Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 871  —  435. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur um sendiherra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða reglur gilda um skipunartíma sendiherra?
     2.      Er starfsöryggi sendiherra tryggt með einum eða öðrum hætti og fá þeir laun til æviloka, óháð því hvort eða hvenær þeir láta af starfi sem sendiherrar?
     3.      Hve margir fyrrverandi sendiherrar eru enn í launuðum störfum hjá hinu opinbera?


    Sendiherrar eru embættismenn skv. 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög). Skipunartími embættismanna er fimm ár í senn, sbr. 23. gr. áðurnefndra laga. Hið sama gildir um skipunartíma sendiherra, eins og fram kemur í 9. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, með síðari breytingum.
    Ákvæði 10. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands mælir fyrir um flutningsskyldu starfsmanna hennar. Þar segir að ekki þurfi nýja skipun þótt embættismaður sé fluttur milli staða eða starfa innan sama flokks skv. 8. gr. laganna, en skipunartími hans framlengist við flutninginn til fimm ára í senn.
    Sendiherrar njóta sama starfsöryggis og aðrir embættismenn lögum samkvæmt. Um starfslok embættismanna segir í 33. gr. starfsmannalaga að embættismanni skuli veita lausn frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Sendiherrar láta því af störfum í utanríkisþjónustunni eigi síðar en í lok þess mánaðar er þeir ná framangreindum aldri. Ráðuneytið greiðir sendiherrum ekki laun eftir starfslok og lausn frá embætti sendiherra. Fáein dæmi eru um það á síðustu árum að ráðuneytið feli fyrrverandi sendiherrum að sinna afmörkuðum verkefnum á grundvelli tímabundinnar ráðningar. Er þá ýmist greitt fyrir það samkvæmt starfshlutfalli, sem getur hæst orðið 49%, eða í mældri tímavinnu samkvæmt svokölluðum tímavinnusamningi. Nú eru þrír slíkir tímabundnir samningar í gildi.