Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 941  —  445. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Guðbjarti Hannessyni um framkvæmd tillagna
samráðshóps forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við
að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn.


     1.      Hefur verið komið á laggirnar samráðshópi barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds með þátttöku fulltrúa ríkissaksóknara undir sam­eigin­legri forustu innanríkis- og velferðarráðuneytis eins og samráðshópur forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda við að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, lagði til í skýrslu forsætisráðuneytis í apríl 2013?
    Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Ráðherrarnir eru sammála um að efna til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds undir forustu mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til telst einnig hatursfull orðræða, er hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa fólks, til að mynda vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns.
    Ráðgert er að framangreint landssamráð hefjist á næstu vikum.

     2.      Hafa lögreglu- og sveitarstjórar séð til þess að samstarfsnefndir lögreglu og sveitarstjórna, með þátttöku barnaverndarnefnda, starfi með reglubundnum hætti og fjalli sérstaklega um aðgerðir lögreglu og barnaverndaryfirvalda til þess að bregðast rétt við ef ofbeldisbrot gegn börnum koma upp, sbr. 2. tillögu samráðshópsins? Hafa þessir aðilar komið á reglulegum fundum með saksóknurum og dómstjórum einu sinni til tvisvar á ári eða oftar eins og lagt er til? Hafa komið ábendingar til innanríkis- eða velferðarráðuneytis frá þessum aðilum varðandi þessi mál?
    Í lögreglulögum er kveðið á um að í hverju lögregluumdæmi landsins verði komið á fót samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga sem sé vettvangur fyrir samstarf þessara aðila og fjalli um sam­eigin­leg málefni þeirra. Jafnframt gera lögreglulögin ráð fyrir því að lögregla og önnur stjórnvöld og stofnanir skuli hafa gagnkvæmt samstarf varðandi verkefni sem tengjast löggæslu, svo sem forvarnir. Sérstaklega er lögreglu ætlað að vinna með félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að forvörnum, eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa, og upplýsa þessa aðila um málefni sem krefjast afskipta þeirra.
    Hinn 1. janúar 2015 breyttust umdæmamörk embætta sýslumanna og lögreglu í landinu þegar umdæmum sýslumanna var fækkað úr 24 í 9 og umdæmum lögreglu úr 15 í 9. Innanríkisráðuneytið mun leggja áherslu á að lögregluembættin taki þátt í svæðissamráðinu með virkum hætti og með hliðsjón af 2. tillögu samráðshópsins en ráðuneytinu hafa ekki borist ábendingar frá fyrrgreindum aðilum á árinu 2014 um þessi mál.

     3.      Er lögð til fjárveiting í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 til áfram­haldandi starfa tveggja sérfræðinga sem starfa við rannsóknarviðtöl, greiningu og meðferð barna sem þolað hafa kynferðisofbeldi eða önnur áföll í bernsku, sbr. 4. tillögu hópsins?
    Hér er um að ræða fjölgun starfsfólks hjá Barnahúsi en sú starfsemi heyrir undir félags- og húsnæðismálaráðherra.

     4.      Hefur ráðherra skoðað og tekið ákvörðun um hvort stofna eigi starfseiningu að norrænni fyrirmynd sem sinni stuðningi og ráðgjöf við brotaþola ofbeldis, einingu sem hefði yfirsýn yfir þau úrræði sem væru til staðar fyrir brotaþola, sbr. 8. tillögu hópsins?
    Samráðshópurinn tók undir tillögu fagráðs innanríkisráðuneytisins um að kortlagðir verði möguleikar á stofnun starfseiningar að norrænni fyrirmynd sem annist stuðning og ráðgjöf við brotaþola ofbeldis og hefði yfirsýn yfir þau úrræði sem brotaþolum stæðu til boða. Í fram­haldi af samstarfi ráðuneytanna um ofbeldismál verður hugað að stofnanauppbyggingu í málaflokknum.

     5.      Hefur í samræmi við 9. tillögu samráðshópsins verið tryggð fjármögnun, fram­hald og útvíkkun vinnu við vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í samræmi við ákvæði samnings Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum? Hefur ráðherra tryggt að þessi vitundarvakning verði fest í sessi til frambúðar í þeim anda sem UNICEF og fleiri aðilar hafa lagt til, svo sem með ofbeldisvarnaráði? Hefur verið skipuð verkefnisstjórn og verkefnisstjóri?
    Vitundarvakningin er enn starfandi, skipuð verkefnisstjórn með fulltrúum innanríkis-, velferðar- og mennta- og menningarmálaráðuneytis og verkefnisstjóra sem er með aðsetur í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Unnið er að því að tryggja fram­hald starfseminnar á árinu 2015 með þriggja millj. kr. framlagi frá hverju framangreindra ráðuneyta.

     6.      Hefur verið stofnaður rannsóknarsjóður sem nýta má til mats á forvarnaverkefnum eða frekari rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis, þ.m.t. kynferðisofbeldis, vanrækslu, heimilis ofbeldis og kláms, sbr. 11. tillögu hópsins? Ef svo er, hefur fjármagn verið tryggt í slíkan sjóð?
    Ekki er unnið að þessu verkefni á vegum innanríkisráðuneytis.

     7.      Hefur ráðherra í samráði við ráðherra þeirra ráðuneyta sem mynduðu samráðshópinn gert tillögur vegna fræðslu um heimilisofbeldi, lagt á þær kostnaðarmat og gert tillögur til að tryggja þeim nægt fjármagn í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015, sbr. 12. tillögu hópsins?
    Á vegum velferðarráðuneytis er starfandi nefnd um heimilisofbeldi sem innanríkisráðuneyti á aðild að.

