Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 872  —  131. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um fulltrúa Íslands á erlendum vettvangi.

     1.      Hverjir voru fulltrúar utanríkisþjónustunnar á þingum og fundum Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana þeirra, Norður-Atlantshafsbandalagsins, Alþjóðavið­skipta­stofnunarinnar, Fríverslunarsamtaka Evrópu, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, Norðurskautsráðsins, Barentsráðsins, Norðlægu víddarinnar og NB8 á árinu 2013?

1. Sameinuðu þjóðirnar.
    Fundarþátttaka hjá Sameinuðu þjóðunum í New York einskorðast fyrst og fremst við fundi allsherjarþingsins og undirnefnda þess. Auk þess sækja fulltrúar fastanefndar, og fulltrúar að heiman þegar því er að skipta, fundi sem tengjast öðrum málefnum eins og hinum ýmsu mannréttindasamþykktum, hafrétti, um­hverfismálum, afvopnunarmálum, Alþjóðlega sakamáladómstólnum (ICC) og loks fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Committee on the Status of Women). Þess ber að geta að allsherjarþingið er sett í september ár hvert og stendur í tólf mánuði til næstu þingsetningar. Fyrstu níu mánuði ársins 2013 stóð 67. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og hið 68. var sett 17. september 2013. Umfjöllun í svarinu tekur mið af þessari aðgreiningu.
    Formaður sendinefndar Íslands í almennri umræðu allsherjarþingsins (ráðherravikunni) í september 2013 var Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Að ráðherravikunni lokinni fór fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir sendinefndinni en varafastafulltrúi og sérfræðingar fastanefndar sóttu að jafnaði fundina í undirnefndunum sex. Líkt og önnur ár sótti þjóðréttarfræðingur úr ráðuneytinu fundi um hafréttarmál.
    Aðildaríkjafundir þriggja aðþjóðlegra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að voru haldnir í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2013. Samningarnir sem um ræðir eru samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (CRC), samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) og alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (ICCPR). Fastafulltrúi Íslands eða starfsmenn fastanefndarinnar sitja þessa fundi.
    Þá héldu aðildarríki hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) árlegan fund í New York og sóttu fulltrúar fastanefndar Íslands ásamt þjóðréttarfræðingi þann fund.
    Árið 2013 fór Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fyrir sendinefndinni á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn var einnig sóttur af fastanefnd og fulltrúum frá velferðarráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, jafnréttisstofu og frjálsum félagasamtökum.

a) Störf Íslands á seinni hluta 67. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og á öðrum vettvangi stofnana og nefnda Sameinuðu þjóðanna í New York frá 1. janúar til 17. september 2013.

Öryggisráðið, allsherjarþingið og nefndir þess.

Öryggisráðið.
    Fastafulltrúi flutti ávörp í reglulegum opnum umræðum í öryggisráðinu um málefni Mið- Austurlanda, 23. janúar, 24. apríl og 23. júní.
    Alls voru haldnar átta norrænar ræður í öryggisráðinu, tvisvar um vernd óbreyttra borgara í vopnuðum átökum, um vernd óbreyttra borgara í átökum með sérstaka áherslu á blaðamenn, tvisvar um konur frið og öryggi, um fyrirbyggandi aðgerðir gegn átökum tengdum náttúruauðlindum, um friðargæslu Sameinuðu þjóðanna og um baráttu gegn hryðjuverkum.
    Alls var tekið undir níu ræður ESB í öryggisráðinu.

Allsherjarþingið.
    Alls voru 27 allsherjarþingsályktanir samþykktar á tímabilinu. Mesta athygli vakti ályktunin um Sýrland sem lögð var fram þar sem ekki tókst að ná samkomulagi um efnisatriði hennar í öryggisráðinu. Ályktunin var lögð fram af Katar og var hún að miklu leyti byggð á fyrri ályktunum um Sýrland á síðasta allsherjarþingi. Ályktunin var samþykkt með 107 atkvæðum, 12 á móti og 59 sátu hjá.
    Tvær norrænar ræður voru haldnar í allsherjarþinginu. Önnur á sérstökum viðburði í tilefni af degi vatnsins um samvinnu um vatn og hin í þemaumræðum um ójafnrétti.
    Alls var tekið undir átta ræður ESB í allsherjarþinginu.

Fimmta nefnd: Fjárhags- og stjórnsýslumál.
    Fyrri fram­haldsfundur fjárhags- og stjórnsýslunefndar, 5. nefndar, hófst 4. mars og lauk 28. mars. Samþykktar voru ályktanir um áfram­haldandi vinnu við mannauðsstjórnunar- og ábyrgðarskyldukerfi Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur var samþykkt ályktun um greiðslu kostnaðar vegna tjóns af völdum óveðursstormsins Sandy. Ekki náðist samstaða um ályktun um skýrslu aðalframkvæmdastjóra um borgaralega þátttöku í sendi­sveitum Sameinuðu þjóðanna í kjölfar átaka, né heldur um greiðslu kostnaðar fyrir friðargæsluliða.
    Seinni fram­haldsfundur fjárhags- og stjórnsýslunefndar hófst 6. maí og lauk 27. júní. Verkefni fundalotunnar var að ræða rekstur og samþykkja fjárlög friðargæslu­sveita Sameinuðu þjóðanna. Alls voru fjárlög 13 friðargæslu­sveita samþykkt til næstu 12 mánaða. Heildarkostn­aður verkefnanna er um 7,15 milljarðar bandaríkjadala.
    Alls var tekið undir sex ræður ESB í fimmtu nefnd.

Kosningar.
    Flestar kosningar í Sameinuðu þjóðunum eru á haustin og því lítið um kosningar á seinni hluta allsherjarþingsins. Fastanefndin vann að framboði Íslands til framkvæmdaráðs matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) á vormánuðum, en kosið var á aðalráðstefnu stofnunarinnar í Róm 21. júní. Ríkin fjögur, Frakkland, Ísland, Ítalía og Tékkland, sem voru í framboði fyrir tímabilið 2014–2017 voru öll sjálfkjörin þegar ljóst var að framboðin yrðu ekki fleiri. Kýpur hafði boðað framboð fyrir sama tímabil ef svo færi að landið næði ekki kjöri fyrir tímabilið 2013–2016. Það fór hins vegar þannig að þrátt fyrir að tapa kosningunni fyrir 2013–2016 þá ákvað Kýpur að bjóða sig ekki fram fyrir seinna tímabilið.
    Fundur aðildarríkja alþjóðasamningsins um afnám alls kynþáttamisréttis var haldinn 3. júní og voru níu sérfræðingar kjörnir í nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttamisrétti. Náðu sérfræðingar frá Alsír, Belgíu, Brasilíu, Írlandi, Líbanon, Máritíus, Pakistan, Tógó og Tyrklandi kjöri.

Um­hverfismál og sjálfbær þróun.
Eftirfylgni með Ríó+20.
    Vinna við eftirfylgni með Ríó+20 ráðstefnunni hófst fyrir alvöru í mars með fyrsta samningafundi vinnuhópsins um gerð markmiða um sjálfbæra þróun (SDG). Þrír aðrir fundir voru haldnir í vinnuhópnum það sem eftir lifði allsherjarþingsins, í apríl, maí, og júní. Vinna hópsins um fjármögnun SDG hófst mun seinna eða ekki fyrr en í lok ágúst.
    Fyrsti fundurinn um gerð SDG var mjög almennur með inngangserindum frá sérfræðingum og almennum ávörpum ríkja. Í apríl var hugmyndafræðileg umræða um SDG. Í maí voru umræðuefnin annars vegar fæðuöryggi, landbúnaður, landeyðing og þurrkar og hins vegar hreinlætismál. Mörg málefni voru rædd á júní fundinum, m.a. vinnumarkaðsmál, félagsleg vernd, ungt fólk, menntun, hagvöxtur fyrir alla, heilbrigðismál og fólksfjölgun.
    Fundir vinnuhópsins eru opnir öllum aðildarríkjum sem og frjálsum félagasamtökum sem eru viðurkennd af ECOSOC. Ríkin 70 sem skipta með sér 30 sætum í vinnuhópnum hafa forgang að mælendaskránni. Fastanefnd sat allan fundinn í maí en komst ekki á mælendaskrá, til að koma á framfæri sjónarmiðum Íslands, fyrr en í lok dags þegar fundinum átti að vera lokið.

Reglulega ferlið, World Ocean Assessment.
    Fjórði fundur reglulega ferlisins var haldinn 22.– 26. apríl. Rætt var um framvindu mála og niðurstöður vinnufundanna sem haldnir hafa verið sem liður í kynningu og öflun gagna fyrir matið. Kynntar voru niðurstöður frá vinnufundum fyrir Suð­vestur-Kyrrahaf, Norður- Atlantshaf, Miðjarðarhaf, Vestur-Indlandshaf og Karíbahaf. Ákveðið var að fyrstu drög að matinu, sem nú er kallað „World Ocean Assessment“, yrðu tilbúin til yfirlestrar fyrir aðildarríkin í júní – ágúst 2014.

Landgrunnsmál.
    Sendinefnd sérfræðinga undir forystu þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins kynnti greinargerð um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna 31. janúar. Í sendinefndinni voru sérfræðingar starfshóps utanríkisráðuneytisins sem unnu greinargerð Íslands til landgrunnsnefndarinnar. Sendinefndin kom aftur til viðræðna við landgrunnsnefndina í júlí.

Mannréttindamál.
Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna (CSW).

    Fimmtugasti og sjöundi fundur Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var haldinn í New York 4.–15. mars. Þema fundarins var „afnám á og forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum“. Velferðar- og utanríkisráðuneytið stóðu sam­eigin­lega að undirbúningi fundarins og áttu venju samkvæmt samráð við frjáls félagasamtök sem vinna að málefnum kvenna á Íslandi. Fyrri vikuna tóku fulltrúar Jafnréttisstofu, frjálsra félagasamtaka og Jafnréttisráðs þátt í dagskrá fundarins en fulltrúar utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis voru þátttakendur síðari vikuna. Fulltrúar fastanefndar voru þátttakendur báðar vikurnar.
    Í tengslum við fundinn skipulagði Norræna ráðherranefndin tvo hliðarviðburði. Annars vegar málstofu þar sem ráðherrar jafnréttismála Norðurlandanna eða fulltrúar þeirra fjölluðu um jafnrétti kynjanna á Norðurlöndunum með áherslu á virka þátttöku drengja og karla við að koma í veg fyrir og binda endi á ofbeldi gegn konum og stúlkum. Hins vegar efndi ráðherranefndin til málstofu þar sem sérfræðingar frá Norðurlöndunum fjölluðu um kyngervi, loftslagsbreytingar og líffræðilegan fjölbreytileika. Stígamót og systursamtök þeirra á Norðurlöndunum stóðu fyrir hliðarviðburði um starfsemi sína og hlutverk við að koma í veg fyrir og bregðast við ofbeldi gegn konum.
    Fastafulltrúi Íslands flutti tvær ræður sem formaður sendinefndarinnar. Annars vegar ávarp fyrir hönd íslenskra stjórnvalda í almennum umræðum og hins vegar innlegg fyrir hönd Norðurlandanna í pallborðsumræðum.
    Þrátt fyrir erfiðar samningaviðræður náðist ásættanleg niðurstaða á fundinum sem m.a. tryggði tilvísun í frjósemisréttindi í fyrsta skipti í kvennanefndinni og með sterku orðalagi um mikilvægi þess að stöðva heimilisofbeldi. Fulltrúar utanríkisráðuneytis og velferðarráðuneytis tóku þátt í samningaviðræðum um lokaskjalið ásamt fulltrúa fastanefndar.

Styrking stofnanakerfis mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna.
    Samningaviðræður um styrkingu stofnanakerfis mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna var haldið áfram á grundvelli ályktunar allsherjarþingsins nr. 66/295 sem felur forseta allsherjarþingsins að framlengja samningaviðræðurnar. Forseti allsherjarþingsins fól fastafulltrúa Íslands og fastafulltrúa Indónesíu að halda áfram að leiða þessar samningaviðræður og voru fundir opnir öllum aðildarríkjum haldnir frá febrúar til og með september. Samningunum miðaði vel áfram og á lokadögum þingsins náðist samkomulag um að framlengja ferlið til febrúar 2014, en í því samkomulagi felst að það verður að ljúka því á þeim tíma.

Afvopnunarmál.
Vopnavið­skipta­samningurinn (ATT).

    Lokafundur samningaviðræðnanna um alþjóðasamning um vopnaviðskipti fór fram 18.– 28. mars. Samkomulag náðist um samningstexta sem síðar var lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna 2. apríl. Fastafulltrúi flutti ávarp við það tilefni. Alls samþykktu 154 ríki samninginn, þrjú voru á móti og 23 sátu hjá. Fastafulltrúi undirritaði síðan samninginn fyrir Íslands hönd 3. júní og flutti við það tilefni ávarp. Alls voru 61 ríki sem undirrituðu samninginn þann dag. Rétt um mánuði síðar, 2. júlí, fullgilti Ísland samninginn, fyrst allra ríkja.

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna og þróunarsamvinna.
Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women).
    Fastanefnd fylgdist með starfi UN Women og tók þátt í fundi framkvæmdastjórnar stofnunarinnar sem áheyrnarfulltrúi í janúar, júní og september. Fulltrúi ráðuneytisins tók einnig þátt í fundum framkvæmdastjórnarinnar.
    Fastanefnd vann áfram að því að afla því fylgis að fagnað yrði með viðeigandi hætti 20 ára afmælis Beijing-framkvæmdaáætlunarinnar.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).
    Fastanefnd fylgdist með starfi UNICEF og tók þátt í fundi framkvæmdastjórnar stofnunarinnar sem áheyrnarfulltrúi. Þrír fundir voru haldnir í framkvæmdastjórninni, í febrúar, júní og september.

Samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Formennska í hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG).
    Ísland fór með formennsku hóps ríkja Vestur-Evrópu og annarra ríkja í júlímánuði en formennsku gegnir hvert ríki hópsins í einn mánuð í senn. Helstu verkefni formennskuríkisins eru að halda utan um framboð ríkjahópsins. Fastafulltrúi vann fyrir hönd hópsins að því að lausn yrði fundin milli svæðahópanna á tilnefningum á formönnum aðalnefnda allsherjarþingsins. Tekist var á um formennsku í annarri nefnd og enginn vildi bjóða sig fram í fimmtu nefnd. Ekki náðist samkomulag í málinu í formennskutíð Íslands.
    Fastafulltrúi hélt minningarræðu fyrri hönd hópsins í allsherjarþinginu vegna fráfalls fyrrverandi forseta allsherjarþingsins.

Norðurlöndin.
    Samstarf Norðurlandanna var hefðbundið á tímabilinu. Fastafulltrúarnir hittust vikulega í fastanefnd Svíþjóðar og varafastafulltrúarnir hittust minnst einu sinni í mánuði. Reglulegir og óreglulegir fundir voru síðan milli sérfræðinga fastanefndanna um hin ýmsu málefni, en þar má nefna málefni allra nefnda allsherjarþingsins, Mið-Austurlönd, Vestur-Sahara, eftirfylgni með Ríó+20, Afríku, UNDP/UNFPA, UNICEF og UN Women. Samtals voru haldnar 16 norrænar ræður, átta í öryggisráðinu, tvær í allsherjarþinginu, ein í UNDP/UNFPA/UNOPS og fimm í Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Evrópusambandið (ESB).
    Fastanefndin sótti vikulega upplýsingafundi ESB fyrir umsóknarríkin Ísland, Makedóníu, Serbíu, Svartfjallaland og Tyrkland, sem haldnir eru strax á eftir vikulegum fundum fastafulltrúa ESB. Á tímabilinu tók Ísland undir 38 ræður ESB.

b) Störf Íslands á fyrri hluta 68. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og á öðrum vettvangi stofnana og nefnda Sameinuðu þjóðanna í New York frá 17. september til 31. desember 2013.

Ráðherravika allsherjarþingsins.
    Sextugasta og áttunda allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett formlega 17. september 2013. Fráfarandi forseta, Vuk Jeremic, fyrrverandi utanríkisráðherra Serbíu, voru þökkuð vel unnin störf og nýr forseti, John W. Ashe, fyrrverandi sendiherra og fastafulltrúi Antígva og Barbúda í New York, var boðinn velkominn.
    Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna við upphaf 68. þingsins í svokallaðri ráðherraviku. Utanríkisráðherra tók þátt í fjölda ráðstefna og funda, m.a. um þróunarsamvinnu og öryggismál. Þá átti ráðherrann fundi með fjölmörgum erlendum ráðamönnum, m.a. utanríkisráðherrum Norðurlandanna, utanríkisráðherra Nýja-Sjálands, Mongólíu, Singapúr og Andorru. Þá undirritaði hann samkomulag við Úkraínu um afnám vegabréfsáritana.
    Utanríkisráðherra tók þátt í sérstökum leiðtogafundi um framvindu þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og mótun nýrra þróunarmarkmiða eftir 2015. Hann lagði áherslu á að þótt mikill árangur hafi náðst í baráttu gegn fátækt, í menntamálum og heilbrigðismálum, væri enn mikið verk óunnið. Ríki heims þurfi að sameinast um ný þróunarmarkmið sem byggist á jákvæðum árangri síðustu ára en tryggi jafnframt komandi kynslóðum aukna hagsæld og réttindi.
    Utanríkisráðherra sat einnig ráðstefnu um samninginn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBT) en tilgangur hennar var að hvetja ríki til að gerast aðilar að samningnum og stuðla þannig að friði og afvopnun. Samningurinn var samþykktur af allsherjarþinginu 1996 og var Ísland eitt þeirra ríkja sem undirrituðu hann það ár og fullgiltu árið 2000.
    Utanríkisráðherra hélt síðan ræðu á allsherjarþinginu 30. september, en þar hóf hann mál sitt á að fordæma þau hryðjuverk sem nýlega höfðu áttu sér stað í Kenýu, Írak og Pakistan. Hann fordæmdi efnavopnaárásina í Sýrlandi og lagði áherslu á að þeir sem stæðu á bak við árásina yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Þá gagnrýndi hann sýrlensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki uppfyllt skyldur sína gagnvart sýrlenskum borgurum og fagnaði ályktun öryggisráðsins nr. 2118. Þá kallaði hann eftir því að Genfar-yfirlýsingin um friðarumleitanir í Sýrlandi verði heiðruð.
    Utanríkisráðherra sagði helstu afrek Sameinuðu þjóðanna vera á sviði alþjóðalaga og fagnaði sérstaklega samþykkt vopnavið­skipta­samningsins síðastliðið sumar. Ísland var fyrst ríkja til að fullgilda samninginn og kallaði ráðherra eftir því að öll ríki geri slíkt hið sama svo hann taki gildi án tafar.
    Ráðherra sagði virðingu fyrir alþjóðalögum grundvöll samskipta ríkja og að ávallt skuli leita lausna með friðsamlegum hætti. Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna væri gott dæmi um árangursríkan alþjóðasamning í þessu tilliti. Hann gagnrýndi það harðlega þegar deiluaðilar grípa til hótana um þvingunaraðgerðir í stað þess að leita sátta á grundvelli samninga.
    Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og sagði þau grundvöll stefnu Íslands í þróunarsamvinnu. Þá lagði hann áherslu á að í nýjum þróunarmarkmiðum, sem taka gildi eftir 2015, verði áfram áhersla á upprætingu fátæktar, jafnrétti kynjanna, heilbrigðismál og menntun stúlkna og drengja.
    Utanríkisráðherra sagði Ísland hafa mikið fram að færa á sviði landgræðslu, endurnýjanlegrar orku, sjálfbærra fiskveiða og kynjajafnréttis.
    Utanríkisráðherra sagði margt ógert í mannréttindamálum. Sagði hann ljóst að þegar fólk fær ekki að njóta skoðanafrelsis og trúfelsis, og því er jafnvel refsað fyrir kynhneigð eða kynvitund sína, séu alþjóða mannréttindasamningar þverbrotnir. Lýsti hann miklum áhyggjum af nýlegum dæmum um lagasetningu í sumum ríkjum þar sem gengið er gegn grundvallarreglum um jafnræði og tjáningarfrelsi.
    Utanríkisráðherra lýsti ánægju sinni með friðarviðræður Ísraels og Palestínu og hrósaði John Kerry fyrir fram­göngu sína í málinu. „Við verðum að virða rétt Palestínumanna til sjálfsákvörðunarréttar, en jafnframt rétt Ísraelsríkis til að lifa í sátt og samlyndi við nágrannaríki sín.“
    Utanríkisráðherra gagnrýndi Ísrael fyrir að brjóta alþjóðalög með landtökum á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Sagði hann tveggja ríkja lausnina vera í hættu ef ekki yrði breyting á. Hann gagnrýndi einnig harðlega Hamas-samtökin og fordæmdi eldflaugaárásir frá Gaza. Í lok ræðu sinnar ræddi utanríkisráðherra um vernd hafsins og Norðurslóðir.

Öryggisráðið, allsherjarþingið og nefndir þess.
Öryggisráðið.

    Fastafulltrúi flutti ræðu um ástandið í Mið-Austurlöndum við opnar umræður í öryggisráðinu. Tvær norrænar ræður voru haldnar í ráðinu um konur frið og öryggi og vinnuaðferðir öryggisráðsins. Tekið var undir eina ræðu í öryggisráðinu sem flutt var af fastanefnd ESB.
    Sýrland bar hæst í umræðu um alþjóðleg öryggismál í kjölfar efnavopnaárása í landinu auk þess sem átök Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan mögnuðust í árslok.

Allsherjarþingið.
    Auk ræðu ráðherra í ráðherravikunni var haldin ein íslensk ræða í allsherjarþinginu. Þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins flutti ræðu um málefni hafsins og hafréttarmál. Tvær norrænar ræður voru fluttar í allsherjarþinginu um Alþjóðlega sakamáladómstólinn og til minningar um Nelson Mandela. Alls var tekið undir átta ESB-ræður í allsherjarþinginu.

Fyrsta nefnd: Afvopnunar- og öryggismál.
    Flestar ályktanir nefndarinnar eru efnislega óbreyttar frá ári til árs. Einungis er um að ræða uppfærslu á dagsetningum og óverulegar orðalagsbreytingar. Óverulegar breytingar urðu á afstöðu og meðflutningi Íslands hvað varðar þessar hefðbundnu ályktanir. Ísland var áfram meðflytjandi að nýrri ályktun frá síðasta allsherjarþingi sem leitast við að brjóta þá kyrrstöðu sem hefur verið á vettvangi afvopnunarviðræðanna í Genf (Conference of Disarmament). Þá var lögð fram ályktun um eftirfylgni við fund háttsettra aðila um kjarnavopn sem reyndist mjög umdeild. Ísland greiddi atkvæði gegn ályktuninni og tók undir atkvæðaskýringu Hollands. Ísland tók undir yfirlýsingu Nýja-Sjálands um hættuna af kjarnorkuvopnum og innlegg Svíþjóðar um mannréttindi á netinu í umræðu um tæknihernað. Alls var tekið undir sex ESB- ræður í fyrstu nefnd.

Önnur nefnd: Efnahags-, þróunar- og um­hverfismál.
    Nefndin lauk störfum 11. desember sem var seinna en ráð var fyrir gert. Eins og hefðbundið er var kosið um nokkrar ályktanir í nefndinni, en allar voru þær samþykktar, Ísland greiddi atkvæði með ályktun um yfirráðarétt Palestínu yfir náttúruauðlindum á palestínskum landsvæðum; kaus með ályktun um olíumengun við strendur Líbanon, greiddi atkvæði með og var meðflytjandi á ályktun Ísrael um tækni í landbúnaði og þróun, og sat hjá við afgreiðslu ályktunar um einhliða pólitískar þvingunaraðgerðir gegn þróunarríkjum. Fastanefnd tók þátt í tveimur óformlegum samningaviðræðum um ályktanir. Sú fyrri var um dag og ár jarðvegs, en ákveðið var að 5. desember væri ár hvert dagur tileinkaður jarðvegsmálum og árið 2015 verði sérstakt ár til þess að vekja athygli á mikilvægi jarðvegs fyrir mannkynið. Seinni ályktunin varðaði framkvæmd sáttmálans um baráttuna gegn eyðimerkurmyndun. Þar lagði Ísland til nýjan texta, sem var samþykktur, um mikilvægi jafnréttis kynjanna og valdeflingu kvenna í tengslum við framkvæmd sáttmálans.
    Varafastafulltrúi flutti ávarp í umræðum um sjálfbæra þróun þar sem lögð var áhersla á landgræðslu, málefni hafsins, jafnréttismál og valdeflingu kvenna. Alls var tekið undir sex ESB ræður í annari nefnd.

Þriðja nefnd: Félags- og mannréttindamál.
    Nefndin samþykkti alls 70 ályktanir á sviði félags-, mannréttinda- og mannúðarmála. Þorvarður Atli Þórsson sendiráðsritari tók sæti í stjórn nefndarinnar fyrir hönd ríkjahóps Vesturlanda og annara ríkja, en það var í fyrsta skipti sem Ísland átti fulltrúa í stjórn einnar af sex nefndum allsherjarþingsins.
    Ísland beitti sér sem fyrr í samstarfi við Norðurlöndin og önnur líkt þenkjandi ríki. Erfiðara var hins vegar um vik að ná samkomulagi um einstaka ályktanir en oft áður, þar á meðal um hefðbundnar ályktanir um réttindi barnsins og skýrslu mannréttindaráðsins.
    Ný ályktun var lögð fram af Noregi um vernd til handa þeim sem standa vörð um réttindi kvenna. Hart var tekist á um orðalag hennar, en samstaða náðist þó að lokum. Var því m.a. fagnað af frjálsum félagasamtökum að aðildarríkin hefðu þannig skuldbundið sig til að taka markviss skref til að vernda þá sem berjast fyrir réttindum kvenna.
    Þriðja nefndin afgreiddi einnig ályktanir um mannréttindaástandið í Íran, Sýrlandi, Norður-Kóreu og Mýanmar, þar sem Ísland var meðflutningsaðili. Líkt og fyrri ár var hart deilt um stöðu mannréttinda í þessum löndum, en sú jákvæða þróun átti sér stað annað árið í röð að ályktanir um ástandið í Mýanmar og Norður-Kóreu voru samþykktar án atkvæðagreiðslu. Einnig tókst að tryggja að áfram yrði vísað til frjósemisréttinda kvenna í ályktun um konur í dreifbýli, sem styrkir enn frekar viðurkenningu þessara réttinda.
    Ísland flutti þrjár ræður í þriðju nefnd, um jafnréttismál, um réttindi barna og um réttinn til sjálfsákvörðunar og baráttuna gegn kynþáttamisrétti. Einnig fluttu Norðmenn fyrir hönd Norðurlandanna ræðu um málefni frumbyggja. Alls var tekið undir fjórar ESB-ræður í þriðju nefnd og fluttar tvær sam­eigin­legar atkvæðaskýringar með Noregi, Sviss og Liechtenstein.

