Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 966  —  403. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um örnefni.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Elísabetu Pétursdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá íslenskri málnefnd, Landmælingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og örnefnanefnd.
    Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi. Nefndin afgreiddi nefndarálit með breytingartillögu á 143. löggjafarþingi (þskj. 1160).
    Markmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða sem hluta af íslenskum menningararfi. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, og aðlaga þau að nútímabúsetuháttum og skipulagsmálum í landinu. Þá er mælt fyrir um að skýra skuli og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna og ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti.
    Þeir aðilar sem skiluðu inn umsögn um málið voru allir jákvæðir um efni þess.
    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um skipun og hlutverk örnefnanefndar. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að víða um land eru dæmi um röng nöfn eða rangan rithátt á skiltum opinberra aðila, t.d. Vegagerðarinnar eða sveitarfélaga. Nefndin tekur undir ábendingar um að mikilvægt sé að örnefnanefnd geti hlutast til um þessi mál í ljósi þess að eitt meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða, sbr. 1. gr. Nefndin leggur til breytingartillögu sem lýtur að þessu atriði.
    Fjallað er um nafngiftir nýrra náttúrufyrirbæra í 7. gr. frumvarpsins. Fram kom í umsögn Landmælinga Íslands að það ákvæði sem og úrlausnir örnefnanefndar hefðu áhrif á örnefnagrunn Landmælinga Íslands en ekki væri tekið á tilkynningarskyldu úrskurðaraðila til þeirra svo að örnefnagrunnur geti verið sem réttastur á hverjum tíma. Nefndin telur rétt að skerpa á þessu og leggur til þær breytingar að ef örnefnanefnd samþykkir tillögu skuli afrit af samþykktinni sent Landmælingum Íslands og eins þegar ráðherra hefur staðfest nýtt nafn skuli sveitarstjórn eða eftir atvikum ráðherra upplýsa Landmælingar Íslands um nýja nafngift.
    11. gr. frumvarpsins snýst um breytingar á öðrum lögum. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að við breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, væri mikilvægt að gæta þess að við gerð reglugerðar um skráningu staðfanga væri haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Líta bæri til þess að sveitarfélögin gegndu veigamiklu hlutverki í öllu verklagi og því væri nauðsynlegt að tryggja samráð milli stjórnsýslustiga við allar stærri ákvarðanir og útfærslu þeirra. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingartillögu þess efnis.
    Nefndin áréttar að það er mjög mikilvægt út frá menningarlegu og sögulegu gildi að varðveita örnefni og einnig út frá lagalegum og réttarfarslegum sjónarmiðum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. mgr. 4. gr. bætist nýr stafliður sem verði c-liður, svohljóðandi: að úrskurða um nöfn á skiltum opinberra aðila.
     2.      Við 1. mgr. 5. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samþykki örnefnanefnd tillögu skal afrit af samþykktinni sent Landmælingum Íslands.
     3.      Við 2. mgr. 7. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar ráðherra hefur staðfest nýtt nafn skal sveitarstjórn eða eftir atvikum ráðherra upplýsa Landmælingar Íslands um nýja nafngift.
     4.      Við fyrri málslið 2. efnismgr. a-liðar 3. tölul. 11. gr. bætist: að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

    Fyrirvari Helga Hrafns Gunnarssonar lýtur að markmiðsákvæði laganna, sér í lagi b- og c-lið 1. gr sem fjalla um þau markmið að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju og að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð.

Alþingi, 17. febrúar 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
frsm.
Páll Valur Björnsson.
Willum Þór Þórsson. Guðbjartur Hannesson. Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.