     8.      Hefur ráðherra gert tillögu um að í fjárlögum fyrir árið 2015 að áfram verði fjármagnaðar stöður fimm rannsóknarlögreglumanna til að mæta brýnni þörf á rannsóknum á kynferðisbrotum, sbr. 16. tillögu hópsins?
    Ekki var gert ráð fyrir áfram­haldi verkefnisins á árinu 2015.

     9.      Hefur ráðherra gert tillögu um að í fjárlögum fyrir árið 2015 að áfram verði fjármagnaður viðbótaraðstoðarsaksóknari í rannsóknarbrotadeild embættis lögreglustjóra á höfuð­borgar­svæðinu, sbr. 17. tillögu hópsins?
    Ráðuneytið gerði ekki ráð fyrir áfram­haldi á verkefninu. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins í fjárlaganefnd var gerð tillaga um 10 millj. kr. fjárheimild til að ljúka átaki til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, á ákærustigi.

     10.      Hefur ráðherra kortlagt og gert tillögur að úrbótum um menntun, þjálfun og endurmenntun lögreglumanna í því að fást við kynferðisbrot, jafnt barna sem fullorðinna, sbr. 18. tillögu hópsins?
    Í ráðuneytinu er unnið að framtíðarskipan menntamála lögreglu, þar á meðal menntun, þjálfun og endurmenntun lögreglumanna sem fást við kynferðisbrot. Nú þegar hefur starfshópur sem skipaður var af innanríkisráðherra skilað skýrslu um tillögur að framtíðarskipan lögreglumenntunar á Íslandi og þá stendur til að skipa nefnd sem mun fjalla um innihald lögreglunáms og koma með tillögur þar að lútandi.
    Ýmis vinna hefur farið fram vegna endurmenntunar lögreglumanna og annarra aðila réttarvörslukerfisins hvað varðar ofbeldi gegn börnum. Haldið var sérnámskeið á vegum Lögregluskóla ríkisins um rannsóknir kynferðisbrota með hliðsjón af 18. tillögu samráðshópsins. Námskeiðið fór fram í tveimur lotum, fyrri lotan stóð dagana 2.–5. desember 2013 og sú síðari 20.–24. janúar 2014. Undir­búningur að námskeiðinu stóð yfir í nokkurn tíma með starfi sérstaks starfshóps sem í áttu sæti ríkissaksóknari, lögreglustjórar, ákærendur, réttarsálfræðingur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og fulltrúar Lögregluskóla ríkisins.
    Þá var á vegum Vitundarvakningar um ofbeldi gegn börnum staðið fyrir námskeiðum fyrir fagstéttir um ofbeldi gegn börnum á árunum 2013 og 2014. Þau voru sótt af fulltrúum lögreglunnar. Þá stóð Vitundarvakningin, í samstarfi við Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, fyrir útgáfu leiðbeiningarrits um meðferð kynferðisbrota gegn börnum. Í tilefni af útgáfu ritsins stóðu Vitundarvakningin og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr að námskeiðum sem byggðu á innihaldi þess. Námskeiðin voru fjögur talsins og haldin í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum dagana 26. nóvember til 8. desember 2014.
    Þá kom ráðuneytið að kostun rannsóknar Hildar Fjólu Antonsdóttur um viðhorf réttarkerfisins til meðferðar kynferðisbrota og hefur ráðuneytið tillögur hennar að úrbótum í málaflokknum til skoðunar.

     11.      Hefur ráðherra séð til þess að gerðir væru samningar við tvo til þrjá sjálfstætt starfandi sálfræðinga til að sinna handleiðslu eftir fyrir fram ákveðinni forskrift við starfsfólk sem sinnir rannsóknum og saksókn á kynferðisbrotum gegn börnum, sbr. 19. tillögu hópsins? Hefur ríkislögreglustjóri fengið fjármagn til að sinna þessu verkefni?
    Ekki hafa verið gerðir samningar við tvo til þrjá sjálfstætt starfandi sálfræðinga til að sinna slíkri handleiðslu árið 2015 þar sem fjármagn hefur ekki fengist til að sinna þessu verkefni.

     12.      Hefur ráðherra tryggt fjármagn og ráðningu viðbótarsaksóknara til að fjölga þeim sem geta sinnt ákærumeðferð kynferðisbrotamála og eftirliti með framkvæmd rannsókna hjá lögreglu, sbr. 20. tillögu hópsins?
    Ráðuneytið gerði ekki ráð fyrir áfram­haldi á verkefninu. Við vinnslu fjárlagafrumvarpsins í fjárlaganefnd var gerð tillaga um 10 millj. kr. fjárheimild til að ljúka átaki til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn, á ákærustigi.

     13.      Hversu hárri fjárhæð er áætlað að ráðstafa til framangreindra verkefna á þessu ári og á því næsta samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015?
    Samkvæmt fjárlögum 2015 er gert ráð fyrir að til þessara mála verði sérstaklega varið 20 millj. kr. viðbótarfé vegna átaksins um skilvirk úrræði. Þetta er viðbót við fjárheimildir þeirra stofnana sem fara með málaflokkinn en gert er ráð fyrir að verkefnið um að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, koma lögum yfir kynferðisbrotamenn og að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota verði áfram í forgangi þrátt fyrir að sérstöku átaksverkefni ljúki.