Fjórða nefnd: Sérstaka stjórnmála- og nýlendunefndin.
    Fastafulltrúi hélt eina ræðu í fjórðu nefnd um aðstoð fyrir palestínska flóttamenn. Af níu ályktunum sem samþykktar voru og vörðuðu Palestínu, greiddi Ísland sem fyrr atkvæði með átta ályktunum en sat hjá við atkvæðagreiðslu um ályktun um vinnu rannsóknarnefndar um aðgerðir Ísraelsmanna sem hafa áhrif á mannréttindi Palestínumanna. Atkvæði falla yfirleitt á svipaðan hátt frá ári til árs. Fjórða nefndin ræddi einnig málefni nýlendna og sjálfstjórnarsvæða eins og venja er (t.d. málefni Vestur-Sahara og Gíbraltar), sem og hefðbundnar ályktanir um friðsamlegt samstarf í geimnum og upplýsingastarf Sameinuðu þjóðanna. Alls var tekið undir fimm ESB-ræður í fjórðu nefnd.

Fimmta nefnd: Fjárhags- og stjórnsýslumál.
    Samkomulag um fjárlög Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2014–2015 náðist ekki fyrir en 27. desember en það hefur ekki gerst áður að ekki hafi tekist að ná samkomulagi fyrir aðfangadagskvöld. Fjárlögin voru ákveðin samtals 5.530.349.800 Bandaríkjadalir fyrir tímabilið. Upphæðin er 126,35 milljónum hærri en fjárlögin sem aðalframkvæmdastjóri lagði til fyrr um haustið, en 34,72 milljónum lægri en lokafjárlög síðasta tímabils.
    Hart var tekist á í umræðum í nefndinni um endurskoðun fjárlaga með tilliti til verðbólgu og sveiflur í verði gjaldmiðla. Þróuðu ríkin sögðu það óábyrgt að hækka fjárlögin þegar flest ríki heims væru að hagræða í eigin ríkisfjármálum, en þróunarríkin sögðu niðurskurðinn vera skaðlegan verkefnum stofnunarinnar sem kæmi niður á fátækum íbúum þeirra.
    Ekki tókst að ná samkomulagi um tillögu aðalframkvæmdastjórans um að stofnuð yrði sérstök deild til að sjá um samstarf Sameinuðu þjóðanna við einkageirann og félagasamtök. Samkomulag náðist heldur ekki um nýtt mannauðsstjórnunarkerfi fyrir Sameinuðu þjóðirnar.
    Ísland tók undir átta ESB-ræður. Aðeins þurfti að greiða atkvæði um einn kafla í einni ályktun. Kaflinn varðaði vernd óbreyttra borgara í átökum og greiddu sjö ríki atkvæði gegn kafla­num en hann var samþykktur með 136 atkvæðum en átta ríki sátu hjá, Ísland greiddi atkvæði með kafla­num. Ályktunin sjálf var afgreidd án atkvæðagreiðslu.

Sjötta nefnd: Þjóðréttarmál.
    Hin árlega skýrsla alþjóðalaganefndarinnar skapaði að vanda stóran sess í nefndarstörfunum. Aðrir hefðbundnir liðir voru störf alþjóðavið­skipta­laganefndarinnar og umfang og beiting alheimslögsögu. Mestur tími þjóðréttarsérfræðinga fór í umfjöllun um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Nokkurrar ólgu gætti meðal aðildarríkja Rómarsáttmálans í tengslum við ákæru á hendur þjóðarleiðtoga Keníu. Í nefndinni voru fluttar sex norrænar ræður og tekið undir þrjár ESB-ræður.

Kosningar.
    Að venju kaus allsherjarþingið ríki til setu í efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC), mannréttindaráðið og öryggisráðið. Sádí-Arabía, sem var ein í framboði í sæti Asíu í öryggisráðinu, náði kosningu. Sádí-Arabía gagnrýndi ráðið fyrir að sinna ekki hlutverki sínu í Miðausturlöndum og tilkynnti að landið mundi ekki taka sæti í ráðinu. Þetta leiddi til þess að kjósa þurfti aftur. Var Jórdanía þá kosin en landið var eitt í framboði. Sádí-Arabía fór þá í framboð í stað Jórdaníu til mannréttindaráðsins. Fastanefnd vann að framboði Tómasar Heiðar í Alþjóðlega hafréttardóminn en dómarakjörið fer fram á fundi aðildarríkja hafréttarsamningsins í júní 2014.

Um­hverfismál og sjálfbær þróun.
Landgrunnsmál.
    Sérfræðinganefnd um kröfu Íslands um ytri mörk landgrunnsins, undir forystu þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins, átti fund um greinargerð um ytri mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna með landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna í nóvember.

Mannréttindamál.
Styrking stofnanakerfis mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna.

    Samningaviðræðum um styrkingu stofnanakerfis mannréttindasamninga Sameinuðu þjóðanna var haldið áfram á grundvelli ályktunar allsherjarþingsins nr. 68/2 frá september 2013 sem fól forseta allsherjarþingsins að framlengja samningaviðræðurnar fram til febrúar 2014. Forseti allsherjarþingsins fól fastafulltrúa Íslands og fastafulltrúa Túnis í kjölfarið að leiða samningaviðræðurnar til lykta en fastafulltrúi Íslands hafði leitt viðræðurnar frá upphafi með fastafulltrúa Indónesíu sem gaf ekki kost á sér aftur. Fundur var haldinn í desember til að kynna starfsáætlun ferlisins og einnig var skýrsla um fjárhagsstöðu kerfisins kynnt aðildarríkjunum en óskað var eftir slíkri skýrslu í ályktuninni frá því í september.

Sendinefnd Íslands og starfsfólk fastanefndarinnar.
Sendinefnd Íslands á 68. allsherjarþinginu.
    Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, formaður,
    Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi, varaformaður,
    Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri,
    Hermann Örn Ingólfsson, sviðsstjóri alþjóða- og öryggissviðs,
    Jón Erlingur Jónasson, varafastafulltrúi,
    Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur,
    María Mjöll Jónsdóttir, sendiráðsritari,
    Þorvarður Atli Þórsson, sendiráðsritari,
    Kristín Eva Sigurðardóttir, sendiráðsfulltrúi,
    Halla Tinna Arnardóttir, starfsnemi,
    Thor H. Thors, ráðgjafi,
    Fríða Kristinsdóttir, ritari og skjalavörður,
    Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir, ritari,
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður, Samfylkingu,
    Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður, Framsóknarflokki,
    Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður, Framsóknarflokki,
    Jón Gunnarsson, þingmaður, Sjálfstæðisflokki.

Starfsfólk fastanefndar í New York.
    Gréta Gunnarsdóttir, sendiherra, fastafulltrúi,
    Jón Erlingur Jónasson, sendifulltrúi, varafastafulltrúi,
    María Mjöll Jónsdóttir, sendiráðsritari,
    Þorvarður Atli Þórsson, sendiráðsritari,
    Kristín Eva Sigurðardóttir, sendiráðsfulltrúi,
    Fríða Kristinsdóttir, ritari og skjalavörður (í leyfi frá 1. október 2013),
    Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir, ritari og skjalavörður,
    Halla Tinna Arnardóttir, starfsnemi,
    Herculano Sabas, bifreiðarstjóri.

2. Undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna.
a) Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.

    Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fundar í Genf og kemur saman á þremur reglulegum fundum ár hvert. Mannréttindaráðið skipa 47 ríki sem kosin eru til setu í ráðinu til þriggja ára á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna Ísland situr ekki í ráðinu en getur hins vegar, líkt og önnur aðildarríki, setið fundi ráðsins, tekið þar til máls og stutt tillögur til ályktana ráðsins.
    Þátttaka Íslands á fundum ráðsins var með hefðbundnu sniði árið 2013. Fastanefndin í Genf sótti fundi ráðsins en einnig sat sérfræðingur alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins hluta fundanna.

b) UNESCO.
    Aðalráðstefnur UNESCO fara fram á tveggja ára fresti. Árið 2013 fór 37. aðalráðstefna UNESCO fram og fór Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra fyrir íslensku sendinefndinni. Auk hans voru skráðir í sendinefnd fastafulltrúi, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis, formaður UNESCO-landsnefndarinnar og varafastafulltrúi. Að auki sóttu sex fulltrúar úr landsnefndinni fundinn en þeir sóttu m.a. fundi menningarmálanefndar, menntamálanefndar, vísindanefndar, fjölmiðla- og upplýsinganefndar, sem og fjármálanefndar, heimsminjanefndar og Youth Forums.

c) Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

d) Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

e) Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

f) Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

g) Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

h) Alþjóðafjarskiptambandið (ITU).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

i) Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

j) UNCTAD.
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

k) Efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (ECE).
    Fastanefndin í Genf sinnir stuðningshlutverki, upplýsingamiðlun og tengslamyndun en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

l) FAO.
    Aðalráðstefnur FAO fara fram á tveggja ára fresti. Árið 2013 fór 37. aðalráðstefna FAO fram og fór fulltrúi frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu fyrir íslensku sendinefndinni. Sendinefndina skipuðu fastafulltrúi gagnvart FAO í sendinefndinni, skrifstofustjóri frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og deildarstjóri og sérfræðingur frá deild auðlinda- og um­hverfismála í utanríkisráðuneytinu. Einnig eru sóttir fundir fiskimálanefndar FAO (Committee on Fisheries, COFI) en fundir hennar eru haldnir það ár sem ekki er aðalráðstefna FAO. Fundinn sækja að jafnaði, auk fastafulltrúa, 1–2 sérfræðingar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

m) WFP.
    Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna er í Róm og kemur framkvæmdastjórn hennar saman þrisvar á ári, þar sem einn fundanna er aðalfundur. Framkvæmdastjórnina skipa 36 ríki sem kosin eru til setu til þriggja ára í senn. Ísland situr ekki í ráðinu en getur hins vegar, líkt og önnur aðildarríki Sameinuðu þjóðanna setið fundi stórnarinnar sem áheyrnaraðili. Yfirmaður friðargæslu utnaríkisráðuneytisins sótti aðalfundinn árið 2013 auk fastafulltrúa gagnvart FAO.

n) ICAO.
    Sendiráðið í London sinnir stuðningshlutverki en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

o) IMO.
    Sendiráðið í London sinnir stuðningshlutverki en meginreglan er að ársfundir eru sóttir af fagráðuneytum eða undirstofnunum.

3. Atlantshafsbandalagið.
    Í Atlantshafsbandalaginu (NATO) eru ákvarðanir teknar af fastaráði bandalagsins þar sem fastafulltrúar ríkjanna, sendiherrar, sitja. Fundirnir eru sóttir af fastafulltrúa Íslands eða staðgengli hans. Fastaráðið fundar einnig 2–3 sinnum á ári með þátttöku varnarmálaráðherra og tvisvar árlega með þátttöku utanríkisráðherra. Hermálanefnd bandalagsins er fastaráðinu til ráðgjafar og situr hermálafulltrúi Íslands þá fundi auk þess sem hann sækir fundi í Evrópuherstjórn NATO (SHAPE).
    Ákvarðanir fastaráðsins eru undirbúnar af ýmsum undirnefndum eftir því um hvaða málaflokk er að ræða, auk fjölmargra vinnuhópa, bæði á hermálasviðinu og pólitíska sviðinu. Fastanefnd Íslands sækir þær nefndir og vinnuhópa sem skipta mestu máli fyrir íslenska hagsmuni og ákvarðanatöku og forgangsraðar fundasókn með það í huga. Útilokað er að sækja nema hluta nefnda og vinnuhópa bandalagsins.
    Auk fastaráðsins eru eftirfarandi nefndir og vinnuhópar sem fulltrúar fastanefndar hafa sótt fundi reglulega í, árið 2013:
          Nefnd varafastafulltrúa.
          Sérstök ráðgjafarnefnd um vopnatakmarkanir og afvopnunarmál (Special Advisory and Consultative Arms Control, Disarmament and Non-Proliferation Committee) – sótt af varafastafulltrúa.
          Undirbúningsfundir í NATO-Rússlandsráðinu (NATO Russia Council), NATO-Georgíunefndinni (NATO Georgia Commission) og NATO-Úkraínunefndinni (NATO Ukraine Commission) – sóttir af fulltrúa fastanefndarinnar. Nefndirnar og ráðið funduðu einnig á vettvangi sendiherra.
          Nefnd um afvopnunarmál (High Level Task Force on Conventional Arms Control) – sótt af varafastafulltrúa.
          Nefnd um kjarnorkumál (Nuclear Planning Group) – sótt af varafastafulltrúa.
          Aðgerðarnefnd bandalagsins (Operation Policy Committee) sem fjallar um aðgerðir bandalagsins í Afganistan, Kósóvó o.fl – sótt af fulltrúa fastanefndarinnar.
          Pólitísku samstarfsnefnd bandalagsins (Political and Partnership Committee) sem fer fram pólítskt samráð og samstarf við ríki utan bandalagsins – sótt af fulltrúa fastanefndarinnar.
          Hermálanefnd (Military Committe) – sótt af hermálafulltrúa.
          Nefnd fulltrúa hermálayfirvalda hjá Evrópuherstjórn NATO í Mons (SHAPE NMR Committee) – sótt af hermálafulltrúa/fulltrúa í Mons.
          Í ágúst 2013 tók til starfa viðbótafulltrúi í fastanefnd sem ætlunin er að sinni einkum mannvirkja- og fjárhagsmálefnum sem varða hagsmuni Íslands í bandalaginu. Frá þeim tíma hafa verið sóttir fundir í fjárfestinganefnd og fjárhagsnefnd bandalagsins, svo og stjórnarnefnd mannvirkjamála (Investment Committee, Budget Committee, Resource Policy and Planning Board).
    Á árinu 2013 var starfsemi Atlantshafsbandalagsins venjubundin, fram fóru um 50 formlegir fundir fastaráðsins með þátttöku fastafulltrúanna, en að auki óformlegir fundir 3–4 sinnum í mánuði, ásamt fundum þess með samstarfsríkjum bandalagsins í ýmsu formi (m.a. NATO-Rússlandsráð, NATO-Georgíunefnd, NATO-Úkraínunefnd, ISAF, Miðjarðarhafssamráð, Istanbúlsamstarfið og samráðsfundir með öryggis- og varnarmálasendiherrum ESB). Hermálanefnd fundar um 100 sinnum á ári, formlega og óformlega. Fimm fundir fóru fram á ráðherrastigi. Utanríkisráðherra sótti utanríkisráðherrafund í desember en fastafulltrúi sat þrjá fundi varnarmálaráðherra fyrir hönd utanríkisráðherra og aprílfund utanríkisráðherranna.

