Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1021  —  589. mál.




Beiðni um skýrslu



frá utanríkisráðherra um skipulag þróunarsamvinnu.



Frá Katrínu Jakobsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Óttari Proppé, Birgittu Jónsdóttur,
Valgerði Bjarnadóttur, Guðmundi Steingrímssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni,
Svandísi Svavarsdóttur og Helga Hjörvar.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að utanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um skipulag þróunarsamvinnu Íslands. Sérstaklega verði fjallað um rök fyrir fyrirhugaðri sameiningu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins og rök fyrir því að starfsemin verði innan ráðuneytisins eftir sameininguna. Eftirfarandi atriði komi m.a. fram í skýrslunni:
1.      Reynsla og töluleg gögn sem liggja til grundvallar því mati að sameiningin auki skilvirkni og hagræðingu og upplýsingar um hvort fyrir liggur hagkvæmnisúttekt sem styður þetta mat.
2.      Fagleg rök sem liggja til grundvallar áformum um sameininguna.
3.      Hvort hlutlausir sérfræðingar hafa metið núverandi fyrirkomulag og hvort efnislegar ástæður þykja til breytinga í ljósi þess að gildandi lög um þróunarsamvinnu frá árinu 2008 byggjast á greiningu þar sem lögð var til verkaskipting milli ráðuneytis og stofnunar og pólitísk samstaða allra flokka hefur verið um það fyrirkomulag til þessa.
4.      Hvort ráðuneytið telur önnur lögmál gilda um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að almennt hefur stjórnsýslan þróast æ meira á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar er á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana. Rökstutt verði af hverju talið sé falla vel að nútímahugmyndum um gott skipulag í stjórnsýslu og þróun hennar á síðasta áratug að flytja framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið og gerð verði grein fyrir því hvaða vanda varðandi árangur eða hagkvæmni starfseminnar breytingunum er ætlað að leysa.
5.      Dæmi frá seinni árum um að fagstofnun hafi verið sameinuð ráðuneyti ef einhver eru.
6.      Upplýsingar um hvort ráðuneytið lét skoða hvort hugsanlega mætti ná betri árangri og hagræðingu í þróunarsamvinnu með því að fara þveröfuga leið, þ.e. að færa frekari verkefni frá utanríkisráðuneytinu yfir til Þróunarsamvinnustofnunar, líkt og var niðurstaða síðustu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sbr. reglugerð sem sett var árið 2005.
7.      Álit Ríkisendurskoðunar, ef þess hefur verið leitað, á því hvernig hún telur fyrirhugaða niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar og færslu á verkefnum inn í ráðuneytið samræmast meginlínum í íslenskri stjórnsýsluþróun síðasta áratug.
8.      Álit þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) á sameiningunni, ef þess hefur verið leitað.
9.      Upplýsingar um af hverju ekki er beðið niðurstöðu úttektar DAC á skipulagi og árangri þróunaraðstoðar, sem fyrirhuguð er hérlendis árið 2016, áður en lagt er til að Alþingi ákveði að leggja niður stofnunina.
10.      Hvort utanríkisráðuneytið hefur látið athuga reynslu annarra ríkja af því að hafa sjálfstæða stofnun utan um þróunarsamvinnu, eins og t.d. er gert í Svíþjóð, í stað þess að þróunarsamvinna sé á borði utanríkisráðuneytisins.
11.      Upplýsingar um hvernig stofnunin hefur staðið sig á undanförnum árum miðað við aðrar ríkisstofnanir hvað varðar þann ramma sem henni er markaður í fjárlögum og hvort Ríkisendurskoðun hefur gert einhverjar athugasemdir við ársreikninga hennar á þeim tíma.
12.      Mat á því hvernig stofnuninni hefur gengið að koma íslenskri sérþekkingu, svo sem í jarðhitamálum og sjávarútvegi, á framfæri á alþjóðavísu í gegnum starf sitt, m.a. hvort erlendar stofnanir telja sér ávinning af því að eiga samstarf við hana, t.d. á sviði jarðhitamála, og hvaða ályktanir ráðuneytið dregur af því um gæði starfsins.
13.      Rökstuddar hugmyndir um hvort gæði starfsemi á sviði þróunarmála aukist með því að leggja stofnunina niður og færa verkefnið inn í ráðuneytið sjálft.
14.      Rökstudd skoðun ráðuneytisins á því hvort stofnunin hefur sýnt frumkvæði og sinnt nýsköpun í starfi á umliðnum árum og hvort ráðuneytið telur líklegt að færsla á verkefnum hennar inn í ráðuneytið ýti undir þessa þætti.
15.      Hvernig fyrirhugað er að tryggja stöðugleika í starfseminni í kringum ríkisstjórnarskipti ef af sameiningunni verður.
16.      Hvernig fyrirhugað er að tryggja að sátt skapist meðal almennings um þróunarsamvinnu Íslands þrátt fyrir aukna nálægð við stjórnmálin ef af sameiningunni verður.
17.      Hvernig fyrirhugað er að tryggja að ákvarðanataka verði ekki seinvirkari og tortryggilegri eftir sameininguna ef af henni verður.
18.      Hvernig fyrirhugað er að tryggja að upplýsingagjöf til almennings geti áfram verið skilvirk og frjálsleg ólíkt því sem gjarnan tíðkast hjá ráðuneytum.
19.      Hvernig ætlunin er að haga eftirliti með þróunarsamvinnu Íslands ef starfsemin verður innan ráðuneytisins og mat á því hvort ráðuneytið þykir fært um að hafa eftirlit með sinni eigin starfsemi með þessum hætti eða hvort eðlilegra væri að slíkt eftirlit væri á hendi annars aðila.
20.      Hvernig ráðgert er að aðskilja stefnumótun og framkvæmd þróunarsamvinnu ef starfsemin verður innan ráðuneytisins og mat á því hvort eðlilegra væri að aðskilja stefnumótun og framkvæmd í þróunarsamvinnu eins og venjan er með flesta aðra opinbera starfsemi í íslenskri stjórnsýslu.
21.      Hvort haft hefur verið samráð við starfsmenn um fyrirhugaða niðurlagningu stofnunarinnar hvað varðar réttindi og skyldur og ef svo er, hvernig samráðið fór fram.

Greinargerð.

    Í ljósi þess að fyrirhugaðar eru umfangsmiklar breytingar á tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands sem hafa m.a. í för með sér að Þróunarsamvinnustofnun Íslands verður lögð niður, sbr. stjórnarfrumvarp þess efnis (579. mál), er óskað framangreindra upplýsinga sem ekki koma fram með nægjanlega skýrum hætti í athugasemdum við frumvarpið.