Ferill 582. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1014  —  582. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um embætti umboðsmanns aldraðra.


Flm.: Karl Garðarsson, Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir,
Páll Jóhann Pálsson, Þórunn Egilsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fyrir árslok fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti umboðsmanns aldraðra.


Greinargerð.

    Tillaga þessi gerir ráð fyrir að komið verði á fót embætti umboðsmanns aldraðra. Hlutverk hans verði að gæta réttinda og hagsmuna aldraðra. Það geri hann m.a. með því að leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé gegn þeim, gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.
    Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Löggjöf sem varðar málaflokkinn er flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gæti réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeini þeim um rétt þeirra. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26.000 á næstu 15 árum, um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600, um 55%.
    Tillögur í þessa veru hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar fram á þingi en ekki hlotið afgreiðslu. Á 120., 121. og 122. löggjafarþingi voru lagðar fram samhljóða tillögur til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra (359., 177. og 200. mál). Í þeim var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að kanna forsendur fyrir stofnun embættis umboðsmanns aldraðra sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Á 122. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um umboðsmann aldraðra (475. mál). Þar var lagt til að komið yrði á fót embætti umboðsmanns aldraðra sem hefði það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi aldraðra. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að talsverð umræða hefði verið um að aldraða skorti talsmann sem nyti virðingar og gætti hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum, tryggði að vilji aldraðra kæmi fram áður en teknar væru ákvarðanir sem vörðuðu þá, fylgdist með því að þjóðréttarsamningar, lög og stjórnsýslureglur væru í heiðri hafðar og brygðist við ef talið væri að með athöfnum eða athafnaleysi væri brotið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum aldraðra. Á 126. löggjafarþingi var enn lögð fram tillaga til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra (117. mál). Þar var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að stofna embætti umboðsmanns aldraðra sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Loks var á 136. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um málsvara fyrir aldraða (18. mál). Í henni var lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra yrði falið að beita sér fyrir því að komið yrði á þjónustu sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Metið yrði hvort sett yrði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns aldraðra eða hvort sveitarfélög önnuðust verkefnið. Samráð yrði haft við hagsmunasamtök aldraðra við vinnuna.
    Að mati flutningsmanna er ærin ástæða til að láta loks verða af því að koma á fót embætti umboðsmanns aldraðra.