Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 914  —  351. mál.




Svar


iðnaðar- og við­skipta­ráðherra við fyrirspurn frá Ásmundi Friðrikssyni um kostnað Landsvirkjunar og umfang vinnu í tengslum við mögulega lagningu sæstrengs.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er kostn­aður Landsvirkjunar vegna vinnu við könnun á mögulegri hagkvæmni þess að leggja sæstreng á milli Íslands og Bretlands frá 2009 til dagsins í dag? Svar óskast sundurliðað eftir kostnaði innan húss og kostnaði við utanaðkomandi ráðgjöf.
     2.      Hversu marga fundi hefur fyrirtækið átt með fulltrúum breskra stjórnvalda eða breskra fyrirtækja á umræddu tímabili og við hverja hefur verið rætt? Hver er ferðakostn­aður vegna þessara funda á framangreindu tímabili?
     3.      Hversu margir vinna beint að þessum málum hjá Landsvirkjun?


    Með bréfi, dags. 6. nóvember 2014, leitaði ráðuneytið umsagnar Landsvirkjunar við vinnslu svarsins þar sem að ráðuneytið hefur ekki undir höndum gögn til að svara fyrirspurninni.
    Í svari Landsvirkjunar, dags. 5. desember 2014, er vísað til þess að Landsvirkjun starfi í alþjóðlegri samkeppni um raforkusölu til mögulegra við­skipta­vina þar sem miklir við­skipta­legir hagsmunir séu í húfi. Upplýsingar um markaðssetningu fyrirtækisins til einstakra fyrirtækja, iðngreina eða markaðssvæða og fundi því tengdu séu því að jafnaði of viðkvæmar til þess að þær séu gerðar opinberar. Eitt þeirra markaðsverkefna sem Landsvirkjun vinni að er forathugun á sæstreng og fer það verkefni saman við mikið af því markaðsstarfi sem fram fer innan Landsvirkjunar sem felst m.a. í greiningu á erlendum raforkumörkuðum og alþjóðlegu markaðsum­hverfi orkufreks iðnaðar og kynningarstarfi. Greiningar- og markaðsstarf Landsvirkjunar nýtist þannig ólíkum markaðstækifærum fyrirtækisins til framtíðar, jafnframt því sem það nýtist í samskiptum við núverandi við­skipta­vini þegar samið er um stækkanir eða endursamninga. Með vísan til þess gæfi það ekki rétta mynd að greina kostnað við alla verkþætti niður á sæstreng sem einstakan framtíðarvið­skipta­vin, auk þess sem hér sé um að ræða upplýsingar við­skipta­legs eðlis sem ekki sé unnt að veita.
    Með bréfi, dags. 12. desember 2014, ítrekaði ráðuneytið fyrri beiðni til Landsvirkjunar um upplýsingar sem efni í svar við umræddri fyrirspurn, einkum varðandi þætti sem ekki fela í sér trúnaðarupplýsingar vegna við­skipta­legra hagsmuna.
    Í svari Landsvirkjunar til ráðuneytisins, dags. 29. janúar 2015, er vísað til fyrri svara og ekki óskað eftir að koma á framfæri frekari upplýsingum vegna fyrirspurnarinnar.
    Í þessu sambandi er bent á að Landsvirkjun er undanþegin ákvæðum upplýsingalaga, nr. 140/2012, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra frá 28. júní 2013.
    Þar sem ráðuneytið hefur ekki undir höndum neinar upplýsingar sem svara efnislega fyrirspurninni er ekki mögulegt, án atbeina Landsvirkjunar, að veita Alþingi frekari svör við henni.