Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 886  —  371. mál.




Viðbótarsvar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur
um niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána.


    Á þessu stigi málsins er einungis hægt að svara 4., 5., 6., 7. og 8. tölul. með fullnægjandi hætti. Öðrum liðum fyrirspurnarinnar verður svarað í skýrslu sem ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi.

     4.      Hve mikið hafa verðtryggð lán hækkað frá árinu 2007?
    Vísitala neysluverðs til verðtryggingar stóð í 279,9 stigum í desember 2007. Í janúar 2015 stóð hún í 421 stigi. Hún hefur því hækkað um 50,4% á þessu sjö ára tímabili. Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur því hækkað sem þessu nemur á umræddu tímabili.
    Verðtryggð lán heimila námu 1.204 milljörðum kr. í nóvember 2014 og höfðu hækkað um 403 milljarða kr. frá árslokum 2007. Verðtryggðar skuldir hafa lækkað með afborgunum, uppgreiðslum og lækkunum skulda frá árslokum 2007 en þá voru þær 1.199 milljarðar kr. Verðtryggðar skuldir heimila hafa því lækkað mikið að raunvirði á tímabilinu. Hér er um að ræða heildar verðtryggðar skuldir heimila aðrar en námslán.

     5.      Hve mikið hefði 20% skuldaniðurfærsla lækkað verðtryggð fasteignaveðlán heimilanna?
    Gert er ráð fyrir að spurt sé um lán heimila eins og þau stóðu í nóvember 2014 óháð þeim skilyrðum og forsendum sem ákveðin voru við höfuðstólslækkun skulda heimila sem nú er til framkvæmda.
    Ef ákveðið hefði verið að lækka skuldir heimila um 20% óháð lántökutíma eða öðrum þáttum þá hefðu skuldir heimila lækkað um 240 milljarða kr. eða úr 1.204 milljörðum kr. í 964 milljarða kr. ef miðað er við heildarupphæð verðtryggðra skulda heimila í nóvember 2014. Hér er gert ráð fyrir að ný lán lækki til jafns við eldri lán.

     6.      Hve mikið hefði 250 milljarða kr. skuldaniðurfærsla lækkað verðtryggð fasteignalán heimilanna?
    Gert er ráð fyrir að spurt sé um lán heimila eins og þau stóðu í nóvember 2014 óháð þeim skilyrðum og forsendum sem ákveðin voru við höfuðstólslækkun skulda heimila sem nú er til framkvæmda.
    Ef ákveðið hefði verið að lækka verðtryggðar skuldir heimila um 250 milljarða kr. óháð lántökutíma eða öðrum þáttum þá hefðu þær lækkað úr 1.204 milljörðum kr. í 954 milljarða kr. eða um rúm 20%. Hér er gert ráð fyrir að ný lán lækki til jafns við eldri lán.

     7.      Hver væri upphæð leiðréttingar ef hún miðaðist við að verðtryggð húsnæðislán væru færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010?
    Áætlað er að kostnaður við að færa niður lán sem nemur verðbólgu umfram 4,8% á tímabilinu 2008–2009 sé um 89 milljarðar kr. Spurningin nær einnig til áranna 2007 og 2010 en mánaðarverðbólga var undir verðbólguviðmiði á tímabilinu og því koma þau ár ekki til álita við útreikninginn, sjá nánar greinargerð með lögum nr. 35/2014. Hér er ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar en hann er mjög háður þeirri fjármagnsskipan sem viðhöfð hefði verið.

     8.      Hver væri upphæð leiðréttingar ef hún miðaðist við að verðtryggð húsnæðislán væru færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 2,5% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010?
    Eftir því sem næst verður komist hefði lækkun verðbólguviðmiðs úr 4,8%, sbr. 7. tölul. fyrirspurnarinnar, í 2,5% á árunum 2008 og 2009, kostað um 27,6 milljarða kr. aukalega eða samtals um 116,6 milljarða kr. án fjármagnskostnaðar. Hér er ekki tekið tillit til þess að þegar viðmiðunarprósentan lækkar fjölgar þeim umsækjendum sem rétt ættu á niðurfærslu. Því gæti verið um nokkurt vanmat á kostnaði að ræða.
    Því miður er ekki unnt að reikna né áætla kostnaðinn fyrir árin 2007 og 2010 þar sem gagnaskilakerfi það sem sett var upp vegna höfuðstólslækkunar húsnæðislána nær ekki til þeirra tímabila. Að uppfæra kerfið til að veita svar við þessum tölulið fyrirspurnarinnar að fullu útheimtir slíkan kostnað og tíma fyrir ríkissjóð og þær 88 fjármálastofnanir sem hlut eiga að máli að slíkt þykir ekki forsvaranlegt.