Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 948  —  484. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um kostnað
við framkvæmd og kynningu á skuldaniðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er áætlaður kostnaður samtals við framkvæmd og kynningu á skuldaniðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána? Óskað er eftir sundurliðun á öllum kostnaði við skuldaniðurfærsluna sem ekki er veitt til framteljenda sjálfra.
     2.      Hversu stór hluti þessa kostnaðar er vegna kynningar og almannatengsla í tengslum við niðurfærsluna?


    Áætlaður kostnaður við framkvæmd og kynningu á niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána er 427,3 millj. kr. árin 2014 og 2015. Kostnaður er annars vegar vegna verkefnisstjórnar og hins vegar vegna miðlægrar framkvæmdar hjá embætti ríkisskattstjóra.
    Kostnaður vegna verkefnisstjórnar var áætlaður 115 millj. kr. á árinu 2014 og 16,7 millj. kr. á árinu 2015. Helstu viðfangsefni verkefnisstjórnarinnar voru að gera tímasettar verk- og kostnaðaráætlanir, semja lagafrumvörp, semja við lánastofnanir um endurgjald fyrir leiðréttingarhluta, fylgja eftir tæknilegri útfærslu skuldalækkunar og framkvæmd á greiðslu leiðréttingarhluta íbúðalána, hafa eftirlit með því að lánastofnanir framkvæmi endurútreikninginn með samræmdum hætti og fleira. Kostnaður er í samræmi við áætlanir.
    Embætti ríkisskattstjóra var falin miðlæg framkvæmd niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána og einnig úrræða vegna nýtingar viðbótarlífeyrissparnaðar til lækkunar húsnæðislána. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að framkvæmd beggja verkefna færi fram hjá lánastofnunum og að framkvæmdarkostnaður félli til þar. Þegar undirbúningur verkefnisins hófst var ljóst að sú tilhögun gekk ekki vegna þess að mikilvægt var að vinna úr umsóknum með samræmdum hætti. Þá var embætti ríkisskattstjóra falin miðlæg framkvæmd verkefnanna. Ekki er unnt að sundurgreina með nákvæmum hætti allan kostnað milli þessara tveggja verkefna þar sem um mikla skörun og samnýtingu er að ræða á mannafla og búnaði. Kostnaður í töflunni hér að aftan er því heildarkostnaður vegna niðurfærslu verðtryggðra fasteignaveðlána annars vegar og ráðstöfunar séreignasparnaðar til lækkunar húsnæðislána hins vegar. Heildarkostnaður vegna beggja verkefna var 279 millj. kr. á árinu 2014. Vinna við niðurfærslu húsnæðislána hófst í maí 2014 og er áætlað að henni ljúki síðla árs 2015.

    Sundurliðun á kostnaði verkefnisstjórnar á árinu 2014:

Launa- og rekstrarkostnaður 55 millj. kr.
Aðkeypt sérfræðiþjónusta 43 millj. kr.
Kynningar og almannatengsl, þ.m.t. auglýsingakostnaður 17 millj. kr.
Samtals 115 millj. kr.

    Sundurliðun á kostnaði embættis ríkisskattstjóra á árinu 2014:

Launa- og rekstrarkostnaður 178 millj. kr.
Aðkeypt sérfræðiþjónusta 76 millj. kr.
Kynningar og almannatengsl, þ.m.t. auglýsingakostnaður 25 millj. kr.
Samtals 279 millj. kr.

    Eins og sjá má í sundurliðun á kostnaði embættis ríkisskattstjóra á árinu 2014 var kostnaður vegna kynningar og almannatengsla vegna beggja verkefna alls 25 millj. kr. Þar af voru 16,7 millj. kr. vegna niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignalána.
    Áætlaður kostnaður verkefnisstjórnar og embættis ríkisskattstjóra við framkvæmd og kynningu á niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra fasteignaveðlána var samanlagt 312,3 millj. kr. á árinu 2014. Þar af var 33,7 millj. kr. varið til kynningar- og almannatengsla, en það eru 10,8% af heildarkostnaði.