um yfirstandandi viðræður ESB og EFTA um þróunarstyrki EFTA (e. EFTA Financial Mechanism) fyrir tímabilið 2014-2019. Með þróunarsjóðunum leggja EES/EFTA- ríkin sitt af mörkum til að koma á jöfnuði og styðja félagslega þróun innan nýrra aðildarríkja ESB. Jäger, fulltrúi formennsku EFTA í sameiginlegu EES-nefndinni, sagði þær tillögur sem EFTA hefði lagt fram raunhæfar og sanngjarnar en of mikillar hækkunar væri krafist af hálfu framkvæmdastjórnar ESB.
    Þá kom fram að af hálfu EES/EFTA-ríkjanna er fylgst náið með yfirstandandi fríverslunarviðræðum ESB og Bandaríkjanna, TTIP-viðræðunum, og fjallað um áhrif mögulegs TTIP- samnings á EES. Breytingar á markaðsaðgangi annars vegar og samræming á regluverki eða viðurkenningu staðla hins vegar mun óhjákvæmilega hafa áhrif á EES/EFTA-ríkin og markaði þeirra sem aðila að innri markaði ESB.
    Grippa, fulltrúi utanríkisþjónustu ESB, lagði áherslu á að yfir 450 gerðir biðu upptöku í EES-samninginn sem væri of mikið þó að einhver fækkun hefði orðið mánuðina á undan. Þá sagði hann of algengt að EES/EFTA-ríkin fari fram yfir þann sex mánaða frest sem þau hafa til að innleiða gerðir sem teknar eru upp í EES-samninginn með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara og kalla á lagabreytingar í ríkjunum. Hvað Ísland varðar hvatti Grippa til þess að vinnu við afnám fjármagnshafta yrði flýtt enda væri frjálst flæði fjármagns einn fjögurra hornsteina innri markaðarins ásamt frjálsri för fólks, vöru og þjónustu. Þá gagnrýndi Grippa háa tolla á ostum í Noregi og hvatti til að viðræðum Íslands og ESB um verslun með kjötafurðir yrði hraðað.
    Þá var lögð fram á fundinum sérstök skýrsla um orku- og loftslagsmál fram til ársins 2030. Framsögumenn hennar voru Vilhjálmur Bjarnason og Evrópuþingmaðurinn Tibor Szanyi. Sá síðarnefndi lagði áherslu á að samkvæmt stefnu ESB skyldi losun gróðurhúsalofttegunda vera 40% minni árið 2030 en hún var árið 1990. Þá skal hlutur endurnýjanlegrar orku í orkubúskap ESB ná 27% fyrir 2030. Tryggja yrði orkuöryggi með því að fjölga erlendum birgjum annars vegar og auka orkuframleiðslu hins vegar. Í framsöguræðu sinni lagði Vilhjálmur áherslu á árangur Íslands hvað varðar nýtingu endurnýjanlegrar orku en yfir 80% af orkunýtingu stafar frá endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli og jarðvarma. Stærsti hluti endurnýjanlegrar orku í ESB er framleiddur í vatnsaflsvirkjunum en mestur vöxtur hefur þó verið á sviði vind- og sólarorku á síðustu árum. Einungis um 1% af orkuframleiðslu ESB byggist á jarðvarma og hvatti Vilhjálmur til þess að sjónum yrði beint að jarðvarma í auknum mæli enda væru þar miklir möguleikar. Íslensk sérþekking á sviði jarðvarmavirkjunar hefur þegar verið flutt út til Evrópu, m.a. Ungverjalands, Rúmeníu og Portúgal. Þá lagði Vilhjálmur áherslu á nauðsyn þess að fjölga erlendum orkubirgjum til að Evrópa verði minna háð Rússlandi. Hann benti jafnframt á að orkuframleiðsla ESB hefur minnkað á síðustu árum og velti upp hvernig mætti auka hana, sér í lagi þegar aðildarríki sambandsins eru jafn klofin í afstöðu til kjarnorku og raun ber vitni. Í umræðunni sem á eftir fylgdi lagði Katrín Jakobsdóttir áherslu á að nægu fjármagni yrði varið til rannsókna á sviði orkumála svo ná mætti markmiðum 2030-stefnunnar. Guðlaugur Þór Þórðarson var svartsýnn á aukið orkuöryggi og orkuframleiðslu innan ESB nema kjarnorka væri nýtt í auknum mæli en þar þyrfti viðhorfsbreytingu til í Þýskalandi og víðar.
    Þingmannanefnd EES samþykkti tvær ályktanir á 43. fundi sínum, annars vegar um framkvæmd EES-samningsins og hins vegar um stefnu ESB í orku- og loftslagsmálum.

5. Ályktanir árið 2014.
Ályktanir þingmannanefndar EES:
          Ályktun um stjórnun innri markaðarins, samþykkt í Reykjavík 26. mars 2014.
          Ályktun um orku og loftslagsmál 2030, samþykkt í Reykjavík 26. mars 2014.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2013, samþykkt í Strassborg 17. desember 2014.
          Ályktun um rammaáætlun um orku og loftslagsmál 2030, samþykkt í Strassborg 17. desember 2014.


Alþingi, 19. janúar 2015.

Guðlaugur Þór Þórðarson,
form.
Katrín Jakobsdóttir,
varaform.
Árni Páll Árnason.
Vilhjálmur Bjarnason. Willum Þór Þórsson.