Ferill 501. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 867  —  501. mál.
SkýrslaÍslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2014.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2014 bar hæst ástandið í Úkraínu og breytta stöðu í alþjóðastjórnmálum sem upp er komin eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla á samstöðu með íbúum Úkraínu var algjör og aðgerðir Rússlands með beitingu hervalds í Úkraínu fordæmdar af stjórnarnefndarmönnum. Þá var lögð áhersla á að NATO auki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld og leggi áherslu á skuldbindingar við aðildarríki sín. Samskipti NATO við Rússland versnuðu á árinu og hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins.
    Einnig voru í brennidepli umræðuefni og niðurstöður leiðtogafundar NATO í Wales í september 2014. Tíðrætt var um að draga þurfi úr niðurskurði á fjármagni til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna á leiðtogafundinum. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússum. Þá var kveðið skýrt á um nýja viðbúnaðaráætlun NATO (e. Readiness Action Plan) með það að markmiði að bregðast við breyttu öryggisástandi í Evrópu eftir innrás og innlimun Rússa á Krímskaga þar sem áhersla er lögð á að efla undirbúning, viðbúnað og fasta viðveru herja bandalagsríkja í austurhluta varnarsvæðisins. Mjög var lagt að þjóðum að standa við skuldbindingar sínar og framtíðarsýn um 2% framlag af vergri þjóðarframleiðslu til varnar- og öryggismála á leiðtogafundinum.
    Umræða um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins var áberandi á árinu eins og undanfarin ár, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Verkefnið í Afganistan var fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Verkefnið hefur gengið samkvæmt áætlun miðað við að unnið sé út frá ákvörðun sem tekin var á leiðtogafundi NATO í Lissabon í nóvember 2010. Þar var lögð áhersla á að árið 2014 yrði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið og Afganir gætu sjálfir tryggt öryggi sitt og byggt upp innviði samfélagsins, bæði hvað varðar her og lögreglu, en NATO mundi veita áframhaldandi stuðning eftir þörfum. Vel hefur gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem hafa tekið við stjórn öryggismála í landinu. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Til að bregðast við því hefst verkefnið Resolute Support, eða „Einarður stuðningur“, 1. janúar 2015 og mun standa yfir í tvö ár.
    Einnig ber að nefna umræðu um ástandið í Sýrlandi og áhyggjur NATO-þingmanna af straumi flóttamanna til nágrannaríkja. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að fylgjast vel með þróun mála í nágrannaríkjum Sýrlands og veita þeim stuðning. Þá er ljóst að átökin í Úkraínu hafa áhrif á orkuöryggi Evrópu og lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum af þeirri þróun. Einnig var rætt um mikilvægi þess að NATO starfi nánar með alþjóðlegum samstarfsaðilum, einkum Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu (ESB). Leysa þurfi þann ágreining sem skapast hafi milli NATO og ESB og snýr að stórum hluta að niðurskurði fjárveitinga aðildarríkja ESB til varnarmála.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2014 má nefna vaxandi áhrif hryðjuverkasamtaka sem kalla sig Íslamskt ríki (ISIL/ISIS), þróun kjarnorkuáætlunar Írans, tækninýjungar með áherslu á ómönnuð flygildi, eða dróna, og stefnu bandalagsins um opnun gagnvart nýjum aðildarríkjum.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál er upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2014 Þórunn Egilsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt fjóra undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir 2014 var eftirfarandi:
Stjórnarnefnd: Þórunn Egilsdóttir
          Til vara: Össur Skarphéðinsson
Stjórnmálanefnd: Þórunn Egilsdóttir
          Til vara: Páll Jóhann Pálsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Birgir Ármannsson
          Til vara: Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgir Ármannsson
          Til vara: Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Efnahagsnefnd: Össur Skarphéðinsson
          Til vara: Kristján L. Möller
Vísinda- og tækninefnd: Þórunn Egilsdóttir
          Til vara: Páll Jóhann Pálsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Össur Skarphéðinsson
    Á ársfundi NATO-þingsins árið 2014 var Össur Skarphéðinsson kosinn varaformaður annarrar undirnefndar efnahagsnefndar NATO-þingsins.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2014 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Riga, vorfundi í Vilníus, ársfundi í Dubrovnik og árlegum fundi um Atlantshafssamstarfið í Washington. Hér á eftir fylgja frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Febrúarfundir.
    Dagana 16.–18. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru verkefni NATO í Afganistan og yfirfærsla öryggismála í hendur Afgana á árinu, stjórnmálastefna NATO og netöryggi. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Þórunn Egilsdóttir, formaður, fundina, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á fundunum var jafnframt rætt um snjallvarnir, langtímaáhrif niðurskurðar aðildarríkjanna til varnarmála, viðbrögð NATO við nýjum öryggisógnum og útfærsla NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Í opnunarávarpi sínu ræddi Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, um ástandið í Afganistan og lýsti yfir áhyggjum af óstöðugleika og viðbrögðum nágrannaríkja við brotthvarfi NATO, auk getu innan lands varðandi þróun mála næstu missiri. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að NATO-þingið kynnti starfsemi sína fyrir almenningi aðildarríkjanna.