4. Alþjóðavið­skipta­stofnunin.
    Æðsta vald í málefnum Alþjóðavið­skipta­stofnunarinnar (WTO) er í höndum ráðherrastefnu samtakanna, sem að jafnaði kemur saman annað hvert ár. Dagleg verkefni stofnunarinnar eru hins vegar í höndum þriggja nefnda sem allar eru jafnsettar og eru skipaðar fastafulltrúum allra aðildarríkja hennar. Þessar nefndir eru: aðalráð WTO, nefnd um lausn deilumála og nefnd um endurskoðun við­skipta­stefnu. Undir aðalráði WTO starfa síðan nokkrar undirnefndir, þeirra á meðal eru vöruvið­skipta­ráðið, þjónustuvið­skipta­ráðið og hugverkaráðið. Þá stýrir sérstök aðalsamninganefnd Doha-viðræðulotunni svonefndu og undir henni starfa síðan samninganefndir um einstök málefnasvið Doha-lotunnar, þar á meðal um vöruviðskipti, landbúnað og þjónustuviðskipti. Þessu til viðbótar starfa sérstakar nefndir sem annast framkvæmd einstakra samninga WTO, t.d. landbúnaðarsamnings WTO, samningsins um opinber innkaup, samningsins um hollustuhætti og heilbrigði dýra- og planta o.s.frv.
    Áttunda ráðherrastefna WTO var haldinn á Balí í desember 2013 og fór fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnunni fyrir sendinefnd Íslands. Aðalráðið hélt átta fundi árið 2013, nefndin um lausn deilumála fundaði þrettán sinnum og fimmtán fundir voru haldnir í nefndinni um endurskoðun við­skipta­stefnu. Vöruvið­skipta­ráðið fundaði fjórum sinnum árið 2013, þjónustuvið­skipta­ráðið þrisvar og sömu sögu er að segja um hugverkaráðið. Aðalsamninganefnd Doha-lotunnar fundaði tvisvar á árinu. Þá eru hér ekki taldir fundir nefnda þeirra sem starfa á grundvelli einstakra samninga WTO eða fundir í öðrum vinnuhópum og starfsnefndum stofnunarinnar. Fastanefndin sækir fundi Alþjóðavið­skipta­stofnunarinnar en sökum umfangs starfsemi stofnunarinnar er nauðsynlegt að forgangsraða þátttöku Íslands á þessum fundum og er þar einkum lögð áhersla á að sækja þá fundi þar sem fjallað er um málefni sem Ísland kann að hafa beina hagsmuni að eða varða mikilsverð stefnumál Íslands í alþjóðaviðskiptum.

5. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA).
    Æðsta stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) er ráð samtakanna (EFTA-ráðið). Ráðið fundar að jafnaði tíu sinnum á ári, þar af tvisvar sinnum á ráðherrastigi. Utanríkisráðherra sótti báða fundi ráðsins á ráðherrastigi árið 2013. Að öðru leyti situr fastafulltrúi Íslands fundi ráðsins eða staðgengill hans eftir atvikum. Undir ráðinu starfa nokkrar undirnefndir, þ.m.t. nefnd um þriðjulandasamskipti EFTA og fjárhagsnefnd samtakanna. Fastanefndin og eftir atvikum sérfræðingar frá utanríkisráðuneytinu sitja framangreinda fundi.
    Til viðbótar við fundi stofnanna EFTA eru haldnir fjölmargir samningafundir með þeim ríkjum sem EFTA á í fríverslunarviðræðum við, undirbúningsfundir með þeim ríkjum sem EFTA hefur í hyggju að hefja slíkar viðræður við eða fundir í sam­eigin­legum nefndum EFTA og samstarfsríkja þess sem stofnað hefur verið til á grundvelli fríverslunarsamninga eða samstarfsyfirlýsingar EFTA við viðkomandi ríki. Fastanefndin tekur þátt í samningafundum og öðrum fundum með samstarfsríkjum EFTA fyrir hönd Íslands en einnig kemur fyrir að slíkir fundir séu sóttir af sérfræðingum frá utanríkisráðuneytinu og jafnvel fleiri ráðuneytum (t.d. atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu).

6. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).
    Alls starfa um 250 nefndir á vettvangi OECD og tekur Ísland ekki þátt í nema litlum hluta þeirra. Á hverju ári sækja um 40.000 fulltrúar frá stjórnsýslu OECD aðildarríkja nefndarfundi. Árið 2013 tók Ísland þátt í 167 fundum í OECD af 1.862 fundum sem haldnir voru. Alls var starfsfólk í fastanefnd skráð 85 sinnum á fundi og aðrir íslenskir fulltrúar voru skráðir 164 sinnum. Á suma fundi eru fleiri en einn einstaklingur skráður. Athygli er vakin á því að árið 2013 voru þrír embættismenn að störfum við sendiráð Íslands í París, sem er m.a. fastanefnd gagnvart OECD, en fækkaði í tvo frá og með hausti 2014.
    OECD-ráðið (Council) fer með æðsta ákvörðunarvald innan stofnunarinnar. Ráðherraráðið kemur saman á vori hverju en þess á milli sitja fastafulltrúar eða aðrir fulltrúar fastanefnda fundi OECD-ráðsins. Árið 2013 sótti enginn íslenskur ráðherra OECD-ráðherraráðsfundinn þar sem fundurinn átti sér stað örfáum dögum eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Fastafulltrúi fór því fyrir íslensku sendinefndinni en að auki sóttu ráðherraráðsfundinn sérfræðingur úr fjármála- og efnahagsráðuneyti, varafastafulltrúi og sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu sem fer með málefni OECD. Sami hópur sótti einnig OECD Forum sem var haldið daginn áður en ráðherrafundurinn hófst.
    Alls voru 14 hefðbundnir ráðsfundnir haldnir árið 2013 og 10 viðbótarfundir. Þessir fundir voru sóttir af fastafulltrúa eða varafastafulltrúa. Í einu tilviki sótti ráðsfund sendiráðunautur sem jafnframt sinnti öðrum verkefnum í sendiráðinu.
    Þrjár fastanefndir starfa undir ráðinu (standing committees).
          Framkvæmdanefnd OECD (Executive committee) er skipuð varafastafulltrúum og eru þar ákvarðanir fyrir ráðið undirbúnar. Alls voru haldnir 14 fundir í framkvæmdanefnd og sótti varafastafulltrúi 12 þeirra.
          Fjármálanefnd (Budget committee) en vegna manneklu er að jafnaði er ekki kostur á að sækja fundi þeirrar nefndar sem hélt 20 fundi á árinu en varafastafulltrúi sótti einn fund.
          Nefnd sem fjallar um samstarf OECD við önnur ríki (External Relations committee). Vegna manneklu er að jafnaði sömuleiðis ekki kostur á að sækja fundi þeirrar nefndar. Árið 2013 kom nefndin 11 sinnum saman og sat sendiráðsritari einn fund.

    Utanríkisráðuneytið fer með fyrirsvar gagnvart þremur nefndum til viðbótar í OECD:
          Þróunarsamvinnunefnd OECD hélt 15 reglubundna fundi og tók Ísland þátt í 11 þeirra. Varafastafulltrúi sótti fimm þeirra, sendiráðsritari þrjá og starfsfólk frá þróunarsamvinnusviði í Reykjavík sex fundi. Til viðbótar var haldinn fundur háttsettra embættismanna sem var sóttur af sviðsstjóra þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar og varafastafulltrúa. Þá voru haldnir fjölmargir fundir í undirhópum DAC, t.d. um hagtölur, um­hverfismál, jafnréttismál og fleira og einnig upplýsingafundir um ákveðin málefni. Ísland sótti Global Forum on Development, starfsmaður þróunarsviðs sótti tvo fundi í vinnuhópi um hagtölur í þróunaraðstoð, einn fund um mat á þróunaraðstoð og einn fund um um­hverfismál í þróunaraðstoð.
          Fjárfestingarnefnd OECD fundaði fjórum sinnum á árinu og voru tveir fundir sóttir af sendifulltrúa sem fer með málefni OECD í utanríkisráðuneytinu.
          Tveir fundir voru haldnir í við­skipta­nefnd OECD og voru báðir fundirnir sóttir af umræddum sendifulltrúa.
    Þá má nefna að árið 2013 var haldin fyrirtaka á stöðu efnahagsmála á Íslandi í nefnd sem undirbýr efnahagsúttektir á aðildarríkjum OECD. Þann fund sóttu fastafulltrúi, varafastafulltrúi og sendifulltrúi sem fer með málefni OECD í utanríkisráðuneytinu, og fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem og Seðlabanka Íslands. Að auki má nefna að sendiráðsritari sótti tvo fundi á vegum efnahagsnefndar OECD.

7. Norðurskautsráðið.
    Fundahald Norðurskautsráðsins er með þeim hætti að annað hvert ár eru haldnir ráðherrafundir í því landi sem fer með formennsku í ráðinu og um leið verða formennskuskipti. Fundir í vinnuhópum og verkefnahópum fara fram í einhverju hinna átta aðildarríkja ráðsins.
    Á árinu 2013 sótti skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Kiruna í Svíþjóð. Sendinefndina skipuðu einnig sendiráðunautur og sérfræðingur í málefnum norðurslóða frá sömu skrifstofu.
     Embættismannanefnd ráðsins fundar haust og vor, en undirbúningsfundum er gjarnan bætt við í aðdraganda ráðherrafundar. Utanríkisráðuneytið skipar fulltrúa í embættismannanefndina, svonefndan „Senior Arctic Official“. Á árinu 2013 sóttu tveir fulltrúar frá alþjóða- og öryggismálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins hvorn fundinn.
    Einn fulltrúi utanríkisþjónustunnar sækir fundi eins af sex vinnuhópum Norðurskautsráðsins: Vinnuhóps um sjálfbæra þróun (SDWG). Þeir fundir eru oft haldnir samhliða fundum í embættismannanefndinni. Sendiráðunautur og sérfræðingur frá alþjóða- og öryggismálaskrifstofu sóttu þessa fundi sem voru haldnir bæði fyrri hluta árs og seinni.
    Ýmsir verkefnahópar (Task Forces) starfa einnig á vegum Norðurskautsráðsins um lengri eða skemmri tíma og eru fundir þeirra tíðari. Þessir hópar eru:
          Verkefnahópur um styrkingu Norðurskautsráðsins (Task Force on Institutional Issues) lauk sínu starfi á árinu 2013. Jónas Gunnar Allansson sendiráðunautur sat þá tvo fundi sem haldnir voru.
          Verkefnahópur um stofnun við­skipta­vettvangs á norðurslóðum (Task Force to Facilitate the Creation of a Circumpolar Business Forum) fór í gang með formennsku Kanada. Fyrsti fundur fór fram í Reykjavík og hann sátu fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins, sérfræðingur í málefnum Norðurslóða, sendiherra á við­skipta­skrifstofu utanríkisráðuneytisins, og sendiráðunautur á við­skipta­skrifstofu ráðuneytisins. Þá fundi verkefnahópsins sem haldnir voru erlendis sóttu aðeins fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins og sérfæðingur í málefnum Norðurslóða.
          Verkefnahópur um bætt vísindasamstarf á norðurslóðum (Scientific Cooperation Task Force) hóf einnig störf með nýrri formennsku. Þá fundi hefur fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins sótt.
          Fyrsti fundur verkefnahóps um minnkun útblásturs sóts og metans (Task Force on Black Carbon and Methane) var haldinn í Stokkhólmi og sendiráðunautur í sendiráði Íslands, sótti þann fund.

8. Barentsráðið.
    Embættismannafundur (Committee of Senior Officials) hittist fjórum sinnum (sem er venjan á hverju ári). Fundir voru haldnir dagana 3.–4. júní, 4.–5. september, 8.–9. október og 12.–13. desember. Fundina sótti sérfræðingur á um­hverfis- og auðlindaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Einn fundur var sóttur af fulltrúa sendiráðsins í Osló. Forsætisráðherrar hittust á 20 ára afmæli 3.–4. júní. Fundinn sóttu forsætisráðherra, aðstoðarmaður hans, ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og sérfræðingur á um­hverfis- og auðlindaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
    Utanríkisráðherrar ríkja Barentsráðsins hittust á fundi 8.–9. okóber. Fundinn sóttu utanríkisráðherra, aðstoðarmaður, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu og séfræðingur á sömu skrifstofu.

