Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 945  —  524. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um sýklalyfjaónæmi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra látið skoða stöðu sýklalyfjaónæmis hérlendis? Ef ekki, hefur hann áætlanir um að gera slíkt?

    Á sýklafræðideild Landspítala er fylgst náið með þróun sýklalyfjaónæmis og á heimasíðu deildarinnar eru birtar árlegar yfirlitstöflur um sýklalyfjanæmi valinna sýkla allt frá árinu 1998. Þar má sjá að sýklalyfjaónæmi hefur haldist nokkuð óbreytt frá árinu 2011.
    Samkvæmt 3. tölul. 5. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, er sóttvarnalæknir ábyrgur fyrir því að haldin sé skrá um notkun manna á sýklalyfjum. Sóttvarnalæknir gaf út skýrslur, um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi, í samvinnu við Matvælastofnun, Lyfjastofnun og sýklafræðideild Landspítalans fyrir árin 2012 og 2013. Í þeim eru teknar saman helstu tölur um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi. Unnið er að útgáfu skýrslu fyrir árið 2014. Þá hafa frá árinu 2005 árlega verið gefnar út skýrslur um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum.
    Aðgerðir sóttvarnalæknis miða m.a. að því að draga úr notkun og misnotkun sýklalyfja. Sóttvarnalæknir hefur óskað eftir liðsinni lækna og lyfjafræðinga við að vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að nota sýklalyf á skynsamlegan hátt og þeir beðnir að fræða sjúklinga sem koma á heilsugæslustöðvar og í apótek um málefnið. Samkvæmt skýrslu sóttvarnalæknis um ávísanir sýklalyfja á Íslandi á árinu 2013 hefur heildarnotkun sýklalyfja haldist að mestu óbreytt síðustu ár. Þó hefur notkun minnkað eilítið síðustu ár í aldurshópnum 0–4 ára og 15–19 ára.