    Þá hélt Thrasyvoulos Terry Stamatopoulos, sendiherra og ráðgjafi framkvæmdastjóra stjórnmála- og öryggissviðs NATO, erindi um núverandi stjórnmálastefnu bandalagsins. Hann fjallaði um stefnuna í ljósi grunnstefnu NATO, auk þess sem hann gerði grein fyrir framgangi helstu verkefna og áhersluatriða þeirra. Hann sagði verkefni NATO í Afganistan vera í forgangi og þau gengju samkvæmt áætlun miðað við að unnið sé út frá ákvörðun leiðtogafundarins í Lissabon í nóvember 2010 um að árið 2014 yrði yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana lokið. Á árinu 2014 væri því hægt að hefja nýjan kafla í samskiptum NATO við Afganistan, ekki síst eftir þingkosningar sem haldnar voru í Afganistan vorið 2014.
    Þá greindi hann frá undirbúningi fyrir næsta leiðtogafund NATO sem halda átti í Wales í september. Einnig lýsti hann yfir áhyggjum af samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu vegna minnkandi framlaga Evrópuríkja til varnarmála. Hann sagði ljóst að Bandaríkin þyrftu á sterkri Evrópu að halda og það væri gagnkvæmt. Nauðsynlegt væri að Bandaríkin og Evrópa stæðu saman gegn sameiginlegum ógnum eins og hryðjuverkum og NATO væri vettvangurinn til þess.
    Á meðal fyrirlesara var James Appathurai, annar aðstoðarframkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO, sem flutti erindi um samskipti NATO við Rússland, Úkraínu og Georgíu. Hann lagði áherslu á að horft væri raunsæjum augum til stefnu Rússlands í utanríkismálum og hún viðurkennd. Reynsla Rússlands af átökunum í Líbíu og aðkoma NATO að þeim hefði ekki verið Rússum að skapi og orsakað ákveðna afturför í samskiptunum. Hann lýsti yfir áhyggjum af ástandinu í Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Armeníu og sagði Moldóvu vera undir efnahagslegum þrýstingi frá Rússum. Þá greindi hann frá góðu samstarfi NATO og Úkraínu sem hefði tekið ákvörðun um að innleiða staðal NATO varðandi hernaðarmál sín. Ekki væri alltaf ljóst hvert Úkraína stefndi varðandi varnar- og öryggismál og samskiptin væru afar tæknilegs eðlis. Varðandi Georgíu, sem er eitt fjögurra ríkja sem sótt hefur um aðild að NATO, sagði Appathurai að ákjósanlegast væri ef ályktun um inngöngu landsins yrði rædd og afgreidd fyrir leiðtogafundinn í Wales og mikilvægt væri að horfa á landsvæðið í heild með tilliti til aðildar.
    Jafnframt tóku fjórir sendiherrar hjá NATO, þau Fatih Ceylan frá Tyrklandi, Douglas E. Lute frá Bandaríkjunum og Mariot Leslie frá Bretlandi, þátt í pallborðsumræðum við þingmenn og svöruðu spurningum þeirra. Rætt var um þróun samvinnu innan NATO, sem eitt af megináhersluatriðum bandalagsins, og þá áherslu sem lögð er á að gera störf NATO markvissari og hagkvæmari og auka samvinnu við ríki utan bandalagsins og alþjóðastofnanir, einkum Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið. Einnig var í umræðunni lögð áhersla á málefni Norður-Afríku og Miðausturlanda og þá þróun sem þar ætti sér stað.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 17. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann ræddi helstu áhersluatriði sem vera áttu til umræðu á næsta leiðtogafundi NATO í Wales í september 2014. Hann sagði að á fundinum yrði framtíð NATO mótuð m.a. með því að taka skýrar ákvarðanir um bætta hernaðarlega getu og aukið samstarf við samherja á hnattræna vísu. Þá greindi hann frá framvindu verkefna bandalagsins í Afganistan við yfirfærslu öryggismála til heimamanna þar sem áhersla væri lögð á þjálfun, ráðgjöf og aðstoð við afgönsku öryggissveitirnar frá árinu 2015 og áfram. Rasmussen sagðist jafnframt reiða sig á hugmyndir, framlög og stuðning fulltrúa NATO-þingsins í aðdraganda leiðtogafundarins.
    Forseti NATO-þingsins, Hugh Bayley, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi þess að niðurskurður á fjárframlögum til varnarmála yrði ekki svo mikill að hann veikti hæfni bandalagsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Þá yrði að skoða með gagnrýnum augum þá stöðu sem upp er komin varðandi minnkandi fjárframlög Evrópuríkja til öryggis- og varnarmála og óánægju innan bandalagsins varðandi stóran þátt Bandaríkjanna þegar horft sé til fjárframlaga. Jafnframt ræddi hann mikilvægi þess að vel tækist til við að leysa forgangsverkefni bandalagsins við yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana í lok árs. Verkefnið væri bæði vandasamt og krefjandi og horfa þyrfti til næstu ára á raunsæjan og lausnarmiðaðan hátt. Jafnframt sagði hann samvinnu við Rússland afar mikilvæga, ekki síst varðandi Afganistan, auk þess sem NATO horfði til þess að þróa samstarf við nýja aðila.

Fundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Ríga 5. apríl. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru ástandið í Úkraínu og viðbrögð NATO-þingsins við aðgerðum Rússa, áhersluatriði næsta leiðtogafundar NATO í Wales í september, starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2014 og fjármál þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar NATO- þingsins sótti fundinn Þórunn Egilsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Solvita Aboltina, þingforseti Lettlands, bauð fundargesti velkomna til Ríga og lagði áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins varðandi málefni Úkraínu og það óvissuástand sem nú væri uppi. Þá hélt Raimonds Vejonis, varnarmálaráðherra Lettlands, erindi um áhersluatriði næsta leiðtogafundar NATO. Hann sagði ljóst að ástandið í Úkraínu yrði forgangsmál á fundinum þótt einnig yrði áhersla á málefni Afganistans, framlög NATO og ESB til varnarmála og ástandið í Sýrlandi. Þróun mála síðustu vikur með hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu hefði sýnt hversu alvarlegt ástandið væri og að Rússar væru tilbúnir til að beita hervaldi sýndist þeim svo. Hann sagði að í besta falli mundu Rússar aðeins taka yfir Krímskaga og að ómögulegt væri að gera sér grein fyrir næstu skrefum. Það væri þó ljóst að samskipti umheimsins við Rússa hefðu tekið grundvallarbreytingum. Mikilvægt væri að horfa raunsæjum augum á ástandið og þrýsta á Rússa að auka ekki frekar á spennuna. Hann sagði NATO hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna og þurfi að vinna heimavinnuna sína vel, ekki síst í ljósi þess að Evrópa hafi verið álitin öruggasta heimsálfan en nú gæti það breyst. Óskandi væri að NATO hefði jákvæð áhrif á núverandi stöðu en ekki væri víst að það yrði mögulegt með mildum aðgerðum. Rússar beittu þá þegar viðskiptaþvingunum og að ESB þyrfti að beina sjónum sínum að mikilvægi orkuöryggis í álfunni.
    Þá hélt Ruslan Koshulynskyi, varaforseti úkraínska þingsins, erindi um ástandið í landinu. Hann ræddi þá alvarlegu stöðu fyrir öryggi Evrópu sem upp væri komin eftir hernaðaraðgerðir Rússa og innlimun Krímskaga. Einnig greindi hann frá því að í þau 23 ár sem Úkraína hefði verið sjálfstætt ríki hefðu ekki átt sér stað nein átök í landinu. Þá sagði hann samvinnu NATO og Úkraínu afar mikilvæga og lagði áherslu á mikilvægi stuðnings bandalagsins fyrir úkraínsku þjóðina. Jafnframt hvatti hann NATO-þingið til að taka þátt í kosningaeftirliti við forsetakosningarnar í Úkraínu sem fyrirhugaðar voru í maí. Það væri kjörið tækifæri fyrir Evrópuþjóðir til að verða vitni að sannarlega lýðræðislegum kosningum.
    Hugh Bailey, forseti NATO-þingsins, fór yfir starfsáætlun þess fyrir árið 2014 og gerði grein fyrir skýrsluefnum einstakra nefnda. Þá var tekin ákvörðun um að NATO-þingið sendi fulltrúa í kosningaeftirlit til Úkraínu í tengslum við forsetakosningarnar í maí í samvinnu við ÖSE-þingið. Í framhaldinu var rætt um samskipti NATO-þingsins við Rússa í ljósi atburða síðastliðinna vikna. Nefndarmenn voru sammála um að ekki væri hægt að halda samskiptum við Rússa óbreyttum eftir innlimun þeirra á Krímskaga og greiddu nefndarmenn einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Framkvæmdastjórn NATO-þingsins var falið að hitta fulltrúa rússneska þingsins og útskýra ákvörðun þingsins fyrir þeim og ræða framtíðarsamskipti. Nefndarmenn ræddu leiðir til að aðstoða stjórnvöld í Úkraínu og hvernig auka mætti þrýsting á stjórnvöld í Rússlandi til að stuðla að friðsamlegri þróun. Með ákvörðun þingsins var nágrannaríkjum Úkraínu og Rússlands í Austur-Evrópu einnig sýndur stuðningur NATO-þingsins á þessum erfiðu tímum. Hugh Bailey sagði jafnframt að samræður yrðu að byggjast á gagnkvæmu trausti og Rússar hefðu rofið þetta traust með aðgerðum sínum og gert lítið úr alþjóðaskuldbindingum og 25 ára samstarfi við NATO. NATO-þingið beitti svipuðum aðgerðum gegn Rússum árið 2008 þegar Rússar sýndu aukna hörku í utanríkisstefnu sinni sem náði hámarki með hernaðaraðgerðum þeirra í Georgíu í ágúst það ár. NATO-þingið brást við þeim hernaði með því að takmarka annars vegar þátttöku rússneskra þingmanna í starfi NATO-þingsins og hins vegar að stofna til sérstaks þingmannaráðs NATO og Georgíu til samræmis við þingmannaráð NATO og Rússlands sem starfað hefur um árabil.
