Ferill 514. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 891  —  514. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 ,
með síðari breytingum (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga).

(Lagt fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi 2014–2015.)




1. gr.

    Á eftir d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Heimilt er veiðifélagi að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi.

2.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, í samvinnu við Landssamband veiðifélaga. Með því eru lagðar til þær breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum, að lögfestar verði þar reglur um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum um það efni, m.a. lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, en félögin eru skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og fá kennitölu.
    Unnin hefur verið álitsgerð um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga fyrir Landssamband veiðifélaga af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir að veiðifélög séu sjálfstæðir lögaðilar séu þau sérstaks eðlis sem leiði af því m.a. að markmið laga um lax- og silungsveiði séu að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og vernd þeirra. Í því skyni sé mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi. Veiðifélög teljist til fjárhagslegra félaga og að verkefni veiðifélags og sú starfsemi sem þar fer fram verði að vera í nánum efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk félagsins. Einnig er þar fjallað um 37. gr. laganna þar sem talin eru upp verkefni veiðifélaga og vakin athygli á ákvæði 6. mgr. 37. gr. þar sem kemur fram að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í arðskrárhlutfalli. Framangreind skipan breytir þó engu um að það er stjórn veiðifélags sem ráðstafar umræddum eignum ef því er að skipta. Þá sé og augljóst að aðild að veiðifélögum tengist einungis rétthöfum á viðkomandi svæði og því sé um að ræða félag sem tekur mið af sameiginlegum hagsmunum þeirra.
    Tilefni þessa frumvarps er einnig dómur Hæstaréttar Íslands, dags. 13. mars 2014, í máli nr. 676/2013 þar sem reyndi á reglur um heimildir veiðifélags til meðferðar og ráðstöfunar eigna þess. Þar kemur fram m.a. að Hæstiréttur telur að samþykki allra félagsmanna veiðifélags verði að liggja fyrir til að heimilt sé að ráðstafa veiðihúsi í eigu veiðifélags á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan veiðitíma eins og hann er skilgreindur í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði. Forsendur dómsins voru m.a. byggðar á forsögu ákvæðisins um skyldu til aðildar að veiðifélögum sem væri undantekning frá meginreglu 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í því felist jafnframt takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda yfir veiðirétti jarðar sinnar. Af þessu leiddi jafnframt að viðfangsefni veiðifélaga takmörkuðust á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn fæli þeim og þyrftu þau að vera í nánu samhengi við tilgang laganna. Réttarstaða veiðifélaga væri ekki skilgreind með skýrum hætti í lögum nr. 61/2006 hvað varðar meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags en þó væri ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við væri með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti væru í sérstakri sameign. Þá er einnig í dómi Hæstaréttar vísað í óskráðar reglur eignarréttarins um sérstaka sameign, en auk þess var talið að hafa mætti nokkra hliðsjón af lagaákvæðum um afmarkaða flokka sérstakrar sameignar eins og reglum laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, m.a. ákvæði 41. gr. laganna um ákvarðanatöku. Samkvæmt almennum reglum eignarréttar gilti sú meginregla um sérstaka sameign að samþykki allra sameigenda þyrfti til óvenjulegra ráðstafana og ráðstafana sem væru meiri háttar þótt venjulegar gætu talist. Taldi Hæstiréttur að ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti- og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma væri meiri háttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gilti þá einu hvort hún teldist venjuleg eða óvenjuleg. Til slíkrar ákvörðunar þyrfti því samþykki allra félagsmanna í veiðifélagi.
    Eins og ráða má af framangreindri álitsgerð og dómnum skortir lagareglur um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga sem brýnt er að bæta úr.
    Um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga eru engin ákvæði í gildandi lögum. Því þótti rétt að bæta við lögin nýju, almennu ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga. Einnig var talið rétt að bæta við lögin sérstöku ákvæði um heimild veiðifélags til að ráðstafa eign þess utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi. Með því er ætlunin að tryggja að veiðifélög geti nýtt eignir til arðberandi starfsemi utan veiðitíma en þó þannig að þær séu nýttar til skyldrar starfsemi eins og gerist um veiðitíma. Ákvæðið hefur þá þýðingu að löglega boðaður fundur í veiðifélagi geti tekið slíka ákvörðun með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, í stað þess að afla þurfi samþykkis allra veiðiréttarhafa félagsins eins og nú háttar til. Frumvarpið byggist á þeim rökum m.a. að veiðifélög eru sjálfstæðir lögaðilar og eru fjárhagslegs eðlis og fara á grundvelli skylduaðildar veiðiréttarhafa að félaginu með ráðstöfun fjárhagslegra eigna þess. Því ber stjórnum veiðifélaga að leitast við að hámarka þann arð sem veiðiréttarhafar geti fengið af arðberandi eign sinni í veiðifélaginu líkt og á við um ráðstöfun veiðiréttar á félagssvæðinu.
    Með vísan til framanritaðs er lagt til að bætt verði við 1. mgr. 37. gr. laganna nýjum staflið.

III. Meginefni frumvarps.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 37. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, sem fjallar um starfsemi veiðifélaga á þann veg að bætt verði við nýjum staflið, sem verði e-liður greinarinnar, þess efnis að hlutverk veiðifélags sé m.a. að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Einnig kemur þar fram tiltekið ákvæði þess efnis að veiðifélagi sé heimilt að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi.
    Við gerð frumvarps þessa er það haft til hliðsjónar að heimildir veiðifélaga til öflunar eigna takmarkast við framkvæmdir sem eru í nánum efnislegum tengslum við lögboðið hlutverk veiðifélaga sem miðar að því að nýta og auka verðmæti veiði, svo sem með byggingu veiðihúsa, gerð fiskvega o.s.frv.
    Þá er einnig horft til þess að með lögum nr. 14/2014, um breytingu á lögum nr. 61/2006, er kveðið nánar á um lögskipti veiðifélags og veiðiréttarhafa er varðar ábyrgð félagsmanna í veiðifélagi á skuldbindingum þess.

IV. Samráð og mat á áhrifum.
    Við gerð frumvarpsins var haft samráð við Landssamband veiðifélaga. Í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, eru ekki reglur um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga. Þá eru ekki heldur skýrar reglur um hvernig ákvarðanatöku skuli háttað á fundi veiðifélags um þetta efni. Með frumvarpi þessu er ráðin þar bót á og verði það að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi veiðifélaga

V. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið þótti ekki gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði í 1. mgr. 37. gr. laganna þess efnis að hlutverk veiðifélaga sé m.a. að nýta eignir veiðifélaga og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Samkvæmt þessu ákvæði er mælt fyrir um að löglega boðaður fundur í veiðifélagi geti tekið ákvörðun um að ráðstafa eignum veiðifélags. Ekki eru gerðar kröfur um sérstakan meiri hluta atkvæða á fundi eða um að tiltekinn fjöldi félagsmanna sé þar mættur til að ákvörðun teljist gild. Einfaldur meiri hluti atkvæða á fundi getur því tekið ákvörðun um ráðstöfun eigna veiðifélags. Með ákvæðinu er einnig tryggt að fundur í veiðifélagi geti tekið ákvörðun um að ráðstafa eign veiðifélags utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi. Því getur veiðifélagi m.a. verið heimilt að leigja út veiðihús í eigu veiðifélags utan hefðbundins veiðitíma, svo sem til gisti- og veitingarekstrar.
    

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með síðari breytingum (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga).

    Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að hlutverk veiðfélags verði m.a. að nýta eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn. Um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga eru engin ákvæði í gildandi lögum og því þótti rétt að bæta við lögin almennu ákvæði um það.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.