9. Norðlæga víddin.
    Norðlæga víddin er samráðsvettvangur ESB, Íslands, Noregs og Rússlands. Markmið samráðsins og stefnu Norðlægu víddarinnar er að vinna að verkefnum í norð­vestur Rússlandi einkum á sviði um­hverfisverndar, t.d. hvað varðar kjarnorkuúrgang og fjárfestingar í innviðum, fyrst og fremst í Rússlandi. Innan Norðlægu víddarinnar eru fjórir verkefnahópar (partnerships) sem hafa séráherslur og skiptast þeir í lýðheilsu og velferðarmál, flutninga- og sam­göngur, um­hverfismál og menningu. Fulltrúar utanríkisþjónustunnar sækja ekki fundi verkefnahópanna.
    Utanríkisráðherrafundir eru að jafnaði haldnir á tveggja til tveggja og hálfs árs fresti og fundir aðstoðarráðherra eru einnig haldnir annað hvert ár. Undirnefnd embættismanna fundar að meðaltali tvisvar á ári, auk undirbúningsfunda í tengslum við fundi aðstoðarráðherra og utanríkisráðherra. Einn fulltrúi Íslands sækir að jafnaði undirnefndarfundi en tveir til þrír aðstoðar- og utanríkisráðherrafund.
    Á árinu 2013 fór fram utanríkisráðherrafundur í Brussel 18. febrúar. Fulltrúar Íslands þar voru utanríkisráðherra, aðstoðarmaður, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu, staðgengill sendiherra gagnvart Evrópusambandinu og sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Brussel.
    Fundir undirnefndar voru þrír á árinu. sendiráðunautar á alþjóða- og öryggisskrifstofu sátu fundina sem haldnir voru í Brussel 1. febrúar og í Reykjavík 13. júní. Þá sótti sendiráðunautur á alþjóða- og öryggisskrifstofu slíkan fund í Ósló 18. desember.

10. NB8.
    Óformlegt samstarf NB8-landanna hófst snemma á tíunda áratugnum, en frá 2000 hefur þetta samstarf farið fram undir samnefnaranum NB8 (norrænu löndin fimm og Eystrasaltslöndin þrjú). Um er að ræða svæðisbundið samstarf milli ráðherra og embættismanna, sem er óformlegs eðlis, undir samstarfið heyrir hvorki sérstök skrifstofa né undirstofnanir. Löndin skiptast á um að leiða samstarfið og ákveða áherslur þess, til árs í senn. Árið 2013 fóru Svíar með formennsku. Eistar leiða samstarfið árið 2014 og Danir taka við keflinu árið 2015. Samráðið er ekki bundið við utanríkismál ein­göngu, heldur funda ráðherrar og embættismenn annarra hérlendra ráðuneyta einnig með kollegum frá Norður- og Eystrasaltslöndunum.
    Á fundum er snúa að utanríkismálum eru rædd þau málefni sem eru efst á baugi hverju sinni auk þeirra áherslna sem formennskulandið hefur valið að setja á oddinn, m.a. samráð um varnar- og öryggismál og samstarf sendiráða. Auk þess hitta og funda NB8 löndin með öðrum ríkjum og í tengslum við aðra alþjóðlega fundi eða alþjóðasamstarf, eftir atvikum. T.d. hafa utanríkisráðherrar NB8-ríkjanna fundað árlega með ráðherrum Visegrad-ríkjanna (V4), svonefndu, þ.e. Tékklandi, Slóvakíu, Póllandi og Ungverjalandi.
    Á sviði utanríkismála eru fjórir stærri fundir sem vert er að nefna (high-level): árlegur fundur utanríkisráðherra, árlegur fundur varnarmálaráðherra, árlegur fundur ráðuneytisstjóra og árlegur fundur yfirmanna pólitískra málefna (pólsjeffa). Ráðherra sótti fund utanríkisráðherra NB8- og V4-ríkjanna og NB8-utanríkisráðherrafund, ráðuneytisstjóri sótti fund varnarmálaráðherra í fjarveru utanríkisráðherra.
    Að auki er fjöldi funda á lægri stigum, þar sem embættismenn og/eða sérfræðingar sækja fundi um málefni er tengjast þeirra sérfræðisviði. Fer efni fundanna eftir áherslum í samstarfinu hverju sinni en sem dæmi um slíka fundi árið 2013 má nefna sérfræðingafundi um netöryggi, vopnastjórnun og upplýsingamiðlun.
    Árið 2013 sóttu eftirtaldir fundi á vettvangi NB8.
          Fundur utanríkisráðherra NB8 og V4 ríkjanna, Gdansk, 20. febrúar 2013: Utanríkisráðherra, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu og aðstoðarmaður ráðherra.
          Fundur yfirmanna utanríkispólitískra málefna NB8, 13.–14. febrúar 2013: Skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu.
          Fundur utanríkisráðherra, Visby, 2.–3. september 2013: Utanríkisráðherra, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu og aðstoðarmaður ráðherra.
          Fundur ráðuneytisstjóra, Stokkhólmi, 21.–22. október 2013: Ráðuneytisstjóri.
          Fundur varnarmálaráðherra, Helsinki, 4. desember 2013: Ráðuneytisstjóri, sótti fund f.h. ráðherra auk sérfræðings á alþjóða- og öryggisskrifstofu.

     2.      Er til yfirlit eða aðgengilegar upplýsingar um það hvernig fulltrúar Íslands á fyrrgreindum samkomum hafa greitt atkvæði?

1. Sameinuðu þjóðirnar.

    Um 300 ályktanir eru samþykktar á hverju ári á vettvangi allsherjarþingsins og nefnda þess. Stór hluti af þessum ályktunum er samþykktur samhljóða en stundum er farið fram á atkvæðagreiðslu. Í slíkum tilfellum greiðir fulltrúi Íslands atkvæði að höfðu samráði og samkvæmt fyrirmælum frá utanríkisráðuneytinu.
    Í listunum hér á eftir gefur að líta niðurstöður úr atkvæðagreiðslum á seinni hluta 67. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar til 17. september 2013 og á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
    Þeim mikla fjölda ályktana allsherjarþingsins og nefnda þess sem afgreiddur er án atkvæðagreiðslu er gerð skil í viðaukum I-VII.

a. Ályktanir allsherjarþingsins.

    Þar sem atkvæðagreiðsla fór fram er eftirfarandi uppsetning notuð til að skýra afstöðu ríkja:

00-00-00 Broskarl Fúll karl Hlutlaus

    Fyrsta talan segir til um hversu mörg ríki greiddu atkvæði með ályktuninni, talan í miðjunni segir til um hversu mörg ríki greiddu atkvæði gegn og þriðja talan hversu mörg ríki sátu hjá. Broskarlinn endurspeglar afstöðu Íslands. Tekið er fram hvernig líkt þenkjandi ríki hafa greitt atkvæði þar sem það á við.

Nr. Ályktun Atkvæði
67/268 Staða vegalauss fólks innan eigin lands og flóttamanna frá Abkasíu, Georgíu og Tskhinvali-héraði/Suður-Ossetíu, Georgíu (Status of internally displaced persons and refugees from Abkhazia, Georgia, and the Tskhinvali region/South Ossetia, Georgia) 62-16-84 Broskarl
ESB (26), Noregur, BNA Broskarl
Kýpur Hlutlaus
67/262 Ástand mála í Sýrlenska arabalýðveldinu (The situation in the Syrian Arab Republic) 107-12-59 Broskarl
ESB (27), BNA, Noregur Broskarl
68/70 Höfin og hafréttur (Oceans and the law of the sea) Ísl. meðfl.
115-1-2 Broskarl
ESB (22), BNA, Noregur Broskarl
68/17 Hinar sýrlensku Gólan-hæðir (The Syrian Golan) 112-6-58 Hlutlaus
ESB (27), Noregur Hlutlaus
ESB (1) Broskarl
BNA Fúll karl
68/16 Jerúsalem (Jerusalem) 162-6-8 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/15 Friðsamleg lausn Palestínumálsins (Peaceful settlement of the question of Palestine) 165-6-6 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/14 Sérstök upplýsingaáætlun um málefni Palestínu hjá upplýsingadeild skrifstofu Sameinuðu þjóðanna (Special information programme on the question of Palestine of the Department of Public Information of the Secretariat) 163-7-7 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/13 Sérdeild um réttindi Palestínumanna innan skrifstofu Sameinuðu þjóðanna (Division for Palestinian Rights of the Secretariat) 108-7-59 Hlutlaus
ESB (26), Noregur Hlutlaus
ESB (2) Broskarl
BNA Fúll karl
68/12 Nefnd um framkvæmd óafsalanlegra réttinda palestínsku þjóðarinnar (Committee on the Exercise of the Inalienable Rights of the Palestinian People) 110-7-56 Broskarl
ESB (2) Broskarl
ESB (26), Noregur Hlutlaus
BNA Fúll karl
68/8 Nauðsyn þess að binda endi á efnahags-, viðskipta- og fjármagnsþvinganir Bandaríkja Norður-Ameríku gegn Kúbu (Necessity of ending the economic, commercial and financial embargo imposed by the United States of America against Cuba) Ekki meðfl.
188-2-3
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl

b. Ályktanir 1. nefndar.
Nr. Ályktun Atkvæði
68/68 Samningur um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty) Ísl. meðfl.181-1-3 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 6
178-1-4 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/65 Hættan á úbreiðslu kjarnavopna í Mið-Austurlöndum (The risk of nuclear proliferation in the Middle East) 169-5-6 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
Inngangsgrein 5: 173-2-2 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 6:173-2-2 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/58 Samningur um bann við notkun kjarnavopna (Convention on the Prohibition of the Use of Nuclear Weapons) 126-49-9 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/56 Takmörkun hefðbundinna vopna innan svæða og undirsvæða (Conventional arms control at the regional and subregional levels) 182-1-2 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 2
145-2-35 Hlutlaus
ESB (22), Noregur Hlutlaus
ESB (6) Austurríki/Belgía/Ítalía/
Lúxemborg/
Slóvenía/Rúmenía,
BNA Broskarl
68/51 Sameiginlegt átak til að útrýma kjarnavopnum (United action towards the total elimination of nuclear weapons) Ísl. meðfl.
169-1-14 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 2
176-3-3 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 8
178-1-3 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 9
173-3-7 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 17
174-1-7 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/47 Takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar (Nuclear disarmament) 122-44-17 Fúll karl
ESB (24), Noregur, BNA Fúll karl
ESB (4) Austurríki/Írland/Malta/
Svíþjóð Hlutlaus
Grein 16
176-2-4 Broskarl
ESB (27), Noregur Broskarl
ESB (1) Frakkland/,
BNA Hlutlaus
68/46 Áfram­hald fjölþjóðlegra samningaviðræðna um að takmarka kjarnorkuvígbúnað (Taking forward multilateral nuclear disarmament negotiations)

Ísl. meðfl.
158-4-20 Broskarl
ESB (16), Noregur Broskarl
ESB (2) Frakkland/Bretland, BNA Fúll karl
ESB (9) Tékkland/Grikkland/
Ungverjaland/Ítalía/Lettland/ Litháen/Pólland/
Rúmenía/Spánn Hlutlaus

68/44 Innlend löggjöf um milliríkjaflutninga vopna, hergagna, og vara og tækni með tvíþætt notagildi (National legislation on transfer of arms, military equipment and dual-use goods and technology) 177-0-4 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 7
162-0-17 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 8
162-0-14 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 1
162-0-13 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/43 Gagnsæi hervæðingar (Transparency in armaments) Ísl. meðfl.
154-0-28 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 6
142-0-36 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Inngangsgrein 7
143-0-36 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 3
150-0-30 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 4
156-0-25 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 5
153-0-26 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 6a
155-0-27 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 6b
155-0-26 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 6
153-0-28 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 8
158-0-24 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/42

Eftirfylgni ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins um lögmæti þess að hóta að beita eða beita kjarnavopnum (Follow-up to the advisory opinion of the International Court of Justice on the legality of the threat or use of nuclear weapons)

133-24-25 Hlutlaus
ESB (4) Kýpur/Króatía/Finnland/ Rúmenía, Noregur Hlutlaus
ESB (3) Írland/Malta/
Svíþjóð Broskarl
ESB (20), BNA Fúll karl