    Þá var fjallað um umsókn Kósóvó um áheyrnaraðild að NATO-þinginu. Þjóðþingi Kósóvó hefur verið boðið reglulega að senda sendinefndir á hina tvo árlegu þingfundi NATO-þingsins og hefur nú sótt um formlega áheyrnaraðild. Alls eiga þjóðþing 13 ríkja aukaaðild að NATO-þinginu eftir ákvörðun fundarins um að Rússland væri ekki lengur eitt þeirra. Bent var á að átta aðildarríki NATO viðurkenndu ekki sjálfstæði Kósóvó og ákveðið að fresta málinu. Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2013 sem var samþykktur samhljóða.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Vilníus dagana 30. maí – 2. júní 2014. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna, alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru átökin í Úkraínu og áhrif þeirra á orkuöryggi Evrópu, samskipti NATO og Rússlands, málefni Afganistans í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu seinni hluta árs og þróun kjarnorkuáætlunar Írans. Um 360 þingmenn sóttu fundinn frá 28 aðildarríkjum NATO.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta ársins. Aukin áhersla skyldi lögð á málefni Úkraínu og samskipti landsins við NATO, samvinnu um varnarbúnað NATO og áframhaldandi áhersla lögð á málefni Afganistans eftir brotthvarf herliða NATO af svæðinu síðar á árinu, auk samskipta NATO og Rússlands. NATO-þingið sendi fulltrúa í kosningaeftirlit til Úkraínu í tengslum við forsetakosningarnar í maí í samvinnu við ÖSE-þingið og skýrði Karl Lamers, formaður þýsku landsdeildarinnar, frá jákvæðum niðurstöðum við eftirlitið. Hugh Bailey, forseti NATO-þingsins, gerði jafnframt grein fyrir samskiptum sínum við rússneska þingið en á síðasta fundi stjórnarnefndarinnar sem haldinn var í Ríga í apríl voru nefndarmenn sammála um að ekki væri hægt að halda samskiptum við Rússa óbreyttum eftir innlimun þeirra á Krímskaga. Í framhaldinu greiddu nefndarmenn einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Framkvæmdastjórn NATO-þingsins var falið að vera í samskiptum við fulltrúa rússneska þingsins og útskýra ákvörðun þingsins fyrir þeim og ræða framtíðarsamskipti. Af þeim svörum sem framkvæmdastjóranum bárust frá Rússum virtist ekki vera áhugi á frekari samskiptum að svo stöddu. Þá var fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 samþykkt, en heildarupphæð hennar hafði staðið í stað síðustu þrjú árin.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var fjallað um þrjár skýrslur. Sú fyrsta fjallar um vaxandi öryggisógn við suðausturmörk NATO. Í henni eru kannaðar flóknar öryggisáskoranir beggja vegna Atlantsála vegna þróunarinnar í Sýrlandi, Írak og Íran og velt upp stefnu NATO á svæðinu. Í annarri skýrslunni er tekið á samstarfi NATO og þá stefnu þess að vera opin gagnvart nýjum aðildarríkjum (e. open door policy). Sú þriðja fjallar um samskipti NATO við ríki utan bandalagsins eftir árið 2014 með áherslu á brotthvarf herliðs NATO frá Afganistan og helstu málefni sem nauðsynlegt er að takast á við í framhaldinu. Vísinda- og tækninefnd þingsins ræddi m.a. um hnattræna dreifingu skot- og eldflaugavarna og orkuöryggi í Evrópu með áherslu á gasbirgðir og netöryggi.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um viðskiptasamstarf yfir Atlantshaf, efnahagsleg áhrif breyttrar nálgunar Bandaríkjanna og Evrópu við Asíu og öryggis- og efnahagsþróun á Sahel-svæðinu (svæði í Afríku sem liggur á mörkum Sahara og gróðurlendisins í suðri). Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um þrjár skýrslur á fundi sínum. Sú fyrsta fjallar um Afganistan eftir árið 2014 og þau mikilvægu tímamót fyrir NATO og alþjóðasamfélagið, önnur um snjallvarnir og tækninýjungar með áherslu á ómönnuð flygildi, eða dróna, og sú þriðja um bæði hnattræn og svæðisbundin áhrif borgarastríðsins í Sýrlandi, auk hlutverks NATO. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi m.a. um stjórnmálalegar umbreytingar í Afganistan og þær ógnir og tækifæri sem fylgdu henni, málefni Georgíu og samþættingu við Vesturlönd, baráttuna gegn hryðjuverkum með áherslu á aukið öryggi og hvernig verja mætti lýðræðisstofnanir og málefni Úkraínu út frá alheimsöryggi.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 30. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, Loreta Graziniené, þingforseti Litháen, Algirdas Butkevicius, forsætisráðherra Litháen, Andriy Parubiy, sérfræðingur hjá þjóðaröryggisráði Úkraínu, og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO.
