Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 1033  —  535. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um matarsóun.


     1.      Hvernig skilgreinir ráðherra matarsóun?
    Matarsóun hefur ekki verið skilgreind sérstaklega hér á landi í lögum eða reglugerðum. Almennt má segja að matvæli fari forgörðum af ýmsum ástæðum í virðiskeðjunni allt frá frumframleiðslu til fullbúinna afurða, þ.m.t. öll rýrnun framleiðslu til manneldis frá frumframleiðslu til neytenda. Sóun matvæla (e. food waste) samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vísar til þess hluta matarsóunar sem nýta hefði mátt til manneldis.

     2.      Hefur umfang matarsóunar hér á landi verið mælt eða á það lagt mat og ef svo er, hver var niðurstaðan?
    Ekki eru til áreiðanlegar tölur um umfang matarsóunar hér á landi. Sorpa bs. hefur kannað innihald tunnu fyrir blandaðan heimilisúrgang við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Síðasta könnun er frá nóvember 2014 og sýnir að flokkurinn „Lífrænn niðurbrjótanlegur eldhúsúrgangur“ er um 40% innihaldsins og flokkur er heitir „Annar lífrænt niðurbrjótanlegur úrgangur“ er um 5%. Á árinu 2014 safnaðist um 30.000 tonn af þessum tveimur úrgangsflokkum frá 84.000 heimilum með tæplega 209.000 íbúum á höfuðborgarsvæðinu, eða sem nemur um 65 kg á íbúa.

     3.      Ef umfangið hefur verið metið, hversu miklu af matarafgöngum sem hefði mátt nýta er hent:
                  a.      í mötuneytum,
                  b.      í verslunum,
                  c.      á heimilum,
                  d.      á öðrum stöðum?
    Ekki eru til áreiðanlegar tölur um umfang matarsóunar hér á landi.

     4.      Ef matarsóun hefur ekki verið metin, hvert má gera ráð fyrir að umfang hennar sé miðað við reynslu þeirra þjóða sem lengst eru komnar við að meta matarsóun? Ef unnt er, óskast svarið sundurliðað eins og greinir í 3. tölul.
    Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að þriðjungur matvælaframleiðslu, um 1,3 milljarðar tonna matvæla, fari til spillis. Frekari upplýsingar má finna í skýrslu FAO frá 2011: www.fao.org/docrep/014/mb060e/mb060e.pdf.
    Einnig má benda á norska skýrslu til upplýsinga: Østfoldforskning, Matsvinn í Noregi 2013 – Status og udtviklingstrekk 2009–2013. *
    Matarsóun í Noregi árið 2013 var alls 361.000 tonn:
    –        231.000 tonna matarsóun hjá neytendum.
    –        68.000 tonna matarsóun í verslunum.
    –        60.000 tonna matarsóun í matvælaframleiðslu.
    –        2.000 tonna matarsóun hjá heildsölum.

     5.      Hve háum fjárhæðum nemur árleg matarsóun hér á landi að mati ráðherra?
    Ekki hefur verið metið hve háum fjárhæðum árleg matarsóun nemur hér á landi.

     6.      Telur ráðherra að matarsóun sé vandamál á Íslandi og ef svo er, hvernig hyggst hann bregðast við því?
    Í ljósi reynslu annarra ríkja og rannsókna sem þar hafa farið fram verður að gera ráð fyrir að matarsóun sé ekki minna vandamál á Íslandi en annars staðar.
    Á degi umhverfisins á síðasta ári, 25. apríl, stóð umhverfis- og auðlindaráðuneytið fyrir málþingi um matarsóun undir yfirskriftinni Hættum að henda mat. Á málþinginu, sem var gríðarlega vel sótt, var fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta megi betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga megi úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem orðið hefur hjá almenningi og stjórnvöldum á þessu sviði.
    Til að fylgja málþinginu eftir skipaði ráðherra starfshóp um matarsóun 26. september 2014. Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla. Honum er ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila. Hópurinn skal jafnframt vinna tillögur um hvernig auka megi fræðslu um matarsóun, m.a. áhrif umbúða og skammtastærða. Loks skal starfshópurinn meta hvaða stjórntæki geta gagnast við að draga úr matarsóun og hvort þörf sé á breytingum á lögum og reglum sem áhrif geta haft á sóun matvæla. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með tillögum til úrbóta á degi umhverfisins 25. apríl 2015. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands, Kvenfélagasambands Íslands, Landverndar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtakanna Vakandi.
    Í formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni 2014, „Gróska – lífskraftur“, er lögð áhersla á norræna lífhagkerfið þar sem eitt markmiðanna er að draga úr sóun og hámarka nýtingu og ábata af lífrænum afurðum. Norræna ráðherranefndin styrkir „Zero Waste“, verkefni Landverndar, Kvenfélagasambands Íslands, Vakandi, Stop spild af mad- hreyfingarinnar í Danmörku og Matvett í Noregi sem hefur það markmið að vinna gegn sóun matar á öllum stigum framleiðslunnar og neyslu. Verkefnið snýst um almenna vitundarvakningu um matarsóun og hófst á stórri hátíð í Hörpu, „Saman gegn matarsóun“, 6. september 2014. Þar komu saman bændur, veitingastaðir, verslanir og neytendur ásamt frumkvöðlum og frjálsum félagasamtökum sem tengjast málefninu. Haldin voru stutt erindi, m.a. af Selinu Juul frá Danmörku og Tristram Stuart frá Bretlandi sem bæði hafa barist fyrir þessu málefni í heimalöndum sínum. Zero Waste-verkefnið stóð einnig fyrir ráðstefnu um matarsóun í nóvember sl. og meðal annarra verkþátta má nefna námskeið fyrir almenning, kokkaviðburði fyrir sjónvarp ásamt gerð heimildarmyndar og bókar.
    Þá má enn fremur geta þess að í ráðuneytinu er nú unnið að gerð stefnu um úrgangsforvarnir til tólf ára í samræmi við nýlegar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Í stefnunni er höfuðáhersla lögð á að draga úr og koma í veg fyrir sóun matvæla.

     7.      Ef umfang matarsóunar hefur ekki verið metið, hvenær áætlar ráðherra að það verði gert?

    Í ráðuneytinu er til skoðunar hvort rannsaka eigi umfang matarsóunar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verður í slíka rannsókn. Við þá skoðun hefur því m.a. verið velt upp hvort ekki eigi að leggja megináherslu á að sporna við matarsóun með beinum aðgerðum í stað þess að leggja upp í umfangsmikla rannsókn enda verður að telja að matarsóun á Íslandi sé ekki minni en í nágrannalöndum okkar.

Neðanmálsgrein: 1
*     matsvinn.no/wp-content/uploads/2013/10/OR-32-13-Matsvinn-i-Norge-2013-Status-og-utviklingstrekk-2009-2013.pdf