68/40 Aðgerðir til að draga úr hættu af kjarnorku (Reducing nuclear danger) 125-50-10 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/39 Áætlun um kjarnavopnalausan heim: hröðun framkvæmdar skuldbindinga þess efnis að takmarka kjarnorkuvígbúnað (Towards a nuclear-weapon-free world: accelerating the implementation of nuclear disarmament commitments) 171-7-5 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (2) Bretland/Frakkland, BNA Fúll karl
Grein 9
168-5-3 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (2) Bretland/Frakkland Hlutlaus BNA Fúll karl
Grein 11
172-4-4 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (2) Bretland/Frakkland Hlutlaus BNA Fúll karl
68/38 Efling fjölþjóðlegs samstarfs á sviði afvopnunar og heftingar útbreiðslu gereyðingarvopna (Promotion of multilateralism in the area of disarmament and non-proliferation) 127-5-52 Hlutlaus
ESB (27), Noregur Hlutlaus
ESB (1) Bretland, BNA Fúll karl
68/35 Eftirfylgni skuldbindinga þess efnis að takmarka kjarnorkuvígbúnað sem var samþykkt á endurskoðunarráðstefnum aðildarríkja samningsins um að dreifa ekki kjarnavopnum (NPT) árin 1995, 2000 og 2010 (Follow-up to nuclear disarmament obligations agreed to at the 1995, 2000 and 2010 Review Conferences of the Parties to the Treaty on the Non-Proliferation of Nuclear Weapons) 120-53-9 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
Inngangsgrein 6
124-5-50 Hlutlaus
ESB (28), Noregur Hlutlaus
BNA Fúll karl
Inngangsgrein 9
125-5-47 Hlutlaus
ESB (26), Noregur Hlutlaus
ESB (2) Bretland/Frakkland, BNA Fúll karl
68/32 Eftirfylgni fundar allsherjarþingsins 2013 um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar (Follow-up to the 2013 high-level meeting of the General Assembly on nuclear disarmament) 137-28-20 Fúll karl
ESB (3) Broskarl
ESB (7), Noregur Hlutlaus
ESB (18), BNA Fúll karl
68/31 Vopnasölusamningurinn (The Arms Trade Treaty) 152-0-29 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 1
153-0-28 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
Grein 3
153-0-29 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/30 Framkvæmd jarðsprengjusamningsins (APLC) (Implementation of the Convention on the Prohibition of the Use, Stockpiling, Production and Transfer of Anti-personnel Mines and on Their Destruction) 165-0-19 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Hlutlaus
68/29 Aðgerðir gegn vopnakapphlaupi í útgeiminum (Prevention of an arms race in outer space) 180-0-2 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Hlutlaus
68/28 Niðurstöður alþjóðlegra aðgerða til að draga úr ógn sem kjarnavopnalausum ríkjum stafar af beitingu kjarnavopna (Conclusion of effective international arrangements to assure non-nuclear-weapon States against the use or threat of use of nuclear weapons) 127-0-57 Hlutlaus
ESB (28), Noregur, BNA Hlutlaus
68/24 Framkvæmd yfirlýsingar um að lýsa Indlandshaf friðarsvæði (Implementation of the Declaration of the Indian Ocean as a Zone of Peace) 130-4-45 Hlutlaus
ESB (26), Noregur Hlutlaus
ESB (2) Bretland/Frakkland, BNA Fúll karl

c. Ályktanir 2. nefndar.
Nr. Ályktun Atkvæði
68/235 Varanlegt fullveldi palestínsku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum á hernumdum palestínskum svæðum, þ.m.t. Austur-Jerúsalem, og Araba búsettum í hernumdum Gólan-hæðum Sýrlands (Permanent sovereignty of the Palestinian people in the Occupied Palestinian Territory, including East Jerusalem, and of the Arab population in the occupied Syrian Golan over their natural resources) 168-6-9 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/209 Landbúnaðartækni í þróunarsamvinnu (Agricultural technology for development) Ísl. meðfl.
144-1-34 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/206 Olíumengun við strendur Líbanon (Oil slick on Lebanese shores) 169-6-4 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/200 Einhliða efnahagsaðgerðir sem aðferð til að beita þróunarríki pólitískum og efnahagslegum þrýstingi (Unilateral economic measures as a means of political and economic coercion against developing countries) 127-2-50 Hlutlaus
ESB (27), Noregur Hlutlaus
BNA Fúll karl

d. Ályktanir 3. nefndar.
Nr.

Ályktun

Atkvæði

68/241 Miðstöð Sameinuðu þjóðanna sem annast þjálfun í mannréttindamálum og upplýsingmiðlun í Suð-vestur Asíu og í Arabalöndum (The United Nations human rights training and documentation centre for South-West Asia and the Arab region) 132-1-1 1 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/184 Staða mannréttinda í Íslamska lýðveldinu Íran (Situation of human rights in the Islamic Republic of Iran) Ísl. meðfl.
86-36-61 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/182 Staða mannréttinda í Sýrlenska arabalýðveldinu (Situation of human rights in the Syrian Arab Republic) Ísl. meðfl.
127-13-47 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
68/175 Efling lýðræðis og réttlætis innan alþjóðasamfélaginu (Promotion of a democratic and equitable international order) 132-52-6 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/168 Hnattvæðing og áhrif hennar á allsherjar framfylgd mannréttinda (Globalization and its impact on the full enjoyment of all human rights) 136-55-0 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/162 Mannréttindi og einhliða þvingunaraðgerðir (Human rights and unilateral coercive measures) 135-55-0 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/161 Efling sanngjarnrar landfræðilegrar dreifingar viðvíkjandi aðild að stofnunum sem fjalla um mannréttindasáttmála (Promotion of equitable geographical distribution in the membership of the human rights treaty bodies) 135-54-1 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/159 Mannréttindi og fjölmenning (Human rights and cultural diversity) 136-54-0 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/158 Réttur til þróunarsamvinnu (Right to Development) 158-4-28 Hlutlaus
ESB (11) Austurríki, Kýpur, Frakkland, Grikkland, Írland, Ítalía Lúxemborg, Malta, Portúgal, Slóvenía, Spánn Broskarl
ESB (16) Belgía, Búlgaría, Króatía Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Þýskaland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Holland, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Svíþjóð og Noregur Hlutlaus
ESB (1) Bretland, BNA Fúll karl
68/154 Sjálfsákvörðunarréttur Palestínumanna (The right of the Palestinian people to self-determination) Ísl. meðfl.
178-7-4 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/152 Málaliðar, mannréttindabrot og skorður við sjálfsákvörðunarrétti (Use of mercenaries as a means of violating human rights and impeding the exercise of the right of peoples to self-determination) 128-55-8 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl
68/151 Hnattrænar aðgerðir til að uppræta kynþáttahyggju, mismunun á grundvelli kynþátta, kynþáttahatur og tengd mál (Global efforts for the total elimination of racism, racial discrimination, xenophobia and related intolerance) 134-11-46 Hlutlaus
ESB (24), Noregur Hlutlaus
ESB (4) Tékkland, Frakkland, Þýskaland, Bretland, BNA Fúll karl
68/150 Aðgerðir til að stemma stigu við upphafningu nasisma og annarrar hegðunar sem ýtir undir kynþáttahyggju, mismunun á grundvelli kynþátta, kynþáttahatur samtímans og tengd mál (Combating glorification of Nazism and other practices that contribute to fuelling contemporary forms of racism, racial discrimination, xenophobia and related intolerance) 135-4-51 Hlutlaus
ESB (28), Noregur Hlutlaus
BNA Fúll karl
68/144 Skýrsla mannréttindaráðsins (Report of the Human Rights Council) Breytingartillaga
80 - 83 - 18 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl
94 - 71 - 23 Fúll karl
ESB (28), Noregur, BNA Fúll karl


e. Ályktanir 4. nefndar.

Nr. Ályktun Atkvæði
68/97 Framkvæmd yfirlýsingar um að veita nýlendum og íbúum þeirra sjálfstæði (Implementation of the Declaration on the Granting of Independence to Colonial Countries and Peoples) 178-3-1 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (1) Frakkland Hlutlaus
ESB (1) Bretland, BNA Fúll karl
68/96 Upplýsingamiðlun um endalok nýlendutímans (Dissemination of information on decolonization) 178-3-1 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (1) Frakkland Hlutlaus
ESB (1) Bretland, BNA Fúll karl
68/89 Framkvæmd yfirlýsingar um að veita nýlendum og þjóðum þeirra sjálfstæði af hálfu undirstofnana alþjóðasamtaka sem tengjast Sameinuðu þjóðunum (Implementation of the Declaration on the Granting of Independence to Colonial Countries and Peoples by the specialized agencies and the international institutions associated with the United Nations) 128-0-55 Hlutlaus
ESB (28), Noregur, BNA Hlutlaus
68/88 Starfsemi á sviði efnahagsmála og önnur starfsemi sem hafa áhrif á hagsmuni þjóða á landssvæðum sem hafa ekki sjálfsstjórn (Economic and other activities which affect the interests of the peoples of the Non-Self-Governing Territories) 180-2-2 Broskarl
ESB (26), Noregur Broskarl
ESB (2) Frakkland/Bretland Hlutlaus
BNA Fúll karl
68/87 Upplýsingagjöf frá landsvæðum sem hafa ekki sjálfsstjórn samkvæmt e-lið 73. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna (Information from Non-Self-Governing Territories transmitted under Article 73 e of the Charter of the United Nations) 179-0-4 J
ESB (2) Frakkland/ Bretland, BNA Hlutlaus
68/84 Hernumdar Gólan-hæðir Sýrlands (The occupied Syrian Golan) 169-1-12 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Hlutlaus
68/83 Aðgerðir Ísraela sem hafa áhrif á mannréttindi Palestínumanna á hernumdu landsvæðunum Palestínu, þ.m.t. Austur-Jerúsalem (Israeli practices affecting the human rights of the Palestinian people in the Occupied Palestinian Territory, including East Jerusalem) 165-8-8 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/82 Landnemabyggðir Ísraela á hernumdu svæðunum, þ.m.t. í Austur- Jerúsalem og í hernumdum Gólan-hæðum Sýrlands (Israeli settlements in the Occupied Palestinian Territory, including East Jerusalem, and the occupied Syrian Golan) 167-6-9 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/81 Gildissvið Genfarsáttmálans að því er varðar vernd almennra borgara á stríðstímum, frá 12. ágúst 1949, með tilliti til hins hernumda landsvæðis Palestínu, þ.m.t. Austur-Jerúsalem, og annarra hernumdra landsvæða Araba (Applicability of the Geneva Convention relative to the Protection of Civilian Persons in Time of War, of 12 August 1949, to the Occupied Palestinian Territory, including East Jerusalem, and the other occupied Arab territories) 169-6-7 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/80 Störf sérnefndar um rannsókn á aðgerðum Ísraelsmanna sem hafa áhrif á mannréttindi Palestínumanna og annarra Araba á hernumdu svæðunum (Work of the Special Committee to Investigate Israeli Practices Affecting the Human Rights of the Palestinian People and Other Arabs of the Occupied Territories) 95-8-75 Hlutlaus
ESB (28), Noregur Hlutlaus
BNA Fúll karl
68/79 Eigur og tekjur palestínskra flóttamanna (Palestine refugees' properties and their revenues) Ísl. meðfl.
172-6-5 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/78 Starfsemi UNRWA (Operations of the United Nations Relief and Works Agency for Palestine Refugees in the Near East) 170-6-6 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/77 Vegalaust fólk í kjölfar hernaðarátakanna í júní 1967 og síðari hernaðarátaka (Persons displaced as a result of the June 1967 and subsequent hostilities) 170-6-6 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Fúll karl
68/76 Aðstoð við palestínska flóttamenn (Assistance to Palestine refugees) Ísl. meðfl.
173-1-8 Broskarl
ESB (28), Noregur Broskarl
BNA Hlutlaus


Ályktanir 5. nefndar.
Nr. Ályktun Atkvæði
67/279 Fjármögnun tímabundinnar eftirlits­sveitar Sameinuðu þjóðanna í Líbanon (Financing of the United Nations Interim Force in Lebanon) 26 - 3 - 0 Broskarl
ESB (27), Noregur Broskarl BNA Fúll karl
Greinar: PP 4, OP 4, 5 & 13: 80 - 3 - 46 Hlutlaus
ESB (25), Noregur Hlutlaus , BNA Fúll karl
68/247 Sérliðir tengdir fjárhagsáætlun aðgerða fyrir tímabilið 2014–2015 (Special subjects relating to the proposed programme budget for the biennium 2014-2015) Án atkvgr.
Hluti VI
136-7-8 Broskarl
ESB (28), Noregur, BNA Broskarl


2.     Undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna.
a)     Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.

    Eins og vikið var að hér að framan greiðir Ísland sem áheyrnarfulltrúi að ráðinu ekki atkvæði við afgreiðslu mála innan ráðsins.

b)     UNESCO.
    Kosningar eru leynilegar í UNESCO. Upplýsingum um hvernig Ísland greiddi atkvæði á vettvangi UNESCO hefur ekki verið safnað í eitt yfirlit eða þær varðveittar þannig að þær séu aðgengilegar á einum stað. Upplýsingar um þetta eru varðveittar á hverju máli um sig og er hægt að fletta upp þar eftir því sem tilefni er til.

c) Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO).
    
Velferðarráðherra gerir grein atkvæðagreiðslum í reglulegri skýrslugjöf til Alþingis (sjá síðustu skýrslu www.althingi.is/altext/141/s/pdf/1091.pdf).

d) Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

e) Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

f) Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

g) Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

h) Alþjóðafjarskiptambandið (ITU).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

i) Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

j) UNCTAD.
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

k) Efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (ECE).
    Ákvarðanir kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna og eru því ekki greidd atkvæði um mál.

l) FAO.
    Sterk hefð er fyrir því að aðildarríki FAO taki ákvarðanir samhljóða og forðist atkvæðagreiðslur. Helstu undantekningar frá þessu eru á aðalráðstefnu FAO þegar fleiri en eitt ríki eru í framboði til setu í FAO-ráðinu.

m) WFP.
    Hjá framkvæmdastjórn WFP eru ákvarðanir teknar samhljóða.

n) ICAO.
    Utanríkisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvernig fulltrúar Íslands hafa greitt atkvæði.

o) IMO.
    Utanríkisráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvernig fulltrúar Íslands hafa greitt atkvæði.

3.     Atlantshafsbandalagið.
    Fastaráð Atlantshafsbandalagsins tekur æðstu ákvarðanir innan NATO, ýmist í ráðherraformi eða sendiherraformi. Um ákvarðanatöku gildir samstöðuregla og ekki fer fram atkvæðagreiðsla, allar ákvarðanir eru teknar einróma. Það sama á við um hermálanefnd bandalagsins og undirnefndir, þegar ákvarðanir eru teknar um afgreiðslu úr nefndum.

4.     Alþjóðavið­skipta­stofnunin (WTO).
    Alþjóðavið­skipta­stofnunin starfar samkvæmt þeirri reglu að allar ákvarðanir stofnana þess kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna. Sama regla gildir um samningaviðræður tengdar Doha-lotunni. Eru því ekki greidd atkvæði um mál sem eru til umfjöllunar innan WTO.