    Forseti NATO-þingsins, Hugh Bayley, setti þingfundinn og ræddi m.a. ástandið í Úkraínu og mikilvægi þess að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld, fordæmdi ólögmætar aðgerðir Rússa við innlimun Krímskaga og legði áherslu á skuldbindingar NATO við aðildarríki sín. Þá sagði Bayley að hinn 10. júní 2014 mundi NATO-þingið kynna framkvæmdastjóra NATO skjal þar sem bent væri á leiðir fyrir bandalagið til að styrkja samskiptin út fyrir svæði aðildarríkja NATO og útlistað hvers vegna NATO muni halda áfram að vera ómissandi þegar kemur að alþjóðlegum varnarmálum.
    Í ávarpi sínu fór Rasmussen m.a. yfir aðgerðir NATO í Afganistan, átökin í Úkraínu og samskipti NATO og Rússlands. Einnig lýsti hann yfir miklum áhyggjum af niðurskurði aðildarríkjanna til varnarmála og lagði áherslu á breytt landslag í Evrópu varðandi öryggismál í kjölfar átakanna í Úkraínu. Hann benti á að á meðan aðildarríki NATO, sérstaklega Evrópuríkin, skæru niður fjármagn til varnarmála um 10–15% að meðaltali síðan árið 2008 ykju Rússar á sama tíma framlög til varnarmála um 31%. Hann áréttaði jafnframt orð sín um árangursríkar varnir og nauðsyn þess að niðurskurður á fjárframlögum til varnarmála yrði ekki svo mikill að hann veikti hæfni bandalagsins til að uppfylla varnarskuldbindingar sínar. Þá ræddi hann um undirbúning fyrir næsta leiðtogafund NATO í Wales í september. Hann greindi frá helstu áhersluatriðum fundarins sem verða m.a. aðgerðir Rússa í Úkraínu og mikilvægi 5. gr. Atlantshafssáttmálans um sameiginlegar varnir aðildarríkjanna. Varðandi Afganistan sagði hann mikilvægt að veita afgönsku þjóðinni áfram stuðning eftir að herlið NATO yfirgæfi landið. Yfirfærslan gengi ágætlega en að mörgu væri að huga í framhaldinu og brýnt að vera vakandi fyrir hugsanlegum áhrifum bæði innan lands og á nágrannaríkin.
    Þingfundurinn samþykkti þrjár yfirlýsingar um eftirfarandi málefni: um vestræna samvinnu, um stækkun NATO og um stuðning við Úkraínu. Í yfirlýsingunni um stuðning við Úkraínu er m.a. lögð áhersla á samstöðu með íbúum Úkraínu þar sem þeir verja sjálfstæði sitt og landsvæði. Þá er ályktun Dúmunnar og þjóðþings Rússlands fordæmd þar sem heimilað er að beita hervaldi í Úkraínu.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Haag dagana 21.–24. nóvember 2014. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Þórunn Egilsdóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 350 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir 20 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst bar í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og greidd atkvæði um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Við setningu þingsins lagði Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, áherslu á gagngera breytingu varðandi niðurskurð á fjármagni til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna á leiðtogafundi NATO í Wales í september. Þá sagði Bayley frá nýrri viðbúnaðaráætlun NATO með það að markmiði að bregðast við breyttu öryggisástandi í Evrópu eftir innrás og innlimun Rússa á Krímskaga þar sem áhersla er lögð á að efla undirbúning, viðbúnað og fasta viðveru bandalagsríkja í austurhluta NATO. Hann sagði mikla samvinnu vera við Úkraínu af hálfu NATO, auk þess sem mörg aðildarríkin styddu tvíhliða við ýmsa þætti í landinu.
    Stjórnmálanefnd NATO-þingsins tók til umræðu þrjár skýrslur. Þá fyrstu um vaxandi öryggisógn við suðausturlandamæri NATO, aðra um samstarf NATO við ríki utan bandalagsins og stefnu bandalagsins um opnun gagnvart nýjum aðildarríkjum (e. open door policy) og þá þriðju um NATO eftir 2014. Þórunn Egilsdóttir tók þátt í störfum nefndarinnar. Vísinda- og tækninefnd fjallaði á fundi sínum m.a. um hnattræna dreifingu skot- og eldflaugavarna, orkuöryggi Evrópu og netöryggi. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi m.a. um stjórnmálalegar breytingar í Afganistan, baráttuna gegn hryðjuverkum og málefni Úkraínu með áherslu á landfræði- og stjórnmálalegar afleiðingar. Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallar um Afganistan árið 2014 og mikilvæg þáttaskil fyrir NATO og alþjóðasamfélagið, önnur um snjallvarnir og tækninýjungar með áherslu á ómönnuð flygildi, eða dróna, og sú þriðja um bæði hnattræn og svæðisbundin áhrif borgarastríðsins í Sýrlandi, auk hlutverks NATO. Birgir Ármannsson tók þátt í störfum nefndarinnar. Lokadrög að skýrslum um umræðuefnin voru kynnt nefndarmönnum af skýrsluhöfundum.
    Efnahags- og öryggisnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um viðskiptasamstarf yfir Atlantshaf, efnahagsleg áhrif breyttrar nálgunar Bandaríkjanna og Evrópu gagnvart Asíu og öryggis- og efnahagsþróun á Sahel-svæðinu, auk umræðu um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar. Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðum nefndarinnar og lagði áherslu á að Íslendingar styddu ævinlega sjálfsákvörðunarrétt þjóða og undirstrikaði mikilvægi þess að þjóðir Atlantshafsbandalagsins hvikuðu ekki í stuðningi sínum við úkraínsku þjóðina. Í máli hans kom fram að þó að engin þjóð hagnaðist á viðskiptabanni hefðu átökin gjörbreytt stöðu Pútíns, forseta Rússlands, sem nyti nú yfirgnæfandi stuðnings meðal Rússa, og sagði ljóst að forsetinn væri reiðubúinn til að kosta miklu til í átökunum. Össur kvað fall rúblunnar sýna að aðgerðirnar bæru árangur en gagnrýndi að ekki væri ljóst hvaða áfangar þyrftu að nást til að þeim mætti aflétta. Viðskiptaþvingunum þyrftu jafnan að fylgja skýr skilaboð um við hvaða aðstæður þær yrðu afnumdar.
    Í efnahags- og öryggisnefnd skapaðist jafnframt lífleg umræða um skýrslu spænska þingmannsins Lopez Garrida um stöðu viðræðna milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslun þar sem flestir nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að samningsgerðinni yrði lokið sem fyrst. Össur lýsti þeirri skoðun að meiri hnökrar væru á samningagerðinni en menn ætluðu í upphafi, og erfitt yrði að ljúka þeim á áætluðum tíma. Hann nefndi sem dæmi að varðandi tolla, sem upphaflega hefði verið talið að auðvelt yrði að semja um, hefðu komið upp óvæntir tálmar, og umræðum um tolla hefði því verið frestað og þær yrðu ekki partur af fjórðu lotu viðræðnanna sem hefst senn. Sterkir hagsmunir ynnu gegn samningnum og lýsti hann þeirri skoðun að samningurinn yrði ekki jafn víðfeðmur og hagstæður og lýst var þegar viðræðunum var hrundið úr vör. Í skýrslunni kemur m.a. fram mikill áhugi Tyrklands á því að verða aðili að samningnum þegar honum er lokið. Af því tilefni sagði Össur að Íslandi yrði, ekki síður en Tyrklandi, efnahagslega mikilvægt að fá aðild að samningnum og benti á þá sérstöðu ríkjanna að vera með aðild að Atlantshafsbandalaginu en jafnframt formlega stöðu umsóknarríkis að ESB. Hann sagði að þessi sterku tengsl ríkjanna við Bandaríkin og ESB réttlættu að ríkin gætu gengið inn í fríverslunarsamninginn, ef af honum yrði, og lýsti þeirri skoðun að á grundvelli sameiginlegrar sérstöðu ættu Ísland og Tyrkland að óska sameiginlega eftir því. Össur var kosinn varaformaður annarrar undirnefndar efnahags- og öryggisnefndar NATO-þingsins.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrir árið 2015. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og hún samþykkt með smávægilegum breytingum frá árinu 2014. Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Hugh Bayley, forseti NATO-þingsins, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og þróunarstofnunar Evrópu (OECD), og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
    Jens Stoltenberg tók við sem framkvæmdastjóri NATO í október 2014 af Anders Fogh Rasmussen. Stoltenberg lagði í ræðu sinni áherslu á styrkingu hernaðar- og viðbragðsgetu bandalagsins og nauðsyn aukinna fjárframlaga til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússum. Síðustu fimm árin hefðu Rússar aukið viðbúnað til varnarmála um 50% og ráðgerðu enn frekari aukningu. Á sama tíma hefðu framlög NATO til varnarmála minnkað um 20% og sum aðildarríkin skorið enn meira niður. Hann áréttaði að á friðartímum væri rétt að skera niður fjárframlög til varnarmála en sú staða ætti ekki við í dag. Þá ræddi Stoltenberg um aðgerðir NATO í Afganistan og lýsti yfir áhyggjum af ástandinu í Sýrlandi og straumi flóttamanna til grannríkja.
    Þórunn Egilsdóttir spurði framkvæmdastjórann hvort NATO hefði mótað sér stefnu varðandi málefni norðurslóða, ekki síst í ljósi aukinnar viðveru Rússa og breytinga í landfræðipólitík á svæðinu. Stoltenberg svaraði því til að samvinna ætti að vera í forgrunni á norðurslóðum og eins og hingað til væri mikilvægt að samstarf við Rússa færi friðsamlega fram á svæðinu.
    Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur um þær ályktanir sem málefnanefndirnar höfðu lagt fram og voru þær samþykktar. Þá var bandaríski þingmaðurinn Michael Turner kosinn nýr formaður NATO-þingsins. Næsta NATO-þing verður haldið 15.–18. maí 2015 í Búdapest.
    
Fundur um Atlantshafssamstarfið.
    NATO-þingið, Atlantshafsráð Bandaríkjanna og National Defence University (NDU) efna árlega til fundar, „Transatlantic Forum“, um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn fer fram í húsakynnum NDU í McNair-virki í Washington og var nú haldinn í fjórtánda sinn. Þátttakendur voru þingmenn aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins, auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins Þórunn Egilsdóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Megintilgangur hins árlega fundar er að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við aðila úr bandaríska stjórnkerfinu, fræðasamfélagi, hugveitum og öðrum stofnunum. Fundurinn er iðulega skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem mikið hefur borið á á undangengnum missirum eru tekin fyrir, bandarískir sérfræðingar halda framsöguerindi og eiga svo umræður við NATO-þingmenn.
    Í umræðu um stöðu Atlantshafssamstarfsins eftir leiðtogafund NATO í Wales í september var framsögumaður Stephen Hadley, fyrrum öryggismálaráðgjafi George W. Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, árin 2005–2009, en auk hans tóku fjölmargir þingmenn til máls. Í umræðunni kom m.a. fram að Pútín, forseti Rússlands, héldi Úkraínu í óvissu þar til stjórn landsins viðurkenndi að það hafi verið mistök að hafa horft til aukins samstarfs við Vesturlönd. Hadley sagðist óttast að ef Pútín næði fram vilja sínum í Úkraínu mundi hann færa sig í áttina að Eystrasaltsríkjunum og auka áhrif sín í fyrrum Sovétlýðveldunum. Hann taldi mikilvægt að fullvissa aðildarríki NATO um að 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að vopnuð árás á einn eða fleiri samningsaðila skuli talin árás á þá alla væri í fullu gildi. Einnig lagði hann áherslu á stefnu NATO gagnvart Austur-Evrópu og nauðsyn þess að koma á stefnu í orkumálum milli Evrópu og Bandaríkjanna þar sem þjóðirnar reiddu sig í minna mæli á Rússland. Þá áréttaði hann að nýtt kalt stríð væri ekki ákjósanleg staða.
    Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðum um efnið og spurði Hadley út í viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum og hvort þær væru í raun að skila árangri. Hann gagnrýndi að ekki væri ljóst hvaða áfangar þyrftu að nást til að þeim mætti aflétta en jafnan þyrftu að fylgja skýr skilaboð um hvenær þvinganir yrðu afnumdar. Hadley sagði viðskiptaþvinganir alltaf erfiðar og að þær einar og sér mundu ekki skila þeim árangri sem markmiðið væri að ná. Þá voru fundarmenn sammála um að litlar líkur væru á því að samskipti NATO og Rússa kæmust í samt lag í náinni framtíð. Segja má að framkoma Rússa við Úkraínu sé mesta ógn við öryggi Evrópu frá lokum kalda stríðsins. Alþjóðalög, venjur og viðmið, svo og venjubundnar diplómatískar samskiptavenjur hafa verið hunsaðar og enn er óljóst hvað Pútín hefur í huga varðandi framhaldið.
    Jafnframt var fjallað um öryggismál beggja vegna Atlantshafs og landfræðipólitík með skírskotun til Rússlands og Úkraínu. Angela Stent, prófessor og framkvæmdastjóri seturs um Evrasíu, Rússland og Astur-Evrópufræði í Georgetown-háskóla, hélt fyrirlestur um efnið og svaraði spurningum nefndarmanna. Hún ræddi versnandi samskipti Bandaríkjanna og Rússlands og nefndi í því sambandi áhrifavalda eins og stríðið í Sýrlandi og ólíka afstöðu ríkjanna til þess. Einnig nefndi hún mál bandaríska uppljóstrarans Edward Snowden sem áhrifavald í versnandi samskiptum ríkjanna. Snowden hefur dvalið í eitt og hálft ár í Rússlandi, en hann hlaut pólitískt hæli í landinu sumarið 2013, þvert á vilja bandarískra stjórnvalda sem óskuðu eftir því að rússnesk stjórnvöld sendu hann til baka til Bandaríkjanna. Þar braut Pútín blað í samskiptum ríkjanna sem hafa ekki verið söm síðan. Stent sagði að eins og málum væri háttað væru frosin átök milli ríkjanna besta mögulega niðurstaðan þótt hún væri síður en svo góð. Pútín gagnrýnir Vesturlönd harðlega fyrir viðskiptaþvinganir og viðhorf ungs fólks í Rússlandi er í auknum mæli fjandsamlegt gagnvart Vesturlöndum.