5.     Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA).
    Fríverslunarsamtök Evrópu starfa samkvæmt þeirri reglu að allar ákvarðanir ráðsins og undirnefnda þess kalla á samhljóða samþykki allra aðildarríkjanna. Eru því ekki greidd atkvæði um mál sem eru til umfjöllunar innan EFTA. Sama regla gildir í sam­eigin­legum nefndum EFTA og samstarfsríkja þess, sem vísað var til hér að framan.

6.     Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD).
    Ákvarðanir í OECD eru teknar með samstöðureglu þannig að engar atkvæðagreiðslur áttu sér stað árið 2013.

7.     Norðurskautsráðið.
    Ákvarðanir í Norðurskautsráðinu eru teknar með samhljóða samþykki (consensus) og kemur því ekki til atkvæðagreiðslna á þessum vettvangi.

8.     Barentsráðið.
    Engar formlegur atkvæðagreiðslur fara að jafnaði fram í ráðinu, þar sem mál eru almennt afgreidd með samkomulagi.

9.     Norðlæga víddin.
    Þar sem Norðlæga víddin er ekki stofnun eru ákvarðanir teknar sam­eigin­lega og ekki kemur til atkvæðagreiðslu. Á ráðherrafundum eru lagðar línur fyrir fram­haldið og undirnefnd vinnur í samræmi við ráðherrayfirlýsingar. Framlög eru með þeim hætti að þau eru tengd verkefnum sem unnin eru innan verkefnahópanna innan Norðlægu víddarinnar.

10.     NB8.
    NB8 er svæðisbundið samstarf milli ráðherra og embættismanna sem er óformlegs eðlis. Undir samstarfið heyrir hvorki sérstök skrifstofa né undirstofnanir og ekki er gengið til atkvæða um einstök mál enda er fyrst og fremst um samráðs- og samræðuvettvang landanna átta að ræða.

     3.      Hvaða almennu sjónarmið ráða helst í ákvarðanatöku íslenskra fulltrúa í atkvæðagreiðslum á alþjóðlegum vettvangi fyrir hönd ríkisins?
    Fulltrúar Íslands greiða atkvæði samkvæmt fyrirmælum utanríkisráðuneytisins, á grundvelli stefnumiða ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og með tilliti til hagsmuna Íslands og áherslna Íslands á alþjóðavettvangi.
    Í aðdraganda kosninga og að gefnu tilefni hefur utanríkisráðuneytið samráð við önnur ráðuneyti og stofnanir og enn fremur er tekið mið af afstöðu líkt þenkjandi ríkja, einkum annarra Norðurlanda, þegar það á við.
    Það er grundvallaratriði í utanríkisstefnu Íslands að mannréttindi og alþjóðalög séu virt og deilumál leyst með friðsamlegum hætti samkvæmt leikreglum alþjoðakerfisins. Þar af leiðandi þarf einnig að taka tillit til alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að við ákvarðanatöku um atkvæðagreiðslur.


Viðauki I.

     Ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á seinni hluta 67. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar til 17. september 2013 og á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr. Ályktun Atkvæði
67/303 Cooperation between the United Nations and the Pacific Islands Forum Án atkv.gr.
67/302 Cooperation between the United Nations and the African Union Án atkv.gr.
67/300 Modalities for the sixth high-level dialogue on Financing for Development Án atkv.gr.
67/299 Consolidating gains and accelerating efforts to control and eliminate malaria in developing countries, particularly in Africa, by 2015 Án atkv.gr.
67/298 Developing cooperation for better connectivity and telecommunications transit routes in the Trans-Eurasian region Án atkv.gr.
67/297 Revitalization of the work of the General Assembly Án atkvgr.
67/296 International Day of Sport for Development and Peace Án atkvgr.
67/295 Report of the International Criminal Court Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
67/294 New Partnership for Africa's Development: progress in implementation and international support Án atkvgr.
67/293 Implementation of the recommendations contained in the Report of the Secretary-General on the causes of conflict and the promotion of durable peace and sustainable development in Africa Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
67/292 Multilingualism Án atkvgr.
67/291 Sanitation for all Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
67/290 Format and organizational aspects of the high-level political forum on sustainable development Án atkvgr.
67/289 The United Nations in global economic governance Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
67/267 International Commission against Impunity in Guatemala Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
67/266 Zone of peace and cooperation of the South Atlantic Án atkvgr.
67/265 Self-determination of French Polynesia Án atkvgr.
67/264 Cooperation between the United Nations and the Organization of Islamic Cooperation Án atkvgr.
67/263 Reliable and stable transit of energy and its role in ensuring sustainable development and international cooperation Án atkvgr.
67/260 Modalities, format and organization of the high-level meeting of the General Assembly on the appraisal of the United Nations Global Plan of Action to Combat Trafficking in Persons Án atkvgr.
67/259 Political Declaration on the peaceful resolution of conflicts in Africa Án atkvgr.
67/252 Cooperation between the United Nations and the Community of Portuguese-speaking Countries Án atkvgr.
67/251 Change of the designation of the Governing Council of the United Nations Environment Programme Án atkvgr.
67/250 Organization of the special session of the General Assembly on the follow-up to the Programme of Action of the International Conference on Population and Development beyond 2014 Án atkvgr.
67/249 Cooperation between the United Nations and the Caribbean Community Án atkvgr.
68/261 Fundamental Principles of Official Statistics Án atkvgr.
68/237 Proclamation of the International Decade for People of African Descent Án atkvgr.
68/129 Assistance to survivors of the 1994 genocide in Rwanda, particularly orphans, widows and victims of sexual violence Án atkvgr.
68/128 The role of diamonds in fuelling conflict: breaking the link between the illicit transaction of rough diamonds and armed conflict as a contribution to prevention and settlement of conflicts Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/127 A world against violence and violent extremism Án atkvgr.
68/126 Promotion of interreligious and intercultural dialogue, understanding and cooperation for peace Án atkvgr.
68/125 Follow-up to the Declaration and Programme of Action on a Culture of Peace Án atkvgr.
68/103 International cooperation on humanitarian assistance in the field of natural disasters, from relief to development Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/102 Strengthening of the coordination of emergency humanitarian assistance of the United Nations Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/101 Safety and security of humanitarian personnel and protection of United Nations personnel Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/100 Assistance to the Palestinian people Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/99 Strengthening of international cooperation and coordination of efforts to study, mitigate and minimize the consequences of the Chernobyl disaster Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/98 Global health and foreign policy Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/71 Sustainable fisheries, including through the 1995 Agreement for the Implementation of the Provisions of the United Nations Convention on the Law of the Sea of 10 December 1982 relating to the Conservation and Management of Straddling Fish Stocks and Highly Migratory Fish Stocks, and related instruments Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/22 Report of the Credentials Committee (Samþykkt í Credentials Committee) Án atkvgr.
68/18 Graduation of countries from the least developed country category Án atkvgr.
68/11 The Situation in Afghanistan Ísl. meðfl.
Án atkv.gr
68/10 Report of the International Atomic Energy Agency Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/9 Sport for peace and development: building a peaceful and better world through sport and the Olympic ideal Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/7 Permanent memorial to and remembrance of the victims of slavery and the transatlantic slave trade Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/6 Outcome document of the Special Event to follow-up on efforts made towards achieving the Millennium Development Goals Án atkvgr.
68/4 Declaration of the High Level Dialogue on International Migration and Development Án atkvgr.
68/3 Outcome Document of the High Level Meeting on the Realization of the Millennium Development Goals and other internationally agreed development goals for persons with disabilities: "The Way Forward, a disability inclusive development agenda towards 2015 and beyond" Án atkvgr.
68/2 Extension of the intergovernmental process of the General Assembly on strengthening and enhancing the effective functioning of the human rights treaty body system Án atkvgr.
68/1 Review of the implementation of General Assembly resolution 61/16 on the strengthening of the Economic and Social Council Án atkvgr.


Viðauki II.

     Ályktanir 1. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr. Ályktun Atkvæði
68/69 Convention on the Prohibition of the Development, Production and Stockpiling of Bacteriological (Biological) and Toxin Weapons and on Their Destruction Án atkvgr.
68/67 Strengthening of security and cooperation in the Mediterranean region Án atkvgr.
68/66 Convention on Prohibitions or Restrictions on the Use of Certain Conventional Weapons Which May Be Deemed to Be Excessively Injurious or to Have Indiscriminate Effects Án atkvgr.
68/64 Report of the Conference on Disarmament Án atkvgr.
68/63 Report of the Disarmament Commission Án atkvgr.
68/62 Regional confidence-building measures: activities of the United Nations Standing Advisory Committee on Security Questions in Central Africa Án atkvgr.
68/61 United Nations Regional Centre for Peace and Disarmament in Africa Án atkvgr.
68/60 United Nations Regional Centre for Peace, Disarmament and Development in Latin America and the Caribbean Án atkvgr.
68/59 United Nations Regional Centre for Peace and Disarmament in Asia and the Pacific Án atkvgr.
68/57 United Nations regional centres for peace and disarmament Án atkvgr.
68/55 Confidence-building measures in the regional and subregional context Án atkvgr.
68/54 Regional disarmament Án atkvgr.
68/53 Prohibition of the dumping of radioactive wastes Án atkvgr.
68/52 Problems arising from the accumulation of conventional ammunition stockpiles in surplus Án atkvgr.
68/50 Transparency and confidence-building measures in outer space activities Án atkvgr.
68/49 Treaty on the South-East Asia Nuclear-Weapon-Free Zone (Bangkok Treaty) Án atkvgr.
68/48 The illicit trade in small arms and light weapons in all its aspects Án atkvgr.
68/45 Implementation of the Convention on the Prohibition of the Development, Production, Stockpiling and Use of Chemical Weapons and on Their Destruction Án atkvgr.
68/41 Measures to prevent terrorists from acquiring weapons of mass destruction Án atkvgr.
68/37 Relationship between disarmament and development Án atkvgr.
68/36 Observance of environmental norms in the drafting and implementation of agreements on disarmament and arms control Án atkvgr.
68/34 Assistance to States for curbing the illicit traffic in small arms and light weapons and collecting them Án atkvgr.
68/33 Women, disarmament, non-proliferation and arms control Án atkvgr.
68/27 Establishment of a nuclear-weapon-free zone in the region of the Middle East Án atkvgr.
68/26 Consolidation of the regime established by the Treaty for the Prohibition of Nuclear Weapons in Latin America and the Caribbean (Treaty of Tlatelolco) Án atkvgr.
68/25 African Nuclear-Weapon-Free Zone Treaty Án atkvgr.
68/23 Objective information on military matters, including transparency of military expenditures Án atkvgr.


Viðauki III.


     Ályktanir 2. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr. Ályktun Atkvæði
68/239 Implementation of the outcome of the United Nations Conference on Human Settlements (Habitat II) and strengthening of the United Nations Human Settlements Programme (UN-Habitat) Án atkvgr.
68/238 Follow-up to and implementation of the Mauritius Strategy for the Further Implementation of the Programme of Action for the Sustainable Development of Small Island Developing States Án atkvgr.
68/236 Amendments to the Charter of the United Nations University Án atkvgr.
68/234 Towards global partnerships: a principle-based approach to enhanced cooperation between the United Nations and all relevant partners Án atkvgr.
68/233 Agriculture development, food security and nutrition Án atkvgr.
68/232 World Soil Day and International Year of Soils Án atkvgr.
68/231 International Year of Pulses, 2016 Án atkvgr.
68/230 South-South cooperation Án atkvgr.
68/229 Operational activities for development of the United Nations system Án atkvgr.
68/228 Human resources development Án atkvgr.
68/227 Women in development Án atkvgr.
68/226 Second United Nations Decade for the Eradication of Poverty (2008-2017) Án atkvgr.
68/225 Specific actions related to the particular needs and problems of landlocked developing countries: outcome of the International Ministerial Conference of Landlocked and Transit Developing Countries and Donor Countries and International Financial and Development Institutions on Transit Transport Cooperation Án atkvgr.
68/224 Follow-up to the Fourth United Nations Conference on the Least Developed Countries Án atkvgr.
68/223 Culture and sustainable development Án atkvgr.
68/222 Development cooperation with middle-income countries Án atkvgr.
68/221 International Year of Light and Light-based Technologies, 2015 Án atkvgr.
68/220 Science, technology and innovation for development Án atkvgr.
68/219 Role of the United Nations in promoting development in the context of globalization and interdependence Án atkvgr.
68/218 The role of the international community in averting the radiation threat in Central Asia Án atkvgr.
68/217 Sustainable mountain development Án atkvgr.
68/216 Harmony with Nature Án atkvgr.
68/215 Report of the Governing Council of the United Nations Environment Programme on its first universal session and the implementation of section IV.C, entitled "Environmental pillar in the context of sustainable development”, of the outcome document of the United Nations Conference on Sustainable Development Án atkvgr.
68/214 Implementation of the Convention on Biological Diversity and its contribution to sustainable development Án atkvgr.
68/213 Implementation of the United Nations Convention to Combat Desertification in Those Countries Experiencing Serious Drought and/or Desertification, Particularly in Africa Án atkvgr.
68/212 Protection of global climate for present and future generations of humankind Án atkvgr.
68/211 International Strategy for Disaster Reduction Án atkvgr.
68/210 Implementation of Agenda 21, the Programme for the Further Implementation of Agenda 21 and the outcomes of the World Summit on Sustainable Development and of the United Nations Conference on Sustainable Development Án atkvgr.
68/208 Cooperative measures to assess and increase awareness of environmental effects related to waste originating from chemical munitions dumped at sea Án atkvgr.
68/207 Sustainable tourism and sustainable development in Central America Án atkvgr.
68/205 World Wildlife Day Án atkvgr.
68/204 Follow-up to the International Conference on Financing for Development Án atkvgr.
68/203 Commodities Án atkvgr.
68/202 External debt sustainability and development Án atkvgr.
68/201 International financial system and development Án atkvgr.
68/199 International trade and development Án atkvgr.
68/198 Information and communications technologies for development Án atkvgr.