    Þá var rætt um nýja viðbúnaðaráætlun bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í september. Markmiðið með áætluninni er að bregðast við breyttu öryggisástandi í Evrópu eftir innrás og innlimun Rússa á Krímskaga. Mjög var lagt að þjóðum að árétta skuldbindingu sína og framtíðarsýn um 2% framlag af vergri þjóðarframleiðslu til varnar- og öryggismála á leiðtogafundinum. Megináherslan er á að ekki verði frekari niðurskurður og sköpuðust líflegar umræður um mishátt framlag aðildarríkjanna sem mörg hver eiga erfitt heima fyrir við að sannfæra kjósendur sína um aukið framlag til varnarmála.
    Næst var fjallað um vaxandi áhrif hryðjuverkasamtaka sem kalla sig Íslamskt ríki (ISIL/ ISIS) og vonbrigði með niðurstöður arabíska vorsins. Lawrence R. Silverman, sérfræðingur frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, og Michele Dunne, sérfræðingur hjá Carnegie Endowment for International Peace í Washington, héldu erindi um efnið en auk þeirra tóku fjölmargir þingmenn til máls. NATO hefur ekki beina aðkomu að málinu, en allar bandalagsþjóðirnar styðja alþjóðlegar aðgerðir gegn ISIL/ISIS. Dunne vakti í máli sínu athygli á þeirri hnattrænu staðreynd að styrkur einstaklingsins hafi aukist á kostnað ríkja og mikilvægt væri að stjórnvöld væru meðvituð um þessa þróun.
    Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðum um efnið og spurði hvort ástandið í Miðausturlöndum í tengslum við vöxt og áhrif ISIL hafi aukið möguleika Kúrda sem berjast fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis, Kúrdistan, og hvort Bandaríkin mundu styðja þá þróun. En hersveitir Kúrda hafa barist gegn liðsmönnum ISIL/ISIS með aðstoð frá vestrænum ríkjum. Silvermans svaraði því til að sjálfstætt Kúrdistan mundi auka enn á óstöðugleikann á svæðinu og skapa frekari spennu innan þess. Markmiðið ætti að vera að tryggja að Írak liðaðist ekki í sundur og Kúrdistan væri þegar sjálfstjórnarsvæði innan Íraks. Afstaða Bandaríkjanna væri því óbreytt varðandi sjálfstæði Kúrdistan. Jafnframt spurði Össur hvort það að Bandaríkin og Assad, forseti Sýrlands, séu að berjast gegn sameiginlegum óvini, ISIL, mundi hafa jákvæð áhrif á samskipti ríkjanna. Dunne sagði samskipti Bandaríkjanna og Sýrlands óbreytt og það að Assad berðist gegn ISIL mundi ekki breyta neinu þar um. Hann áréttaði að þar til nýverið hefði Assad verið tiltölulega sáttur við ISIL en það hafi runnið á hann tvær grímur þegar þeim óx ásmegin og í framhaldinu hafi hann skipt um skoðun. Það væri því ekki raunin að Bandaríkin og Sýrland væru samherjar í baráttu gegn ISIL.
    Einnig var fjallað um ástandið í Afganistan og verkefnið Resolute Support, eða „Einarðan stuðning“, sem hefst 1. janúar 2015 og mun standa yfir í tvö ár. Fram kom m.a. að vel hefði gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem tekið hefðu við stjórn svæða landsins. Brottflutningi ISAF-sveita NATO átti að vera lokið fyrir árslok 2014 en eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi enda er öryggi og stöðugleiki forsenda þess að hagkerfið geti þróast eftir stríðið.

Nefndarfundir.
    Össur Skarphéðinsson sótti nefndarfund efnahagsnefndar í júní í Tókýó. Þá sóttu Þórunn Egilsdóttir, Össur Skarphéðinsson og Birgir Ármannsson fund um Atlantshafssamstarfið á vegum NATO-þingsins í Washington í desember.

Alþingi, 21. janúar 2015.

Þórunn Egilsdóttir,
form.
Össur Skarphéðinsson,
varaform.
Birgir Ármannsson.

Fylgiskjal.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2014.


Vorfundur í Vilníus, 30. maí – 2. júní:
    –        Yfirlýsing um vestræna samvinnu.
    –        Yfirlýsing um stækkunarferli NATO.
    –        Yfirlýsing um stuðning við Úkraínu.

Ársfundur í Haag, 21.–24. nóvember:
    –        Ályktun 411 um stuðning við fullveldi og lýðræði Úkraínu.
    –        Ályktun 412 um neyðarástand á sviði mannúðarmála við landamæri Suður-Evrópu.
    –        Ályktun 413 um stuðning við afgönsku þjóðina eftir árið 2014.
    –        Ályktun 414 um stuðning við hæfnismarkmið leiðtogafundarins í Wales.
    –        Ályktun 415 um samning á viðskipta- og fjárfestingarsamstarfi yfir Atlantshaf.
    –        Ályktun 416 um framlengt ákall til aðgerða sem stuðla að stöðugleika í Miðausturlöndum.
    –        Ályktun 417 um stuðning við samherja.
    –        Ályktun 418 um eldflaugavarnir NATO.