Viðauki IV.

     Ályktanir 3. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr.

Ályktun

Atkvæði

68/242 Situation of human rights in Myanmar Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/240 Human rights committee Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/197 International cooperation against the world drug problem Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/196 United Nations Guiding Principles on Alternative Development Án atkvgr.
68/195 Preventing and combating corrupt practices and the transfer of proceeds of corruption, and facilitating asset recovery, and returning of such assets to legitimate owners, in particular to countries of origin, in accordance with the United Nations Convention against Corruption Án atkvgr.
68/194 UN African Institute for the Prevention of Crime and the treatment of offenders Án atkvgr.
68/193 Strengthening the UN Crime Prevention and Criminal Justice Programme, in particular its technical cooperation capacity Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/192 Improving the coordination efforts against trafficking in persons Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/191 Taking action against gender-related killing of women and girls Án atkvgr.
68/190 Standard Minimum Rules for the Treatment of Prisoners Án atkvgr.
68/189 Model strategies and practical measures on the elimination of violence against children in the field of crime prevention and criminal justice Án atkvgr.
68/188 The rule of law, crime prevention and criminal justice in the United Nations development agenda beyond 2015 Án atkvgr.
68/187 Technical assistance for implementing the international conventions and protocols related to counter-terrorism Án atkvgr.
68/186 Strengthening crime prevention and criminal justice responses to protect cultural property, especially with regard to its trafficking Án atkvgr.
68/185 Follow-up to the Twelfth United Nations Congress on Crime Prevention and Criminal Justice and preparations for the Thirteenth United Nations Congress on Crime Prevention and Criminal justice Án atkvgr.
68/183 Situation of human rights in the Democratic People´s Republic of Korea Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/181 Promotion of the Declaration on the Right and Responsibility of Individuals, Groups and Organs of Society to Promote and Protect Universally Recognized Human Rights and Fundamental Freedoms: protecting women human rights defenders Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/180 Protection of and assistance to internally displaced persons Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/179 Protection of migrants Án atkvgr.
68/178 Protection of human rights and fundamental freedoms while countering terrorism Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/177 The right to food Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/176 Strengthening UN action in the field of human rights through the promotion of international cooperation and the importance of non-selectivity, impartiality and objectivity Án atkvgr.
68/174 Subregional Centre for Human Rights and Democracy in Central Africa Án atkvgr.
68/173 Follow-up to the International Year of Human Rights Learning Án atkvgr.
68/172 Effective promotion of the Declaration on the Rights of persons Belonging to National or Ethnic, Religious and Linguistic Minorities Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/171 National institutions for the promotion and protection of human rights Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/170 Freedom of religion or belief Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/169 Combating intolerance, negative stereotyping and stigmatization, discrimination, incitement to violence and violence against persons, based on religion or belief Án atkvgr.
68/167 The right to privacy in the digital age

Ísl. meðfl.
Án atkvgr.

68/166
International Convention for the Protection of All Persons from Enforced Disappearance Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/165 Right to the Truth Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/164 Strengthening the role of the UN in enhancing periodic and genuine elections and the promotion of democratization Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/163 Safety of journalists and the issue of impunity Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/160 Enhancement of international cooperation in the field of human rights Án atkvgr.
68/157 The human right to safe drinking water and sanitation Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/156 Torture and other cruel, inhuman or degrading treatment or punishment Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/155 International Covenants on Human Rights Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/153 Universal realization of the right of peoples to self-determination Án atkvgr.
68/149 Rights of indigenous peoples Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/148 Child, Early, and Forced Marriage Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/147 The Rights of the Child Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/146 The Girl Child Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/145 Strengthening collaboration on child protection within the United Nations system Án atkvgr.
68/143 Assistance to Refugees, Returnees and Displaced persons in Africa Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/142 Enlargement of the Executive Committee of the Programme of the United Nations High Commissioner for Refugees Án atkvgr.
68/141 Office of the United Nations High Commissioner for Refugees Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/140 Follow-up to the Fourth World Conference on Women and full implementation of the Beijing Declaration and Platform for Action and the outcome of the twnet-third special session of the General Assembly Án atkvgr.
68/139 Improvement of the situation of women in rural areas Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/138 Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination against Women Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/137 Violence against women migrant workers Án atkvgr.
68/136 Preparations for and observance of the twentieth anniversary of the International Year of the Family Án atkvgr.
68/135 Implementation of the outcome of The World Summit for Social Development and of the twenty-fourth special session of the General Assembly Án atkvgr.
68/134 Follow-up to the Second World Assembly on Ageing Án atkvgr.
68/133 Cooperatives in social development Án atkvgr.
68/132 Literacy for life: Shaping future agendas Ísl. meðfl.
Án atkvgr.
68/131 Promoting social integration through social inclusion Án atkvgr.
68/130 Policies and programmes involving youth Án atkvgr.


Viðauki V.

     Ályktanir 4. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á seinni hluta 67. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar til 17. september 2013 og á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.

Nr. Ályktun Atkvæði
67/301 Comprehensive review of the whole question of peacekeeping operations in all their aspects: report of the Special Political and Decolonization Committee

Án atkvgr.

68/95 Questions of American Samoa, Anguilla, Bermuda, the British Virgin Islands, the Cayman Islands, Guam, Montserrat, Pitcairn, Saint Helena, the Turks and Caicos Islands and the United States Virgin Islands Án atkvgr.
68/94 Question of Tokelau Án atkvgr.
68/93 Question of French Polynesia Án atkvgr.
68/92 Question of New Caledonia Án atkvgr.
68/91 Question of Western Sahara Án atkvgr.
68/90 Offers by Member States of study and training facilities for inhabitants of Non-Self-Governing Territories Án atkvgr.
68/86 B Questions relating to information - United Nations public information policies and activities Án atkvgr.
68/86 A Questions relating to information - Information in the service of humanity Án atkvgr.
68/85 Comprehensive review of special political missions Án atkvgr.
68/75 International cooperation in the peaceful uses of outer space Án atkvgr.
68/74 Recommendations on national legislation relevant to the peaceful exploration and use of outer space Án atkvgr.
68/73 Effects of atomic radiation Án atkvgr.
68/72 Assistance in mine action Án atkvgr.


Viðauki VI.

     Á lyktanir 5. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á seinni hluta 67. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 1. janúar til 17. september 2013 og á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr. Ályktun Atkvæði
67/288 Financing of the United Nations Logistics Base at Brindisi (Italy) Án atkvgr.
67/287 Support account for peacekeeping operations Án atkvgr.
67/286 Financing of the United Nations Multidimensional Integrated Stabilization Mission in Mali Án atkvgr.
67/285 Financing of the activities arising from Security Council resolution 1863 (2009) Án atkvgr.
67/284 Financing of the African Union-United Nations Hybrid Operation in Darfur Án atkvgr.
67/283 Financing of the United Nations Mission for the Referendum in Western Sahara Án atkvgr.
67/282 Financing of the United Nations Supervision Mission in the Syrian Arab Republic Án atkvgr.
67/281 Financing of the United Nations Mission in the Sudan Án atkvgr.
67/280 Financing of the United Nations Mission in South Sudan Án atkvgr.
67/278 Financing of the United Nations Disengagement Observer Force Án atkvgr.
67/277 Financing of the United Nations Mission in Liberia Án atkvgr.
67/276 Financing of the United Nations Interim Administration Mission in Kosovo Án atkvgr.
67/275 Financing of the United Nations Stabilization Mission in Haiti Án atkvgr.
67/274 Financing of the United Nations Observer Mission in Georgia Án atkvgr.
67/273 Financing of the United Nations Organization Stabilization Mission in the Democratic Republic of the Congo Án atkvgr.
67/272 Financing of the United Nations Peacekeeping Force in Cyprus Án atkvgr.
67/271 Financing of the United Nations Operation in Côte d'Ivoire Án atkvgr.
67/270 Financing of the United Nations Interim Security Force for Abyei Án atkvgr.
67/269 Estimates in respect of special political missions, good offices and other political initiatives authorized by the General Assembly and/or the Security Council Án atkvgr.
67/261 Report of the Senior Advisory Group established pursuant to General Assembly resolution 65/289 to consider rates of reimbursement to troop-contributing countries and other related issues Án atkvgr.
67/258 Report of the Office of Internal Oversight Services on its activities Án atkvgr.
67/257 United Nations common system: report of the International Civil Service Commission Án atkvgr.
67/256 Joint Inspection Unit Án atkvgr.
67/255 Human resources management Án atkvgr.
67/254 B Special subjects relating to the programme budget for the biennium 2012-2013 Án atkvgr.
67/254 A Special subjects relating to the programme budget for the biennium 2012-2013 Án atkvgr.
67/253 Progress towards an accountability system in the United Nations Secretariat Án atkvgr.
68/260 Financing of the United Nations Disengagement Observer Force Án atkvgr.
68/259 Financing of the United Nations Multidimensional Integrated Stabilization Mission in Mali Án atkvgr.
68/258 Financing of the United Nations Interim Security Force for Abyei Án atkvgr.
68/257 Financing of the International Residual Mechanism for Criminal Tribunals Án atkvgr.
68/256 Financing of the International Tribunal for the Prosecution of Persons Responsible for Serious Violations of International Humanitarian Law Committed in the Territory of the Former Yugoslavia since 1991 Án atkvgr.
68/255 Financing of the International Criminal Tribunal for the Prosecution of Persons Responsible for Genocide and Other Serious Violations of International Humanitarian Law Committed in the Territory of Rwanda and Rwandan Citizens Responsible for Genocide and Other Such Violations Committed in the Territory of Neighbouring States between 1 January and 31 December 1994 Án atkvgr.
68/254 Administration of justice at the United Nations Án atkvgr.
68/253 United Nations common system Án atkvgr.
68/252 Human resources management Án atkvgr.
68/251 Pattern of conferences Án atkvgr.
68/250 Working Capital Fund for the biennium 2014-2015 Án atkvgr.
68/249 Unforeseen extraordinary expenses for the biennium 2014-2015 Án atkvgr.
68/248 Programme budget for the biennium 2014-2015 Án atkvgr.
68/246 Questions relating to the proposed programme budget for the biennium 2014-2015 Án atkvgr.
68/245 Programme budget for the biennium 2012-2013 Án atkvgr.
68/244 Managing after-service health insurance liabilities Án atkvgr.
68/21 Review of the efficiency of the administrative and financial functioning of the United Nations Án atkvgr.
68/20 Programme planning Án atkvgr.
68/19 Financial reports and audited financial statements, and reports of the Board of Auditors Án atkvgr.
68/5 Scale of assessments for the apportionment of the expenses of the United Nations: report of the Fifth Committee Án atkvgr.


Viðauki VII.

    Á lyktanir 6. nefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem voru samþykktar án atkvæðagreiðslu á fyrri hluta 68. allsherjarþingsins frá 17. september til 31. desember 2013.
Nr. Ályktun Atkvæði
68/124 Observer status for the Global Green Growth Institute in the General Assembly Án atkvgr.
68/123 Observer status for the Pan African Intergovernmental Agency for Water and Sanitation for Africa in the General Assembly Án atkvgr.
68/122 Observer status for the International Anti-Corruption Academy in the General Assembly Án atkvgr.
68/121 Observer status for the International Institute for the Unification of Private Law in the General Assembly Án atkvgr.
68/120 Report of the Committee on Relations with the Host Country Án atkvgr.
68/119 Measures to eliminate international terrorism Án atkvgr.
68/118 The law of transboundary aquifers Án atkvgr.
68/117 The scope and application of the principle of universal jurisdiction Án atkvgr.
68/116 The rule of law at the national and international levels Án atkvgr.
68/115 Report of the Special Committee on the Charter of the United Nations and on the Strengthening of the Role of the Organization Án atkvgr.
68/114 Consideration of prevention of transboundary harm from hazardous activities and allocation of loss in case of such harm Án atkvgr.
68/113 Diplomatic protection Án atkvgr.
68/112 Report of the International Law Commission on the work of its sixty-fifth session Án atkvgr.
68/111 Reservations to treaties Án atkvgr.
68/110 United Nations Programme of Assistance in the Teaching, Study, Dissemination and Wider Appreciation of International Law Án atkvgr.
68/109 United Nations Commission on International Trade Law Rules on Transparency in Treaty-based Investor-State Arbitration and Arbitration Rules (as revised in 2010, with new article 1, paragraph 4, as adopted in 2013) Án atkvgr.
68/108 United Nations Commission on International Trade Law Guide on the Implementation of a Security Rights Registry Án atkvgr.
68/107 Revision of the Guide to Enactment of the Model Law on Cross-Border Insolvency and part four of the Legislative Guide on Insolvency Law of the United Nations Commission on International Trade Law Án atkvgr.
68/106 Report of the United Nations Commission on International Trade Law on the work of its forty-sixth session Án atkvgr.
68/105 Criminal accountability of United Nations officials and experts on mission Án atkvgr.
68/104 Responsibility of States for internationally wrongful acts Án atkvgr.
Neðanmálsgrein: 1
1     Þýskaland, Belgía og Portúgal voru ekki við afgreiðslu í allsherjarþinginu en greiddu atkvæði með ályktuninni í 3. nefnd.